Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 14. feb. 2006
Vandamál tónlistarmenntunar í Reykjavík

Ásrún Davíðsdóttir, aðstoðarskólastjóri Söngskólans í Reykjavík

Ásrún Davíðsdóttir

Lögheimilissveitarfélög nemenda greiða beinan kennslukostnað því skv. núgildandi lögum er launakostnaður vegna tónlistarfræðslu alfarið á hendi sveitarfélaga.

Nemendur greiða annan rekstrarkostnað með skólagjöldum.

Reykjavíkurborgúthlutar tónlistarskólum í Reykjavík „kvóta“ þ.e. hversu margir þegnar hennar njóta styrks frá borginni. Kvótinn hefur minnkað ár frá ári, þar sem heildarfjármagn til málaflokksins hefur ekki verið aukið, heldur skorið af eldri skólunum eftir því sem nýir tónlistarskólar bætast við og íbúum fjölgar. Menntaráð borgarinnar reiknar út hversu há styrkupphæðin er fyrir hvert námsstig í hinum ýmsu skólum, eftir kennslumagni og miðar þar við launagreiðslur skv. kjarasamningum Sambands sveitarfélaga og tónlistarkennara.

Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu greiða ekki raunstyrk með nemendum sem stunda nám í Reykjavíkurskólunum, heldur ákveða styrkupphæðina einhliða. Sú upphæð er ekki í neinu samræmi við kostnað, sem er þó byggður á kjarasamningum sem þau eiga aðild að.  Sveitarfélögin lækka síðan fjárhæðina enn frekar, þar  sem þau telja að fyrir liggi samkomulag við ríkissjóð um að greiða hluta kostnaðar við fræðslu nemenda sem fá tónlistarnám metið til eininga í framhaldsskólum.  Slíkt samkomulag liggur ekki fyrir.

Sveitarfélög á landsbyggðinni neita flest að styrkja tónlistarnemendur til náms í Reykjavík. Ef þau hins vegar samþykkja kennslustyrk, er hann rétt metinn, þ.e. byggður á útreikningum Menntaráðs Reykjavíkurborgar.

Átthagafjötrar og aldursmörk

Búseta: Svo virðist sem tónlistarnám sé eina námið sem bindur umsækjendur í fjötra búsetu og aldurs.  Ekki er amast við því þó ungmenni í Reykjanesbæ eða Kópavogi vilji frekar stunda nám við Menntaskólann í Reykjavík eða Verzlunarskólann, heldur en Fjölbrautaskóla Suðurnesja eða Menntaskólann í Kópavogi.  Grunnskólanemar geta líka stundað lögboðið grunnskólanám í næsta bæjarfélagi á höfuðborgarsvæðinu, ef foreldrar kjósa og það hentar fjölskyldunni betur.  Tónlistarnemar neyðast hinsvegar til að skipta um lögheimili og freista þess  að komast inn í „Reykjavíkurkvótann“. Unglingum innan 18 ára aldurs þarf þá að skipa lögráðamann í Reykjavík!

Aldur: Sveitarfélög hafa sett 25 ára aldurshámark á tónlistarnemendur (undantekning er 27 ár fyrir söngnema í Reykjavík). Þarna er nemendum afar þröngur stakkur skorinn, í þjóðfélagi sem hvetur til endurmenntunar, símenntunar og nýrra atvinnutækifæra.

Dæmi þess hversu mikið ranglæti þetta er hrópa á okkur:  Kristinn Sigmundson, Viðar Gunnarsson, Guðjón Óskarsson, Jóhann Friðgeir Valdimarsson eru dæmi um „heimssöngvara“ sem hófu söngnámið eftir 27 ára aldur. Algengt er að nemendur sem stundað hafa tónlistarnám á barnsaldri, taki sér hlé til að einbeita sér að  almennu framhaldsnámi, stúlkur eignast barn/börn taka barnsburðarleyfi  og vilja svo taka upp þráðinn en þá er það, skv. „reglugerð“ sveitarfélaga of seint!

Tónlistariðkunn – menntun eða tómstundaiðja

Nám við viðurkenndan tónlistarskóla er tónlistarnám – alvöru nám.

Tónlistarskólar eru með inntökupróf og velja hæfustu umsækjendurna. Tónlistarnemar stunda nám við tónlistarskóla, til þeirra eru gerðar kröfur um ástundun og árangur, eins og í öðru námi. Til að geta á orðið hljóðfæraleikari/söngvari, leiðbeinandi eða tónlistarkennari, þarf einstaklingur að hafa stundað krefjandi tónlistarnám í mörg ár.

Menningarlíf á Íslandi ber vitni um öflugt starf tónlistarskóla og tónlistarmenntun:

Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslenska óperan, Listahátíð í Reykjavík, ýmsar listahátíðir um allt land, jazzhljómsveitir, rokkhljómsveitir, kirkjutónlist, kórastarf, lúðrasveitir, allt vex þetta upp úr tónlistarmenntun í tónlistarskólum.

Það hefur tekið mörg ár að byggja upp starfsemi tónlistarskólanna, það þarf hinsvegar ekki mörg ár til að brjóta niður. Ef tónlistarskólar mennta ekki nemendur sem halda síðan til framhaldsnáms, verða, innan fárra ára,  ekki til neinir tónlistarmenn á Íslandi og – það verða heldur ekki til neinir leiðbeinendur í það fjölbreytta tómstundastarf sem byggir á tónlist, a.m.k. ekki íslenskir.  Það er því miður þróunin, að ekki fást nema innfluttir tónlistarkennarar til starfa á landsbyggðinni, með allri virðingu fyrir erlendum vinnukrafti.  Þróunin er sú að örfáir íslenskir tónlistarkennarar koma til starfa.

Sveitarfélögin segja: við eigum ekki að standa undir menntun kennara, ríkinu ber að sjá um það.  En – það getur enginn orðið tónlistarkennari, sem ekki hefur stundað tónlistarnám í fjölda ára – grunnnám – miðnám – framhaldsnám – áður en hann hefur möguleika á að hefja tónlistarkennaranám „á kostnað ríkisins“.


Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. febrúar 2006.


 ©  2006  Músa