Staðhæfingar án stoða *
Atli Heimir Sveinsson, tónskáld
Í dagblöðum hefur umræða um tónlist sjaldan verið á vitsmunastigi. Okkur hefur vantað góða gagnrýnendur, sem hafa getað fjallað um viðfangsefnið á vitsmunalegan hátt. Ítarlegri umfjöllum, t.d. í tímaritum hefur nær engin verið.
Í myndarlegri efnisskrá tónleikaraðar Caput-hópsins á Kjarvalsstöðum, er reynt
að brydda upp á vitsmunalegri tónlistarumfjöllun með góðum árangri: Hjálmar H.
Ragnarsson, tónskáld, skrifar prýðilega grein um um stöðu tónskáldskapar nú í
aldarlok. Samt er ég honum í flestu ósammála. Það er ástæðan fyrir athugasemdum
mínum hér á eftir.
Hjálmar segir: „... Það er of snemmt að meta tónlist þessarar aldar í samanburði
við fyrri tíma en ég leyfi mér að nefna þrjú atriði sem ég tel að hafi öðrum
fremur hamlað lifandi tónsköpun á okkar tímum, jafnvel kæft hana. Í fyrsta lagi
er það oftrúin á mátt vísindalegra aðferða, í öðru lagi krafan um nýstárleika,
og síðast en ekki síst nefni ég þá staðreynd að tónsmiðir á síðustu tímum hafa
ekki átt sér sameiginlegt tungutak í list sinni.“
Ég get ekki séð annað en að staðhæfing Hjálmars eigi sér enga stoð. Mér er ekki
kunnugt um neitt meiri háttar tónskáld, á okkar tímum, sem hefur oftrú „á mátt
vísindalegra aðferða“. Ekki Stockhausen, ekki, Cage, Nono, Messiaen, Feldman,
Zimmermann, og svona mætti lengi telja. Og þó Xenakis hafi daðrað við einhvern
geira vísindanna þá hefur það ekki kæft neina sköpun hjá honum.
Ég get heldur ekki séð að krafa um nýstárleika, frumleika eða hvað við viljum
kalla það hafi kæft neina sköpun hjá góðum listamönnum, eða verið þeim fjötur
um fót. Krafan um nýstárleika er ekkert meiri nú en hún hefur alltaf verið. Mikilvægt
listaverk er, og hefur alltaf verið, eitthvað meira en eintóm eftirlíking. Í
góðu listaverki er eitthvað nýtt að finna, eitthvað sem ekki áður var. Þetta
nefnist sköpun, sem er andstæða við eftirlíkingu.
Og svo er staðhæfingin um vöntun á sameiginlegu tungumáli. Það er ekki gott að
sjá hvað Hjálmar er að fara. Nú á dögum semja menn tónalt eða módalt eins og
áður var gert, einnig nota sumir tólftónaaðferð, seríalisma, eða eigin aðferðir.
Menn semja fyrir söng, hljóðfæri, rafgræjur eða tölvur. Menn bera sig að eftir
áhuga, menntun eða upplagi. Ég get ekki séð að fjölbreytni tjáningarmiðla,
máta eða aðferða, hafi kæft neina sköpun hjá merkilegum listamönnum.
Um hina veit ég ekki. Ég held að merkilegir listamenn hafi oftast notað annað
tungumál en obbinn af samferðamönnum þeirra. Hér á Íslandi talaði Jón Leifs allt
annað tungumál en allir hinir. Bach þróaði sitt eigið tungumál, á skjön við tíðarandann,
sama er að segja um Beethoven. Ólíkur. Þó má eflaust finna dæmi um hið gagnstæða.
Aftur á móti má segja að á okkar öld hafi sameiginlegt tungumál verið við lýði
í iðnaðar- og sölupoppinu, jukkinu. Aðferðir hafa verið þrautstaðlaðar, svo og
tungumálið. En hafi einhver sköpunargáfa verið til staðar á þessum vettvangi,
sem ég efast stórlega um, hefur hún verið kæfð. Alla vega er listrænn afrakstur
á núllinu.
Hjálmar segir að gamla þríhljómakerfið hafi gefið af sér hverja meistarasmíðina
á fætur annarri. En hann þegir, um að þær smíðar voru miklu fleiri, sem mislukkaðar
voru. Þetta má líka heimfæra upp á nútímaaðferðir: meistarastykkin eru þar líka
miklu færri en hin. Það eru ekki kerfin, sem gefa af sér meistaraverkin. Þau
verða til á annan hátt.
Og ef við lítum til bókmennta sjáum við það sama; rím eða rímleysa skiptir ekki
sköpum um gildi ljóða. Þó einhverjum takist að berja saman dýrt kveðna ferskeytlu,
er ekki þar með sagt að hún hafi hið minnsta bókmenntagildi. Og þó eitthvert
skáld „varpi af sér oki“ hefðbundins forms, og „brjótist úr fjötrum ríms og stuðla“
er ekki þar með sagt að meistaraverk verði til.
Í listsköpuninni eru margir kallaðir en fáir útvaldir, og þar eru mikil afföll;
meistarastykkin miklu færri en hrákasmíðarnar. Svona hefir það verið og ég hef
ekki trú á því að það breytist.
Að mínu mati hafa verið uppi alveg eins merkilegt tónskáld á 20stu öld og þeirri
19du. Ég get ekki séð, að Lutoslawsky, Messiaen, Nono, Zimmermann, Feldman og
Cage (sem allir eru nýlátnir) standi starfsnautum sínum frá fyrri öldum neitt
að baki. Annars sé ég ekki tilganginn í slíkum samanburðarfræðum.
Hjálmari gengur gott eitt til með ritsmíð sinni. Við verðum að vera gagnrýnin
í listinni, og við komumst ekkert áfram nema við höldum vöku okkar. Hann gerir
heiðarlega tilraun til að flokka vandamálin og skilgreina þau.
Hitt er líka alþekkt að mönnum finnist allt hafa verið betra í gamla daga. Mér
finnst Hjálmar leggjast í heimsósómaraus, sem er billeg lausn.
Og hann fellur í þá gryfju að gera „andmælandanum“ upp skoðanir og berja síðan
á honum. Slíkt er algengt á Íslandi. Orðaleppar Hjálmars líta vel út, fljótt
á litið, en þeir standast ekki nánari prófun. Þess vegna fer hann stundum með
staðleysur, eins og ég hef reynt að benda á.
Atli Heimir Sveinsson, tónskáld.
* Greinin birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins 11. júní 1994 sem andsvar við grein Hjálmars H. Ragnarssonar, Þankar um tónlist, sem birst hafði í tónleikaskrá CAPUT-hópsins. (Jón Hrólfur)
|