Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 19. maí 2007
Erlendir tónlistarmenn á Íslandi á 20. öld
Grein II: Stríðsgróðinn – evrópsk hámenning


Ingibjörg Eyþórsdóttir
<ingibjorge at ruv.is>

Ingbjörg Eyþórsdóttir Íslendingar högnuðust vel á því stríði sem nefnt hefur verið Heimsstyrjöldin síðari og háð var á árunum 1939-1945. Hins vegar er ekki víst að allir geri sér grein fyrir því hversu fjölbreyttur sá gróði var né hinu að hann tók að berast hingað nokkru fyrir stríð; hingað komu þrír hámenntaðir tónlistarmenn, allir á flótta undan vitfirringu nasismans á síðustu árunum fyrir stríðið og auðguðu íslenskt tónlistarlíf stórkostlega. Við búum enn að þeim auð á margan hátt. Þessir menn kenndu ungviðinu, sem núna er stærsti hluti íslenskra tónskálda og annarra tónlistarmanna á miðjum aldri, og einn þeirra lagði grunn að tónlistarfræðilegri þekkingu þjóðarinnar á eigin tónlistararfi.

Þrír menn sem síðar áttu eftir að verða meðal virtustu tónlistarmanna þjóðarinnar komu til landsins á árunum fyrir seinni heimsstyrjöldina á flótta undan nasismanum. Þetta voru:

Róbert Abraham Ottósson (1912-74), kom til landsins árið 1935. Hann kom frá Kaupmannahöfn þar sem hann hafði starfað, en ekki beint frá Þýskalandi, en hann var þýskur ríkisborgari.

Heinz Edelstein, (1902-59) kom frá Þýskalandi árið 1937 fyrir milligöngu skólastjóra Handíðaskólans í Reykjavík, Lúðvíks Guðmundssonar.

Victor Urbancic, (1903-58) kom frá Austurríki árið 1938 fyrir milligöngu Franz Mixa.

Þeir Róbert Abraham og Heinz Edelstein voru af gyðingaættum og var því ekki vært í heimalandi sínu eða á áhrifasvæðum þess og Melitta Urbancic, eiginkona Victors var það líka.


Þessir þrír menn voru allir kennarar við Tónlistarskólann í Reykjavík á tímabili og áttu stóran þátt í því að sá skóli breyttist nánast á svipstundu úr litlum skóla á hjara veraldar í evrópska tónlistarakademíu í háum gæðaflokki. Heinz Edelstein tók síðar upp á því að kenna íslenskum börnum tónlist einsog börnum og lifir skólinn hans góðu lífi enn þann dag í dag. Þeir voru auk þess virkir í flutningi tónlistar hvort heldur sem stjórnendur eða hljóðfæraleikarar og Róbert Abraham lagði grunninn að tónvísindum sem fræðigrein á Íslandi.

Robert Abraham  –  hljómsveitarstjóri

Robert Abraham kom hingað fyrstur þessara manna árið 1935, þá kornungur maður, aðeins 23 ára gamall. Hann var yngstur þeirra tónlistarmanna sem komu hingað á flótta undan nasismanum og sá eini sem ekki var fjölskyldumaður á þeim tíma. Hann hafði verið nemandi í hljómsveitarstjórn og tónsmíðum í Berlín og komist þar í kynni við tvo af helstu hljómsveitarstjórum sinnar samtíðar, þá Bruno Walter og Wilhelm Furtwängler sem þá var aðalhljómsveitarstjóri Berlínarfílharmóníunnar. Árið 1934 hafði Róbert farið frá Berlín, en þar var honum ekki lengur vært eftir valdatöku nasista, jafnvel þótt foreldrar hans hefðu kastað trúnni og tekið upp kristna trú sem hann aðhylltist sjálfur. Hann fluttist til Parísar þar sem hann hélt áfram námi en fór þaðan til Kaupmannahafnar þar sem honum hafði boðist staða sem stjórnandi útvarpshljómsveitarinnar. Þegar til átti að taka hafði staðan verið lögð niður, en hann var samt kyrr í Kaupmannhöfn veturinn 1934-35 við ýmis störf, stjórnaði m.a. tónleikaröð í Carlsberg-Glyptótekinu sem bar nafnið „Fra barok til klassik“. Á þeim tíma sem hann dvaldist í Kaupmannahöfn kynntist hann norrænufræðingnum Dr. Lis Jacobsen sem kveikti með honum áhuga á íslenskri menningu og því fólki sem hér bjó. Hann ákvað að halda til Íslands og spurðist fyrir um stöður í tónlist á Íslandi í sendiráðinu í Kaupmannahöfn. Þar varð fátt um svör, og maðurinn raunar varaður við því að hér væri tónlistarlífið með bágbornara móti. Það mun heldur hafa eflt hann en hitt – hann taldi að því fleiri yrðu verkefnin - og hingað kom hann strax um haustið 1935. Hann hélt rakleiðis á fund Páls Ísólfssonar sem þá var allt í öllu í tónlistarlífi höfuðstaðarins, skólastjóri Tónlistarskólans, tónlistarstjóri Ríkisútvarpsins og dómorganisti, svo fátt eitt sé nefnt. Páll ráðlagði honum að fara til Akureyrar, því þar vantaði sárlega tónlistarmenn. Róbert gerði það, og var á Akureyri í fimm ár. Til lengdar mun hann ekki hafa unað sér vel fyrir norðan þótt hann eignaðist þar nokkra ágæta vini og sálufélaga; ekki er ólíklegt að óvild Björgvins Guðmundssonar hafi átt einhvern hlut í því. Björgvin hafði stofnað Kantötukór Akureyrar árið 1932 og þegar Róbert stofnaði blandaðan kór, Samkór Róberts Abrahams veturinn eftir, leit Björgvin svo á að það væri til höfuðs sér og sínu starfi. Auk þess er raunalegt til þess að vita að eftir því sem hann sjálfur sagði frá, þá var það „einkennileg tilviljun, að ég varð persónulega aldrei fyrir neinu aðkasti vegna ætternis míns fyrr en norður á Akureyri, en þar orguðu einu sinni tveir drukknir menn á eftir mér, að ég væri „helvítis gyðingur“.

Robert Abraham fór fljótlega að kalla sig Róbert Abraham Ottósson, að íslenskri fyrirmynd óumbeðinn. Hann flutti aftur suður árið 1940 og hafði þá tekist að fá móður sína til sín. Hún flutti síðar áfram vestur um haf, til bróður Róberts sem kenndi tónlistarmannfræði við Berkeley-háskólann í Kaliforníu.

Fyrst eftir komuna suður starfaði Róbert hjá breska hernum, en ekki leið á löngu þar til hann var kominn á kaf í tónlistarlífið. Hann kenndi víða, fyrst tónlistarsögu við Menntaskólann í Reykjavík og á píanó í einkatímum en ekki leið á löngu þar til hann fékk kennslu við Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem hann kenndi tónfræðigreinar og píanóleik. Þar starfaði hann lengi og hafði mikil áhrif á margar kynslóðir íslenskra tónlistarmanna. Hann var ákaflega fjölhæfur maður. Eins og fyrr segir hafði hann lært tónsmíðar og hljómsveitarstjórn í Þýskalandi, en eftir að hingað kom bætti hann við kórstjórn auk kennslunnar. Hann var auk þess mjög snjall útsetjari og greip þá gjarnan niður í þjóðlagaarf þjóðarinnar og útsetti lítil og brothætt lög fyrir kóra á frábæran hátt.

Hann var fyrst og fremst menntaður sem hljómsveitarstjóri þegar hann kom hingað og kór- og hljómsveitarstjórn skipaði alla tíð stóran sess í lífi hans. Hann stjórnaði t.d. Sinfóníuhljómsveit Íslands á fyrstu tónleikum hennar, sem voru í Austurbæjarbíói, 9. mars árið 1950 og oft síðar og hann og Victor Urbancic áttu stærstan hlut í því að kynna fyrir þjóðinni þann stórkostlega hluta tónbókmenntanna sem útheimtir kór og sinfóníuhljómsveit, enda var Róbert stjórnandi Söngsveitarinnar Fílharmóníu frá stofnun hennar árið 1959 til dauðadags. Segja má að hann hafi tekið við þessu starfi Victors Urbancic þegar hann féll frá árið 1958.

Allir þeir tónlistarmenn sem hingað fluttust, og þá sérstaklega frá Austurríki og Þýskalandi, voru aldir upp við mikinn aga. Þennan aga þekkja allir tónlistarmenn og þá sérstaklega klassískt menntaðir. Þegar þeir komu til landsins þekktu Íslendingar hann ekki og til eru margar sögur af Róbert Abraham þegar agaleysi landans fór út fyrir öll mörk – að hans mati. Hann átti það til að slá af ef menn gerðu einhver mistök, og það jafnvel á tónleikum. Yfirleitt kunnu samstarfsmennirnir að meta þetta og flestir skildu að fúsk og kæruleysi var versti óvinur tónlistarinnar.

Ekki leið á löngu uns fræðimaðurinn vaknaði í Róbert, en athyglisvert er að af þeim þremur hámenntuðu tónlistarmönnum sem hingað komu frá Austurríki og Þýskalandi á fjórða áratug síðustu aldar, var Róbert sá eini sem ekki var með doktorsgráðu í tónvísindum. Hann bætti úr því hér á landi og varð fyrsti maðurinn til að ljúka slíkri gráðu við íslenskan háskóla árið 1959 og reyndar sá eini enn sem komið er. Við eigum reyndar nokkra hámenntaða tónvísindamenn með doktorsgráðu, en Róbert Abraham Ottósson er sá eini sem lokið hefur henni við íslenska menntastofnun. Hann lagðist í grúsk og rannsakaði Þorlákstíðir, eða tíðasöng heilags Þorláks, sem taldar hafa verið með fyrstu tónsmíðum hérlendum, en Róbert sýndi fram á að þær eru samdar eftir erlendri fyrirmynd, sem hann fann í enskum handritum dóminikanamunka frá 13. öld.Hann varð fljótlega virtur fræðimaður meðal jafningja sinna í Evrópu og var m.a. fenginn til að skrifa kafla um tvísöng í hið merka rit Kultur Historisk Leksikon for Nordisk Middelalder sem var gefið út sameiginlega á öllum Norðurlöndunum á árunum 1956-78.

Það er ekki að furða að fyrsti íslenski tónvísindamaðurinn skyldi vera þýskur gyðingur. Tónvísindi standa á gömlum merg í þýskumælandi löndum en tónlist og tónlistarfræði hefur í aldanna rás ekki verið gert jafn hátt undir höfði og bókmenntum hér á landi og í raun ekki fyrr en vegna áhrifa manna eins og Róberts sem það fór að breytast. Til þess þurfti miðevrópskan menntamann, sem auk þess stóð styrkum fótum í ríkulegri tónlistar- og menntamenningu gyðinga, sem segja má að hafi skipað óvenjustóran sess í Evrópu á síðustu áratugum 19. aldar og þeim fyrstu á 20. öldinni, eða fram að nasismanum. 

Þegar Róbert Abraham lést gegndi hann ýmsum embættum, þar á meðal var hann Söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar og dósent í litúrgíu, eða messu- og sálmasöngfræðum við guðfræðideild Háskóla Íslands, auk starfa sinna við tónlistina.

Heinz Edelstein – doktor í tónvísindum

Í Morgunblaðinu 13. janúar árið 1938 birtist lítil auglýsing svohljóðandi: „Nokkrir nemendur geta fengið kennslu í sellóleik við Tónlistarskólann, kennari Dr. Heinz Edelstein. Upplýsingar gefur skólastjórinn Páll Ísólfsson (sími 4645). Tónlistarskólinn.“

Á bak við þessa litlu auglýsingu býr örlagasaga heillar fjölskyldu, og í raun fjölda manna. Nefndur Dr. Heinz Edelstein var hámenntaður tónlistarfræðingur frá Þýskalandi. Hann var auk þess gyðingur. Nokkrum árum áður en hann fluttist hingað var farið að útiloka fólk af gyðinglegum uppruna frá öllum almennilegum störfum í Þýskalandi. Dr. Edelstein, sem var sellóleikari og auk þess doktor í tónvísindum, var á þessum tíma í Strengjasveit Ernst Druckers og drýgði tekjurnar með því að selja hreinlætisvörur. Strengjasveitin var eingöngu skipuð gyðingum, og mátti aðeins halda  tónleika fyrir aðra gyðinga. Launin nægðu hvergi til að framfleyta fjögurra manna fjölskyldu, þrátt fyrir aukapeningana fyrir sápusöluna. Heinz Edelstein vann því að því öllum árum að koma fjölskyldunni í burtu.

Fr. Fleischmann hafði kennt á selló við Tónlistarskólann í Reykjavík fyrsta starfsár hans, þ.e. 1930-31, en farið héðan að því loknu. Síðan var engin sellókennsla við skólann fyrr en starfsárið 1936-37, en þá var hér maður að nefni Hans Quiqueres sem sá um hana, líka aðeins um eins árs skeið. Haustið 1937 fór Lúðvík Guðmundsson þáverandi skólastjóri Handíðaskólans til Hamborgar, meðal annars til að svipast um eftir kennurum fyrir skólann. Það gerði hann að beiðni Ragnars í Smára en Ragnar var var einn af postulunum tólf sem staðið höfðu að stofnun Tónlistarfélagsins, sem rak í raun Tónlistarskólann í Reykjavík. Ragnar hafði beðið Lúðvík um að svipast um eftir manni sem gæti annast sellókennslu og séð um kammertónlist við Tónlistarskólann. Heinz Edelstein var staddur í Hamborg þetta haust og frétti af þessum manni sem héldi uppi spurnum um sellóleikara. Hann skundaði til fundar við hann vopnaður sellóinu sínu og eintaki af doktorsritgerðinni, sem fjallaði um skoðanir Ágústínusar kirkjuföður á tónlistinni. Hann var ráðinn á staðnum – án þess að pakka upp hljóðfærinu, og ritgerðin var ólesin.

Ekki mun Heinz Edelstein hafa litist á blikuna þegar hann kom hingað í svartasta skammdeginu í desember árið 1937 og hann reyndi allt hvað hann gat til að fá vinnu annars staðar. Hann fór aftur til Þýskalands árið eftir, en ástandið hafði heldur versnað þar en hitt. Hann fór aftur út til Íslands og fljótlega sendi hann eftir fjölskyldu sinni, konu sinni Charlotte, sem sjálf var með doktorspróf í hagfræði og sonunum Wolfgang og Stefáni. Fyrst eftir að þau fluttust hingað hokruðu þau í íbúð sem Ragnar í Smára hafði útvegað þeim fullri af sápukössum í húsgagna stað, sem óneitanlega var kalhæðnislegt fyrir gamla sápusalann. Eins og fyrir kraftaverk tókst systur Charlotte að koma búslóð þeirra í skip og þannig gátu þau fljótlega komið sér upp vistlegu heimili.

Edelstein kenndi fyrst um sinn sellóleik og kammertónlist við Tónlistarskólann. Hann varð einnig áberandi sem fremsti sellóleikari þjóðarinnar og spilaði víða, ýmist í litlum kammerhópum eða í hljómsveitum og þá var hann jafnan leiðari sellóanna. Fljótlega fór hann að finna fyrir því að kennslu vantaði fyrir yngri nemendur og undir stríðslok fékkst leyfi Tónlistarfélagsins til að stofna deild við Tónlistarskólann ætlaða þeim. Upp úr þeirri deild spratt síðan hugmyndin að Barnamúsíkskólanum því aðsókn að þessum tónlistarforskóla var framar öllum vonum. Heinz Edelstein tók þá á það ráð að ferðast til Þýskalands og Austurríkis til að kynna sér svipaða skóla í þessum löndum og hugmyndafræði að baki þeirra. Barnamúsíkskólinn, sem síðar fékk nafnið Tónmenntaskóli Reykjavíkur, var stofnaður árið 1952 af dr. Heinz Edelstein. Þetta var algert brautryðjendastarf hér á landi. Fyrst um sinn voru aðeins tveir kennarar við skólann, Heinz Edelstein og Róbert Abraham Ottósson. Þessi skóli var lengi vel eini tónlistaskólinn ætlaður börnum á Íslandi og stór hluti íslenskra tónlistarmanna og tónlistaráhugamanna hefur gengið í þennan skóla. Skólinn er ennþá í fullu fjöri undir styrkri stjórn Stefáns Edelstein, sonar Heinz.

Heinz Edelstein leist ekki á blikuna í upphafi dvalar sinnar hér, en samt fór það svo að hann bast landinu sterkum böndum. Hann tók upp á því, sem innlendum mönnum hefur líklega þótt hálf einkennilegt, að fara um landið fótgangandi og festi þannig ást á landinu. Honum auðnaðist þó ekki að búa á Íslandi til æfiloka, eins og hann þó helst vildi. Honum var ráðlagt af heilsufarsástæðum a flytja í mildara loftslag og það gerði hann árið 1957, en þá fluttist hann aftur til Freiburg í Þýskalandi. Hann hafði einhver áform um að flytja annaðhvort til baka til Íslands, eða flytjast til Ísraels, sem hlýtur að hafa verið fyrirheitna landið. Honum entist þó ekki aldur til þess, en hann lést árið 1959, aðeins 57 ára að aldri.

Victor von Urbantschisch – annar doktor í tónvísindum

Þegar Franz Mixa fluttist í burtu frá Íslandi sá hann að sjálfsögðu um að útvega eftirmann sinn (sjá grein I). Hann hafði séð þjóðinni fyrir ótal tónlistarmönnum á meðan hann dvaldi hér og átti eftir að halda því áfram löngu eftir að hann hvarf til annarra starfa í fæðingarborg sinni, Graz í Austurríki. Victor von Urbantschisch, doktor í tónvísindum og hljómsveitarstjóri fluttist hingað árið 1938. Eiginkona hans, Melitta, sem einnig var hámenntuð kona var af gyðingaættum og því var vistin í Austurríki að verða óþolandi. Hann tók því fegins hendi boðinu um stöðu fjarri evrópska brjálæðinu. Þegar hingað kom tók hann við störfum Mixa á öllum vígstöðvum tónlistarinnar, kennslunni í Tónlistarskólanum og hljómsveitarstjórn, en auk þess varð hann fljótlega organisti og kórstjóri við Landakotskirkju og gegndi þeirri stöðu til dauðadags.  Hann var auk þess tónskáld, en hér á landi hafði hann lítinn tíma til að sinna því og því eru flest verka hans frá árunum fyrir 1938.

Victor von Urbantschisch breytti rithætti á nafni sínu fljótlega eftir komuna til Íslands í Victor Urbancic, til að innfæddir ættu auðveldara með að lesa úr því og bera rétt fram.

Urbancic var hálærður maður á sviði tónlistar. Hann hafði lokið doktorsprófi aðeins 22 ára gamall og skrifað lokaritgerð sína um sónötuformið í verkum Brahms sem enn er getið sem undirstöðurits um efnið þótt langt sé um liðið. Hann lagði einnig stund á nám í hljómsveitarstjórn og tónsmíðum hjá mjög virtum kennurum og var ágætis píanóleikari og organisti. Eftir að hann lauk námi gegndi hann stöðu hljómsveitarstjóra við ýmis fræg óperuhús, í Mainz í Þýskalandi, í Belgrad í Serbiu og Graz í Austurríki. Hann kenndi auk þess píanóleik og hljómfræði við Tónlistarháskólann í Graz. Ekkert benti því til annars en að hans biði glæstur ferill á hinum ýmsu sviðum tónlistarinnar í Asturríki, þegar fótunum var kippt undan þessu öllu með nasismanum, því þótt Urbancic væri sjálfur kaþólskur var kona hans Melitta af gyðingaættum.

Það var sérstök gæfa fyrir okkur að fá hann hingað, enda gekk hann strax í öll möguleg störf í tónlistinni, rétt eins og Fanz Mixa, fyrirrennari hans hafði gert. En óneitanlega leitar stundum á mann hvernig líðan þessara sprenglærðu kúlturmanna hefur verið hér á landi fyrst eftir komu þeirra hingað. Hér var ekkert til, ekki almennileg hljómsveit, ekkert tónleikahús og raunar ótrúlegt að það skuli fyrst núna standa til bóta, nærri 70 árum síðar. Sjálfur átti hann þátt í að koma hljómsveitinni til manns.

Þegar Victor Urbancic kom til landsins var nærri engin hefð fyrir blönduðum kórum á Íslandi. Helsta ástæða þess var ákaflega sterk karlakórahefð, sem olli því að varla fékkst nokkur karlmaður í blandaðan kór. Þetta vandamál var gjarnan leyst með því að manna karlaraddir á síðustu stundu með heilu karlakórunum; t.d. voru karlaraddir Þingvallakórsins sem stofnaður var í tilefni Alþingishátíðarinnar fengnar með því að karlakórinn Fóstbræður gekk til liðs við hann í heilu lagi. Þessu breytti Urbancic. Fyrsta stóra verkefni hans eftir komuna hingað var að stjórna Hljómsveit Reykjavíkur ásamt rúmlega 50 manna kór á hátíðartónleikum sem haldnir voru í tilefni af því að 20 ár voru liðin frá því að Ísland varð fullvalda árið 1918. Hann hafði mjög stuttan tíma til æfinga og efnisskráin var að miklu leyti verk sem hann hafði aldrei séð áður, eftir íslensk tónskáld, og auk þess sungin á íslensku. Hann þurfti því bæði að læra verkin og framburð tungumálsins. Þarna lagði hann grunninn að því sem koma skyldi og hann átti eftir að æfa og flytja ótrúlegustu verk. Árið 1943 æfði hann stytta útgáfu af Jóhannesarpassíunni eftir J.S.Bach og í ofanálag fékk hann þá stórkostlegu hugmynd að setja Passíusálma Hallgríms Péturssonar og sálma ýmissa annarra íslenskra 17. aldar skálda við verkið. Það hefur verið ærin vinna að fella textana að verkinu, auk þess að skrifa út alla parta, en þetta gerði Urbancic allt saman og vann við það ótrúlegt þrekvirki. Hann stjórnaði fyrstur manna ótrúlega mörgum perlum tónbókmenntanna með kór og hljómsveit hér á landi. Þetta gerði hann allt með lítilli og ófullkominni hljómsveit og fyrstu árin með alls óvönu söngfólki. Auk þess var allt þetta starf unnið með fullri kennslu við Tónlistarskólann.

Þjóðleikhúsið var vígt árið 1950 og opnunarsýningin var Nýársnóttin eftir Indriða Einarsson. Victor Urbancic stjórnaði tónlistinni og hann stjórnaði einnig frægri uppfærslu á Rigoletto eftir Verdi ári síðar. Ári 1953 var hann svo ráðinn kór- og hljómsveitarstjóri hússins. Þetta var gert í óþökk Tónlistarfélags Reykjavíkur, sem hafði staðið fyrir komu hans til landsins 15 árum áður og vildi sitja eitt að kröftum hans. Stóð nokkur styr um þetta í langan tíma, helst milli Þjóðleikhússtjóra og Tónlistarfélagsins og tók sinn toll af Urancic, því hann mun hafa tekið þetta nærri sér. Hann hafði starfað við virt óperuhús í Evrópu áður en hann kom hingað og greinilegt að hann hafði ást á listforminu og því haft einlægan áhuga á að starfa hjá húsinu. Hins vegar má segja það Tónlistarfélaginu til málsbóta að til hafði staðið að Þjóðleikhúsið tæki þátt í rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar þegar hún var stofnuð árið 1950, en ekkert varð af því. Því óttaðist félagið að þetta kæmi niður á starfsemi hinnar nýstofnuðu hljómsveitar. Ekki verða þessar deilur raktar hér frekar, en þær virðast hafa verið nokkuð harðar og stóryrði fuku á báða bóga.

Victor Urbancic varð ekki langlífur maður. Hann lést fyrir aldur fram á föstudaginn langa árið 1958 eftir tuttugu ára veru hér á landi, aðeins 54 ára gamall. Hann skilaði hins vegar æfiverki sem venjulegt fólk vinnur á mun lengri tíma, en kannski það útskýri að einhverju leyti skammlífi hans.

Breytingarnar sem urðu við komu þessara þriggja manna voru gagngerar. Allt í einu var kennaralið Tónlistarskólans aukið með þremur hámenntuðum tónlistarmönnum og skólinn því skyndilegar orðinn eins og þýskur tónlistarháskóli i hæsta gæðaflokki, því auk þeirra þremenninganna bættist Björn Ólafsson í hópinn haustið 1939 og Árni Kristjánsson var einn af helstu píanókennurum skólans. Íslenskir tónlistamenn á miðjum aldri hafa allir notið góðs af kröftum þessara snillinga. Öll upprennandi tónskáld þjóðarinnar sóttu tíma í tónsmíðum, tónfræði og/eða tónlistarsögu hjá annaðhvort Victori Urbancic eða Róbert Abraham eftir að hann fór að kenna við Tónlistarskólann. Heinz Edelstein skólaði hljóðfæraleikarana í kammertónlist auk þess sem hann kenndi á selló, og sá svo til þess að næsta kynslóð fengi menntun við hæfi frá blautu barnsbeini.

Strax eftir síðari heimsstyrjöldina fóru síðan að koma hingað menn sem voru á annars konar flótta. Evrópa var í rústum eftir stríð og þá sérstaklega hin þýskumælandi lönd. Hér var hins vegar mikil uppbygging á öllum sviðum og Ísland var auk þess á leiðinni með að verða aðalstoppistöð allra sem flugu yfir Atlantshafið. Hér héldu því margar af skærustu stjörnum tónlistarheimsins tónleika.

Við munum skoða þessi ár nánar í næstu grein.


Höfundur lauk BA-prófi í tónlistarfræði frá LHÍ vorið 2005 og starfara í Ríkisútvarpinu.

Greinin birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins, laugardaginn 21. apríl 2007.


Heimildir

 • Bjarki Bjarnason: Tónlist og tónlistarmenn á Íslandi,  Sinfóníuhljómsveit Íslands,  Saga og stéttartal, Reykjavík: Sögusteinn, 2000.
 • Bjarki Sigurbjörnsson: Tónlist á Íslandi á 20. öld: Árin 1930-60, <http://www.ismennt.is/not/bjarki/Phd/Sidur/11-26.html>.

 • Eggert Þór Bernharðsson: Saga Reykjavíkur, Borgin, 1940-1990, Fyrri hluti, Reykjavík: 1998.
 • Félag íslenzkra hljómlistarmanna 50 ára, Tónamál, nr. 15, Reykjavík: 1982.
 • Guðrún Egilson: Spilað og spaugað: Rögnvaldur Sigurjónsson leikur af fingrum fram, Reykjavík : Almenna bókafélagið, 1978. 
 • Guðjón Friðriksson: Saga Reykjavíkur, Bærinn vaknar, 1870-1940, Síðari hluti, Reykjavík: Iðunn, 1994.
 • Gunnar Egilson: Saga Sinfóníuhljómsveitarinnar: sjá vef hljómsveitarinnar; <http://sinfonia.is/default.asp?page_id=2047>.
 • Páll Kr. Pálsson:  Tónlistarsaga, ágrip. Hafnarfjörður, 1983.
 • Úr greinasafni Morgunblaðsins:
  • Árni Heimir Ingólfsson:
   • Á flótta undan hakakrossinum 1. hluti, Victor Urbancic, Lesbók Morgunblaðsins, 07.07.2001.
   • Á flótta undan hakakrossinum 2. hluti, Heinz Edelstein, Lesbók Morgunblaðsins, 14.07.2001.
   • Á flótta undan hakakrossinum 3. hluti, Róbert Abraham Ottósson,Lesbók Morgunblaðsins21.07. 2001.
  • Victor Urbancic; minningargreinar 10. apríl og  27. nóvember 1958.
  • Heinz Edelstein, minningargarein  8. nóvember 1959.
  • Róbert Abraham Ottósson, minningargrein 20.mars 1974.
  • Hávar Sigurjónsson: Tónmenntaskóli Reykajvíkur 50 ára; 16. apríl 1992.
 • Þór Jónsson Á valdi örlaganna: Æviminningar maestro Sigurðar Demetz óperusöngvara Reykjavík: Iðunn, 1995.

 ©  2007  Músa