Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 13. mars 2007
Framtíð óperunnar í uppnámi!
Sjá eldri greinaskrif um Íslensku óperuna hér

Árni Tómas Ragnarsson

Árni Tómas Ragnarsson Æ, á undanförnum vikum hefði mér þótt svo miklu skemmtilega að fara í Óperuna til að hlusta á fagran söng Gunnars Guðbjörnssonar og félaga heldur en að skrifa hverja nöldurgreinina á fætur annarri um Íslensku óperuna, sem er mér þó svo afar kær.

En stundum þarf að gera fleira en gott þykir. Fyrir okkur sem elskum óperur er mikið í húfi einmitt núna. Það þýðir ekkert fyrir Gunnar né aðra að reyna að breiða yfir það að Íslenska óperan er á fallandi fæti og tel ég einfaldlega svo brýnt að reyna að stöðva þá þróun áður en óperuáhugi almennings fjarar endanlega út að ég nöldra nú frekar en hlusta.

Ástæðan fyrir slöku gengi Óperunnar er, eins og ég hef áður sagt, röng stefna í vali verkefna, - það hafa verið valin verkefni, sem ekki höfða til almennings. Aðsóknartölur tala sínu máli, alveg sama hvað hver segir. Raunar er það sláandi að í rökræðu undanfarinna vikna hafa forsvarsmenn Óperunnar ekki lagt á borðið aðsóknartölur síðustu ára né hvert sé hlutfall miðasölu í heildartekjum Óperunnar. Hvort tveggja eru þó lykilstærðir þegar rætt er um það hvort rekstur óperuhússins gangi vel eða illa. Sem betur fer er þó hins vegar auðvelt að giska á þessar tölur, sýningar á hverju verki hafa verið örfáar og það er ekki einu sinni fullt hús á frumsýningum þrátt fyrir fjölda boðsmiða! Síðasta uppfærslan, Flagari í framsókn, var sýnd sjö sinnum, seldir miðar hafa verið innan við 3 þúsund og hver seldur miði því verið niðurgreiddur með tæpum 20 þúsundum króna!

Ofveiði á áhorfendum?

Í Lesbókargrein 3. mars s.l. reynir Gunnar Guðbjörnsson söngvari að slá ryki í augu fólks með flækjum, sem koma þessu máli lítt við. Jafnvel fyrirsögn greinar hans – “Aflabrestur í ofveiði” er bæði mér og mínum málfarsráðunauti alveg óskiljanleg. Skýringar Gunnars á þessari fyrirsögn í lok greinarinnar: “Nútíminn býður upp á ofveiði á áhorfendum” -  ættu etv betur heima sem texti í súrrealistískri óperu. Ekki bætir úr skák þegar Gunnar í framhaldinu líkir óperugestum við þorska og ufsa, sem lenda í trolli óperunnar.

Þetta á væntanlega að vera grín hjá Gunnari, en að því slepptu má segja að það eru einmitt ufsarnir, sem ekki hafa fengið neitt við sitt hæfi í Óperunni síðustu árin, - bara þessir sömu örfáu þorskar sem hafa áhuga á Flagaranum og hans líkum, þorskar sem mæta svo aftur og aftur í Óperuna á kostnað ríkisins. En eymingja ufsarnir, sem ég er að reyna að tala fyrir og myndu mæta á þær 20 sýningar, sem eftir væru ef Carmen væri á fjölunum, en ekki Flagarinn,  ja, þeim vill Gunnar einfaldlega fleygja fyrir borð - þótt brottkast sé reyndar kolólöglegt.

Vinsælar óperur ekki til?

Ekki er hitt skárra þegar Gunnar reynir að vísar því á bug að hægt sé að skipta óperum upp í vinsælar og minna óvinsælar óperur og tekur ýmis fráleit dæmi, m.a. frá óperunni í Lyon þar sem hann eitt sinn starfaði. Hann reynir líka að réttlæta örfáar sýningar Íslensku óperunnar á hverju verki með því að segja að þetta gerist nú líka víða erlendis. Þarna talar Gunnar gegn betri vitund. Að vísu kemur það fyrir í erlendum óperuhúsum, sem sýna mismunandi verk á hverju kvöldi, að sama uppsetning er aðeins sviðsett nokkrum sinnum og svo ekki aftur fyrr en næsta vetur, en almennt eru uppfærslur taldar mislukkaðar hvað aðsókn varðar í flestum húsum ef þær ganga ekki aftur og aftur svo tugum skipti.

Það er líka lítill vandi að telja upp amk 20 óperur sem eru hátt á vinsældalista óperuhúsa um nær allan heim og skal það gert hér með: Carmen, Rigoletto, La traviata, Il trovatore, Aida, Don Carlos, La boheme, Tosca, Turandot, Töfraflautan, Brúðkaup Figarós, Don Gioavanni, Rakarinn frá Sevilla, Ástardrykkurinn, Ævintýri Hoffmans, Samson og Dalila, Pagliacci, Cavalleria rusticana, Lohengrin og Hollendingurinn fljúgandi. Í öllum þessum óperum renna blóð og tár, já, eiginlegar allir safar mannslíkamans renna þar í stríðum straumum (líka þessir dónalegu) og það er engin slortónlist, sem leikin er með.

Fyrir forvitna og fjölfróða

Inn á milli mætti sýna okkur ýmsa aðra gimsteina óperusögunnar, sem ekki ná til allra, kannski mætti 3. – 6. hvert verkefni Óperunnar bjóða upp á slíkt í kynningarskyni, en fjandakornið ekki tvö eða fleiri verk í röð eins og verið hefur! Sem þannig kynningarverk mætti nefna nær öll verk Wagners, sem eru þó ekki fyrir nýgræðinga til að byrja á, einnig mætti nefna verk eins og Júlíus Cesar eftir Handel þar sem mörgum contratenórum er teflt fram samtímis í unaðsfögum söng, þá mætti sýna tímamóta óperuna Orfeus og Evridís efir Gluck og Cosi fan tutte Mozarts af því hún er slíkt meistaraverk, þótt ekki höfði hún til fjöldans.

Svo koma perlur eins og Lucia di Lammermoor, sem alla grætir, hin bráðfyndna Don pasquale, Norma eftir Bellini og fleiri og fleiri áður en kemur að Flagaranum í framsókn. Fyrir okkur Íslendinga er líka svo bráðnauðsynlegt að sýna nýjar íslenskar óperur öðru hvoru.

Fyrir hvern er Óperan?

Það sem Gunnar og forsvarsmenn Óperunnar eiga eftir að verja er það að nú er þúsundum íslenskra óperugesta úthýst úr óperunni ár eftir ár með því að sýna aðeins verk sem höfða til örfárra. Er það þá svo ómerkilegt að syngja úr sér hjartað fyrir venjulegt fólk? Á þetta fólk ekki líka rétt á því að fá að njóta þeirra 150 milljóna króna, sem ríkið greiðir árlega til Óperunnar?

Lykilspurningin er: Fyrir hvern er óperan? Er hún til fyrir listamenn, sem vilja stunda naflaskoðun og ákveða svo að sú skoðun ein sé frambærileg list og er þá alveg sama um það hve margir eru þeim sammála? Eða er óperan fyrir fjöldann, - fyrir þann litla hluta almennings, sem enn hefur þörf á að njóta listar og ætlast til þess eins að sú list sé skiljanleg, að hún höfði til sín? Það er hægt að fara út í endalausar rökræður um eðli og tilgang listarinnar, en því væri best sleppt hér. Leikhús og óperuhús eru nefnilega ekki naflaskoðunartæki nema að litlum hluta, þau eru fyrst og fremst fyrirtæki, sem þurfa eins og önnur að aðlaga sig að ákveðnum rekstrarforsendum, - markaðinum. Leikhús þurfa áhorfendur, annars er þeim lokað (nema þau hafi á bak við sig ríkar ekkjur eins og í The Producers eða hálfsofandi skriffinna ráðuneyta eins og á Íslandi).

Óperustefna óskast

Það er ekki aðeins stjórnendur Óperunnar og hann Gunnar minn sem eru á villigötum í þessu máli. Þeir ættu nefnilega að hafa eitthvað aðhald þannig að þegar vitleysan gengur út í öfgar, þá ætti að vera til einhver aðili, sem getur stoppað þá. Því miður er málum alls ekki svo háttað. Óperan er orðin sjálfseignarstofnun og engum háð, hún tekur bara við tékkanum frá ráðuneytinu og ræður sér svo algerlega sjálf. Stjórnin er að meirihluta skipuð fjármálamönnum, sem margir hverjir vita næsta lítið um óperur. Næsti óperustjóri gæti þess vegna orðið Gunnar sjálfur (sem ábyggilega hefur sótt um stöðuna) eða einhver annar, sem er líka alveg sama um þarfir íslenskra óperugesta. Og þá fer nú að verða óvíst um framtíð Íslensku óperunnar.

Þessi staða er nú uppi vegna þess að menntamálaráðuneytið fyrir hönd hins opinbera hefur alls enga stefnu í óperumálum frekar en í öðrum menningarmálum. Þess vegna hefur Íslenska óperan fengið að drabbast niður án afskipta að ofan, - það er einfaldlega hent í hana 150 milljónum á ári og síðan sagt: “Gerið nú eitthvað almennilegt við þennan pening.” Hvað það síðan verður veit enginn, amk ekki í ráðuneytinu.

Það er líka vegna skorts á menningarstefnu sem það gerðist fyrir tilviljun að Tónlistarhús varð allt í einu til á teikniborðinu og samþykkt af ráðamönnum, en án þess að nokkur vissi nákvæmlega hvað ætti að vera í því húsi, - alveg óvart var þar bara ekki ópera og enginn gat gefið góða skýringu á því. Það gerðist bara af því bara! Og svo kom Gunnar Birgisson og hann þurfti að leysa lóðavandamál í Kópavogi. Þar með varð stefnan í óperumálum Íslendinga skyndilega alveg klár eftir áratuga óvissu. Eins og óknyttadrengir voru áður sendir í Breiðavík var Óperan nú send í Kópavog – og forsvarsmenn hennar tóku því fagnandi, enda í botnlausri fýlu út í Tónlistarhússmenn, sem sín megin höfðu hinn ofstækisfulla sinfóníuriddara Stefán Eggertsson í fararbroddi. Stefán vill orgel í húsið, orgel sem kostar 150 milljónir og sem takmarkar aðra notkunarmöguleika hússins; - orgel sem notað er af sinfóníunni einu sinni á 5 ára fresti. Stefán vill ekki óperu í húsið, listgrein sem gæti dregið tugþúsunda gesta í húsið, ekki heldur söngleiki né leiksýningar, sem gætu dregið að enn fleiri gesti. Ekki ballett, ekki stórbrotna popptónleika, ekki...

Nei, listinn er of langur, en alveg eins og Stefán Eggertsson kemst upp með þetta komast forráðamenn óperunnar upp með sín heimskulegu plön af því að yfirvöld menningarmála hafa enga stefnu, þetta gerðist allt bara svona hálf óvart – en allt fer þetta nú einhvern veginn og reddast um síðir. Um ábyrgð er jú ekki að ræða.

En nú er ég hættur að nöldra í bili og ætla að setja Jússa á fóninn.


Höfundur er læknir.

Greinin birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins, laugardaginn 10. mars 2007.


 ©  2007  Músa