|
Þrautaganga eða sigurför?* Arna Kristín Einarsdóttir <arna at b11.cc> Árið 1996 flutti Hallé sinfóníuhljómsveitin í Manchester, ein elsta starfandi hljómsveit á Bretlandi, í nýtt og glæsilegt tónlistarhús The Bridgewater Hall. Tónlistarhúsið, sem teiknað er af arkitektunum Renton Howard og Wood Levin, er glæsileg glerbygging sem stendur í miðbæ Manchester. Húsið hefur hlotið fjölda viðurkenninga, meðal annarra frá The Royal Institute of British Architect og The Civic Trust Special Award, fyrir að vera sú bygging sem hvað mest hefur lyft ásýnd Manchesterborgar. Það þótti ganga kraftaverki næst að byggingin skyldi ekki verða fyrir skemmdum þegar stærsta sprengja Írska lýðveldishersins (ÍRA) sprakk í miðbæ Manchester í júní 1996, nokkrum mánuðum áður en húsið var tekið í notkun. Tónlistarhúsið sjálft er rekið af Hallogen Ltd, samvinnufyrirtæki Hallé Concert Society og SMG fasteignafélags. Aðal salurinn tekur 2341 manns en einnig eru tveir minni salir sem hvor um sig taka rétt um 600 manns. Hallé hljómsveitin átti í töluverðum rekstrarvandræðum í kjölfar flutningsins. Tilkostnaður vegna flutninganna og niðurskurður styrkja frá breska menningarsjóðnum (The Arts Council) og sveitarfélaginu gerði það að verkum að bilið á milli rekstrarkostnaðar og nettó innkomu hljómsveitarinnar breikkaði stöðugt og varð næstum óbrúanlegt. John Summers, núverandi framkvæmdastjóri hljómsveitarinnar, heldur því fram að slæmar ákvarðanir fyrrum framkvæmdateymis hafi ekki bætt ástandið í rekstrar- og afkomumálum hljómsveitarinnar. Sem dæmi lá fyrir að áheyrendur væru tilbúnir að greiða hærra miðaverð fyrir betri tónleikaupplifun í nýju húsi en það tækifæri var ekki nýtt sem skildi.
Hallé ungliðahljómsveitin Árið 2002 var stofnuð ungliðahljómsveit undir merkjum Hallé hljómsveitarinnar,
Hallé Youth Orchestra. Hér vildi hljómsveitin ná sérstaklega til tónlistarnema
í bresku ríkisskólunum frekar en að horfa til þeirra sem þegar stunda nám í tónlistarskólum,
enda standi þeim til boða allt hið besta. Ungliðahljómsveit Hallé hljómsveitarinnar
hefur nú þegar náð frábærum árangri og vakið athygli. Markmiðið með stofnun hljómsveitarinnar
var þó ekki síður að gefa aðstoðarhljómsveitarstjóra Hallé hljómsveitarinnar
tækifæri til þess að vaxa og dafna. Í hans verkahring er full umsjón með hljómsveitinni,
hvort sem er á stjórnendapallinum eða við listræna stjórnun. Hljóðfæraleikarar
í ungliðahljómsveit Hallé njóta jafnframt reglubundinnar leiðsagnar meðlima Hallé
hljómsveitarinnar og stjórnenda hennar. Árið 2003 var svo stofnaður ungliðakór
Hallé fyrir söngvara á aldrinum 12-19 ára til að auka enn frekar starf hljómsveitarinnar
með ungu fólki.
Á árunum 1977 til 1996 var starfandi á Íslandi Sinfóníuhljómsveit æskunnar. Stjórnandi hennar og forsprakki var bandaríski stjórnandinn og fiðluleikarinn Paul Zukovsky. Metnaður hljómsveitarinnar var afar mikill og oft og tíðum stóð hljómsveitin fyrir frumflutningi á verkum á Íslandi. Tónleikar hljómsveitarinnar áttu sinn sess í tónlistarlífi höfuðborgarinnar og vöktu ávallt mikla athygli og því mikill missir fyrir íslenskt tónlistarlíf að starfsemi hljómsveitarinnar skuli hafa verið lögð niður. Los Angeles Fílharmónían var stofnuð árið 1919 af margmilljónamæringi og áhugatónlistarmanni að nafni William Andrews Clark jr. Hljómsveitin þykir eitt helsta flaggskip sviðslista í Suður-Kaliforníu og ein af bestu sinfóníuhljómsveitum Bandaríkjanna. Finnski hljómsveitarstjórinn Esa-Pekka Salonen hefur verið stjórnandi hennar frá því 1992. Tónleikagestir hljómsveitarinnar eru yfir ein milljón á ári. Starfsárinu er skipt upp í 30 vikna tónleikaröð í Walt Disney Concert Hall og 12 vikna sumartónlistarhátíð í Hollywood Bowl, í skemmtanahverfi borgarinnar, þar sem tónleikar undir stjörnubjörtum
himni hafa verið vinsæl hefð síðan 1922.
Tónleikum fjölgar um 65 Tölur frá Joan Cumming, yfirmanni markaðs- og upplýsingadeildar hljómsveitarinnar,
sýna að flutningur hljómsveitarinnar í Walt Disney Concert Hall hafði afar góð
áhrif á rekstur Fílharmóníunnar m.a. vegna hækkunar á miðaverði og góðrar aðsóknar.
Síðasta starfsár hljómsveitarinnar í Dorothy Chandler Pavilion, þar sem hljómsveitin
hafði átt heima síðan árið 1964, voru haldnir 112 áskriftartónleikar þar sem
sætanýting var að meðaltali 69%. Fyrsta starfsárið í Walt Disney Concert Hall
voru 157 tónleikar og sætanýting náði 94%. Betri sætanýting segir þó ekki alla
söguna þótt hún hafi án efa bætt upplifun bæði hljómsveitarmeðlima sem áhorfenda.
Rétt er að taka það fram að hljómsveitin minnkaði töluvert við sig í salarstærð.
Hún fór úr 3.100 sæta sal í 2.265 sæta sal. Annað starfsárið í nýju húsi voru
tónleikar 168 og á síðasta starfsári voru tónleikarnir 177. Þrem árum eftir flutningana
hafði tónleikum hljómsveitarinnar því fjölgað um 65 eða sem svarar rúmlega einu
starfsári hjá SÍ. Eftirspurn eftir tónleikum hljómsveitarinnar jókst því til
muna við að flytja í hið nýja tónlistarhús.
Flutningur Filharmóníunnar hafði ekki einungis þau áhrif að auka ánægju og fjölda áheyrenda heldur breytti hann stafsemi hljómsveitarinnar á marga vegu. Það var ekki eingöngu aukið við tónleika og fjölbreytni heldur var nýtt fyrirtæki, „LA Phil Presents“, kynnt til sögunnar. Fyrirtækið byggir í raun á gömlum grunni sem hljómsveitin og rekstrarfyrirtæki hennar, Los Angeles Philharmonic Association, höfðu lagt. Markmið þess var að hugsa út fyrir ramma hljómsveitarinnar og ná með ágengum aðferðum og aðgerðum til nýrra áheyrenda sem standa fyrir utan hinn hefðbundna hóp tónleikagesta. Mótað var nýtt hugtak utan um starfsemina í tengslum við flutninginn. Talið var að Los Angeles Philharmonic Orchestra hefði svo eindregna skírskotun í klassíska tónlist að það fæli i sér of einhliða skilaboð til nýrra áheyrenda sem verið væri að höfða til. Ákveðið var að setja fram nýtt „brand“ eða vörumerki sem byggði á gælunafni hljómsveitarinnar og hefði þar af leiðandi yfir sér afslappaðri tón. Tilgangur LA Phil Presents er að vera nokkurs konar gæðastimpill á þá tónlist sem hleypt er inn í húsið. Með því að La Phil stendur fyrir og kynnir ekki aðeins sína eigin tónleika, heldur einnig tónleika utanaðkomandi listamanna og hljómsveita í húsinu, geta áheyrendur gengið að því vísu að það sem fram fer og boðið er upp á tryggi ánægjulega tónlistarupplifun. Þess er hinsvegar vandlega gætt og lögð sérstök áhersla á að hlutverk og hlutur Los Angeles Fílharmóníunnar sjálfrar sé alltaf miðpunktur starfseminnar í tónlistarhúsinu. Ekki liggur fyrir hvernig samstarfi stjórnar Tónlistar- og ráðstefnuhússins og SÍ
verður háttað. Þó kveða samningar á um sameiginlega markaðssetningu SÍ og Tónlistar-
og ráðstefnuhússins (TRH). Hagsmunir SÍ og TRH hljóta að vera hinir sömu, það
er að fylla húsið af tónlist og lífi. Hér þarf SÍ að sjá tækifæri í að
styrkja stöðu sína enn frekar í samstarfi við þá sem stýra húsinu. Hægt er að
sjá fyrir sér að merkjum SÍ verði haldið á lofti sem nokkurs konar gæðastimpli
á aðra menningarviðburði sem boðið er upp á, líkt og gert var hjá Los Angeles
Fílharmóníunni. Þannig má styrkja ímynd hljómsveitarinnar í samfélaginu enn frekar.
Þær raddir hafa heyrst að húsið ætti fremur að kallast Ráðstefnu- og tónlistarhús
en Tónlistar- og ráðstefnuhús enda liggur fyrir að ráðstefnuhald verður veigamikill
þáttur í rekstri hússins. Eins eru margir sem benda á að aðrar tónlistarstefnur
hljóti að eiga sér athvarf í húsinu ekki síður en sinfónísk tónlist. Sá möguleiki
er því fyrir hendi að hljómsveitin verði undir í samkeppninni við aðra starfsemi
innan hússins sæki hún ekki fram af krafti. Um síðustu helgi [17. mars 2007] birtist grein eftir Örnu Kristínu Einarsdóttur í Lesbókinni sem fjallaði um áheyrendaþróun hjá sinfóníuhljómsveitum á Íslandi, í Bandaríkjunum og Svíþjóð. Eins og boðað var fjallar hún í þessari grein um reynslu tveggja hljómsveita, Hallé sinfóníuhljómsveitarinnar í Manchester, Englandi og Los Angeles Fílharmóníunnar í Bandaríkjunum af því að flytja í ný tónlistarhús. Einkum er litið til þess hvaða áhrif flutningarnir og rekstrarformið höfðu á starfsemi hljómsveitanna. Greinarnar byggja á meistaraprófsritgerð Örnu Kristínar í menningar- og menntastjórnun frá Háskólanum á Bifröst. |
|