Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 16. apríl 2007
Kvæðalag Jónasar Hallgrímssonar

Gunnsteinn Ólafsson
<gol at ismennt.is>

Gunnsteinn ÓlafssonÁ þessu ári er þess minnst að 200 ár eru liðin frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar. Jónas skrifaði frægan ritdóm í Fjölni árið 1837 er hann stóð á þrítugu, þar sem hann er sagður hafa gengið af rímnakveðskap Íslendinga dauðum. Í dómnum gerði hann lítið úr Rímum af Tristran og Indíönu eftir Sigurð Breiðfjörð, einn helsta meistara rímnakveðskapar 19. aldar. Þar kallaði hann rímur kveðskap en ekki skáldskap og sagði að eins og þær væru kveðnar á Íslandi væri það til aðhláturs um alla veröldina. Hann fann sem sagt ekki aðeins að innihaldi rímna heldur einnig að því hvernig þær væru fluttar. Af þessu mætti ætla að Jónas hafi ekki verið gefinn fyrir rímnasöng, allra síst fengist við hann sjálfur. Margt bendir þó til hins gagnstæða.

Á 19. öld var rímnakveðskapur svo vinsæll á Íslandi, einkum á Norðurlandi, að með ólíkindum má teljast. Svo til hver maður átti sér uppáhalds kvæðalag sem hann greip til ef kveða þurfti vísu. Oft nægði að kunna eina stemmu því laga mátti hana að þeim bragarhætti sem í notkun var hverju sinni. Til voru þeir sem höfðu lífsviðurværi sitt af því að ferðast á milli bæja og kveða fyrir heimilisfólk á kvöldvökum. Á 19. öld er vitað um afburða kvæðamenn á borð við Árna gersemi Árnason á Laxárdal fremri,  Guðrúnu dillihnúðu Þorsteinsdóttur í Bárðardal og svo mætti lengi telja. Góðir kvæðamenn voru hvarvetna aufúsugestir. Þeir voru skemmtikraftar síns tíma. Það var ungum drengjum kappsmál að kunna að kveða og stúlkum reyndar líka, þrátt fyrir að mörgum þætti það ekki við hæfi að kvenfólk kvæði rímur. Vísur urðu til um allar sveitir og kvæðalögin skiptu þúsundum. Benedikt á Auðnum skrifar í upphafi 20. aldar: „Manna á milli gengur svo mikill urmull af kvæðalögum með óteljandi tilbreytingum, að manni liggur við að sundla í því flóði.“

Kvæðalag Jónasar HallgrímssonarHandrit sr. Bjarna Þorsteinssonar, varðveitt á Stofnun Árna Magnússonar. Mynd: JÓL

Til þess að reyna að fá einhverja mynd af tónlistaruppeldi Jónasar er nauðsynlegt að skoða hvar hann ól manninn í æsku. Hann fæddist að Hrauni í Öxnadal árið 1807 en flyst ársgamall með fjölskyldu sinni að Steinsstöðum, skammt frá Hrauni. Þegar Jónas er níu ára drukknar faðir hans sem kunnugt er og drengnum er komið í fóstur til móðursystur sinnar í Hvassafelli, innst í Eyjafirði. Jónas er í Hvassafelli að því er virðist fram að fermingu en þá er hann aftur skráður til heimilis að Steinsstöðum hjá móður sinni. Veturinn 1819-20 er honum komið í læri hjá Jóni Jónssyni „hinum lærða“ í Möðrufelli, skammt frá Hvassafelli, þar sem hann er einn vetur og síðan aðra tvo hjá tengdasyni Jóns, sr. Einari Thorlacius í Goðdölum í Skagafirði. Þaðan heldur Jónas til náms að Bessastöðum.

Jónasar er nokkrum sinnum getið í þjóðlagasafni sr. Bjarna Þorsteinssonar frá 1906-1909. Árið 1897 leitaði sr. Bjarni til Páls Melsteð, fyrrum alþingismanns og sýslumanns, um gömul þjóðlög. Þeir Páll og Jónas voru um tíma saman í Bessastaðaskóla og varð vel til vina; segir Páll í ævisögu sinni að Jónas hafa verið mikill söngmaður. Því til stuðnings kvað hann kvæðalag Jónasar fyrir sr. Bjarna, svokallað Eyfirðingalag. Jónas hefur með öðrum orðum átt sitt eigið kvæðalag líkt og svo margir aðrir. Á öðrum stað í þjóðlagasafninu er stemma frá Páli Hallgrímssyni í Möðrufelli í Eyjafirði nóterað af sr. Bjarna árið 1898, Þessi penni þóknast mér. Lagið er kennt við Tómas Ásmundsson hreppstjóra á Steinsstöðum, mág Jónasar Hallgrímssonar og afa Páls í Möðrufelli. Einar Thorlacius lærifaðir Jónasar í Goðdölum hafði mikinn áhuga á fornminjum og skáldskap og því er ekki ólíklegt að hann hafi haft gaman af fornum þjóðlögum. Í þjóðlagasafninu er líka eitt lag sem alnafni hans og barnabarn, sr. Einar Thorlacius prestur á Hvalfjarðarströnd söng, Svo vil ég svefnfús. Lagið er að vísu austan af landi en ber engu að síður vitni um tónlistaráhuga í fjölskyldunni að Goðdölum. Á Bessastöðum var vitanlega gríðarlega mikið sungið. Í þjóðlagasafninu tilgreinir Páll Melsteð 50 íslensk þjóðlög sem höfð voru um hönd á námsárum þeirra Jónasar á Bessastöðum, þar á meðal allmörg tvísöngslög.

Greinilegt er að söngur hefur skipað veigamikinn sess í lífi Jónasar Hallgrímssonar. Honum stóð ekki á sama um hvernig að honum var staðið. (Sjá t.d. ljóð Jónasar um forsöngvarann Þorkel þunna.) Hvar sem hann dvaldi í æsku var mikill áhugi á söng og kveðskap, ekki síst á rímnasöng. Hann hefur drukkið vísurnar og kvæðalögin í sig og vitanlega tekið virkan þátt eins og kvæðalag hans ber vitni um. Þegar skáldið kynnist nýrri tónlist og annarskonar söng í Danmörku breytist afstaða hans til söngmáta Íslendinga, ekki síst til rímnasöngsins. Jónasi finnst betur sungið ytra en að vissu leyti fellur hann í þá gryfju að bera saman appelsínur og epli; að kveða er alls ekki það sama og að syngja. Í söng, skóluðum á evrópska vísu, er hrynjandin stöðug, tónarnir markvissir og lagið alltaf eins í hverju erindi. Í rímnasöngnum var hrynjandin hins vegar síbreytileg, tónarnir flöktandi, oft með dilli eða skrauti, jafnvel fjórðungstónbilum og erindin aldrei alveg eins. Afstaða Jónasar til rímnanna er merkileg vegna þess að hann hafði sjálfur stundað rímnasöng; tónlistin sem þjálfaði rödd skáldsins og slípaði tón- og brageyra þess er í ritdómi hans í Fjölni orðin „þjóðinni til minnkunar“, rímnasónninn í baðstofunni heima á Steinsstöðum orðinn „til ævarandi spotts og aðhláturs um alla veröldina“. En þetta álit Jónasar stafaði ekki af hroka menntamannsins gagnvart menningu alþýðunnar; þetta var uppgjör kvæðamanns við fortíð sína og tónlistaruppeldi í æsku.

Höfundur er tónlistarmaður.

Greinin birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins, laugardaginn 14. apríl 2007.


Heimildir

  • Bjarni Þorsteinsson: Íslensk þjóðlög.
  • Guðmundur Andri Thorsson: „Ónytsamlegu kveðlingar“. Silfurplötur Iðunnar.
  • Handrit sr. Bjarna Þorsteinssonar á Stofnun Árna Magnússonar.
  • Hannes Pétursson: Kvæðafylgsni.
  • Jónas Hallgrímsson: Ljóð og lausamál. Svart á hvítu, Reykjavík 1989.
  • Páll Valsson: Jónas Hallgrímsson, Ævisaga.
  • Vefur Landbókasafns Íslands – Háskólabókasafns um Jónas Hallgrímsson.


 ©  2007  Músa