Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 21. jan. 2007
Óperunostalgía
viðbrögð við grein Árna Tómasar Ragnarssonar „Óperur fyrir æ færri

Gunnar Guðbjörnsson
<gudbjornsson at internet.is>

Gunnar GuðbjörnssonMig rak í rogastans þegar ég las grein Árna Tómasar Ragnarssonar í Lesbók Morgunblaðsins sl. laugardag.  Ekki liðið ár síðan Íslenska Óperan veitti móttöku Íslensku Tónlistarverðlaunanna fyrir  Tökin Hert  þegar einn af aðal óperuáhugamönnum landsins lýsir vantrausti á stefnu hennar. Sem hvatamaður núverandi stefnu, með það að leiðarljósi að ópera er ekki aðeins skemmtun heldur listform, sé ég mig knúinn til að til að halda uppi vörnum.  

Árni Tómas dregur í efa að listræn stefna ÍÓ sé ákjósanleg og birtir áratuga gamlar aðsóknartölur sýninga fyrri stjórnenda. Þær eru sannarlega glæsilegar en segja ekki alla söguna.

Leikhús á Íslandi forðast að einskorða sig við verkefni  til gulltryggðar aðsóknar. Uppfærslur eru ekki réttlættar með aðsókn einni saman. Bókaútgefendur einskorða sig ekki bara við glæpasögur af því þær seljast vel og útgefendur tónlistar eru ekki ofurseldir því að gefa út diska sem komast á vinsældarlista. Listum er nauðsynlegt að þróast og takast á við áskornir.Ef aldrei er veðjað á óþekktar stærðir sætum við endalaust uppi með sömu listamennina og einslita listsköpun.

Árna Tómasi er tíðrætt um “Jón og Gunnu” sem flykktust í þúsundum í óperuna fyrir 15-25 árum síðan. Óperustarfsemi þess tíma var háð mikilli aðsókn. Styrkirnir lágir og húsið varð að vera fullt.  Verkefni einskorðuðust við vinsæl óperuverk. Skemmtanaiðnaður fábrotinn og einstakir atburðir af skornum skammti, leikhúsin færri eins og sjónvarpsstöðvarnar og internetið ókomið. Ríkustu íslendingarnir létu sér nægja að halda afmæli sín án alþjóðlegra tónlistarmanna.

Margir íslenskir óperusöngvarar starfa nú  mest erlendis. Ábending Árna um innflutning söngvara lýsir lítilli þekkingu á óperumálum Íslendinga þó áhuginn sé ærinn. Í árdaga ÍÓ var fjöldi sýninga ákveðin í samræmi við sölu. Minnkaði salan var snarlega hætt.  Söngvararnir okkar að utan fengust sjaldan til starfa þ.s. ekki komu nægir fjármunir í kassann til að borga þeim. Í dag þarf  ÍÓ að tryggja söngvurum sýningafjölda og gæta þess að þeir líði ekki tekjutap frá störfum erlendis. Slíkt er kostnaðarsamt.  Enn eigum við ekki slíkan fjölda að við getum skipt út söngvurum til að halda úti langtímaverkefnum svo auðvelt sé. Allir sem að sýningum koma fá jafnframt laun fyrir störf sín. Kostnaður við 30-40 sýningar er því óhugsandi hár. Ef sýning er fjölmenn er tap á henni í dag þó uppselt sé. ÍÓ sýnir óperur 6-12 sinnum að jafnaði. Það er sá fjöldi sem fjárhagslega eru framkvæmanlegur. Munnmælasögur og gagnrýni kemur yfirleitt sölu í gang eftir 3-5 sýningar.  Ómögulegt er að sjá fyrir sölu á uppfærslum eins og dæmin sýna.

Skoði maður fyrrnefndar forsendur á að vera ljóst að óskir Árna Tómasar um endurhvarf til hinna gömlu góðu tíma eru varla raunhæfar. Fjöldi sýninga yrði aðeins til að auka kostnað við hverja uppfærslu.  Fullyrðing Árna um að tengsl séu milli verkefnavals og sýningafjölda í ÍÓ standast því tæplega.

Margar af vinsælustu óperunum krefjast jafnframt flókins sviðsbúnaðar, t.a.m. Aida, og ætti öllum að vera ljóst að þar er ÍÓ mikil takmörk sett.  Íslendingar fara nú utan í mun meiri mæli en áður, sjá þar glæsisýningar í tæknilega vel búnum húsum.  Það er því ljóst að auður okkar litla óperuhúss er falinn í því fólki sem þar starfar.  Sýningin á Tökunum er vafalaust skírasta dæmið um það. Enn ein staðreyndin rennir stoðum undir verkefnaval ÍÓ, verkefnin verða að henta leikhúsinu sem sýnt er í og það gera óperur á borð við Brottnámið, Öskubusku, Flagarann, Cavalleria  Rusticana og Ariadne auf Naxos.  Ég fæ ekki betur séð en valið sé af kunnáttu því allar óperurnar sóma sér vel á sviðsmynd sem haldast út sýningu og færri flytjendur takmarka fastakostnað. Hús búið fullkomnum sviðsbúnaði og með fleiri sætum mun breyta þessari stöðu ÍÓ í hag og þá mun hugsanlega vera hægt að flytja “vinsælu óperurnar” aftur í meira mæli.

Meðalaldur gesta í ÍÓ hefur  alltaf verið hár eins og í Þjóðleikhúsinu.  Stofnanirnar eru að bregðast við þessari staðreynd með breyttum áherslum.  Nauðsynlegt  er að byggja upp nýja kynslóð áhorfenda.  Varla verður beitt sömu aðferðum og áður.  Kynslóðin sem ólst upp við Ríkisútvarpið eitt útvarpsstöðva(þ.e. “Jón og Gunna”) nýtur ekki endalaust við. La Boheme og Rigoletto eru ekki lengur fjölskylduvinir sem áður frekar en Guðmundur Jónsson, Kristinn Hallsson eða Guðrún Á. Símonardóttir.  Ný kynslóð óperugesta fæðist aðeins með breyttum aðferðum.

Evrópskum óperuforkólfum hefur tekist vinna gegn neikvæðri þróun óperulistarinnar á síðustu árum. Ópera þykir nú jafnvel spennandi listform og helstu leikhúsmenn Þýskalands líta á það sem upphefð að setja óperur á fjalirnar. Íslenski Dansflokkinn  hefur verið óhræddur að fylgja þjóðfélagslegum breytingum og skipt út Hnotubrjótnum fyrir nútímaballett. ÍÓ gengur ekki svo langt en sýnir að listformið er jafnlifandi á Íslandi og það er annars staðar í Evrópu.

Ég var þáttakandi í uppfærslu ÍÓ á Tökin Hert. Gestir undruðust þar ekki síst þá staðreynd hve heillandi ópera er sem leikhús.  Árni Tómas telur uppfærsluna á Flagara í framsókn sem nú er í undirbúningi eiga litla möguleika á góðri aðsókn. Hvort Tökin eru vinsælli ópera  en Flagarinn læt ég ósagt. Almannarómi tókst þó að koma því til leiðar að síðustu sýningarnar á Tökunum seldust vel. Flagarinn á  erindi til breiðari hóps en Tökin og líklegra til að höfða til almennings.  Tónlist Stravinskis er sterk og í þessu verki skrifar hann í nýklassískum stíl, hlöðnum laglínum. Samtöl tvinnuð inn með tónlesi líkt og í óperum Mozart. Flagarinn var sýndur í Lyon er ég var þar fastráðinn  fyrir 10 árum og nú sé ég nýja uppfærslu auglýsta þar á vordögum, væntanlega fyrir fullum sal eins og í fyrra skiptið. Hví eiga Íslendingar ekki rétt á að sjá þessa óperu frekar en þriðju eða fjórðu uppfærsluna af Carmen eða La Traviata?

Uppfærsla ÍÓ verður full af lífi og fjöri og ég er sannfærður um að hvorki “Jóni né Gunnu” mun leiðast og þaðan af síður Söru Dögg eða Veigari Snæ. Auðvitað vill fólk sjá klassísku óperurnar sýndar hér á landi. Fullyrðing þess efnis að ÍÓ sinni því ekki er röng enda hófst starfsárið á Brottnámi Mozarts og það síðasta verður Cavalleria Rusticana. Árni segir ÍÓ hafa aðeins flutt 4 “vinsælar” óperur frá árinu 2000. Í mínum bókum telst að sýna óperurnar Brottnámið úr kvennabúrinu, Öskubuska, Hollendingurinn Fljúgandi og Cavallaria Rusticana ekki til sérstakrar framúrstefnu. Fullyrðing um að stefna fyrri stjórnar hafi leitt af sér 2 uppfærslur á ári af vinsælum óperum er einnig ónákvæm en á <opera.is> er listi yfir allar uppfærslur ÍÓ frá upphafi.

Þegar ÍÓ hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin átti ég því láni að fagna að fá að veita þeim móttöku.   Ég notaði það tækifæri til að þakka Bjarna Daníelssyni og stjórn ÍÓ fyrir það hugrekki að leyfa óperunni að fá að vera meira en skemmtun, nefnilega listform.  Ég vil enn og aftur ítreka þakkirnar og vona að sú stefna verði áfram rekin þar á bæ.


Höfundur er óperusöngvari.

Greinin birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins, laugardaginn 27. janúar 2007.


 ©  2007  Músa