Menningarsetur með reisn
Steinunn Birna Ragnarsdóttir <samhljomur@simnet.is>
Það eiga margir góðar minningar úr Austurbæjarbíói. Margir fengu þar innsýn í heimsmenningu tónlistarinnar á ógleymanlegum tónleikum Tónlistarfélagsins um árabil. Aðrir skemmtu sér konunglega á miðnætursýningum Leikfélags Reykjavíkur eða urðu vitni að fyrstu tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Enn aðrir sáu Roy Rogers í bíó eða heyrðu hljómsveitir eins og t.d. Kinks á sínum tíma og svo mætti lengi telja. Víst er að menningarhús borgarinnar á borð við Austurbæjarbíó eru fá og því eru þau svo dýrmæt. Nú þegar ljóst er að niðurrif hússins verður ekki heimilað, huga velunnarar hússins að framtíð þess og hlutverki. Nú þegar hafa komið fram ýmsar hugmyndir og greinilegt er að mörgum er umhugað um að húsið fái verðugt hlutverk og endurreisn sem sæmir sögu þess og möguleikum. Hér langar mig að leggja til nokkrar hugleiðingar um framtíð hússins og mögulega starfsemi þess.
Húsið sjálft er vel heilt en ljóst er að gera þarf á því endurbætur svo það endurheimti
sína fyrri reisn og til þess að sá einstaki hljómburður sem er í húsinu, njóti
sín. Best væri að það yrði fært algerlega í sitt upprunalega horf og reynt að
endurheimta t.d. vegglistaverkið í andyrinu sem fór undir málningu illu heilli.
Það þarf vissulega fjármagn til að kosta slíkar endurbætur, en ég ætla hér að
leggja áherslu á menningarhlutverk hússins í framtíðinni og láta áhyggjur af
fjármögnun bíða í bili.
Lasipalatsi er nýuppgert menningarhús í Helsinki í Funkisstíl eins og Austurbæjarbíó.
Það er í eigu borgarinnar sem tók þá ákvörðun að vernda húsið 1991 en það var
byggt sextíu árum áður. Endurbæturnar voru styrktar af EU (Urban pilot program).
Húsið sem er staðsett í miðju borgarinnar iðar af menningarlífi, menningarviðburðum
og sérstök áhersla er lögð á margmiðlun. Þar eru haldnar “cult” kvikmyndahátíðir,
tónleikar, leik- og danssýningar ásamt ýmsum menningarviðburðum. Þar er kaffihús
sem býður upp á tenginu við Netið fyrir gesti og hægt er að nálgast upplýsingar
um hvers konar menningu. Í húsinu er einnig bókasafn sem geymir gamla dýrgripi
en einnig er hægt að fá sína eigin bók prentaða á meðan beðið er. Safnið er að
þessu leyti sérstakt því þar mætast fortíð og nútíð á skapandi hátt. Lasipalatsi
gæti að einhverju leyti verið fyrirmynd af því sem hægt væri að gera í Austubæjarbíói
svo að það yrði á ný menningarhús með reisn.
Fá hús hafa þjónað fleiri listgreinum en Austubæjarbíó þótt tónlistina beri þar
líklega hæst. Húsið er merkur minnisvarði um Tónlistarsögu Reykjavíkur og gaman
væri að sjá þar minjar um það sem fram hefur farið í húsinu frá byggingu þess,
en það var varla fullbyggt þegar það var farið að hýsa tónlistarviðburði reglulega.
Hvergi er hægt að sjá slíkar minjar og húsið hefur allt til að bera til að vera
umgjörð þeirra. Vel mætti hugsa sé að í því væri aðsetur Tónminjasafns þar sem
hægt væri að nálgast sögulegar heimildir um Tónlistarsögu Reykjavíkur bæði í formi minja og sýninga. Austurbæjarbíó býður einnig upp á möguleika til þess að hýsa menningar- og listauppákomur ungs fólks og skapað þeim tækifæri við hæfi.
Það er augljóst að möguleikar hússins eru miklir og mikilvægt að það fái verðugt hlutverk og sess í menningarlífinu. Þótt fyrirhugað sé að byggja Tónlistarhús á næstu árum, mun það þjóna allt öðrum þörfum en slík lista- og menningarmiðstöð í Austurbæjarbíói. Ég vona sannarlega að við missum ekki af tækifærinu til að gera Austurbæjarbíó að því menningarsetri sem því sæmir.
Greinin birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins, laugardaginn 18. sept. 2004. |