Pistlar á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 18. ágúst. 2004

Tónlistarnám: Nauðsyn á heildarsýn
4. grein


Sigursveinn Magnússon, skólastóri Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og formaður STÍR, samtaka tónlistarskóla í Reykjavík
<smagn@ismennt.is>

Reykjavíkurborg og tónlistarskólarnir

Samstarf Reykjavíkurborgar og tónlistarskólanna, í þeirri mynd sem það er nú, hófst fyrir 41 ári, eftir samþykkt alþingis á lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Framkvæmd borgarinnar á lögunum var sú, ólíkt öðrum sveitarfélögum, að í stað þess að yfirtaka þá tónlistarskóla sem starfandi voru ákvað borgin að greiða kennslukostnað, en taka að öðru leyti ekki þátt í rekstri eða stjórn. Stofnun tónlistarskóla í Reykjavík hefur komið í hlut áhugamanna og brautryðjenda á sviði tónlistarmenntunar og eru þeir sjálfstæðar stofnanir. Í samstarfi skóla og borgar eru hlutverkaskiptin skýr. Borgin ber kennslukostnað upp að samþykktu marki en ber hvorki ábyrgð né skyldur gagnvart rekstri skólans. Skólarnir sjálfir bera alla ábyrgð á faglegu starfi, rekstri og fjárfestingu.

Þróun

Í áranna rás hefur skólunum fjölgað og hefur hver nýr skóli bætt einhverju við það litróf tónlistarkennslunnar sem fyrir var og skapað sér sérstöðu. Ákveðin verkaskipting og heilsteypt skólakerfi hefur fest rætur með fjölbreyttu námsframboði. Skólarnir starfa víða í borginni, oft í nágrenni grunnskóla. Óhætt er að fullyrða að samstarf borgarinnar og tónlistarskólanna hefur verið farsælt fyrir borgarbúa, um það vitnar tónlistarlífið. Það er ekki tilviljun að íslenskir tónlistarmenn eru eftirsóttir og starfa víða um heim. Hér gefst okkur daglega kostur á sækja tónleika bæði af klassískum og rytmískum meiði. Nemendur í tónlistarskólunum í Reykjavík eru nú 2300 talsins.

Hver er vandinn?

Í framhaldi af stjórnsýsluhugmyndum um hagræðingu og markaðstengingu hefur skapast óvissa í samstarfi tónlistarskólanna og borgarinnar. Eiga skólarnir erfitt með að átta sig á hvert stefnir, t.d. eru upplýsingar um framlög borgarinnar næsta vetur með þeim hætti að stjórnendum er gert erfitt að skipuleggja skólastarfið.

Fleira veldur skólunum erfiðleikum:

Deilur og málferli milli stéttarfélaga tónlistaskólakennara og Reykjavíkurborgar um túlkun á kjarasamningi. Skólarnir munu gjalda fyrir þetta ósætti sem með einum eða öðrum hætti mun lenda á nemendum og kennurum.

Reykjavíkurborg á í vandræðum með að stjórna fjárframlögum til tónlistarskóla. Þetta lýsir sér í því að tónlistarskólum er fjölgað án þess að til komi aukin aukin framlög borgarinnar. Þessi þróun er óhagkvæm og erfitt að sjá hvernig hún getur haldið áfram með þessum hætti.

Þær hugmyndir hafa komið fram af hálfu Reykjavíkurborgar að framlög til tónlistarskólanna verði ákvörðuð af eftirspurn (lengd biðlista). Slík markaðssjónarmið eru varhugaverð. Skóli getur verið að vinna gott starf þó biðlistar séu ekki langir. (Minnt er á að hljóðfæragreinar eru misvinsælar. Kontrabassi er t.d. ómissandi rödd í hverri hljómsveit. Þó munu ekki vera langir biðlistar eftir kontrabassanámi).

Í ljósi þess sem hér hefur komið fram er brýnt að aðilar snúi sér sameiginlega að lausn þess vanda sem hér birtist þannig að starf í tónlistarskólum í Reykjavík geti verið með eðililegum hætti áfram. Með það í huga að Reykjavíkurborg er stórveldi á sviði sveitarstjórnarmál á Íslandi og rödd borgarinnar hefur áhrif á landsvísu gæti hún unnið með skólunum að lausn þessara mála með eftirfarandi hætti:

Samskipti og upplýsingagjöf verði bætt þannig að skólarnir geti með góðum fyrirvara og með eðlilegum hætti skipulagt starf til næstu framtíðar.

Gengið verði í að eyða ágreiningi milli borgarinnar og stéttarfélaga kennara í tónlistarskólum til að koma í veg fyrir málaferli sem eru seinvirk og kostnaðarsöm.

Horfið verði frá markaðstengingu fjárveitinga.Biðlistar eru hæpin viðmiðun á gæði skóla og náms. Eftirspurn ætti aðeins haft áhrif á fjárveitingar að skóli geti ekki nýtt heimildir sínar til fulls.

Lokaorð

Hagræðing hljómar ekki illa svo lengi sem hún lýtur að bættu og skilvirkara skólastarfi. Heilbrigð samkeppni um gæði kennslu og faglegt starf er innbyggð í rekstrarfyrirkomulagi skólanna. Nemendur hafa alla möguleika í núverandi skipan til að velja sér skóla og námsbrautir. Munu þeir ekki velja þá skóla sem þeir telja að sýni bestan árangur út frá faglegum viðmiðunum og forsendum?

Ritstjórn Morgunblaðsins færi ég að lokum þakkir fyrir aðstoð og góða samvinnu við birtingu þessara greinakorna um tónlistarmenntun á Íslandi.




Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. ágúst. 2004.


 ©  2004  Músa