Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 7. ágúst 2007
Væntingar og vonbrigði – Tónlistarhús í Reykjavík

Guðni Björn Valberg

Guðni Björn Valberg Þrátt fyrir mikinn áhuga á tónlist, fjölda tónleika og verulegan áhuga landsmanna á tónlistarflutningi hefur gengið erfiðlega að koma upp ásættanlegu tónlistarhúsi í Reykjavík. Í þessari grein rekur Guðni Björn Valberg þá sögu auk þess sem hann ber saman byggingu og arkitektúr Háskólabíós og nýs tónlistar- og ráðstefnuhúss sem nú er að rísa við Austurhöfn í Reykjavík. Í samanburði á þessum tveimur húsum og þeirri gagnrýni sem beinst hefur að þeim verður sú spurning áleitin hvort nýja byggingin, sem m.a. var ætlað að leysa húsnæðisvanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sé ekki neitt annað en „nýtt Háskólabíó“ – það er að segja fjölnotahús þar sem tónlistin verður í aukahlutverki.

Barátta fyrir tónlistarhöll í Reykjavík

Árið 1922  fékk hin nýstofnaða Lúðrasveit Reykjavíkur leyfi fyrir byggingu fyrsta tónlistarhúss Íslendinga, Hljómskálans. Lítið áttstrent hús á tveimur hæðum við austurenda Tjarnarinnar í Reykjavík, og var það tilbúið til notkunar 1923. Húsnæðið var ætlað fyrir æfingar og var frá upphafi aðalheimili lúðrasveitarinnar en Hljómsveit Reykjavíkur æfði þar einnig. Fram að þeim tíma höfðu tónlistarmenn meðal annars æft í kartöflugeymslu Miðbæjarbarnaskólans og í fangageymslunni við Skólavörðustíg. Stærð Hljómskálans tók mið af þeirri tónlist sem var iðkuð á þeim tíma sem hann var byggður og rúmaði æfingar blásaraflokka eða kammersveita. Ekki var þó gert ráð fyrir tónleikahaldi þar.

Þrátt fyrir að tónlistarmenn hafi þurft að láta sér nægja fanga- og kartöflugeymslur fram að byggingu Hljómskálans, leið þó ekki langur tími þar til fram kom þó nokkur gagnrýni á hann. Byggingin er enda hönnuð án nokkurrar þekkingar á eðli hljómburðar og eru í henni aðeins tvö herbergi og er nánast útilokað að æfa í þeim báðum samtímis þar sem einangrun er engin í því skyni.

Eftir stofnun Tónlistarskóla Reykjavíkur árið 1930 fór af stað mikil umræða um húsnæðismál tónlistarmanna í Reykjavík. Fljótlega fór að bera á umræðu um byggingu „tónlistarhallar“ þar sem væri fullkomin aðstaða til tónleikahalds og aðstaða fyrir Tónlistarskólann og aðra tónlistartengda starfsemi. Árið 1944 sótti Tónlistarfélagið, sem stofnað hafði verið árið 1932 til að auka veg og virðingu tónlistar í landinu, um leyfi til byggingu tónlistarhallar í Hljómskálagarðinum en bæjarráð var þó ekki sammála því að sú staðsetning hentaði best fyrir bygginguna og benti þess í stað á lóð milli Lindargötu og Hverfisgötu, austan við Þjóðleikhús, og var hugmyndin að þar risi eins konar listamiðstöð. Ekki voru allir sáttir við staðarval bæjarráðs og varð ekkert úr byggingu tónlistarhallar að þessu sinni, hvorki í Hljómskálagarði né við Hverfisgötu.

Árið 1950 var Sinfóníuhljómsveit Íslands stofnuð og spilaði sína fyrstu tónleika í Austurbæjarbíói við Snorrabraut sem hafði opnað fáeinum árum áður og var þá stærsta samkomuhús landsins. Hljómsveitin færði svo starfsemi sína að mestu í Þjóðleikhúsið sem var vígt nokkrum mánuðum eftir stofnun Sinfóníuhljómsveitarinnar. Þar með voru skyndilega komnir tveir nýir og reisulegir salir þar sem hægt var að halda tónleika og róuðust því nokkuð háværustu raddir um byggingu sérhannaðs tónlistarhúss. Þjóðleikhúsið var þó ekki hannað með tilliti til tónlistarflutnings en Austurbæjarbíó var það að nokkru leyti, en var þó fyrst og fremst hugsað sem kvikmyndahús.

Það var svo árið 1958 sem Tónlistarfélagið fékk loks úthlutað lóð undir tónlistarhöll sína sem það hafði upphaflega beðið um 14 árum áður. Lóðarvalið að þessu sinni var komið út fyrir gamla miðbæinn, við Grensásveginn skammt frá símstöðvarbyggingunni, og var gert ráð fyrir að í byggingunni yrði einnig framtíðarheimili Tónlistarskólans. En það fór líkt með þessa tilraun og þær fyrri, ekkert varð úr byggingu tónlistarhallarinnar. Þess í stað var ákveðið að koma upp aðstöðu fyrir Sinfóníuna í fyrirhuguðu samkomuhúsi Háskóla Íslands við Hagatorg.

Samkomuhús Háskóla Íslands

Árið 1955 fékk Háskóli Íslands leyfi til að byggja kvikmyndahús við Hagatorg og var Gunnlaugur Halldórsson arkitekt ráðinn til þess að hanna mannvirkið ásamt Guðmundi Kr. Kristinssyni. Þegar þeir lögðu fram fyrstu uppdrætti hússins var ljóst að kostnaðurinn yrði verulegur. Mikill vilji var þó meðal háskólamanna að reisa þá byggingu sem þeir höfðu gert frumdrög að. Því var brugðið á það ráð að hanna húsið þannig að það mætti einnig nota sem tónlistarhús enda var gert ráð fyrir að sú ákvörðun myndi lítið hækka byggingarkostnað.

Fyrst ráðist var í byggingu nýs húsnæðis var samþykkt að það yrði fyrir um þúsund gesti, enda hugsað að minnsta kosti fimmtíu ár fram í tímann. Húsnæðið átti, auk þess að vera samkomu- og kvikmyndahús Háskólans, að vera nýtt heimili Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem stofnuð var áratug fyrr. Fyrstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitarinnar í Háskólabíó fóru fram þann 12. október 1961 við mjög svo góðan orðstír. Húsnæðið var einnig lofað og í upphafi virtust allar þær vonir, sem við það voru tengdar, að rætast.

Það leið þó ekki á löngu þar til miklar óánægjuraddir fóru að heyrast með tónleikasalinn og þótti til dæmis skorta endurómun. Bohdan Wodiczko, aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar á þessum tíma, gagnrýndi fljótlega hljómburð í salnum og taldi húsið svo gott sem óhæft til hljómleikahalds. Í þessum athugasemdum fólst mjög hörð gagnrýni á arkitekta og aðra er tengdust byggingu hússins. Kallaðir voru til sérfræðingar og gerðar hljómburðartilraunir í salnum en ekkert var aðhafst í málinu. Það var þó ekki aðeins hljómburður hússins sem fékk á sig gagnrýni tónlistarmanna því aðstaða baksvið var lítil og bágborin, og engin aðstaða var fyrir hljómsveitina til að hita sig upp. Þar að auki var dragsúgur, kuldi og þakleki viðvarandi vandamál í húsinu.

Ný barátta fyrir tónlistarhúsi í Reykjavík

Það liðu aðeins nokkur ár frá því að Háskólabíó hafði verið vígt þar til Tónlistarfélagið fór að skipuleggja byggingu nýs tónlistarhúss sem yrði meðal annars framtíðarheimili Sinfóníuhljómsveitarinnar. Árið 1969 hafði Gestur Ólafsson arkitekt gert frumdrög að tónlistarhúsi við Sigtún fyrir Tónlistarfélagið. Í henni var gert ráð fyrir tveimur tónleikasölum og einum kvikmyndasal auk þess sem byggingin átti að hýsa starfsemi Tónlistarskóla Reykjavíkur.

Ekki varð þó úr byggingu hússins og annar áratugur leið þar til umræða um nýtt tónlistarhús varð hávær á ný. Það var þó ekki Tónlistarfélagið sem leiddi þá baráttu heldur aðilar úr atvinnulífinu auk listamanna sem að endingu stofnuðu saman Samtök um byggingu tónlistarhúss. Árið 1985 höfðu samtökin fengið úthlutað lóð í austanverðum Laugardal og efndu til norrænnar samkeppni um hönnun tónlistarhúss. Guðmundur Jónsson arkitekt í Osló varð hlutskarpastur í þeirri samkeppni og vann hann í framhaldinu við að fullklára teikningar að húsinu sem voru tilbúnar árið 1988. Erfiðlega gekk þó að fjármagna bygginguna og ekkert varð úr byggingu hússins að sinni. Nokkrum árum síðar óskuðu samtökin hins vegar eftir nýrri lóð undir bygginguna við Austurhöfn í gamla miðbænum og voru þá komnar upp hugmyndir um að tengja tónlistarhúsið fyrirhugaðri byggingu ráðstefnumiðstöðvar. Var Guðmundi falið að teikna tónlistarhús með aðstöðu til ráðstefnuhalds við þessar nýju aðstæður og skilaði hann í framhaldinu inn nokkrum útfærslum er byggðu að mestu leyti á hönnun hússins í Laugardalnum. Ekki varð úr byggingu hússins við Austurhöfn, ekki frekar en í Laugardal.

Árið 1999 tók Reykjavíkurborg svo málið í sínar hendur í samstarfi við ríki og nágrannasveitarfélög og var aðaláherslan lögð á að finna húsinu heppilegan stað. Ekki var þó gert ráð fyrir að nota teikningar Guðmundar eða hann fenginn til að teikna nýtt og stærra hús sem hentaði nýjum forsendum verkefnisins. Eftir hægfara framgang málsins undirrituðu fulltrúar ríkis og borgar loks í apríl 2002 samning um byggingu Tónlistar- og ráðstefnuhúss, hér eftir ritað TRH, á Austurbakkanum.

Úrslit úr hugmyndasamkeppni um skipulag lóðar hússins höfðu verið veitt nokkrum mánuðum áður og var í verðlaunatillögunni gert ráð fyrir að húsið yrði staðsett á þeim stað er Faxaskáli var. Stofnað var sérstakt fyrirtæki, Austurhöfn-TR,  til að halda utan um verkefnið og sjá um heildarskipulag og uppbyggingu á svæðinu í heild. Ákveðið var að verkefnið yrði boðið út sem einkaframkvæmd þar sem einkaaðili myndi annast hönnun, byggingu, fjármögnun og rekstur mannvirkja. Alþjóðlegt útboð var haldið um verkefnið og  var það Portus-hópurinn svokallaði sem var með vænlegasta tilboðið en auk þeirra höfðu tveir aðrir hönnunarhópar verið valdir til að vinna sínar hugmyndir áfram. Aðalhönnuður hússins og alls byggingarreitsins er danska arkitekta-stofan Henning Larsens Tegnestue í samstarfi við Batteríið-Arkitekta í Hafnarfirði. Auk þeirra kom listamaðurinn Ólafur Elíasson að verkinu sem listrænn stjórnandi og hannaði hann meðal annars sérstæðan glerhjúp sem kemur til með að hylja stærstan hluta hússins. Framkvæmdir hófust í mars 2006 og er áætlað að húsið opni haustið 2009.

Nýtt Háskólabíó?

Þegar skoðaðar eru blaðagreinar um Háskólabíó frá byggingarárum þess er athyglisvert að hvergi er að finna neikvæð skrif um bygginguna eða þá starfsemi sem þar átti að fara fram. Það var ekki fyrr en eftir að komin var reynsla á bygginguna að gagnrýnisraddir fóru að heyrast. Nú, rúmlega fjörutíu árum síðar þegar TRH er við það rísa, eru strax farnar að heyrast gagnrýnisraddir um ýmsa þætti er lúta að starfsemi hússins og hönnun þess. Það má því spyrja sig að því hvort verið sé að endurtaka mörg þau mistök er gerð voru við hönnun Háskólabíós og jafnvel hvort þau séu enn víðtækari en þá? Þar sem húsið er hannað með blandaða starfsemi í huga, líkt og gert var með Háskólabíó á sínum tíma, er spurning hvort tónlistin verði undir í baráttunni við aðra notkunarmöguleika húsnæðisins.

Gæðakröfur hljómburðar, stærð sala og aðstaða baksviðs eru meðal þeirra þátta sem skipta tónlistarmenn hvað mestu máli í hönnun tónlistarhúss og því nauðsyn að sem mest samstarf sé haft við tónlistarmenn er kemur að hönnun þeirra þátta. Nokkur sátt virðist vera um hljómburð og aðstöðu baksviðs en mikil óánægja hefur verið meðal tónlistarmanna um stærð salanna og þá sérstaklega aðalsalar. Það má því spyrja sig fyrir hvern er verið að byggja húsið ef tónlistarfólk almennt, og þar með talin Sinfóníuhljómsveit Íslands, er ósátt við stærð aðalsalar TRH.

Húsið kemur til með að verða aðalheimili Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Í viðtali sem ég tók við Þröst Ólafsson, framkvæmdastjóra sveitarinnar, sagðist hann ekki búast við því að húsið verði mikið notað af popptónlistarmönnum heldur yrði það fyrst og fremst heimili „alvarlegri“ tónlistar. Hann telur því að stærð aðalsalarins sé óraunhæf og að hún nýtist Sinfóníuhljómsveitinni illa og verði dýr fyrir hana sem leigjanda. Hljómsveitin fór upphaflega fram á að stærð salarins yrði 1100 sæti en jók fjölda þeirra hægt og rólega upp í hámark 1500 eftir miklar samningaviðræður. Lokaákvörðun rekstraraðila varð þó 1800 sæti. Kjartan Ólafsson prófessor í tónsmíðum tekur undir gagnrýni Þrastar og telur hann að stærsti hluti tónleikahalds á Íslandi í framtíðinni muni ekki fara fram í TRH, fyrst og fremst vegna óhagkvæmra salarstærða og of mikils kostnaðar.

Austurhöfn-TR, ásamt formanni Samtaka um tónlistarhús, hafa svarað þessari gagnrýni á þann veg að ekki sé verið að hugsa um þarfir Sinfóníuhljómsveitarinnar fyrst og fremst, því salurinn þurfi að rúma aðra og fjölbreyttari starfsemi. Þess á meðal væru tónleikar heimsþekktra erlendra tónlistarmanna. Ýmsir aðilar innan tónlistargeirans hafa þó bent á að heimsfrægir tónlistarmenn muni áfram halda sína tónleika í stóru íþróttahöllunum í Reykjavík. Tónlistarhús af þessari stærðargráðu mun aldrei ráða við stóru nöfnin í popptónlistargeiranum.

Það má þó ekki gleyma því að húsið á ekki aðeins að vera tónlistarhús, heldur einnig ráðstefnuhús. Sjálfsagt er því að taka tillit til þess hvaða kröfur þess háttar húsnæði þarf að uppfylla, án þess þó að það beinlínis gangi gegn kröfum tónlistarmanna. Mikilvægt er að þessir tveir notkunarmöguleikar nái að spila saman. Þar sem sömu aðilar hanna húsið og koma til með að reka það mætti segja að eðlilegast sé að þeir hanni húsið á þann hátt að það skili af sér sem mestum hagnaði í rekstri. Ráðstefnuhald er að öllu jöfnu arðvænlegra en tónleikahald og því ekkert skrítið að kröfur tónlistarflutnings víki að einhverju leyti fyrir kröfum um ráðstefnuhald.

Húsið verður mjög vandað, stórt í sniðum og dýrt í byggingu og hlýtur þar af leiðandi að verða dýrt í útleigu. Það verður því væntanlega ekki á færi hvaða tónleikahaldara sem er að leigja sali þess enda er tónleikahald sjaldnast mjög arðbært. Það má því ætla að húsið verði mun meira notað sem ráðstefnuhús og því eðlilegra að húsið sé kallað Ráðstefnu- og tónlistarhús frekar en Tónlistar- og ráðstefnuhús.

Þrátt fyrir að fjölbreytt nýting á rýmum hússins sé rekstrarleg nauðsyn þarf þó að horfast í augu við vankanta þess.  Alþjóðleg reynsla hefur sýnt að fjölnota hús sem þetta verða gjarnan sviplaus og sálarlaus og eiga í erfiðleikum með að mótast af þeirri meginstofnun sem þau hýsa, sem í tilfelli TRH er Sinfóníuhljómsveit Íslands. Það er því nauðsynlegt að húsið nái að öðlast sál, andrúmsloft og ímynd sem tónlistarhús en ekki fjölnotahús. Osmo Vänskä, fyrrum stjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar sagði á sínum tíma að fjölnotahús væri alltaf versti kosturinn þegar kæmi að hönnun tónlistarhúss og benti á að hægt væri að flytja fyrirlestur í tónlistarhúsi en ekki væri hægt að flytja tónlist í ráðstefnusal.

Samanburður á Háskólabíói og Tónlistar- og ráðstefnuhúsi

Það getur verið nauðsynlegt að líta til fortíðar þegar kemur að því að byggja framtíðina. Það er því athyglisvert að bera saman Háskólabíó og TRH, enda eiga byggingarnar margt sameiginlegt. Forsenda fyrir byggingu beggja húsanna voru fjölbreyttir notkunarmöguleikar þeirra, það er samblanda tónleikahalds, fyrirlestra, kvikmyndasýninga og ráðstefnuhalds auk ýmissa annarra viðburða. Það þarf jú mikla fjármuni til að reisa svo stórar byggingar og ekki virðist tónlistarlífið ráða við það eitt og sér hér á landi.

Báðar byggingarnar munu hafa stór hótel við hlið sér. Þó svo Hótel Saga hafi ekki verið byggt í beinu samstarfi við Háskólabíó var það þó byggt á sama tíma og aðeins nokkrum metrum frá bíóinu. Ráðstefnur hafa auk þess oft verið haldnar í Háskólabíó og þá gjarnan í tengingu við Hótel Sögu enda stutt fyrir ráðstefnugesti að hlaupa milli ráðstefnusalar og hótelsins. Ein af lykilhugmyndum að baki TRH er einmitt að byggja stórt fimm stjörnu hótel við hlið þess og að innangengt sé þar á milli.

Báðar byggingar eru nokkuð tilraunakenndar á sviði arkitektúrs, að minnsta kosti í ljósi íslenskrar byggingalistasögu. Báðar hafa þær sérstæðan þrívíðan „hjúp“, þar sem tveir mótstæðir útveggir og slétt þak á milli þeirra er allt úr sama þrívíða forminu. Aðrir útveggir eru hins vegar nánast alveg tvívíðir og allt aðrir hlutir að „gerast“ í þeim. Engin eiginleg gluggasetning er á þessum þrívíðu hjúpum. Aðal munurinn á þeim liggur þó í því að í Háskólabíó er hjúpurinn gerður úr steinsteypu en í TRH er hann úr gleri, þó að í báðum tilfellum þurfi járn eða stál til að halda efnunum saman.

Í báðum tilfellum voru þessar tilraunir gerðar af þó nokkru þekkingarleysi á þeim aðferðum sem beita þyrfti til að leysa þessi sérstæðu verkefni, en búist var við að tæknilegu viðfangsefnin myndu leysast síðar í hönnunnarferlinu. Það kom svo á daginn að ekki var hægt að steypa þak Háskólabíós og var því notuð stálgrind klædd þunnu lagi af steypu að utan og astbestplötum að innan og gekk erfiðlega að koma þakinu upp. Í tilfelli TRH reyndist glerhjúpur Ólafs svo flókinn og dýr að hætt var við meginhluta hans og þess í stað verður stærstur hluti hans með mun einfaldara og flatara lagi.

Einn helsti munur á tónlistarsölum bygginganna tveggja er sá að þegar TRH var boðið út var í raun gróflega búið að hanna salina þrjá af ráðgjafafyrirtækinu Artec sem sérhæfir sig í hönnun og ráðgjöf á tónleikasölum, svo var það arkitektanna að byggja utan um þessa sali. Í Háskólabíó var þessu öfugt farið og virðist margt þar hreinlega hafa ráðist af tilviljun einni. Hinn þrívíði hjúpur í Háskólabíó er í raun byggður utan um tónlistarrýmið sjálft á meðan hjúpurinn í TRH er utan um forhannaða tónlistarsali, sem eru tæknilega séð stakstæðar byggingar undir hjúpi Ólafs. Þannig mætti því frekar réttlæta tilraunamennsku í hjúp Ólafs þar sem hann hefur ekki áhrif á hljómburð í tónlistarsölunum.

Tilraunamennskan í hönnun Háskólabíós var á köflum þannig að ein lausn skapaði gjarnan annað vandamál. Til þess að hægt væri að koma sinfóníuhljómsveit fyrir á sviði bíósins varð að vera hægt að fjarlæga sýningartjaldið, sem var mjög stórt og dýrt, og var því teiknaður stór turn sunnan við aðalsal byggingarinnar, sem hægt var að hífa tjaldið upp í. Það kom svo síðar í ljós að þessi mikla opnun fyrir ofan sviðið hafði mjög slæm áhrif á hljómburðinn. Leystu arkitektarnir málið með því að útbúa færanlega fleka fyrir ofan sviðið sem vörpuðu hljóðinu fram í salinn og voru þeir svo dregnir upp við kvikmyndasýningar. Það er því ef til vill ekkert skrítið að Háskólabíó skuli ekki hafa góðan hljómburð enda oft mikið um tilviljanir, skyndilausnir og tilraunamennsku þegar kom að hönnun á hljómburði hússins.

Hver er niðurstaðan?

Ástæða þess að ekki hefur enn risið fullkomið tónlistarhús í Reykjavík er að mestu leyti peningaskortur. Lengst af hafði Tónlistarfélagið og þeir aðilar sem hugðust reisa tónlistarhús á hverjum tíma hugsað sér að byggja húsið sjálfir. Safna til þess fé og hugsanlega fjármagna reksturinn með kvikmyndasýningum. Sá draumur rættist þó aldrei og var það ekki fyrr en ríki og borg komu að málinu með beinum hætti að til framkvæmda kom. Það endaði með ákvörðun um byggingu gríðarlega stórs og dýrs tónlistar- og ráðstefnuhúss. Svo stórt og dýrt að tónlistarfólk gæti hugsanlega ekki haft efni á að leigja þar. Það eru peningar sem virðast vera vandamálið, bæði nú og áður.

Hver er þá niðurstaðan? Er sagan að endurtaka sig? Já, hún er það að ýmsu leyti. Tónlistarmenn fá nýja leiguaðstöðu í nýju fjölnotahúsi þar sem tónlistin er sett í annað sætið. Í þetta skiptið fá þeir þó margfalt betri leiguaðstöðu, en þurfa væntanlega að borga í takt við það.


Höfundur útskrifaðist með B.A. gráðu í arkitektúr frá Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands í júní 2007.

Greinin birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins, laugardaginn 4. ágúst 2007.


Í greininni er stuðst við eftirfarandi heimildir:

 • Austurhöfn – Fróðleikur um tónlistarhús, http://austurhofn.is, sótt 7. janúar 2007.
 • Bergþóra Jónsdóttir: „Tónlistarhús í tæpa öld.“ Morgunblaðið, Sunnudagsblað. 6. apríl 2003.
 • Bjarki Bjarnason: Sinfóníuhljómsveit Íslands. Sögusteinn, 2000.
 • Egill Ólafsson: „Af holum hljómi.“ Morgunblaðið. 16. desember 2006, bls. 3.
 • Hávar Sigurjónsson: „Óttast að Tónlistarhúsið verði ekki miðpunktur tónlistarlífsins.“Morgunblaðið. 23. mars 2005.
 • Kjartan Ólafsson: „Þögnin (hlj)ómar.“ Morgunblaðið. 21. september 2005, bls. 21.
 • Páll Sigurðsson: Úr húsnæðis- og byggingarsögu Háskóla Íslands. 2.b. Draumsýnir, framkvæmdir og svipmyndir af háskólasamfélaginu 1940-1990. Háskólaútgáfan, 1991.
 • Pétur H. Ármannsson: „Tónlistarhús í Reykjavík. Staðarval opinberra bygginga“ Lesbók Morgunblaðsins, 16. maí 1998.
 • Svava Jakobsdóttir: „Arkitektúr, skipulag, hönnun og ýmislegt fleira.“ Lesbók Morgunblaðsins. 5. október 1969.
 • Morgunblaðið,  21. desember 1944.
 • Morgunblaðið,  11. desember 1958.
 • Morgunblaðið, 18. október 1961.
 • Sverrir Vilhelmsson: „Leitin að tónlistarhúsinu.“ Morgunblaðið. 9. júní, 1995.
 • Tónlistarhús, ráðstefnumiðstöð og hótel, http://www.tonlistarhusid.is, sótt 7. janúar 2007.
 • Viðtal greinarhöfundar við Þröst Ólafsson,  5. janúar 2007.
 • Viðtal greinarhöfundar við Arnór Skúlason arkitekt á Batteríinu, 18. janúar 2007.

 ©  2007  Músa