Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 4. apríl 2005
Er ný tónlist leiðinleg?

Jónas Sen
<sen@mbl.is>

Nærvera Guðs var yfirskrift gagnrýni sem ég skrifaði um tónleika kanadíska píanóleikarans Marc-André Hamelin á Listahátíð í Reykjavík í fyrra. Tónleikarnir voru yfirgengilegir, jafnvel yfirnáttúrulegir, einhverjir þeir mögnuðustu sem hér hafa verið haldnir, enda er Hamelin með mestu píanósnillingum heims. Geisladiskarnir með leik hans eru orðnir fjölmargir og er sérstaklega ánægjulegt hve hann hefur verið ötull við að taka upp tónlist eftir lítt þekkt tónskáld, sem sum hver eru ekkert síður merkileg en þau frægari.

Nýverið kom t.d. út diskur með Hamelin þar sem hann flytur eingöngu tónlist eftir rússneska tónskáldið Nikolai Kapustin, en hann er fæddur 1937. Það sem er óvanalegt við diskinn er að þetta er djass sem er að öllu leyti skrifaður niður. Það er engin impróvisasjón; verkin mæta kröfum um þróun tónefnis, uppbyggingu, framvindu, stígandi og annað sem gjarnan eru gerðar til „sígildrar“ tónlistar, en tónmálið er að öllu leyti komið úr djassheiminum. Þetta er auðvitað engin nýlunda; nægir að nefna tónsmíðar Gershwins því til staðfestingar, en tónlist Kapustins er miklu framsæknari – enda nýrri – á vissan hátt minnir hún á þá sem Chick Chorea hefur búið til.

Unaður er að hlýða á Hamelin; tæknilega séð er spilamennskan fullkomin; ótrúlegustu hlaup hljóma eins og þeim sé stýrt af háþróuðum vélbúnaði en þrátt fyrir það er túlkunin síður en svo vélræn. Allskonar blæbrigði einkenna túlkunina, sem er skemmtileg blanda hamslausra ástríða og nútímalegra svalheita. Hvort Hamelin hefur réttu sveifluna er hinsvegar eitthvað sem ég læt meiri djassnörda en mig um að dæma; frá mínum bæjardyrum séð er diskurinn einstakur og ég mæli hiklaust með honum.

Hvað er nútímatónlist?

Sú blanda akademískra vinnubragða og djasstónmáls sem finna má geisladiski Hamelins vekur upp hugleiðingar um stöðu nútímatónlistar í dag, ekki síst á Íslandi. Fyrsta spurningin er kannski þessi: Hvað ER eiginlega nútímatónlist? Er nútímatónlist það sem maður heyrir aðallega á Myrkum músíkdögum? Kapustin er virðulegt tónskáld; samt hljómar það sem hann hefur samið eins og hver önnur djasstónlist. Eru verk hans nútímatónlist?

Skemmst er að minnast þess þegar Gísli Marteinn ræddi við Atla Heimi Sveinsson tónskáld og sagði að hann og margt annað venjulegt fólk skildi ekki nútímatónlistina sem hann semdi. Atli Heimir spurði hann þá hvort hann hefði einhvern tíman komið á tónleika þar sem tónlist hans hefði verið flutt en Gísli Marteinn kvað svo ekki vera.

Þetta hlýtur að teljast eitthvert undarlegasta augnablik í íslenskri tónlistarsögu í lengri tíma. Er ekki eitthvað bogið við það að ræða við eitt okkar þekktasta tónskáld fyrir framan alþjóð, hafa skoðanir á tónlist hans en viðurkenna svo að hafa aldrei hlustað á hana – eins og ekkert sé sjálfsagðara? Maður veltir fyrir sér afhverju tónlist Atla Heimis hafi þessa ímynd sem gerir að verkum að maður eins og Gísli Marteinn segist ekki skilja hana, án þess að hafa nokkru sinni heyrt hana? Er hún svona óskiljanleg og óþolandi að maður þarf ekki einu sinni að hlusta á hana til að vita það að hún sé óskiljanleg og óþolandi?

Úr tengslum við almenning

Í bók sinni Serious Music and All That Jazz setur tónlistargagnrýnandinn Henry Pleasants „alvarlega“ nútímatónlist að miklu leyti undir hatt raðtækninnar, eða seríalismans. Hann bendir á að þessi tækni, sem má rekja til Arnolds Schönbergs (1874-1951) og náði töluverðri útbreiðslu eftir Seinni heimsstyrjöld, hafi aldrei orðið vinsæl. Raðtækni er byltingarkennd tónsmíðaaðferð sem byggist á tiltekinni röð tóna, styrkleikabrigða, lengdargilda nótna, o.s.frv. Röðin er endurtekin aftur og aftur í ýmsum myndum og eru verk samin með þessari aðferð ómstríð, jafnvel torræð ef miðað er við dægurtónlist nútímans og þá sem samin var á 19. öld og fyrr. Pleasants segir að engin raðtækniverk hafi veitt honum ánægju.

Er menningarstefna sökudólgurinn?

Að hluta til kennir Pleasants menningarstefnu margra stjórnvalda um að raðtæknin hafi yfirleitt náð fótfestu. Hann ber saman hlutverk tónskáldanna núna og í gamla daga; í dag sé ríkjandi það viðhorf að tónskáldin séu snillingar yfir aðra hafnir. Slík ofurmenni telji sig vita betur en aðrir hvers konar menning eigi erindi við almenning. Stjórnvöld styðji við bakið á þeim með styrkjum og starfslaunum og sé afleiðingin sú að tónskáldin séu búin að missa öll tengsl við raunveruleikann. Ólíkt tónskáldum fyrri alda þurfi þau ekki lengur að selja list sína, nú geti þau samið tónlist sem enginn skilur án þess að fjármálin haldi fyrir þeim vöku á næturnar. Samkvæmt Pleasants væru tónskáld nútímans fyrir löngu farin að semja skemmtilegri tónlist ef hið opinbera styddi þau ekki með ráðum og dáðum.

Auðvitað var raðtæknin ekki eina tónsmíðaaðferðin sem notuð var á 20. öld, tónlist Stravinskys, Prokoffiefs, Shostakovich, Rachmaninoffs, Bartóks, Scriabins, og Hindemiths byggist t.d. ekki á seríalisma og er líka talsvert aðgengilegri. Hinsvegar var seríalisminn drottnandi stefna í tónsköpun upp úr 1950, og sennilega er það sú tónlist sem Gísli Marteinn átti við þegar hann sagði að hann og margt venjulegt fólk skildi ekki nútímatónlist.

Pleasants sver sig í þennan hóp því hann hefur sérstaklega illan bifur á seríalismanum og segir hann vera misheppnaða tilraun til að finna nýjar leiðir í tónsköpun eftir að hefðbundið tónmál hafði verið þurrausið. Pleasants er reyndar ekkert hrifinn af öðrum tónsmíðastefnum 20. aldarinnar heldur; samkvæmt honum er djassinn og rokkið hin raunverulega tónlist nútímans; það er hún sem fólk vill hlusta á.

Misheppnuð tónlist?

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan bók Pleasants kom út  árið 1965, en ef miðað er við vinsældir djassins og annarrar dægurtónlistar er sennilega rétt að segja að raðtæknitónlist sé misheppnuð, a.m.k. í þeim skilningi að henni hafi ekki tekist að ná til fjöldans. Hún er misheppnuð að því leyti að Gísli Marteinn og annað venjulegt fólk skilur hana ekki, þrátt fyrir að þetta sama venjulega fólk hafi eiginlega aldrei heyrt hana. Reyndar er seríalisminn alls ekki lengur ráðandi stefna, en það er eins og að margir viti það ekki, sem er kannski ekki von ef menn nenna ekki einu sinni að fara á tónleika til að hlusta á nýja tónlist.

Aðferðin skiptir ekki sköpun

Hér er nauðsynlegt að benda á að það er ekki tónsmíðaaðferðin, hvort sem það er raðtækni eða einhver önnur, sem gerir útslagið um hvort tónlist sé merkileg eða ekki. Eins og fyrrnefndur Atli Heimir benti á í grein hér í Lesbókinni fyrir rúmum áratug þá „eru það ekki kerfin sem geta af sér meistarastykkin. Þau verða til á annan hátt. (...) rím eða rímleysa skiptir ekki sköpum um gildi ljóða. Þó einhverjum takist að berja saman dýrt kveðna ferskeytlu, er ekki þar með sagt að hún hafi hið minnsta bókmenntagildi. Og þó eitthvert skáld „varpi af sér oki“ hefðbundins forms, og „brjótist úr fjötrum ríms og stuðla“ er ekki þar með sagt að meistaraverk verði til. Í listsköpuninni eru margir kallaðir en fáir útvaldir, og þar eru mikil afföll; meistarastykkin miklu færri en hrákasmíðarnar. Svona hefir það verið og ég hef ekki trú á því að það breytist. Að mínu mati hafa verið uppi alveg eins merkilegt tónskáld á 20stu öld og þeirri 19du. Ég get ekki séð, að Lutoslawsky, Messiaen, Nono, Zimmermann, Feldman og Cage (...) standi starfsnautum sínum frá fyrri öldum neitt að baki.“

Á skjön við ríkjandi hefðir

Margt af svokallaðri „æðri tónlist“ hefur oft átt erfitt uppdráttar í fyrstu, enda verið á skjön við ríkjandi hefðir. Slík tónlist þótti leiðinleg þegar hún hljómaði fyrst en náði samt að verða ódauðleg. Líkt og Gísli Marteinn skilur ekki Atla Heimi þá var heill her af tónlistargagnrýnendum sem skildi ekki óperuna Carmen eftir Bizet þegar hún var frumflutt. Margir skildu ekki tónlist Beethovens þegar hún leit fyrst dagsins ljós; óperur Wagners voru byltingarkenndar og gríðarlega umdeildar; tónlist Scriabins var líkt við eiturlyf og Vorblót Stravinskys olli slagsmálum. Í bókinni The Lexicon of Musical Invective bendir Nicholas Slonimski á að „alvarleg tónlist“ sé undir flestum kringumstæðum tekið með tortryggni í fyrstu og telur að um hálf öld þurfi að líða frá því að tónsmíð er frumflutt og þar til hún fær þann sess að vera talin snilldarverk, þ.e.a.s. ef hún á það á annað borð skilið. Gildir þetta auðvitað um margt fleira en tónlist.

Framandi tungumál

Þetta þýðir að Gísli Marteinn og venjulega fólkið hans skilur ekki nútímatónlist vegna þess að hún er allt öðru vísi en önnur tónlist. Ekki endilega vegna þess að hún er seríalísk; eins og Atli Heimir bendir á þá skiptir tónsmíðaaðferðin í sjálfu sér engu máli. Grundvallaratriðið er að ný tónlist er á framandi tungumáli, og rétt eins og börn þurfa að heyra nýtt mál talað í ákveðinn tíma til að læra það, þarf að heyra nútímatónlist oftar en einu sinni. Það er ekki nóg að segjast ekki skilja hana og hafa ekki einu sinni reynt að setja sig inn í hana.

Samruni há- og lágmenningar

Hvað mig varðar þá blæs ég á allar fullyrðingar um að nútímatónlist sé óskiljanleg og leiðinleg, og ég er alls ekki sammála því sem Pleasants heldur fram. Spennandi hlutir hafa verið að gerast í tónlistarlífinu undanfarið, ólíkar stefnur hafa verið að renna æ meira saman og hefur það m.a. valdið því að tónskáld eru miklu frjálsari en áður. Um þessar mundir er í rauninni engin sérstök ríkjandi stefna í tónsköpun, seríalisminn er bara ein af mörgum mögulegum tónsmíðaaðferðum. Í dag veit maður aldrei hvað má eiga von á þegar tónsmíð er frumflutt og mætti í rauninni segja hið sama um margt í dægurtónlist líka.

Nútímasnilldarverk

Sem dæmi um ný snilldarverk þá má nefna Passíu Hafliða Hallgrímssonar, flautusónötu Atla Heimis og ýmislegt eftir Hauk Tómasson, Jón Nordal, Þorkel Sigurbjörnsson og fleiri, svo ekki sé minnst á erlend tónskáld á borð við Ligeti, Crumb eða Kapustin. Sérstaklega verð ég að minnast á Serenu eftir Leif Þórarinsson, en það er verk sem kom mér verulega á óvart þegar ég heyrði það fyrst. Yfir tónlistinni er einhverskonar djúp hugarró er orð fá ekki lýst. Hún hefst á leitandi fiðlu- og hörputónum sem smám saman verða að unaðslegum söng og gerist það svo eðlilega og af svo miklum þokka að einstakt hlýtur að teljast. Söngurinn er enginn venjulegur söngur, hann er handan við allt persónulegt, það er eins og hann komi beint úr náttúrunni. Hann er algerlega frjáls, virðist ekki vera bundinn neinu formi og lýtur aðeins eigin lögmálum - en hvílík fegurð!

Harpa og upprisa

Annað dæmi um frábært verk er Passía Hafliða sem fyrr var nefndur. Þó Passían sé annarleg og jaðri við að vera óhugnanleg, þá er fínlegt tónmálið í raun einfalt. Mikið er um langa, íhugula tóna, og yfirleitt þarf áheyrandinn ekki að leggja á sig nein sérstök heilabrot til að átta sig á hvað sé að gerast hverju sinni. Allskonar myndlíkingar eru í tónlistinni, pákudrunur magna upp áhrifin þegar kórinn syngur um “þrumur í sortanum” og vel er hægt að ímynda sér að tónstigi niður á við, sem oft kemur fyrir og samanstendur af litlum og stórum tvíundum á víxl, standi fyrir einhverskonar himnesk áhrif, jafnvel ljósgeisla. Sömuleiðis gæti manni dottið í hug að hægir hörputónarnir í lokin, sem leita með misstórum skrefum upp á við, séu tákn fyrir sjálfan himnastigann, eða upprisuna.

Inn í annan heim

Hefur Gísli Marteinn heyrt þessi verk? Eða á að dæma þau fyrirfram sem óskiljanleg? Auðvitað er svona tónlist á framandi tungumáli sem ekki allir skilja í fyrstu og vissulega flokkast hún ekki sem afþreying. En sum list á bara ekki að vera afþreying. Stundum er list ætlað að vekja mann til umhugsunar, varpa ljósi á eitthvað tiltekið, jafnvel opna dyr inn í annan heim. Nútímatónlist er tónlist nútímans og nútíminn er margbrotinn. Tónlistin í dag byggist á meira frelsi en áður var leyfilegt en hún er ekkert síður merkileg en sú gamla. Vissulega er hún misgóð en það er rangt að dæma hana fyrirfram. Gefum henni sjens.

 

 


Heimildir:

  • Atli Heimir Sveinsson (1994): Staðhæfingar án stoða, Lesbók Morgunblaðsins.
  • Headington, Christopher (1987): Saga vestrænnar tónlistar
  • Laugardagskvöld með Gísla Marteini, 26. febrúar 2005
  • Málstofa í tengslum við nám í  Mennta- og menningarstjórnun við Viðskiptaháskólann á Bifröst, 19. febrúar 2005
  • Naremore, James and Brantlinger, Patrick, ritstj. (1991): Modernity and Mass Culture.
  • Pleasants, Henry (1965): Serious Music and All That Jazz
  • Slonimski, Nicholas (1969): The Lexicon of Musical Invective.

Einnig vil ég þakka Dr. Jóni Ólafssyni og Kolbeini Bjarnasyni fyrir gagnlegar ábendingar.


Jónas Sen



Greinin birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins, laugardaginn 2. apríl 2005.


 ©  2005  Músa