Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 13. mars 2007
Afli Óperunnar
Sjá grein Björns Ingiberg frá 24. feb. 2007: „Góð ópera á erindi við marga“. Aðrar greinar um Íslensku óperuna má finna hér.

Björn Ingiberg Jónsson

Björn Ingiberg JónssonGunnar Guðbjörnsson tenórsöngvari skrifaði ágæta grein um málefni Íslensku Óperunnar í Lesbókina þann 3. mars síðastliðinn. Gunnar hefur margt gott fram að færa og nýtur hann reynslu sinnar sem óperusöngvari til margra ára. Ein málsgrein Gunnars vakti athygli mína: „Sýningarfjöldi ÍÓ er eðlilegur en fjöldi uppfærsla mjög fáar. Að fækka þeim enn er óeðlileg þróun. Niðurgreiðsla sæta á Íslandi er ekki hærri en gerist í evrópskum óperuhúsum og sætanýting í ÍÓ er almennt mjög góð.“

Sennilega þekkja fáir evrópskan veruleika óperunnar betur en Gunnar. Hann veit manna best að evrópsk óperuhús eru ekki einsleit.

Í Evrópu er óperurekstur breytilegur á milli landa. Staðan er einnig misjöfn á milli óperuhúsa innan sama lands eða landsvæðis. Samkvæmt upplýsingum sænska menningarráðsins um rekstur óperuhúsa árið 2003 má sjá að:

Gautaborgaróperuna, þar sem Gunnar söng við góðan orðstír fyrir fáum árum, heimsóttu tæplega 245 þúsund manns. Opinber styrkur á hvern gest voru 926 sænskar krónur. Hlutur sýningartekna, styrkja frá einkaaðilum og vaxtatekna var um 27%. Miðaverð var á milli 90 og 500 sænskra króna.

Fólkóperan er lítið óperufyrirtæki sem rekið er í bíóhúsi í Stokkhólmi. Í Fólkóperunni voru settar upp fjórar óperur árið 2003 og heildarsýningafjöldi var 184 sýningar. Í Fólkóperunni voru 94 ársverk árið 2003 þar af voru 11 ársverk við stjórnun og skrifstofustörf. Hlutur sýningatekna af heildartekjum var 37%. Hlutur styrkja frá einkaaðilum, vaxtatekna og sýningatekna af heildartekjum var tæp 50%. Fólkóperan hefur eitt leiksvið og sætafjöldi í sal er 589 sæti, sætanýting var 82%. Miðaverð Fólkóperunnar árið 2003 var á bilinu 125–390 sænskar krónur. Opinber styrkur á hvern gest voru 325 sænskar krónur árið 2003.

Þýskaland er eitt öflugasta ríki Evrópu í óperumálum. Samkvæmt tölum frá Sambandi þýskra leiksviða sóttu um 5% Þjóðverja óperur á hverju leikári frá 2002-2005 Það er ívið hærri prósenta en hefur verið Íslandi að meðaltali samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands.

Í yfirliti Sambands þýskra leiksviða um leikárið 2004-05 í Þýskalandi kemur fram að fjárstuðningur hins opinbera lækkaði á því tímabili. Leikhúsin svöruðu með sparnaði og nú er hlutur sjálfsaflafjár (miðasölu, styrkja ofl.) leikhúsa að meðaltali um 17% af útgjöldum.

Niðurgreiðsla hins opinbera á hvern leikhúsgest í Þýskalandi var um 100 evrur árið 2005 samkvæmt skýrslu Sambands hinna þýsku leiksviða frá september 2006.

Eitt besta óperuhús Þýskalands er Ríkisóperan í Bæjaralandi, sem Gunnar þekkir mætavel, þar komu 567.959 gestir á ballett, óperu og konserta árið 2004. Tekjur af miðasölu voru 23 milljónir evra árið 2004. Sjálfsaflafé Ríkisóperunnar nam 36 prósentum af útgjöldum hennar árið 2004.

Á fjárlögum íslenska ríkisins fyrir árið 2006 var gert ráð fyrir 175 milljónum króna til ÍÓ. Samkvæmt tölum Hagstofunnar hefur meðalfjöldi áheyrenda síðustu ára hjá ÍÓ á óperusýningum verið um tíu þúsund á ári. Gróflega má álykta að opinber styrkur á hvern seldan miða sé 17.500 íslenskar krónur.

Til eru óperuhús í Evrópu þar sem opinberir styrkir eru hlutfallslega hærri en opinberir styrkir til Íslensku Óperunnar. Það breytir litlu um rekstur ÍÓ. Vænlegra er að horfa til óperuhúsa sem gætu á einhvern hátt gagnast sem fyrirmynd. Hvað „eðlilegur“ sýningafjöldi ÍÓ er og hvort uppfærslum megi fækka eða ekki læt ég kyrrt liggja.


Höfundur er söngvari.

Greinin birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins, laugardaginn 10. mars 2007.


 ©  2007  Músa