Allir með á nótunum – Tónlistarbyltingin í Venezúela getur orðið Íslendingum vegvísir á krepputímum
Arna Kristín Einarsdóttir <arna [at] sinfonia.is>
125 ungliðasveitir
Skærasta stjarnan sem El Sistema hefur alið er án efa hinn frábæri hljómsveitarstjóri Gustavo Dudamel. Dudamel hóf fiðlunám 10 ára gamall og síðar hljómsveitarstjórnun. Aðeins 18 ára gömlum var honum falið að stjórna Simon Bolivar hljómsveitinni þar sem einungis afburðanemendur kerfisins spila. Með þeirri hljómsveit hefur Dudamel farið sigurför um heiminn. Árið 2007 komu þau fram á Edinborgarhátíðinni þar sem hljómsveitinni og Dudamel var fagnað ákaft. Sagan endurtók sig á Proms í Albert Hall í London nokkrum dögum seinna. Í fyrra var Gustavo Dudamel aftur boðið að koma fram á Edinborgar- og Proms hátíðunum en nú með Sinfóníuhljómsveit Gautaborgar þar sem hann starfar sem aðalhljómsveitarstjóri. Og aftur fögnuðu áheyrendur. Nú í haust mun Gustavo Dudamel taka við stjórnendaprikinu hjá Los Angeles Fílharmóníunni úr hendi Esa Pekka Salonen. | Salurinn er þéttsetinn. Spennan í loftinu er rafmögnuð. Á sviðinu situr risavaxin sinfóníuhljómsveit skipuð ungu fólki á aldrinum 12-25 ára. Þau sitja prúð og bíða eftir að stjórnandi þeirra stökkvi á svið. Þegar hann hleypur inn á sviðið er honum fagnað eins og poppstjörnu. Hann þakkar brosandi fyrir sig og hrokkið hárið dúar á höfði hans. Svo snýr hann sér að hljómsveitinni, einbeittur, lyftir höndum og fyrstu taktarnir hljóma.Tónninn er dásamlegur og krafturinn í hljómsveitinni fyllir salinn. Áheyrendur hrífast með enda magnað að hlusta og horfa á ungmennin leika af hita og ástríðu. Eftir hlé hækka þau flugið og enda tónleikana í suðrænni sveiflu. Hljómsveitin getur ekki lengur setið kyrr og er farin að dansa á sviðinu. Trompetarnir rísa úr sætum og meira að segja fiðlurnar snúa sér í hring. Áheyrendur eiga erfitt með sig í sætunum og fagna innilega þegar tónleikunum lýkur. Það er eins og þakið ætli af húsinu.
125 ungliðasveitir Hljómsveitin á sviðinu er frá Venezúela og ber heitið Orquestra Sinfónica Simón Bolívar. Ævintýrið byrjaði fyrir rúmlega 30 árum þegar venúsalíski hagfræðingurinn og tónlistarmaðurinn Jose Antonia Abreau fékk þá hugmynd að nota mætti tónlist sem félagslegt tæki til að kenna börnum aga, virðingu og samvinnu. Hugmynd hans var að þróa tónlistarkerfi sem hann kallaði Fundacion del Estado para el Sistema Nacional de las Orquestas Juveniles e Infantiles de Venezuela, til styttingar kallað El Sistema.
Hugmynd Abreaus var sú að byggja kennsluna á samspili frekar en einkatímum. Nemendur skyldu settir í hljómsveit um leið og þeir hefðu náð lágmarkstökum á hljóðfærinu. Frá stofnun hefur Abreau tekist að fá fjármagn og fyrirgreiðslu fyrir El Sistema hjá 7 ríkisstjórnum af ýmsum toga sem stjórnað hafa í Venezúela síðustu áratugina. Hinir ólíku ráðamenn hafa ekki getað litið fram hjá þeim stórkostlegu umbótum sem orðið hafa á lífi barnanna sem fengið hafa hljóðfæri í hendurnar og verið látin æfa sig í samspili. Í dag hafa yfir 400.000 venúsalísk börn sótt hljómsveitarnámið í yfir 125 ungliðasveitum. Nítíu prósent þessara barna eru úr fátækrarhverfum.
Yfir 30 atvinnnuhljómsveitir „Okkar helsta markmið er ekki að ala upp atvinnumenn. Okkar helsta markmið er að bjarga þessum börnum“ segir Xavier Moreno, framvæmdastjóri skólans. Þrátt fyrir þetta yfirlýsta markmið hafa sprottið úr kerfinu frábærir hljóðfæraleikarar. Í dag eru starfandi í Venezúela yfir 30 atvinnuhljómsveitir en þegar Abreau hóf uppeldisstarf sitt voru einungis tvær sinfóníuhljómsveitir starfandi á öllu landinu og þær aðallega skipaðar evrópskum spilurum. Í dag leika fyrrum nemendur El Sistema með hljómsveitum víða í Evrópu.
Með markvissu og metnaðarfullu uppeldisstarfi hefur verið lagður grunnur að menningarbyltingu í Venezúela. Hún hefur ekki einungis fært börnunum sem stunda hljómsveitarnámið tækifæri til að þroska sig og öðlast nýja færni heldur hefur hún breytt lífi þeirra, fjölskyldna og samfélagsins í heild. „Fátækt felur í sér einmanaleika og sorg. Að leika í hljómsveit felur í sér gleði, samvinnu og að sigrast á háleitu markmiði“ segir Abreau. Hugmyndafræði Abreaus gengur út á það að börnin fái hljóðfæri í hendurnar eins og ung og kostur er. Kennslan fer fram í hóp og um leið og börnin hafa náð lágmarksfærni á hljóðfærið sitt eru þau farin að kenna sér yngri börnum. Þannig ýtir kerfið undir jákvæðan félagsanda og samábyrgð nemenda. Námið er nemendum að kostnaðarlausu en þau skuldbinda sig til að sinna því af alvöru og að leika í einni af hljómsveitum kerfisins sex daga vikunnar í fjóra tíma á dag.
Félagslegt umbótatæki Svo virðist sem starfið í Venesúela hafi smitað út frá sér til annarra landa í Suður-Ameríku. Í Sao Paulo, höfuðborg Braselíu var borgarhljómsveitin endurreist árið 1997 eftir að hafa legið í dvala í áratugi, og blómstrar nú undir stjórn hljómsveitarstjórans og tónskáldsins John Neschling. Í kjölfar endurreisnarinnar var byggð glæsileg tónleikahöll, Sala Sao Paulo í gamalli járnbrautarstöð í niðurnýddu fátækrahverfi borgarinnar. Hljómsveitin heldur ekki einungis yfir 130 áskriftartónleika fyrir 11.800 áskrifendur á ári og ferðast vítt og breytt um Ameríku, hún vinnur líka mikilvægt uppeldisstarf, starfrækir hljómsveitarskóla og kóra.
Suður- Ameríka státar nú af því að vera orðinn suðupottur vestrænnar klassískrar tónlistar. Klassísk tónlist, með sínar djúpu rætur í evrópskri menningu, hefur í þessum löndum verið nýtt sem félagslegt umbótatæki til að kljást við svörtustu hliðar samfélaganna, fátækt, fíkniefnaneyslu og glæpi. Samruninn hefur líka fætt af sér nýja og að margra mati ferskari nálgun á flutning klassískrar tónlistar, laus við hamlandi hefðir með spilagleðina að leiðarljósi. Sá mikli fjöldi sem farið hefur í gegnum tónlistarkerfin og hljómsveitarskóla þessara landa hefur leitt af sér aukinn áhuga almennings fyrir klassískri tónlist, eins og sést best á árlegum degi tónlistarinnar í Brasilíu sem haldinn er á fæðingardegi þjóðartónskáldsins Hector Villa-Lobos 5. mars og fer fram vítt og breitt um landið með gríðarlegri þátttöku almennings.
Markaðs- og áskrifendakannanir hjá bæði Sinfóníuhljómsveit Íslands sem og erlendum hljómsveitum sýna einnig berlega fram á þessi tengsl tónlistarmenntunar og áhuga á klassískri tónlist.
Tónlistarmenntun er grunnurinn Þó svo að tónlistarkennsla á Íslandi hafi til þessa staðið með miklum blóma undanfarna áratugi má leiða að því rök að nýjar áherslur í tónlistarkennslu séu nauðsynlegar til að mæta breyttu efnahagsástandi og stærra samélagi. Hér má sjá fyrir sér aukna áherslu á almenna tónlistarmenntun með minni áherslu á einkakennslu sem er ríkjandi stefna í hinum fjölmörgu tónlistarskólum landsins. Þó svo að á Íslandi séu ekki fátækrahverfi í líkingu við fátækrahverfin í Suður Ameríku þá má engu að síður sjá mun á aðstöðu barna eftir hverfum. Til er fjölmennur grunnskóli í Reykjavík þar sem einungis eitt barn er skráð í hljóðfæranám, og þrátt fyrir að tónmenntakennsla sé samkvæmt námsskrá hluti af skólaskyldu námi grunnskólabarna frá 1-8. bekk uppfyllir aðeins brot af grunnskólum í landinu þá lögbundnu menntunarkröfu. Við verri efnahagsskilyrði hjá þjóðinni næstu árin má búast við að aðstöðumunur barna aukist enn frekar.
Til eru verkefni, í Bretlandi, Þýskalandi og víðar sem ganga út á að hvert einasta grunnskólabarn fái hljóðfæri í hendurnar. Þar fer kennslan fram í hóptímum og áherslan er á samspil. Þó svo að gæði menntunarinnar séu ekki sambærileg og þegar um einkakennslu er að ræða þá eykur hún möguleika á að fleiri fái innsýn inn í heim tónlistarinnar. Þeim sem sýna meiri áhuga og hafa greinilega hæfileika er þá hægt að stýra inn á sérhæfðari brautir tónlistarskóla.
Háleit markmið Í uppgangi síðustu ára hafa ríki, borg og sveitarfélög lagt út í byggingu tónlistar- og menningarhúsa víða um land. Eftir hamfarirnar í efnahagsmálum þjóðarinnar síðustu mánuði er tvísýnt um viðgang þessara hús. En þó skýjaborgir hrynji og eitthvað hægist á framkvæmdum við fyrirhuguð tónlistarhús er mikilvægt að snúa vörn í sókn. Nú, þegar tekin hefur verið sú mikilvæga ákvörðun, að halda áfram byggingu tónlistarhússins í Reykjavík, skiptir öllu máli að skapa tónlistinni móttökuskilyrði. Með háleitu markmiði var gerð tónlistarbylting í Venesúela fyrir 30 árum sem breytt hefur lífi hundruð þúsunda barna og samfélagsins í heild. Með því að setja markið hátt er hægt að færa hverju barni á Íslandi möguleikann á tónlistarnámi, opna eyru þeirra, efla færni og auka þannig líkurnar á því að áhugi þeirra og þekking muni skila þeim inn í fullbyggð tónlistarhús framtíðarinnar. Fjármálakreppan gefur þannig þjóðinni tækifæri til að endurskoða gildsmat sitt með minni áherslu á efnisleg gæði en meiri á andleg verðmæti sem geta fært komandi kynslóðum sönn lífsgæði.
Tónlistarkennsla á Íslandi Skólaárið 1961-1962 voru tónlistaskólar á landinu 13 með 665 nemendum. Í dag eru um 90 tónlistarskólar á landinu með um 12.300 nemendum. Megin- áhersla er lögð á einkakennslu. Um helmingur tónlistarnemanna taka þátt í samspilsstarfsemi af einhverju tagi, hljómsveit, kór, söng eða samspilshópum.
Á árunum 1977 til 1996 var starfandi á Íslandi Sinfóníuhljómsveit æskunnar (SÆ). Þegar litið er yfir Sinfóníuhljómsveit Íslands í dag er ljóst að flestir hljóðfæraleikaranna þar ólust upp í SÆ og fengu þar sína fyrstu eldskírn í hljómsveitarleik.
Á höfuðborgarsvæðinu hafa á síðustu árum verið stofnaðar tvær nemendahljómsveitir, Sinfóníuhljómsveit tónlistarskólanna og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins, Ungfónía.
Í samvinnu við Listaháskólann og Sinfóníuhljómsveit Íslands um leiðbeinendur og jafnvel stjórnendur væri enn hægt að auka á vægi þjálfunarinnar. Hér er þó ekki einungis verið að þjálfa upp hljóðfæraleikara framtíðarinnar heldur ekki síður verið að búa til áheyrendur fyrir tónleikasali morgundagsins. | Sinfóníuhljómsveit tónlistarskólanna 2009 |
Frekari upplýsingar um El Sistema má finna hér.
Greinin birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins, 28. mars 2009.
Höfundur er tónleikastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. |