Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 19. maí 2007
Erlendir tónlistarmenn á Íslandi á 20. öld
Grein IV: Frjótt samstarf, frjótt samspil


Ingibjörg Eyþórsdóttir
<ingibjorge at ruv.is>

Ingbjörg Eyþórsdóttir Hér verður farið vítt og breytt um sviðið; vikið verður að kennurum sem hafa unnið sín störf í ró og spekt í fjörðum og dölum landsins, rætt um hóp tónlistarmanna sem fluttist hingað frá löndum Austur-Evrópu á níunda og tíunda áratugnum og dreifðist víða um land, lauslega minnst um þá hljómsveitarstjóra sem komið hafa hingað reglulega til að vinna án þess að hafa hér fasta búsetu og síðast en ekki síst verður reynt að draga einhverjar ályktanir af þessu öllu.

Þegar líða tekur á seinni hluta 20. aldarinnar og þar með nær nútímanum fer smám saman að verða erfiðara að hafa góða yfirsýn um tónlistarlandslagið hér á landi, vegna nálægðarinnar. Tónlistarmönnum hefur líka fjölgað hér jafnt og þétt, innlendum sem erlendum og tónleikar í háum gæðaflokki eru næstum daglegt brauð. Íslenskir tónlistarmenn eru nú orðnir mun færari í sínu fagi en áður var og útlendingar oft frekar ráðnir hingað til að fylla þau störf þar sem ekki er mannafli en að lítil kunnátta sé til í landinu. Auðvitað koma líka áfram framúrskarandi listamenn til landsins, gjarnan með íslenskum maka eða af eintómri ævintýragirni, en standardinn í landinu hefur farið síhækkandi, ekki síst fyrir áhrif erlendra tónlistarmanna, þ.a. þegar á líður þarf meira til að menn verði mjög áberandi í tónlistarlífinu – starf flestra fer fram í rólegheitum fjarri kastljósi fjölmiðlanna.

Það er heldur ekkert launungarmál að tónlistarkennarar eru of fáir á landinu og oft torvelt að manna stöður á landsbyggðinni. Afleiðingin af því er sú að víða er að finna úti um hinar dreifðu byggðir landsins frábært tónlistarfólk sem vinnur störf sín, allt að því í kyrrþey og minnir kannski helst á brautryðjendur fyrr á öldinni hér í þéttbýlinu.

Hér á eftir mun ég taka örfá dæmi um slíkt ræktunarfólk  – nú er fjöldinn orðinn það mikill að eingöngu verður fjallað um „hluta fyrir heild“.

Tónlistarkennarar

Víða í sveitum landsins leynist fólk sem er snillingar í sínu fagi – að miðla tónlist til barna jafnt sem fullorðinna. Einn slíkur er Robert Faulkner.

Robert Faulkner hefur verið tónlistarkennari við Hafralækjarskóla síðan árið 1986. Hann lærði fyrst söng við Guildhall í London og fór síðan í framhaldsnám í tónlistarkennslu við háskólann í Reading. Hann lagði einnig stund á hljómsveitarstjórn og kórstjórn og tók þátt í óperutímum. Hann gegndi stöðu sem yfirmaður tónlistardeildar í framhaldsskóla í London í nokkur ár, en fluttist til Íslands árið 1986 og gerðist  tónlistarkennari við Hafralækjarskóla í Aðaldal. Hann hefur einnig nú hin seinni árin haldið fyrirlestra um tónlistarkennslu við Háskólann á Akureyri og hefur tekið við hópum frá Listaháskóla Íslands og kennt þeim á stuttum og hnitmiðuðum námskeiðum. Hann hefur stjórnað frábærum karlakór í Aðaldalnum og hefur haft feykileg áhrif í kringum sig. Núna er hann í Ástralíu og er að aðstoða heimamenn við að setja upp tónlistarkennsluprógram við háskóla þar. Á fleiri stöðum hafa snillingar á borð við hann starfað, Keeth Reeves sem lengi starfaði á Egilsstöðum var ótvírætt í þeirra hópi; hann kom meðal annars á fót óperustúdíói Austurlands sem starfaði af ótrúlegum krafti og gleði í nokkur ár.

Sumir tónlistarmenn af erlendu bergi brotnir eru orðnir svo samsamaðir íslenskum veruleika að uppruninn vill næstum gleymast. Einn slíkur maður er Marteinn H. Friðriksson, organisti í Dómkirkjunni með meiru. Hann kom hingað frá Þýskalandi árið 1964 og starfaði fyrst í Vestmannaeyjum en fluttist uppá fast land árið 1970. Fyrst var hann organisti í Háteigskirkju en hefur frá 1978 gegnt stöðu organista og kórstjóra í Dómkirkjunni. Hann hefur kennt í Tónlistarskólanum í Reykjavík og Í Listaháskóla Íslands og stendur árlega fyrir tónlistarhátíð í Dómkirkjunni.

Enn um Sinfóníuhljómsveitina

Í Sinfóníuhljómsveit Íslands er núna nokkur fjöldi manna sem ekki hefur verið talinn upp í fyrri greinum, en fyllir þennan flokk. Í strengjaröddunum hefur alltaf þurft að fá nokkurn liðstyrk að utan; það er ekki hlaupið að því fyrir litla þjóð að eiga alltaf hátt í fjörutíu toppfiðluleikara sem þar fyrir utan þurfa að búa á nokkurn veginn sama blettinum. Núna er skylt að auglýsa allar stöður í hljómsveitinni á Evrópska efnahagssvæðinu þannig að líklega mun þetta verða svona um fyrirsjáanlega framtíð.

Hér er einungis hægt að nefna örfáa; til dæmis Andrzej Kleina sem hefur gegnt stöðu 3. konsertmeistara nú um árabil, en hann byrjaði að starfa með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 1988. Andrzei kom hingað til lands frá Póllandi. Það gerði einnig Szymon Kuran, sem gegndi stöðu annars konsertmeistara í hljómsveitinni á árunum 1984-2000. Hann var mjög fjölhæfur tónlistarmaður, spilaði jass í sveit sinni Kuran Swing og samdi tónlist af ýmsu tagi. Þess má geta að hann spilaði fiðluröddina í tónlist Hilmars Arnar Hilmarssonar í kvikmyndinni Börn náttúrunnar og náði með því að snerta við mörgum hjörtum. Szymon lést langt fyrir aldur fram árið 2005.

Tónlistarfólk frá Austur-Evrópu

Nokkur fjöldi fólks hefur komið til Íslands frá löndunum sem fram til loka níunda áratugarins voru fyrir austan járntjald. Landamæri þessara landa voru nánast lokuð fram að þeim tíma, en menntun tónlistarmanna á mjög háu stigi. Þegar kommúnisminn hrundi svo undir lok níunda áratugarins og landamærin opnuðust tóku vel menntaðir tónlistarmenn að leita til vesturhluta Evrópu. Berlínarmúrinn féll árið 1989 og sama ár varð tékkneska flauelsbyltingin. Í kjölfar þessara breytinga var mikil ólga og óvissa í löndunum og margir fluttu frá þessum áður lokaða hluta Evrópu. Fólk leitaði að betra lífi, betri kjörum, og síðast en ekki síst meira öryggi fyrir sig og börnin sín. Hingað komu margir tónlistarmenn á þessum tíma og bar oft að landi annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu en fikruðu sig síðan suðvestur á bóginn eftir dálítinn tíma. Margir byrjuðu á Austurlandi og samkvæmt brandara sem mér var sagður var það vegna þess að þaðan var styst að synda heim.

Ég ræddi stuttlega við þrjá fyrrum Austur-Evrópubúa, sem öll hófu störf úti á landi en búa nú „hér fyrir sunnan“, reyndar býr ekkert þeirra í Reykjavík; tvö búa í Kópavogi og eitt í Hafnarfirði. Þau eru fulltrúar þriggja þjóða, einn frá Tékkóslóvakíu,sem reyndar er af ungverskum uppruna, einn Ungverji og einn Pólverji. Þau sögðu mér sögu sína og röktu ástæðurnar fyrir því að þau ílentust á Íslandi.

Peter Máté – kom frá Tékkóslóvakíu

Árið 1987 kom Ungverjinn Ferenc Utassy til Íslands. Hann var ráðinn til að gegna stöðu  skólastjóra við nýstofnaðan Tónlistarskóla á Stöðvarfirði, en hann  kom hingað til lands fyrir tilstilli Gunnsteins Ólafssonar tónlistarmanns sem hafði stundað nám í Ungverjalandi. Ferenc var á Stöðvarfirði í tvö ár, en þegar hann ákvað að færa sig um set til Reykjavíkur árið 1989 hafði hann samband við vinafólk sitt, þau hjónin Peter Máté og  Lenku Mátéová og fékk þau til að koma til landsins og taka að sér stöðuna og aðra kennslu við skólann. Peter og Lenka komu frá Tékkóslóvakíu og eru bæði hámenntaðir og fjölhæfir tónlistarmenn; Peter er þó fyrst og fremst píanóleikari og Lenka er organisti og kórstjóri. Peter varð skólastjóri skólans, og þau hjónin kenndu bæði við skólann og spiluðu í nokkrum kirkjum í nágrenninu. Á Stöðvarfirði voru þau til ársins 1993 en fluttu þá til Reykjavíkur, bjuggu reyndar á Álftanesi fyrst þar sem Peter kenndi við tónlistarskólann í hreppnum.

Saga Peters og Lenku er sjálfsagt áþekk sögu margra tónlistarmanna sem komu hingað frá Austur-Evrópu á árunum í kringum 1990. Fólk leitaði að öryggi í tvennum skilningi; efnahagslegu og pólitísku. Á þessum tíma var mikið upplausnarástand í þeim löndum sem höfðu verið fyrir austan járntjald, ekki síst í Tékkóslóvakíu. Auk þess voru kjörin mun betri á Vesturlöndum, þannig að hámenntað tónlistarfólk eins og t.d. Peter lagði á sig að fara úr góðri stöðu  –  kennslu við tónlistarmenntaskóla í Slóvakíu þar sem hann var með góða nemendur –  og taka að sér kennslu við nýstofnaðan tónlistarskóla þar sem hann kenndi lítt þjálfuðum nemendum á hvert það hljóðfæri sem þörf krafði; blokkflautu, gítar – hvað sem var.

Síðan fluttu þau suður til að komast í betra samband við tónlistina í landinu og á árunum 1997-98 tóku þau meðvitaða ákvörðun um að vera áfram hér á landi; hér höfðu kjör tónlistarkennara og annarra tónlistarmanna batnað til muna, þau höfðu fengið spennandi verkefni og leið vel í landinu, höfðu skapað sér tilveru hér á landi. Hér er hæfileg þensla og spenna í þjóðfélaginu, sem gerir það ákjósanlegan bústað fyrir þau. Peter líkti sambandinu við Ísland, eða frekar veru sinni í landinu við hjónaband. Maður þarf á einhverjum tímapunkti að taka ákvörðun um að maður ætli að lifa lífinu á einhvern hátt, að vera í hjónabandi; búa í ókunnu landi. Núna er Peter kennari við Listaháskóla Íslands og Tónlistarskóla Reykjavíkur, en kenndi áður við Tónlistarskóla þjóðkirkjunnar 1993-1998 . Hann hefur auk þess verið meðlimur í ýmsum kammerhópum, en þar ber helst að telja Tríó Reykjavíkur sem auk hans er skipað Guðnýju Guðmundsdóttur fiðluleikara og Gunnari Kvaran sellóleikara frá árinu 1995, og Tríó Romance sem hann hefur starfað með ásamt Martial Nardeau og Guðrúnu Birgisdóttur  í Tríó Romance frá 1995. Hann hefur spilað einleik með Sinfóníuhljómsveitinni og er nú meðal okkar virtustu píanóleikara og kennara.

Lenka hefur í mín eyru verið kölluð eitt best geymda tónlistarleyndarmál þjóðarinnar; þar sem hún hefur unnið störf sín með hægð, verið organisti og og kórstjóri, en nú hefur hróður hennar breiðst út hægt og rólega og fleiri vita nú að hún er fyrsta flokks organisti.

Antonia Hevesi – kom frá Ungverjalandi

Antonía Hevesi kom stuttu síðar eða árið 1992 og ætlaði upphaflega bara að vera hér í eitt ár. Hún hafði ráðið sig til kennslu í Finnlandi sem átti að hefjast  árið 1994 og hafði verið á finnskunámskeiði; reyndar tekið finnskupróf daginn áður en hún kom til Íslands. Kunningjar hennar voru á Íslandi og þekktu til á Siglufirði og báðu hana að sækja um starf þar og kenna þennan tíma sem hún beið eftir að halda til Finnlands. Stuttu áður en hún ætlaði að halda til baka, heyrði hún ungan mann syngja úti á torgi. Hann var að syngja eitthvert rokklag, en röddin var þvílík að Antonía ákvað að þessi drengur yrði að komast í nám. Hún hætti við að fara til Finnlands og lagði sitt að mörkum til að draga drenginn í  söngtíma. Þetta var Hlöðver Sigurðsson sem nú er í framhaldsnámi á Ítalíu hjá Kristjáni Jóhannssyni. Um það bil ári eftir að hún hafði útskrifað Hlöðver og komið honum til Lundúna í framhaldsnám flutti hún til Hafnarfjarðar, hún sá auglýst þar spennandi starf og langaði til að komast í hringiðu tónlistarlífsins í landinu. Það hefur henni tekist; hún er æfingarpíanisti í Íslensku óperunni og listrænn stjórnandi og píanóleikari með hádegistónleikaröð Hafnarborgar og hefur með því skapað sjálfri sér skemmtilegan starfsvettvang.

Agnieszka Malgorzata Panasiuk – kom frá Póllandi

Agnieszka Malgorzata Panasiuk píanóleikari er yngst þeirra sem ég ræddi við. Pólskir tónlistarkennarar sem höfðu verið á Akureyri um nokkra hríð settu upp auglýsingu í Tónlistarháskólanum í Gdansk þar sem Agnieszka var við nám og sennilega hefur blundað í henni einhver ævintýraþrá – henni þótti Ísland framandi og spennandi og sótti um starfið. Hún kom hingað til lands ásamt manni sínum Pawel sem er sellóleikari, stuttu eftir að hún lauk mastersnámi árið 1999 og settist að á Akureyri. Hún hafði starfað sem píanóleikari við Johann Srauss hljómsveitina í Varsjá og kennt börnum og unglingum á aldrinum 7-19 ára í heimalandi sínu um fjögurra ára skeið áður en hún kom hingað, en samt telur hún að hér hafi hún orðið fullorðin. Í Póllandi er fjölskyldan og ræturnar, en hér hefur hún búið flest sín fullorðinsár og hér finnst henni tónlistarlífið og -umhverfið frjótt og spennandi. Þeim hjónum líður vel hér og þess vegna hafa þau ákveðið að vera hér áfram. Sem dæmi um það hversu vel þeim líður hér á landi má geta þess að héðan fór Agnieszka til London árið 2003 og stundaði framhaldsnám við Royal Academy of Music í eitt ár og lauk þaðan post-graduate námi. Henni gekk reyndar það vel strax á inntökuprófinu að hún fékk styrk til námsins, svokallaðan Krein-scholarship. Hún naut mikillar velgengnií Englandi, spilaði með mörgum einleikurum og kammerhópum, og hélt m.a. hádegistónleika í St.-Martin-in-the-Fields, á St.John´s Smith Square og í Senat House Bloombsbury. Árið 2004 keppti hún svo til úrslita í tónlistarkeppninni Delius Prize.Samt tók hún þá ákvörðun eftir árið í London að snúa “heim” til Íslands.

Það sem Agnieszka nefndi að sér fyndist fyrst og fremst sérstakt við Ísland er hversu tónlistarástundun er útbreidd í þjóðfélaginu. Stór hluti þjóðarinnar syngur í kórum, og þar finnst fólk á öllum aldri; allt frá kornungum börnum til ellilífeyrisþega. Stór hluti barna lærir einhvern tímann á hljóðfæri, mörg þeirra eru í lúðrasveitum eða í bílskúrsböndum – allir eru í tónlist! Og gæðin eru mikil, fólk stundar tónlistina af heilum hug. Þetta finnst Agnieszku sérstaklega heillandi við þjóðina, ellilífeyrisþegar í kór, er nokkuð sem henni finnst fallegt og hér vill hún starfa.

Hljómsveitarstjórar og aðrar flökkukindur

Margir mikilhæfir hljómsveitarstjórar hafa unnið á Íslandi – sumir þeirra í nokkur ár – og síðan hafa þeir snúið sér að öðrum hljómsveitum annars staðar í veröldinni. Fæstir þeirra hafa haft hér fasta búsetu, þannig að ekki hefur verið minnst á þá sérstaklega fyrr en hér í lokin. Hér má telja upp marga, Olaf Kielland, Hermann Hildebrandt, Bohdan Wodiczko, Alfred Walter, Jean-Pierre Jacquillat, Karsten Andersen, Paul Zukovsky, Petri Sakari, Osmo Vanska, Rico Saccani, Rumon Gamba...

Og svo margir aðrir...

Það er erfitt að segja skilið við efni af þessu tagi og sífellt koma ný nöfn upp í hugann; hvað með Alinu Dubik þá stórkostlegu söngkonu, hvað með Gerrit Schuil píanista,  Richard Simm píanista sem kom fram á Listahátíð í fyrra og þeir sem þekkja til vita að er frábær tónlistarmaður, hvað með þá Steef van Oosterhout, Frank Aarnink og Jorge Rene Lópes sagverksleikara, hvað með Kurt Kopecky tónlistarstjóra Óperunnar, hvað með...

Lokaorð

Ef hægt er að draga einhverja niðurstöðu af þessum greinaflokki um erlenda tónlistarmenn á Íslandi er hún helst sú að þetta fólk hafi gert það mögulegt að halda uppi öflugu tónlistarlífi á landinu, sérstaklega á fyrri hluta aldarinnar. Það setti ný viðmið, kenndi Íslendingum bæði að leika tónlist og njóta hennar. Tungumál tónlistarinnar er alþjóðlegt og tónlistarmenn hafa alltaf verið á faralds fæti, þeir fara þangað sem vinnu er að hafa og fólk vill hlusta. Þessu höfum við notið góðs af og meira en það, þetta fólk var ásamt nokkrum velmenntuðum heimamönnum forsendan fyrir því sem ég vil kalla tónlistarsprenginguna miklu hér á landi á 20. öld, en öldum saman hafði íslenskt tónlistarlíf verið mjög fábreytt. Þegar tók að líða á öldina fjölgaði Íslendingum sem fóru í langt tónlistarnám til annarra landa. Þetta fólk skilaði sér flest aftur heim og hefur nú tekið við hlutverkinu sem helstu burðarásar innlends tónlistarlífs; en sem betur fer er tónlistin alþjóðleg í eðli sínu og flæði fólks á milli landa því mögulegt. Þetta er samkvæmt aldagamalli hefð tónlistarmanna.

Það sem er merkilegast við þessa sögu samskipta Íslendinga og erlendra tónlistarmanna sem settust hér að er hversu farsæl þau hafa verið; það hversu móttækilegir Íslendingar voru fyrir evrópskum hákúltur annars vegar og hins vegar hversu vel útlendingarnir aðlöguðust þessu einangraða þjóðfélagi. Það hversu margir ílentust hér þótt þeir ætluðu bara að stoppa stutt er í raun merkilegast.

Og hvernig liti myndin út ef þessi straumur hefði ekki legið hingað? Ég sé fyrir mér að auðvitað hefðu spurnir borist hingað fyrr eða síðar af fiðlum, píanóum og jafnvel sinfóníuhljómsveitum, menn hefðu reynt að potast í þessu sjálfir, og núna væri hér kannski lítil áhugamannahljómsveit sem spilaði jafnvel tvisvar á ári...

En auðvitað eru svona vangaveltur útí hött. Ísland hefur þrátt fyrir allt aldrei verið einangrað frá umheiminum og svo aðeins sé rifjað upp frá fyrstu greininni, þá hefur margt í sjálfum rímunum, sem okkur finnst vera það þjóðlegasta af öllu þjóðlegu, verið rakið til Evrópu á miðöldum, bæði bragurinn og tónlistin. Stemmurnar eru líklega einhver samsuða úr því sem fyrir var og erlendum áhrifum, og það er íslensk tónlistarsaga í hnotskurn.


Höfundur lauk BA-prófi í tónlistarfræði frá LHÍ vorið 2005 og starfara í Ríkisútvarpinu.

Greinin birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins, laugardaginn 5. maí 2007.


Heimildir

  • Bjarki Bjarnason: Tónlist og tónlistarmenn á Íslandi, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Saga og stéttatal, Reykjavík: Sögusteinn 2000.
  • Einkaviðtöl við:
    • Agnieszku Malgorzata Panasiuk.
    • Antoniu Hevesi.
    • Peter Máté.

 ©  2007  Músa