Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 28. sept. 2008
Söngleikir í Grundaskóla

Flosi Einarsson
<flosi [hjá] grundaskoli.is>

Flosi Einarsson
Sögulegt yfirlit

Í Grundaskóla á Akranesi hafa list- og verkgreinar frá upphafi verið mikilvægur hluti skólastarfsins.  Það hefur verið trú manna að sú sköpun og þjálfun sem fram fer í þessum greinum sé mjög mikilvægur þáttur í vinnu nemenda.  Mikil áhersla hefur verið lögð á að nemendur í öllum árgöngum skólans bjóðist sem fjölbreyttust kennsla á þessu sviði.  Mörg verkefni hafa verið unnin í gegnum tíðina allt frá smáum þemaverkefnum innan árganga yfir í stærri verkefni þar sem árgöngum hefur verið blandað saman.

Tónmennt hefur frá upphafi verið kennd í öllum árgöngum og leiklistarkennsla hefur með ári hverju orðið fyrirferðarmeiri í skólastarfinu.  Það hafði lengi staðið til að ráðast í að setja upp söngleik með nemendum í 8.-10 bekk en það varð fyrst að veruleika árið 2002 er söngleikurinn Frelsi eftir Flosa Einarsson og Gunnar Sturlu Hervarsson var frumsýndur í skólanum.  Það var strax ákveðið að reyna að virkja sem flesta nemendur og mikill metnaður var lagður í uppsetninguna og frumsamin tónlistin var gefin út á geisladiski.

Við höfðum ýmsar væntingar fyrirfram um hvað við vildum fá út úr þessari vinnu en okkur grunaði ekki hversu miklu þetta skilaði fyrir þátttakendur og skólann í heild.  Það var því sjálfgefið að halda þessari vinnu áfram en ákveðið var að hæfilegt væri að ráðast í slíkt verkefni á 3ja ára fresti.  Síðan þá hafa tveir söngleikir í viðbót verið settir upp en þeir heita Hunagsflugur og villikettir eftir Einar Viðarsson, Flosa Einarsson, og Gunnar Sturlu Hervarsson (2005) og síðan söngleikurinn Draumaleit (2007).  Draumaleit var reyndar hluti af Comeniusarverkefni sem unnið var í samstarfi við kennara og nemendur frá Sviþjóð, Tyrklandi og Ítalíu (nánari upplýsingar á: bridgeofmusicals.net).

Hvers vegna söngleikur?

Jákvæð og ný upplifun. Það er ljóst að uppsetning á frumsömdum söngleik er kostnaðarsöm og vinnan sem kennarar og nemendur leggja á sig er ómæld.  Því gæti margur spurt hvers vegna við höfum trú á svona verkefnum.

Einn stærsti ávinningurinn er sá að nemendur kynnast mjög vel og upplifa hver annan á nýjan hátt og áður ókunnir hæfileikar líta dagsins ljós. Hægt er að nefna mörg dæmi um nemendur sem ekki hafa náð góðum árangri í hefðbundnu námi sem hafa slegið í gegn í söng- og leikhlutverkum sínum,sem tæknimenn eða í annarri vinnu sem fellur til í tengslum við uppsetninguna. Enn fremur hafa margir nemendur sem ekki hafa áður fengið tækifæri í hópnum öðlast virðingu hans í gegnum framgöngu sína í söngleiknum. Einnig hafa nemendur sem enginn hafði hugmynd að gæti sungið, dansað eða leikið, slegið í gegn.

Flosi Einarsson
Úr söngleiknum Draumaleit (2007)

Gaman væri að segja frá mörgum einstökum tilvikum en kannski kemur eitt besta dæmið úr söngleiknum Draumaleit.  Eins og áður segir var um alþjóðlegt verkefni að ræða og lokatakmarkið í þeirri vinnu var sýning sem fram fór í Stokkhólmi í desember 2007.  Í þeirri sýningu stigu á svið nemendur frá Íslandi, Svíþjóð, Tyrklandi og Ítalíu eftir að hafa æft saman í tæpa viku.  Meðan á æfingatímabilinu stóð þurfti að yfirstíga ýmis vandamál og eitt þeirra var að tyrknesku nemendurnir skildu illa ensku sem við notuðum til samskipta.  Góð ráð voru dýr en sænsku kennurunm hugkvæmdist að fá tyrknesk ættaðan dreng úr sínum skóla sem jafnframt talaði sænsku, til að túlka fyrir samlanda sína.  Þessi sami drengur hafði verið til mikilla vandræða í skólanum vegna hegðunarvandamála og fram að þeim tíma hafði hann ekkert komið nálægt uppsetningunni.  Þegar hann hins vegar var ráðinn í þetta mikilvæga hlutverk breyttist viðhorf hans og hann leysti það frábærlega vel.  Skólinn færði honum veglega þakkargjöf fyrir vikið og síðan þá hefur hann verið eins og nýr nemandi.

Í slíkri vinnu virðist einnig myndast sterk samkennd í hópnum þar sem nemendur eru allir að vinna saman að einu lokatakmarki og oftar en ekki upplifa nemendur skólann sinn á jákvæðari hátt en áður.

Metnaður, agi, tillitssemi og virðing. Ein meginástæða þess að við náum oft ekki að framkalla nægan metnað og vandvirkni hjá nemendum okkar í hefðbundnum námsgreinum er sú að þeir sjá engan augljósan tilgang í því að læra það sem við ætlumst  til af þeim.  Tilgangurinn er hins vegar alveg á hreinu þegar nemendur fá ákveðin hlutverk í uppsetningu söngleiks.  Þeir sem syngja þurfa að gera það eins vel og hægt er vegna þess að afurðin lendir á geisladiski sem margir eiga eftir að eignast.  Framsögn og upplestur þurfa að vera í lagi því annars munu áhorfendur ekki skilja hvað fer fram á sviðinu.

Oft er talað um að í íslenskum skólum skorti aga og virðingu.  Það sem nemendur læra af því að taka þátt í svona uppsetningu er einmitt að bera virðingu fyrir þeim sem stjórna verkinu og taka tillit til allra í kringum sig því svona verkefni byggist á samstöðu og þeirri staðreynd að allir verða að skila sínu hvort sem hlutverk þeirra er smátt eða stórt, uppi á sviði eða utan þess.  Nemandi sem mætir of seint á æfingu tefur allan hópinn, sá sem tekur að sér að útvega búninga eða leikmuni verður að gera það fyrir tilsettan tíma og svona mætti lengi halda áfram.  Í hefðbundnu námi höfum við ekki alltaf sýnilegt lokatakmark sem skiptir nemendur einhverju máli en hins vegar er alveg augljóst að frumsýning söngleiks á áður auglýstum degi verður að fara fram og allir þátttakendur eru sammála um að þeir mega ekki bregðast til að því takmarki verði náð.

Er lokaafurðin mikilvæg?

Leiklistarkennsla virðist hafa aukist í íslenskum grunnskólum á síðustu árum og sífellt fleiri skólar hafa ráðist í að setja upp leikrit og söngleiki í fullri lengd.  Í umræðu um tilgang og markmið með slíkri vinnu hafa verið ýmsar skoðanir á lofti og margir viljað meina að við ættum kannski að horfa meira á leikræna tjáningu  sem mikilvægan þátt í skólastarfinu en líta á lokaafurðin sem aukaatriði og einblína á að leyfa sem flestum að vera með.  Ég tel að við eigum að gera hvort tveggja.  Mín skoðun er sú að leiklist og leikræn tjáning eigi að vera hluti af vinnu í öllum árgöngum grunnskólans.  Að sjálfsögðu á markmiðið að vera að virkja sem flesta og stefnan skal tekin á að nemendur verði færari í að tjá sig, æfa framsögn og efla sköpunargáfuna.  Hins vegar finnst mér mikilvægt að skólar geti ráðist í afmörkuð verkefni eins og t.d. að setja upp söngleik með nemendum í unglingadeild þar sem úrvalshópur kemur við sögu.

Sú reynsla sem við höfum af uppsetningu þriggja stórra söngleikja í Grundaskóla er sú að þó svo færri komist að en vilja þá verður upplifun skólans í heild afar jákvæð.  Við höfum reynt að hafa efni söngleikjanna þess eðlis að hægt sé að nýta það í öllu skólastarfi.  Söngleikurinn Frelsi fjallaði t.d. um einelti og mikilvægi þess að vera góður vinur.  Hunangsflugur og Villikettir var byggður á svipmyndum úr sögu Akraness á 7. áratugnum.  Söngleikurinn Draumaleit fjallaði um fjallaði um það tímabil í sögunni er fólk frá flestum heimshornum flykktist til Bandaríkjanna í leit að betra lífi.  Með því að gefa út tónlistina á geisladiski hafa kennarar getað kynnt hana fyrir öllum árgöngum skólans og notað lögin og efnivið þeirra í margs konar vinnu með nemendum.  Með þessum hætti hefur okkur tekist að gera söngleikina að skólaverkefnum sem skólinn í heild hefur staðið fyrir.

Vítahringur – Nýjasti söngleikurinn

Í október 2008 verður frumsýndur nýr söngleikur í Grundaskóla sem ber heitið Vítahringur og er hann byggður á skáldsögu eftir Kristínu Steinsdóttur sem sækir söguefnið í Harðar sögu hólmverja.  Handrit söngleiksins er eins og áður eftir Einar, Flosa og Gunnar Sturlu sem og frumsamin tónlistin sem einnig mun koma út á geisladiski.

Harðar saga Hólmverja sem sagan byggir á er örlagasaga Harðar Grímkelssonar en söngleikurinn líkt og saga Kristínar fjallar meira um Grímkel son Harðar og hvernig hann upplifir það stríðsástand er ríkir í lífi hans.  Einnig kemur ástin við sögu og galdrar og forynjur eru ekki langt undan.  Tilgangurinn er að reyna að kveikja áhuga nemenda á bakgrunni þeirra og fornbókmenntum auk þess sem fjallað er um hina sígildu spurningu:  Hvers vegna getur ekki ríkt friður í heiminum?

Er það einnig ætlun höfundanna að ganga þannig frá handriti og tónlist að aðrir skólar geti nýtt sér afurðina ef áhugi er fyrir hendi.  Jafnframt er markmiðið þróa námsefni út frá þessum söngleik sem hægt verði að nota á miðstigi og upp í unglingadeild.Höfundur er kennari í Grundaskóla á Akranesi.

Greinin birtist fyrst Skólavörðunni, málgagni Kennarasambands Íslands, 5. tbl., 8. árg., sept. 2008.


 ©  2008  Músa