Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 10. maí 2006
Form þjónar innihaldi… eða öfugt?

Ari Trausti Guðmundsson
<aritg@simnet.is>

Viðvarandi umræða um form og innihald listaverka, hvort sem er í bókmenntum, tónlist eða myndlist, tekur á sig margar myndir. Viðhorf ganga aftur æ ofan í æ. Algengast er að þeir sem láta í sér heyra tilheyri flokki sérfræðinga í listgreinum, t.d. bókmenntafræðingum, eða þeir fylla flokk gagnrýnenda, sem reyndar eru sumir líka listamenn. Flestir sem mest semja af bókum og tónverkum eða búa til myndlist segja minnst. Enda finnst manni sem meira mætti lesa, hlusta og skoða en minnka fræðilega umræðu. Oft þykja mér staðhæfingarnar og Stórudómarnir ganga fram úr hófi. Ég heyrði haft eftir erlendum rithöfundi sem skrifar um ritform og tengsl ritlistar við samtímann að skáldsagan væri eini raunverulegi spegill samtímans. Ég hika ekki við að kalla þetta innihaldslausa upphafningu eða blaður sem einkennir tuggur og rembing. Ekki þarf annað en að benda á kvikmyndir, teiknimyndasögur eða suma myndlist til þess að innihaldsleysi, eða öllu heldur tilgangsleysi svona frasa sé ljóst.

Klám og tónlist

Tilefni þessara viðbragða minna við skrifum um listir er opnugrein Jónasar Sens um tónlist í Lesbókinni 30. apríl. Einn kjarninn í henni er þessi: - Fyrri tíðar klassík er merkileg og nauðsynleg til hlustunar en samtímaklassík getur aðeins verið góð ef samtímatónmál er notað. Formið verður að taka mið af glundroða samtímans. Nútímaverk í dúr og moll eru yfirleitt klám -. Þessi einfaldaða túlkun á einum kjarna greinarinnar er ekki misskilningur, heldur tilefni til umræðna. Ég er hins vegar sammála ýmsum öðrum viðhorfum Jónasar.

Áður séð

Jónas heldur þarna fram enn einni einstrengingslegri afstöðunni, sömu ættar og sköðuðu myndlist árin 1945-1970. Þá var eldra myndmál ekki aðeins barið niður heldur beinlínis talið vont. Vissulega er Jónas Sen ánægður með margt af klassískri tónlist. Það er gæfulegri afstaða en fannst meðal margra yngri  brautryðjenda módernismans á Íslandi sem töldu flest eldri verk léleg. En meinleg afstaðan er í grunninn sú sama. Gömlu málararnir, er máluðu áfram sem áður, áttu flestir bágt meðan “annað-hvort-eða” stefnan ríkti (reyndar voru þeir sekir um hana sjálfir) og nýir málarar sem reyndu fyrir sér með eldra myndmáli mættu harðri andspyrnu. Nútíma tónskáld sem semja “í anda gömlu meistaranna” (hvað sem það þýðir) eru á villigötum, ef marka má Jónas, og er það væg túlkun á afstöðu hans til slíkra tilrauna.

Gagnvirkni

Gegn þessu viðhorfi vil ég setja fram þá skoðun að varla nokkurt form í fyrrgreindum þremur listgreinum verði í raun úrelt. Það er í samþættun forms og innihalds sem list lifnar og á erindi við samtímann hverju sinni. Sú samþættun er gagnvirk. Og í framhaldi af þessu: Listform breytast af því samtíminn leiðir fram ný viðfangsefni, ný viðhorf og nýtt innihald sem þarf að koma á framfæri. En eldra form getur átt við, eftir sem áður, því ótal viðfangsefni eru sígild og nánast eins öld fram af öld, sum sjónarhorn breytast lítt eða ekki og samtíminn er flókinn vefnaður. Jónas segir tónmál samtímans vera eðlilega þróun fyrra tónmáls. Nema hvað? Listform staðna ekki, heldur fæða þau af sér ný en deyja ekki sjálf. Í huga Jónasar útilokar hið nýja það gamla sem virkan miðil í samtímanum. Glundroðinn sem Jónas upphefur og hefur að leiðarhnoða formsins er ekki algildur og hann er ekki alls staðar. Þegar einblínt er á glundroðann sést ekki skógur fyrir trjám, jafnt hér á Ísland og erlendis.

Meira en glundroði

Ofuráhersla á að form heillar listgreinar skuli endurspegla einn þátt samtímans, glundroðann og brotna hrynjandi, ber vott um þröngsýni. Samtíminn hefur margar hliðar. Fegurð og vellíðan er  þar á meðal og er eitt af aðalsmerkjum tónlistar. Hvort tveggja er samt jafn erfitt að skilgreina og flest önnur grunnhugtök mannlífsins. Að vekja upp stemmningu, sem Jónas sýnist vilja hæðast að, er ekki andstætt listrænni gamal- eða nýklassískri músík. Það er jafn göfugt að tárfella yfir 19. aldar aríunni Casta diva, sem yfir Sálumessu Faurés eða ungu verki eftir Arvo Pärt eða nýjasta, stríðóma ópusi hins yngsta tónskálds.  Hvorki fjöldi tára né tárfellenda hverju sinni skiptir máli. Gæði tónlistar mælast sjaldanst með vinsældarmælingu Gallups né ræðst hún af forminu einu. Auðvitað getur léleg tónlist verið vinsæl og form getur vissulega ekki hæft innihaldi listaverks. Eða innihaldið verið rýrt í ofgerðu formi.

Form og innihald

Ef túlka á glundroðalausan samtíma úti á Halamiðum, þar sem tónskáld upplifir bara stormgný, stórsjó og lágfleygan fugl, getur ýmis konar tónmál hentað og ekki endilega aðeins framsæknasta nútímatónmál. En þá varðar auðvitað mestu að tilfinningin, efnið, skili sér á listrænan hátt og samtíminn upptendrist. Ekki er heldur víst að glundroðalaus en fögur öræfakyrrð á Sprengisandi þarfnist módernískasta tónmálsins þótt það henti til að lýsa viðbrögðum við stríði, álveri eða sundurþykkju í samfélaginu. Í miðri Ástralíu, með annan samfélagsgrunn en Ísland, hve mörg tónmál ætli henti til að kallast á við víðernin og himininn þar eða stórborgina Sidney eða vegferð frumbyggjanna, vilji menn að semja nútímaklassík? Þarf atónalt en eldgamalt tónmál frumbyggja, dúr og moll hendingar eða tónmál af ætt Hauks Tómassonar?  Eða eitthvað óþekkt?

Þetta með þúsund blómin…

Ritstíll af svipuðum toga og ritmál Charles Dickens eða Ernests Hemmingways hefur ekki dáið í bókmenntum, ef grannt er skoðað. Margt hefur reyndar bæst við á ritvellinum en sumir vel látnir höfundar nota stíl sem telst bæði klassískur og línulegur. Það sama gildir um málverkið. Það lifir undir mörgum formerkjum en stílar eru gríðarlega ólíkir og sumir gamaldags í bestu merkingu orðsins. Þarna kemur auðvitað myndefnið til og gerir málverkið lífseigt og oft fyllilega ögrandi eða vekur vellíðan. Erró, með sína klassísku pensilskrift, er gott dæmi um hvernig form og innihald kallast á og býr til heild sem heillar margan.  Eða Sigurður Árni. Sá kyrkingur sem felst í því að fjötra innihald listaverka í eitt safn stíla er, mildilega sagt, tímaskekkja.

Höfundur er rithöfundur og áhugamaður um tónlist.

Greinin birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins, laugardaginn 6. maí 2006.


 ©  2006  Músa