Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 24. febrúar 2009
Wolfgang og Jónas

Ari Trausti Guðmundsson
<aritg@simnet.is>

Ari Trausti GuðmundssonÞegar mikið er á seyði í menningarlífinu og þúsund veifur á lofti er auðvelt að verða ýmist undrandi, reiður eða glaður. Telst það væntanlega gott fyrir þjóðlífið því menningin á að hreyfa við fólki. Í þessum efnum er þeim sem fjalla um listir í fjölmiðlum oft um að kenna. Maður verður kannski pirraður á myndlistargagnrýni um einhvern Íslendinginn með hátt í tíu hliðstæðum um erlenda listamenn sem eru „eins og“ myndlistarmaðurinn eða með undarlegum tilvísunum í „samræður myndlistar og umhverfis“. Stundum fer afgreiðsla á bókum á þremur mínútum í taugarnar á manni en stundum eru það yfirlætislegar yfirlýsingar í umfjöllun um tónlist.

Margir vitringar hafa ritað vinsamlegar ábendingar til allra sem njóta eða umgangast listir (og það hugtak er afar víðfeðmt); minnst á opinn huga, hógværð, yfirvegun, sanngirni og margt fleira sem prýða má eina sál. Eitt kann að eiga við umfjöllun um höfund verks en annað við flytjendur verka. Umfjöllunin er oftast erfið. Vissulega er t.d. unnt að leika einfalt, gallað eða vont tónverk vel eða túlka bærilegt eða gott tónverk illa og, vel að merkja, við höfum öll leyfi til að álíta listaverk góð eða léleg og allt þar á milli og vera ósammála. Okkur er líka í sjálfsvald sett að vera áræðin í umfjölluninni, orðhvöss og umdeild. Lognmolla er vissulega leiðinleg til lengdar.

Jónas Sen skrifar í Lesbók um Mozart-tónleika nýverið: „Yfirleitt fær maður velgju af skefjalausri dýrkuninni á Mozart. Hún dúkkar oft upp þegar hann á afmæli. Ég veit ekki hvernig á henni stendur. Kannski vegna þess að stór hluti tónlistar Mozarts er í rauninni bara notalegt verksmiðjupopp“. Orðahnykkurinn „í rauninni“ virðist þarna vera lykilhugtak um þessa uppgötvun um verk Mozarts. Ég var ekki viðstaddur tónleikana og geri engar athugasemdir við mat gagnrýnandans á tónlistarflutningnum. Vitþungi gagnrýnandans og skyndiafgreiðsla hans á ævistarfi tónskáldsins fer hins vegar fyrir brjóstið á mér.

Jónas greinir tónlist tónskáldsins frekar og kemst m.a. að því að þessi stóri hluti verkanna (20%?, 50%?, 80%?) „ristir ekki djúpt“. Þessu næst fjallar hann um ólík, ætluð hlutverk Mozarts, Haydns og Beethovens í tónlistarsögunni og lýkur því með því að segja Mozart hafa fyrst og fremst samið fagra, hlustendavæna tónlist, „stundum með það eitt að markmiði að gleðja áheyrendur og yfirboðara“. En Jónasi finnst sem betur fer „ekkert að því“. Það er gott að vita. „Og auðvitað er Mozart skemmtilegur“ skrifar hann, nema þegar tæknileg atriði í leik flytjenda eru ekki á hreinu. Þá finnst honum tónlist Mozarts leiðinleg. Merkilegt nokk, hugsar lesandinn.

Ég er bæði leikmaður í tónlist og virkur hlustandi, sem get vel þolað að talað sé niður til mín eða að menn séu mér algjörlega ósammála um tónlist, en hef stundað ritlist svo ég er ekki ókunnugur sköpun. Ekki dýrka ég Mozart og samþykki að Mozart-æðið hafi gengið of langt. Ég tel að því sögðu jafn langt eða lengra gengið í öfgum að halda því fram að stór hluti tónlistar Mozarts sé „bara verksmiðjupopp“. Þannig tónlist virðist vera, skv. Jónasi, „lífleg, lagræn, laus við ómstríða hljóma“ (á 18. öld!, innsk. ATG) og „rennur ljúflega niður“. Mun það einkenna hlustendavæna tónlist, ef marka má þessi skrif. Ætli við hlustendur samþykkjum það?

Eflaust gat Mozart kvartað undan pöntunum (og til eru orð hans um það í bréfum) og eflaust þurfti hann að gleðja mann og annan en Jónas Sen veit auðvitað ekki baun um hvað Mozart gekk til og hann hafði að takmarki þegar hann samdi stóran hluta tónlistar sinnar og raunar ekki heldur hinn hlutann sem Jónasi finnst ekki vera „bara verksmiðjupopp“.  Mozart var mistækur en Jónasi Sen skjöplast. Takmark Mozarts með þessu eða öðru tónverkinu er og verður hulið, nema ef til vill í örfáum tilvikum þar sem hann kann að hafa haft orð um það sjálfur. Og líklega á það sama við um flest tónskáld, jafnvel langflesta listamenn.

Í pistli hér á musik.is skrifar Jónas (11. ág. 2008): „Auk þess held ég að það sé óheppilegt þegar mönnum er sagt hvernig þeir EIGI að vera. Að minnsta kosti í listaheiminum.“ Hvað sem þessum orðum líður (sem eru rétt og sönn þegar listamenn eiga í hlut) ætla ég að halda því fram að gagnrýnendur eins og Jónas EIGA og MEGA segja margt og mikið, jákvætt og neikvætt, um tónlistarflutning, tónlist og tónskáld. Fari þeir að fjalla um markmið látinna tónskálda með tónlistinni eru þeir áreiðanlega úti að aka. Auk þess er það óheppilegt þegar mönnum er sagt HVERNIG menn hugsa eða HVAÐ þeir hafa að takmarki. Að minnst kosti í listaheiminum, svo notað sé orðalag Jónasar Sen.

Höfundur er rithöfundur og áhugamaður um tónlist.


 ©  2009  Músa