Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 14. sept. 2004
Fjarri sanni: Tónlistarskólinn í Reykjavík og háskólagráður og Listaháskóli Íslands

Guðmundur Hafsteinsson, kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík
<gha@ismennt.is>

Um miðjan maí birtist greinarkorn eftir rektor Listaháskóla Íslands, Hjálmar H. Ragnarsson, í Fréttablaðinu. Voru skrifin svar við grein aðstoðarskólastjóra Söngskólans sem skýrt hafði frá háskólagráðum í söng og söngkennslu sem nemendur Söngskólans hafa útskrifast með um árabil. Orðrétt sagði rektor, „Staðreyndin er sú að engir aðrir en háskólar geta veitt háskólagráður. Til að fá viðurkenningu sem háskóli verður viðkomandi skóli að uppfylla skilyrði laga um háskóla (nr. 136/1997) og hafa starfsleyfi frá stjórnvöldum. Hver námsbraut er metin af stjórnvöldum og birtir Menntamálaráðuneytið lista í Stjórnartíðindum yfir þær háskólagráður sem teljast fullgildar.” Óhjákvæmilegt er að skilja mál rektors öðruvísi en svo að hér hafi ekki verið neinn háskóli í tónlist þar til Tónlistardeild Listaháskóla Íslands (LHÍ) tók til starfa árið 2001 og því engar háskólagráður fyrir þann tíma. Það er fjarri sanni. Hér var háskóli með heilsteyptum námsbrautum, jafnvel fleiri en einn, og því háskólagráður. Það eina sem skorti var fullgilding af hálfu ríkisins.

Grein rektors kastar rýrð á alla háskólakennslu í tónlist sem hér hefur átt sér stað fram að stofnun Tónlistardeildar LHÍ og þá kennslu á þessu stigi sem fram fer annars staðar eftir þann tíma; hún kastar einnig rýrð á þann merg sem Tónlistardeild LHÍ stendur alfarið á og ekki síst á Tónlistarskólann í Reykjavík (TR) og þá sem þaðan hafa útskrifast, en TR gegndi hlutverki háskóla og framhaldsskóla þar til Tónlistardeild LHÍ tók til starfa. Grein rektors lætur líta svo út sem grundvallarbreyting hafi orðið til framfara í tónlistarkennslu við stofnun Tónlistardeildar LHÍ. Svo er ekki. Er sönnu nær að bæði háskóla- og framhaldskennsla í tónlist hafi sett töluvert niður við stofnun Tónlistardeildar, þegar TR var höggvinn í sundur og háskólanámið slitið frá framhaldsskólanáminu.

Mjög einhæfur og villandi málflutningur hefur verið um Tónlistardeild LHÍ og afar lítil opinber orðræða um málefni TR og fyrirkomulag háskóla- og framhaldsskólanáms í tónlist á Íslandi. Það er meira en kominn tími til að þær mörgu raddir sem sitthvað hafa um málið að segja heyrist áður en námið festist í fari sem hvergi jafnast á við hið fyrra.

Meginröksemd rektors fyrir því að í LHÍ sé raunverulegt háskólanám í tónlist, sem hafi ekki verið hér til staðar áður, er sú að Menntamálaráðuneyti meti námsbrautir í LHÍ og samþykki þær á grundvelli ágætis þeirra. Þessi röksemd stenst ekki vegna þess að Menntamálaráðuneyti Íslands hefur ekki á sínum vegum þá sérfræðinga á sviði tónlistarkennslu að það geti lagt sjálfstætt mat á inntak tónlistarnáms við hinar ýmsu menntastofnanir. Það verður að reiða sig á sjálfsmat þeirra stofnana er hafa getið sér orðs á þessu sviði og framlag þeirra til samfélagsins. Ráðuneytið getur kallað til sérfræðinga á sviði tónlistarkennslu sem eru þá alla jafna kennarar við hina ýmsu skóla með þeim hagsmunatengslum sem því fylgja. Á hinn bóginn getur Menntamálaráðuneytið lagt sjálfstætt mat á menntun tónlistarkennara – þ.e. hvar hún er fengin og hversu mikil hún er – svo og starfsreynslu þeirra.

Tónlistarskólinn í Reykjavík útskrifaði tónlistarkennara í hljóðfæraleik og söng, einleikara og einsöngvara, tónfræðinga og tónskáld, og síðast en ekki síst tónmenntakennara, um margra áratuga bil. Öll voru próf þessara nemenda í grunninn Bachelor of Music gráður utan þess síðasttalda sem var Bachelor of Education gráða. Kennarar Tónlistarskólans voru nánast allir háskólamenntaðir, margir með próf frá virtum erlendum háskólum, og allnokkrir með meistara- og doktorsgráður eða jafngildi þeirra, auk þess að vera meðal fremstu tónlistarmanna þjóðarinnar. Þessi hópur stóð að baki trúverðugleika lokaprófa frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og var hér á landi ekki á öðrum stað samankominn dómbærari flokkur í þessum efnum. Reyndar er bróðurparturinn af virkustu kennurum Tónlistardeildar Listaháskóla Íslands þeir sömu og kenndu ýmsar háskólagreinar við Tónlistarskólann í Reykjavík og kenna enn við þá stofnun. Þótt framlag fáeinna tónlistarskóla til háskólamenntunar á Íslandi hafi verið nokkuð, og ber þar helst að geta merks þáttar Söngskólans í Reykjavík, þá hafði framlag Tónlistarskólans í Reykjavík algjöra sérstöðu að fjölbreytileika, magni, umfangi námsins og námskröfum, auk fjölda útskrifaðra nemenda. Þetta á sér ýmsar skýringar, meðal annarra sögulegar, sem verða ekki tíundaðar hér. En ástæðan fyrir því að það er tónlistardeild innan Listaháskóla Íslands er Tónlistarskólinn í Reykjavík. Hann hélt uppi framhalds- og háskólanámi um langt skeið við góðan orðstír og heldur hinu fyrrnefnda uppi enn eftir að hið síðarnefnda hefur lagst niður í kjölfar stofnunar LHÍ.

Listaháskóli Íslands var ekki stofnaður á einni nóttu. Að stofnun hans var langur aðdragandi þar sem Tónlistarskólinn í Reykjavík, Myndlista- og handíðaskóli Íslands og Leiklistarskóli Íslands áttu í sameiginlegum og gagnkvæmum viðræðum við ríkið um undirbúning hins nýja háskóla. Það var svo ekki fyrr en skipulagsskrá fyrir Listaháskóla Íslands hafði verið samþykkt og ráðinn hafði verið rektor að Listaháskóla Íslands að Tónlistarskólinn í Reykjavík, einn þessara þriggja undirbúningsaðilja, var útilokaður sem beinn stofnaðili að Listaháskólanum. Fyrir þessari ráðstöfun voru aldrei færð nein rök, hvað þá gild rök.

Það verður að teljast vægast sagt undarlegt háttalag að stofna formlega ríkiskostaðan og ríkisvottaðan háskóla til að lækka námskröfur, útrýma námsmöguleikum og skapa verri námsskilyrði en fyrir voru.

Það var að sjálfsögðu pólitísk ákvörðun að stofna hér ríkiskostaðan og ríkisvottaðan listaháskóla (þó að í lagalegum skilningi sé hann sjálfseignarstofnun), en ákvörðunin var grundvölluð á trausti til menntastofnana sem fyrir voru í landinu og veittu kennslu á þessu stigi, kennslu sem byggð hafði verið upp skref fyrir skref í nokkrar kynslóðir. Þegar Tónlistardeild LHÍ var hleypt af stokkunum án þess að Tónlistarskólinn í Reykjavík væri stofnaðili að þeirri deild, má ýkjulaust segja að forsendur hennar hafi verið virtar að vettugi. Í það minnsta stóð lítið að baki þeim háskólagráðum, sem deildin fyrirhugaði að gefa út og ríkið hafði gefið fjárhagslega tryggingu fyrir og lagt blessun sína yfir, því að annað og þriðja ár námsins var óskilgreint og fyrsta árið létt tilbrigði af því sem óx neðarlega á námstrénu í TR. Hin fyrirframgefna viðurkenning hérlendra yfirvalda var því harla lítils virði frá menntunarlegu sjónarhorni. Síðan þá hafa árin tvö bæst við og tónlistarnámið í LHÍ því litið dagsins ljós. Að hinni opinberu viðurkenningu frátalinni, skyldi námið í LHÍ frekar vera háskólanám heldur en t.a.m. námið í TR, og prófin þaðan frekar vera háskólagráður heldur en prófin frá TR?

Áður en því verður svarað er vert að spyrja annars, sem sé þess, hvort sjálfsmat rektors LHÍ og hans starfsmanna sé meira virði en sjálfsmat skólastjóra og kennara TR. Svar við þessari spurningu liggur í augum uppi, ekki síst í ljósi þess að þetta er að bróðurparti sama fólkið.

Lokapróf frá TR hafa verið metin til launa hér á landi sem fullgild háskólapróf. Hafa þau legið til grundvallar launamati tónlistarkennara og verið grundvallarviðmið í kjarasamningum stéttarinnar. Tónmenntakennarapróf skólans er lögverndað samkvæmt lögum nr. 86/1998 og lagt í þeim lögum að jöfnu við ýmis Bachelor-próf annarra háskóla á Íslandi. Töluvert minni tónlistarmenntun lá að baki tónmenntakennaraprófi heldur en öðrum lokaprófum TR. Má því fullyrða að önnur lokapróf skólans séu ekki minna virði. Lánasjóður íslenskra námsmanna flokkaði nám í sérdeildum TR með öðru háskólanámi á Íslandi og veitti til þess lán á þeim forsendum.

Lausleg könnun undirritaðs hefur leitt í ljós að prófin frá TR hafa notið fullrar virðingar við fjölmarga erlenda háskóla, svo sem helstu tónlistarskóla á Norðurlöndunum og háskóla í Englandi, Skotlandi, Þýskalandi, Frakklandi og Bandaríkjunum. Þar sem prófin hafa ekki verið að fullu metin hafa þau verið hátt metin, oftast að 3/4 hlutum eða þá 2/3 hlutum. Próf frá tónlistarháskólum bera ýmis nöfn í veröldinni. Hafa mörg lönd sinn sérstaka hátt í þessum efnum sem þá ber merki menntakerfis og hefðar í landinu. Tónlistarháskólar meta nemendur því yfirleitt sjálfir með stöðuprófum. Gildir jafnan mest að standa sig í sinni sérgrein hvort sem hún er söngur, hljóðfæraleikur, tónsmíðar eða annað, en plögg og gráður hafa minna vægi.  Sums staðar hafa slík gögn lítið sem ekkert vægi, annars staðar meira. Víðast hvar er þó lagt heildstætt mat á nemanda, menntunarsögu hans og frammistöðu á inntökuprófum bæði í sérgrein og fræðigreinum. Varla getur fullt mat á kunnáttu og pappírum nemenda frá TR til háskólamenntunar á framhaldsstigi við Konunglega danska konservatoríið í Kaupmannahöfn, Konservatoríið í Árósum, Tónlistarháskólann í Málmey, Tónlistarháskólann í Ósló, Konunglega tónlistarháskóla Norður-Englands í Manchester, Konunglega tónlistarháskólann í Glasgow, Parísarkonservatoríið, Tónlistarháskólann í Freiburg og Stanford- og Brandeisháskólana í Bandaríkjunum vegið léttar en mat embættismanna Menntamálaráðuneytis á gögnum frá LHÍ. Það er því ómögulegt að segja að prófin í TR hafi ekki verið háskólagráður þrátt fyrir að opinber ríkisvottun hafi því miður ekki verið á þeim.

Í þessu sambandi er kannski vert að rifja upp að Hjálmar H. Ragnarsson var deildarstjóri Tónfræðadeildar TR frá stofnun hennar árið 1981 til 1988. Á þeim árum stóð í námsvísi skólans (útgefnum 1983), „Stefnt er að því að lokapróf frá Tónfræðadeild jafngildi BA-prófi í tónlist frá virtari tónlistarháskólum Bandaríkjanna og sambærilegum prófum í Evrópu.” Eftir að Hjálmar lét af störfum 1988 voru inntökukröfur í deildina hertar og nám í henni aukið til muna. Hafi lokapróf Tónfræðadeildar verið jafngilt BA-prófi 1988 þá var það svo sannarlega ekki minna virði þegar TR hætti að veita nemendum á þessu sviði inngöngu vegna þess að LHÍ hafði tekið við því hlutverki.

Af kennsluskrá LHÍ 2003-2004 má ráða að í hinum fræðilega hluta tónlistarnámsins eru gerðar minni kröfur til inngöngu en var í háskólanámið í TR. Þetta á við grundvallarnámsgreinar, svo sem tónheyrn, hljómfræði og kontrapunkt. Einnig hafa verið kennd undirstöðuatriði tónfræðinnar í LHÍ, sem er tónfræði fyrir þá sem ekkert kunna í þeirri grein, eru sem sé á grunnskólastigi. Lítil kunnátta í þessum undirstöðugreinum hlýtur að setja mark sitt á alla meðtöku þekkingar í deildinni og færa námið niður á lægra plan. Það kemur heim og saman við upplýsingar frá nemendum Tónlistardeildar LHÍ, sem segja að mjög mikill munur sé á kunnáttu nemenda, jafnvel þeirra sem eru í sama árgangi, og dragi það úr gildi námsins fyrir þá sem eru meira kunnandi.

Engin starfandi sinfónísk hljómsveit er í LHÍ vegna þess að skólinn hefur ekki burði til þess, er of fámennur. Þetta er stórt stökk niður á við frá því er var í TR, þar sem slík starfsemi hefur verið fyrir hendi um áratugi. Spilamennska í hljómsveit er einn bráðnauðsynlegasti hlekkurinn í þeirri þjálfun sem þarf að fara fram í tónlistarháskóla. Hefði þurft að auka hana fremur en minnka.

Kennaranámið er síðan kapítuli út af fyrir sig. Eftir nokkra myrkragöngu þar sem fyrst í stað átti ekki að vera neitt kennaranám í LHÍ, því næst skyldu allir nemar Tónlistardeildar taka kennarapróf (gott ef ekki kom hér enn eitt millistig þar sem ekkert kennaranám skyldi vera í deildinni), er nú komin sú niðurstaða að vera skal eins konar skyndikúrs í almennri kennslu- og sálarfræði – nýtískulegur að sögn – til eins árs, sem veita á kennsluréttindi. Kúrsinn er kenndur í samvinnu við Kennaraháskóla Íslands og er sameiginlegur öllum listgreinum, leiklist, myndlist og tónlist. Í TR var almenna kennslu- og sálarfræðin tveggja vetra nám (í stað þessa eina árs í LHÍ), einnig í samvinnu við Kennaraháskóla Íslands, en löguð að þörfum tónlistarkennara. Hin sérsniðna kennslufræði hvers hljóðfæris, ásamt æfingakennslu undir handleiðslu reyndra kennara, krafðist þriggja vetra ástundunar í TR en er nú tveggja vetra nám í LHÍ. Kennaranám LHÍ verður því að teljast nokkur eftirbátur kennaranáms TR; auk þess eru færri valkostir í LHÍ en voru á síðarnefnda staðnum því að ekkert sérhæft kennaranám fyrir tónlistarkennara grunnskólanna, þ.e. tónmenntakennaranám, er þar enn til boða.

Í ljósi alls þessa er ómögulegt að segja að námið í Tónlistardeild LHÍ sé frekar háskólanám en það nám sem var á þessu stigi í TR. Því eru gráður LHÍ að inntaki engu fremur háskólagráður en þær sem TR útskrifaði nemendur með, nema síður sé. Það verður að teljast vægast sagt undarlegt háttarlag að stofna formlega ríkiskostaðan og ríkisvottaðan háskóla til að lækka námskröfur, útrýma námsmöguleikum og skapa verri námsskilyrði en fyrir voru, en klifa á sama tíma sífellt á einhverri mikilli uppbyggingu. Er afar ólíklegt að Íslendingar hafi staðið svo hátt á þessu sviði, ekki frekar en á nokkru öðru, að ástæða hafi verið til að dempa tónlistarnámið niður. Kæmi mér ekki á óvart að þetta markaði LHÍ nokkra sérstöðu í veröldinni; er hér e.t.v. komið mótíf það eða leiðistef sem rektor var tíðrætt um að þyrfti að finna hinni nýju stofnun í þann mund sem hann var að taka við embætti sínu.

Tónlistardeild LHÍ er reist á þeim afleitu forsendum að kljúfa háskólanámið frá framhaldsskólanáminu í TR. Afleiðingin er fámenni í deildinni. Gegn þessu reynir LHÍ að hamla með að sækja inn á framhaldsskólastigið, lækka inntökukröfur frá því eð var í TR og jafnvel þær er Tónlistardeildin lagði fyrst upp með. Þetta dugir ekki til. Á skólaári 2003-2004 voru einungis 17 í hljóðfæraleik og 8 í söng í Tónlistardeild LHÍ. Slík deild er ekki til stórræðanna í tónlistarflutningi ein og sér og á mjög mikið undir samvinnu við aðra skóla eins og dæmin sanna. Það skýtur því skökku við að rektor LHÍ skuli senda óumbeðna náðun til aðstoðarskólastjóra sem gerir ekki annað en skýra frá gildi prófa við Söngskólann í Reykjavík. Á sú stofnun þó mun stærri innistæðu bak við sína starfsemi heldur en nýstofnuð Tónlistardeild LHÍ, sem ennþá á vart nokkuð annað en það fyrirheit sem býr í góðu kennaraliði, einn fámennan árgang sem er nýútskrifaður, og svo nokkrar línur í Stjórnartíðindum.


Styttri útgáfa af þessari grein birtist fyrst í Morgunblaðinu, laugardaginn 4. sept. 2004, bls. 29.


 ©  2004  Músa