Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 19. maí 2006
Opið bréf til allra stjórnmálaflokka

Garðar Cortes

Það er staðreynd að tónlistarkennsla á Íslandi er góð og skarar jafnvel fram úr kennslu annarra þjóða.  Mikill metnaður er, og hefur ávallt verið lagður í kennslu, og jafnframt lögð áhersla á að árangur sé sýnilegur. Svo sannarlega er árangurinn sýnilegur.  Um það vitnar m.a. glæsileiki Sinfóníuhljómsveitar Íslands, frammistaða íslenskra óperusöngvara heima og heiman og gróska íslenskra jazzista og dægurtónlistarmanna.

Það sló mig því eftirminnilega, þegar við, skólastjórar nokkurra tónlistarskóla, vorum boðaðir til fundar niðr’í borg og tilkynnt um skerðingu og samdrátt í fjárframlögum til skólanna, „að forráðamönnum borgarinnar þætti nóg um ágæti tónlistarskólanna“ og okkur uppálagt að draga úr gæðum kennslunnar!

Þetta var þvílíkt reiðarslag að stundina man ég sem gerst hefð’ í gær.  Ekki svo mjög skert framlög til kennslu, því tónlistaskólastjórar hafa alltaf þurft að velta fyrir sér hverri krónu til að láta enda ná saman.  Nei, reiðarslagið var að vera tilkynnt um að kennsla væri of góð og okkur bæri að draga þar úr.  Ýmislegt er okkur til lista lagt, tónlistarmönnum, en að “performera” undir gæðum og getu er ekki til í okkar uppeldi.  Þetta hefur því smátt og smátt orðið til þess að skuldir hafa safnast upp hjá skólum, sem ekki hafa treyst sér til að draga úr gæðum námsins, og skert fjárframlög þar af leiðandi ekki staðið undir kostnaði.

Næsta reiðarslag reið svo yfir nokkru síðar;  hömlur voru lagðar á að nemendur gætu stundað tónlistarnám utan síns sveitarfélags, þeim gert að ganga með betlistaf fyrir sína sveitarstjórn og fá þar samþykkta “beiðni” – leyfi til að stunda tónlistarnám utan lögheimilissveitarfélags.  Ekki nóg með það, þriðja og síðasta reiðarslagið; aldurstakmörkum beitt, hömlur settar á hverjir gætu sótt um og stundað nám í tónlist, búseta og aldur látinn ráða, frekar en mat tónlistarskólanna á hæfileikum umsækjenda.

Þetta vandræðamál er yfir flokkadrætti hafið og allir flokkar ættu að get komið sér saman um að berjast gegn mismunun vegna aldurs og búsetu, enda gilda slíkar takmarkanir ekki í neinu öðru námi.  Samkvæmt núgildandi lögum er kostnaður við tónlistarfræðslu alfarið í höndum sveitarfélaga og það er þeirra að leysa þann ólukkuhnút sem málaflokkurinn er nú í, ekki varpa vandanum yfir á herðar nemenda.

Ég skora á sveitarstjórnarmenn að axla ábyrgðina.  Söngskólinn í Reykjavík býður þeim stjórmálaöflum, sem vilja beita sér í málinu, söngvara og píanóleikara úr röðum nemenda og kennara skólans, til að koma fram á kynningarfundum flokkanna, þeim að kostnaðarlausu, gegn því að flokkarnir taki ábyrga afstöðu í málefnum tónlistarnema og þori að lýsa yfir óréttlætinu sem felst í þessum aðgerðum. Sem sagt; vekja athygli á máli sem kemur til með að takmarka aðganga of margra, sem virkilega eiga erindi,  að tónlistarnámi   en eru “of aldraðir” að mati ráðamanna.

Hugsið ykkur ef Kristinn Sigmundsson hefði verið stoppaður af vegna aldurs eða búsetu, eða Kristján Jóhannsson eða Viðar Gunnarsson !  Allir, og miklu fleiri, voru með óvinveitta kennitölu þegar þeir hófu tónlistarnám.

Kjósendur! Ef  tónlistarmenn úr Söngskólanum í Reykjavík koma fram á kynningarfundum stjórnmálaaflanna, er það sönnun þess að viðkomandi flokkur er tilbúinn að axla ábyrgð í málefnum tónlistarnema á Íslandi.

Stjórnmálamenn! Látið okkur, tónlistarskólana, um að gera það sem við kunnum best, mennta tónlistarmenn til framtíðar.  Það er nefnilega staðreynd að tónlistar-kennsla á Íslandi er góð og skarar jafnvel fram úr...

Höfundur er skólastjóri Söngskólans í Reykjavík.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu, laugardaginn 13. maí 2006.


 ©  2006  Músa