Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 5. júní 2007
Kaffiboð og/eða tvö óperuhús nauðsynleg?

Árni Tómas Ragnarsson

Árni Tómas RagnarssonAð undanförnu hef ég skrifað nokkrum sinnum um mál Íslensku óperunnar og ekki verið par sáttur. Með ráðningu Stefáns Baldurssonar í stól óperustjóra er loksins ástæða til að gleðjast vegna málefna Óperunnar, en Stefán er tvímælalaust mjög hæfur maður í starfið og raunar vart hægt að hugsa sér annan heppilegri til að stýra því uppbyggingarstarfi og stefnumótun, sem Óperunni er nú brýn nauðsyn að ráðast í.

Verkefni næstu stjórnar Óperunnar og hins nýja óperustjóra hljóta í megin atriðum að verða eftirfarandi: Að móta stefnu í verkefnavali til nánustu framtíðar. Að móta framtíðarskipulag Íslensku óperunnar og hugsanlega sameinast Sinfóníuhljómsveit Íslands. Að byggja brýr á milli Íslensku óperunnar og nýs Tónlistarhúss í Reykjavík.

Verkefnaval

Ég hef þegar margsinnis tjáð mig um verkefnaval síðustu ára, sem hefur leitt til mikillar fækkunar á óperusýningum og tölu óperugesta og lækkunar á eigin tekjum Íslensku óperunnar með miðasölu. Hinn nýráðni óperustjóri tjáði sig strax um þau efni og kvaðst ætla að bera hag almennings fyrir brjósti í þessum efnum. Sú yfirlýsing og mikil reynsla Stefáns í leikhúsbransanum ættu að tryggja að málum verði vel borgið í hans höndum á næstu árum og óþarfi að fjölyrða meira um það.

Framtíðarskipulag

Fyrir nokkrum árum varð Íslenska óperan sjálfseignarstofnun, en hafði áður verið í eigu Styrktarfélags Íslensku óperunnar. Stjórn Óperunnar var kosin á aðalfundum félagsins, en eftir breytinguna var stjórnin skipuð af óperustjóra í fyrstu, en síðan af sjálfri sér! Jafnframt var ákveðið að meirihluti stjórnar skyldi skipaður fulltrúum atvinnulífsins og skipti þekking eða áhugi viðkomandi á óperu eða leikhúsrekstri þá engu máli. Vinafélag Óperunnar skipaði tvo fulltrúa, en hið opinbera – menntamálaráðuneytið – átti engan fulltrúa í stjórninni þótt yfirgnæfandi meirihluti rekstrarfjár kæmi þaðan! Í skjóli þessa vitlausa skipulags hefur stjórn Óperunnar verið ómarkviss og lítið aðhald verið með þeirri stefnu, sem leiddi til hruns í aðsókn.

Hér þarf að gera bragarbót á. Núverandi stjórn Óperunnar á að segja af sér og ný stjórn að taka við. Út frá sögulegu samhengi er sjálfsagt að Vinafélag Óperunnar hafi áfram tvo fulltrúa í stjórn, en menntamálaráðuneytið ætti að skipa hina þrjá fulltrúana úr hópi fólks, sem hefur áhuga eða reynslu á þessu sviði á hliðstæðan hátt og gert er við skipun Þjóðleikhússráðs.

Sameining við Sinfóníuna!

Þá þarf einnig að hugsa vandlega um það hvort ekki sé rétt að Íslenska óperan og Sinfóníuhljómsveit Íslands gangi í eina sæng. Frá upphafi hafa hljóðfæraleikarar Sinfóníunnar tekið mikinn þátt í starfi Óperunnar og hefur t.d. ekki verið hægt að hafa óperusýningar þegar Sinfónían þarf að nýta alla sína krafta. Þannig hefur hvort sem er alltaf þurft að samræma starfsemi þessara stofnana og fyrir Óperuna verður það alltaf mjög mikilvægt að njóta krafta þeirra frábæru spilara, sem hljómsveitina skipa.

Auk hagræðingar vegna hljóðfæraleiksins er einnig um aðra sjálfsagða hagræðingu að ræða svo sem við skrifstofuhald og markaðs- og sölustarf. Það er engin skynsamlega ástæða fyrir því að þessir aðilar pukrist hvor í sínu horni með mjög hliðstæða starfsemi og komi um leið í veg fyrir betri nýtingu almannafjár.

Tónlistarhúsið og Óperan

Í síðust grein minni gagnrýndi ég forráðamenn Tónlistarhússins fyrir að vilja ekki taka vel á móti óperu í húsið og krafðist skýringa. Mér til undrunar var mér ekki svarað með öðru en kaffiboði þeirra Stefánanna Eggertssonar stjórnarformanns og Hermannssonar framkvæmdastjóra Austurhafnar, en það félag sér um uppbyggingu hússins fyrir hönd ríkis og borgar, en félagið Portus byggir húsið og mun annast rekstur þess.

Hér þarf að koma smá forsaga. Þegar hugsað var um byggingu Tónlistarhússins fyrir rúmlega 20 árum skiptust menn í tvær fylkingar um það hvort ópera ætti að vera með eða ekki. Þeir sem voru á móti óperu unnu þann slag. Margir óperuunnendur og fleiri urðu þá bæði undrandi og sárir, en fyrir nokkrum árum tók Björn Bjarnason menntamálaráðherra af skarið og gekk skrefið til hálfs við að hleypa óperu í húsið. Það var gert með því að láta stækka sviðið og hafa hljómsveitargryfju. Hitt vantaði þó enn, en það var að gera aðstöðu baksviðs boðlega til að taka við sviðsbúnaði og fleiru, sem fylgir óperusýningum. Um þetta hefur verið pexað í nokkur ár og hefur ekki mikið vantað upp á til að óperufólk mætti sæmilega vel við una.

Stjórnendur Íslensku óperunnar hafa hins vegar verið mjög ósáttir við þá Tónlistarhúsmenn, - svo ósáttir að í seinni tíð hafa þeir verið ófúsir til að skoða eða ræða þá möguleika, sem í boði hafa verið, en í staðinn hallað sér að glæfralegri hugmynd um óperuhús í Kópavogi. Ég kalla hana “glæfralega” vegna þess að húsið í Kópavogi mun kosta 2- 3 milljarða króna hið minnsta og vegna þess óperur eru ekki sýndar nema í mesta lagi 30- 40 sinnum á ári. Því er rekstrargrundvöllur slíks húss vægast sagt hæpinn. Þar að auki er staðsetning óperuhúss í Kópavogi vægast sagt óheppileg, bæði með tilliti til samvinnu við Sinfóníuhljómsveitina og svo er miðbær Reykjavíkur augljóslega kjörinn vettvangur fyrir þjóðaróperu.

Svo langt var gengið af þeim óperumönnum að þegar fulltrúum þeirra var boðið að hitta ráðgjafa Tónlistarhússins fyrir rúmu ári síðan og gera tillögur þá lögðu þeir lítið til málanna.. Þeir stungu einnig undir stól skoðanakönnun, sem þeir höfðu sjálfir látið gera og sýndi að mikill meirihluti Íslendinga vildi fá óperu í Tónlistarhúsið. Loks bitu þeir óperumenn höfuðið af skömminni með því að líta ekki við þeim viðamiklu breytingum, sem nú hafa verið gerðar á baksviðsaðstöðu í Tónlistarhúsinu og gætu gjörbreytt aðstöðu til óperuflutnings í húsinu. Forráðamenn Óperunnar hafa vitað af þessum breytingum, en þagað um þær mánuðum saman þótt mjög líklegt sé að þær muni duga Óperunni til að eiga sína heimahöfn í Tónlistarhúsinu, amk setja þar upp með góðu móti flestar ef ekki allar þær stærri óperur, sem ættu að vera á verkefnaskrá.

Óperuaðstaða í Tónlistarhúsinu

Talsvert hefur verið rætt um aðstöðu fyrir óperusýningar í Tónlistarhúsinu með tilliti til stærðar áhorfendasalar og hljómburðar. Þessi mál eru bæði einföld og flókin. Þau eru flókin vegna þess að það er aldrei hægt að segja nákvæmlega fyrir um hljómburð með vissu eins og mýmörg dæmi sanna. Hins vegar hafa bestu fáanlegir sérfræðingar verið fengnir til að hanna hljómburð í húsinu og þeir fullyrða að hljómburður verði góður, bæði fyrir óperur og sinfóníur. Að svo stöddu verðum við auðvitað að trúa því. Hvað varðar stærð salarins þá hafa stjórnendur Óperunnar rætt um að heppileg stærð sé um 800 sæti. Hvernig sú tala er fengin er ekki gott að segja, en þá er því í öllu falli til að svara að hér munar ekki miklu því sæti á gólfi Tónlistarhússins eru um 8-900 á óperusýningum, en svo má einnig nýta sæti á svölum í kring eftir þörfum þannig að um 1400 manns geta alls setið óperusýningar. Með fleiri sætum gefst möguleiki á að bjóða börnum, öldruðum og öryrkjum að kaupa miða á vægu verði, en það hefur ekki verið hægt í Óperunni til þessa og miðaverð þar (um 5000 krónur) virkað hamlandi á aðsókn. Fleiri sæti ættu því að þjóna hagsmunum bæði Óperunnar og almennings um leið og þau auka tekjur af miðasölunni.

Nú þarf aðeins að leggja lokahnykkinn á að fara yfir aðstöðu baksviðs í Tónlistarhúsinu þannig að smáatriðin skemmi ekki heildarmyndina í þessu stóra máli. Í umræddu kaffiboði kom nefnilega síðast en ekki síst í ljós að forráðamenn Austurhafnar, - Stefánarnir, taka aðkomu óperu í Tónlistarhúsið fagnandi og hefur því af þeirra hálfu verið leyst úr alltof langvarandi ágreiningsmáli, sem aldrei hefði átt að vera uppi á borðum. Ég ber fullt traust til þess að óperu Stefáninn Baldursson muni vinna betur með nöfnum sínum en forveri hans og að þar með rætist draumur óperuunnenda um að sjá reglubundinn óperuflutning á fjölum Tónlistarhússins.


Höfundur er læknir.

Greinin birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins, laugardaginn 2. júní 2007.


 ©  2007  Músa