Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 9. nóv. 2004

Þankar um tónlist *

Hjálmar H. Ragnarsson, rektor Listaháskóla Íslands
<hjalmar@lhi.is>

Hjálmar H. RagnarssonÁ skýringarblaði fyrir nemendur mína í tónlistarsögu reyndi ég með alls konar pírumpári að sýna með skýrum en einföldum hætti hverjar hefðu verið helstu hræringarnar í tónlist þessarar aldar. Blaðið var skrautlegt enda af mörgu að taka: impressjónismi, áhrif frá austrænum menningarsvæðum, nýþjóðleg tónlist, djass, tónlist með pólitískan tilgang, víkkun tóntaksins/ómstríð fjölröddun/fjölbreytilegra hljóðfall, nýklassík, síðari Vínarskólinn/expressjónismi/atónalismi/tólfónatónlist, ný og framandi hljóðfæri, - og á síðari hluta aldarinnar m.a: raftónlist/tölvutónlist, röðunartækni (fullkomin stýring á öllum þáttum tónverksins), aðferðir náttúruvísindanna, að beisla tilviljanir/óreiðuna, gjörningar/músíkleikhús, horft til miðalda, áhrif frá Austurlöndum, rokkið lemur á dyrnar, síbyljutónlist, hentitónlist, o.s.frv. Neðst á blaðinu er svo spurt: „Allt er mögulegt?“

Af þessari upptalningu mætti ætla að aldrei fyrr hafi ríkt önnur eins gróska í tónsköpun og nú. Eflaust er það líka rétt, en hvort þessi mikla gróska hafi leitt eða muni leiða til sköpunar varanlegra verðmæta er ekki endilega sjálfgefið. Það er ef til vill of snemmt að meta tónlist þessarar aldar í samanburði við fyrri tíma, en ég leyfi mér þó að nefna þrjú atriði sem ég tel að hafi öðrum fremur hamlað lifandi tónsköpun á okkar tímum, jafnvel kæft hana. Í fyrsta lagi er það oftrúin á mátt vísindalegra aðferða, í öðru lagi krafan um nýstárleika, og síðast en ekki síst nefni ég þá staðreynd að tónsmiðir á síðustu tímum hafa ekki átt sér sameiginlegt tungutak í list sinni. Þessi atriði eiga sér öll sögulegar og samfélagslegar skýringar og þau eiga sér enduróm í greinum alls óskyldum tónlistinni.

- - - - -

Okkar öld hefur gengið veg efnishyggjunnar og hefur trúin á tækniframfarir mótað líf fólks í stóru sem smáu. Í blindu á mátt náttúruvísindanna fóru menn að yfirfæra lögmál þeirra á önnur og ólík svið, svo sem á hugvísindi og listir. Þetta hefur haft skelfilegar afleiðingar í för með sér sem okkur eru nú loksins að verða ljósar. Nefni ég í þessu sambandi Marx - Lenínismann, sem svo sannarlega var studdur „vísindalegum“ rökum, og einnig hina Freudísku sálgreiningu sem vegna síns vísindalega yfirbragðs hlaut ótakmarkaða tiltrú í hinum vestræna heimi. Þetta hvort tveggja byggir á kenningum sem færðar voru í flókin kerfi og síðan útfærð og keyrð í gegn af þeim krafti er þeir einungis hafa, sem firrtir eru almennu siðferði og trúa því að sannleikurinn sé þeirra.


Í tónsmíðunum höfum við átt okkar „stóra sannleik“ sem varpað hefur dimmum skugga yfir öldina. Hann byggir á kenningunni um jafngildi tónanna og hefur ýmist gengið undir nafninu tólftónatónlist eða raðtónlist. Eins og með kenningar Marx og Freuds þá eru kenningarnar um jafngildi tónanna ekki skaðlegar í sjálfu sér. Þær urðu það hins vegar þegar hópar manna fóru að trúa á þær sem kennisetningar og byggja í kringum þær kerfi sem í öllum atriðum var samkvæmt sjálfu sér. Kerfið varð skothelt og það stóðst „vísindalegar prófanir.“ Það sem hins vegar ekki stóðst voru sjálfar afurðirnar, sem yfirleitt voru litlaus samsetningur og óspennandi. Það góða við þetta alræðiskerfi var aftur á móti að það kallaði á andóf þeirra sem ekki vildu hlýða því. Tónlist tuttugustu aldarinnar ber einmitt skýr merki þessa.

Tilraunir, eins og við venjulega skiljum þær, þurfa að byggja á vísindalegum grunni. Þær eru einskis verðar nema þær leiði eitthvað nýtt og áður óþekkt í ljós. Eins og gefur að skilja var ekki alltaf auðvelt fyrir tónskáldin að klæða tónsmíðaviðleitni sína vísindalegum búningi, en þau reyndu svo sannarlega og var þeim þá ekki síst hjálp í flóknum og orðmörgum útskýringum sem fylgdu verkum þeirra. Til þess að tónverk hefði eitthvert vísindalegt gildi var hins vegar ekki nóg að það væri flókið og illskiljanlegt heldur þurfti það einnig að vera áberandi frumlegt og engu öðru líkt. Það var á færi fárra að uppfylla þetta skilyrði svo menn annaðhvort brugðu fyrir sig ólíklegustu skringilegheitum til þess að rugla áheyrandann í ríminu eða menn tengdu á einhvern hátt verk sitt utanaðkomandi hugmynd, hlut eða jafnvel sögu. Afleiðingin varð sú að menn fóru að einblína á yfirbragð verksins og áferð í stað þess að skerpa tónhugsun sína og hljómfallsskynjun. Krafan um nýstárleika kom í stað kröfunnar um endurnýjun, og í kjölfarið hrönnuðust „tilraunasmíðarnar“ upp, hver annarri meðalmennskulegri.

Þegar allt kemur til alls hefðu tónsmiðirnir getað staðið af sér allar grillur og kreddur ef þeir aðeins hefðu haft sameiginlegt tungutak í list sinni, - tungutak sem væri þeim sjálfum lifandi uppspretta og jafnframt skiljanlegt því fólki sem er vinsamlegt listinni. Gamla þríhljómakerfið byggir einmitt á slíku tungutaki, enda gaf það af sér hverja meistarasmíðina á fætur annarri. Þríhljómakerfið þurfti auðvitað endurnýjunar við, og það var með slíkt í huga að gáfuðustu menn fundu upp aðferðirnar til þess að gera alla tónana jafngilda. Aðferðirnar leiddu til kenninga og kenningarnar til kerfa. Gallinn var bara sá að nýja kerfið byggði ekki á tungutaki sem mönnum var eiginlegt, og leiddi þetta til þess að raðtónlistin varð eins konar esperantó nútímans, - áhugavert og lógískt, einfalt í notkun en steindautt. Raðtónlistin, ólíkt esperantóinu, varð hins vegar mjög fyrirferðarmikil og það svo að þeir sem ekki á einn eða annan hátt gengust inn á forsendur hennar urðu utanveltu, og verk þeirra ýmist ekki flutt eða þá hlegið að þeim. Það eru einmitt verk þessara utangarðsmanna sem við metum hvað mest í dag.

Þegar fjaraði undan raðtónlistinni og menn fóru almennt að skynja tilgangsleysi eilífrar tilraunastarfsemi uppgötvuðu tónskáldin að þau áttu sér ekki lengur sameiginlegt tungutak. Menn urðu að bregða á það ráð að semja á eigin prívat máli þó svo að það væri borin von að fólk almennt nennti að tileinka sér nýtt tungutak fyrir hverja tónsmíð. Frelsið varð aftur á móti algjört, - og ......  „Allt varð mögulegt.“

- - - - -
Fyrir tæpum tíu árum varpaði ég fram þeirri getgátu hvort við værum ef til vill að nálgast eitthvað í tónlistinni, sem kalla mætti sameiginlegt tungutak. Vísaði ég þá til þess að slíkt tungutak hefði skapað þann sameiginlega skilning, sem gerði smíði meistaraverka klassíska tímabilsins mögulega. Ég er ennþá þess sinnis að í þessari getgátu felist sannleikskorn þó svo að fyrir því hafi ég bara óljósa tilfinningu en engar áþreifanlegar vísbendingar.

Ég sé fyrir mér að úr allri óreiðunni og bullinu muni smám saman skapast nýr skilningur á gildi tónanna og tengslum þeirra, og menn muni öðlast nýja löngun til þess að heyra tónana kljást hver við annan í atburðaríkri framvindu. Til þess að svo verði verðum við þó fyrst að skafa af tónsmíðunum alla tilgerð og leikaraskap, leyfa sköpunarkraftinum að fá útrás eftir þeim leiðum sem hann sjálfur leitar í, og við þurfum að byggja upp nógu mikið sjálfstraust til þess að gera bæði í senn: fara eigin leiðir og halda í heiðri sameiginleg gildi.

Draumurinn er að geta í tónlistinni talað hindrunarlaust saman og þannig skapað forsendur fyrir smíði glæstra verka sem hefja okkur til hæstu hæða. Það er auðvitað það sem okkur tónskáldin langar mest til, þó svo í uppgerðarhæversku við berum einhverju öðru við. Draumar gefa okkur afl til afreksverka og þeir kynda undir voninni um að við komumst til nýrra stranda. En látum okkur ekki bara dreyma heldur leggjum við hlustir, því hver veit nema einmitt núna heyrist ómurinn af tónlistinni sem sprottin eru úr tungutakinu sem við, bæði þú og ég, eigum einhvern tímann eftir að eiga saman.


Ísafirði, febrúar 1994

Hjálmar H. Ragnarsson* Greinin birtist fyrst í tónleikaskrá CAPUT-hópsins 1994 þegar hópurinn stóð fyrir 5 tónleika röð í samvinnu við Kjarvalsstaði. Greinin vakti talsvert umtal og sýndist sitt hverjum. Staðhæfingar á stoða var yfirskrift greinar sem Atli Heimir Sveinsson skrifaði í Lesbók Morgunblaðsins 11. júní 1994. Kolbeinn Bjarnason og Finnur Torfi Stefánsson blönduðu sér líka í umræðuna; pistla þeirra verða birtir síðar. (Jón Hrólfur)


 ©  2004  Músa