Fréttir á Músík.isMúsík.is <musik@musik.is> 18.09.2004
Silfurplötur Iðunnar gefnar út

Ræða á útgáfuhátíð Iðunnar í Borgarleikhúsinu 15. september 2004.

Góðir gestir.

Sú skoðun hefur löngum verið lífseig hér á landi að tónlistararfur okkar Íslendinga sé heldur lítill að vöxtum. Tónlistarmenning landsmanna hafi verið frumstæð og vanburða öldum saman og hún ekki rétt úr kútnum fyrr en um miðja 20. öld. Vissulega var söngur og hljóðfærasláttur okkar Íslendinga með allt öðru móti en gerðist á meginlandi Evrópu fyrr á öldum en við nánari skoðun kemur í ljós að tónlistarlíf á Íslandi var margbrotnara og fjölbreyttara en margan hefði órað fyrir.

Það sem einna helst háir okkur Íslendingum er hversu illa við þekkjum eigin tónlistararf. Þar tel ég okkur tónlistarmennina eiga nokkra sök á. Við höfum látið undir höfuð leggjast að rannsaka tónlistararfinn og gera hann aðgengilegan almenningi. Útgáfa á 200 lögum úr kvæðalagasafni Iðunnar er aðeins örlítil bragarbót á því. Hér eru kvæðalög í fyrsta sinn gefin út bæði á nótum og með upprunanlegum hljóðritunum. Þar getur að heyra hina aldagömlu kvæðalagahefð ómengaða af tónlist 20. aldar, einstaka heimild um hljóðheim fyrri alda.

Kvæðamennirnir á silfurplötum Iðunnar eru aðeins 13 að tölu en þeir kveða stemmur sem rekja má til 70 annarra kvæðamanna víðs vegar að af landinu. Við útgáfuna var kappkostað að finna hvaða kvæðamenn fylltu þennan hóp, hvar þeir bjuggu og allt annað sem varpaði ljósi á uppruna laganna. Þá var rakin slóð til jafn margra skálda og hagyrðinga sem áttu lausavísur eða rímnabrot á upptökunum. Alls koma því um 170 kvæðamenn, skáld og hagyrðingar við sögu á silfurplötum Iðunnar.

Rannsóknin á kvæðalögunum leiddi margt forvitnilegt í ljós. Í fyrsta lagi staðfesti hún að rímnakveðskapur var sameign allra Íslendinga. Í nafnaskrá bókarinnar getur að líta bæði bændur og sjómenn, flækinga og rektora, kvennamenn jafnt sem skáldkonur, sýslumenn, presta, vinnukonur og farandverkamenn sinnar tíðar. Þar er saman kominn þverskurður íslensku þjóðarinnar.

Í öðru lagi renna silurplötur Iðunnar stoðum undir þá fullyrðingu sr. Bjarna Þorsteinssonar í þjóðlagasafni hans að kvæðalagahefðin hafi verið sterkust norðanlands og vestan. Á plötunum eru langflest lögin úr Húnavatnssýslum, af Ströndum, úr Breiðafjarðareyjum, Dölum, af Mýrum og úr Árnessýslu. Samt verður að hafa ákveðinn fyrirvara á uppruna þeirra. Lögin gefa ekki tæmandi upplýsingar um kvæðaskap á Íslandi um og eftir aldamótin 1900, heldur miklu fremur hversu kvæðalagahefðin var sterk meðal þeirra sem fluttust til Reykjavíkur og komu á fót Kvæðamannafélaginu Iðunni. Til dæmis er vitað að rímnakveðskapur lifði góðu lífi í Þingeyjarsýslum um aldamótin 1900 en á silfurplötum Iðunnar eru aðeins örfáar stemmur þaðan. 

Þá kom á óvart hversu vinsæl kvæðalagahefðin var í tveimur samliggjandi afdölum í Austur-Húnavatnssýslu, Laxárdal fremri og Norðurárdal, en um hann liggur nú þjóðleið milli Blönduóss og Sauðárkróks. Á Laxárdal fremri var búið á um tuttugu bæum á 19. öld; nú eru aðeins tveir eftir í byggð. Á silfurplötunum eru á annan tug kvæðamanna úr þessum tveimur afskekktu og snjóþungu dölum, þeirra kunnastur Árni Árnason gersemi, en hann fór á milli bæja, kvað rímur á kvöldvökum og skemmti fólki.

Svo virðist sem rímnakveðskapur hafi verið helsta leiðin fyrir fátæka alþýðu að stunda tónlist. Jafnvel þeir sem bjuggu við verstu kjörin áttu stemmuna að vini og þær þóttu sumar hverjar svo snjallar, svo eftirminnilegar að aðrir lærðu þær og geymdu í minni sér. Við heyrum á silfurplötunum lög kennd við kvæðamenn sem ólust upp hjá vandalausum, hrökkluðust úr einum stað í annan,  áttu aldrei von um eigin jörð heldur stunduðu vinnumennsku hjá öðrum, flæktust jafnvel landshorna á milli í leit að lífsviðurværi. Gleðileg undantekning er Eggert í Langey sem var tökudrengur í Fremri-Langey á Breiðafirði en tók við búi af fóstra sínum og byggði upp af skörungsskap. Þrátt fyrir visnu í höndum og fótum kom hann sjálfum sér til mennta, varð vel að sér í norrænum tungumálum, íslenskum fræðum og stærðfræði og kenndi börnum í eynni. Á silfurplötunum kynnumst við einnig kvæðalögum ljósmóðurinnar í Flatey, Kristínar Jónsdóttur, sem var ferjuð milli eyja á árabátum í hvaða veðri sem var og kvaðst á við sjórokið; við rekumst á Jón úr Kjós eða Jón Kjósarlang, flækinginn sem var þekktur um allt land fyrir lymskubrögð sín og klámkjaft, við hittum Sigurbjörn á Fótaskinni sem kvað níðvísur um prestsmaddömuna heima í Aðaldal og hrökklaðist fyrir vikið með fjölskyldu sína til Vesturheims. Þannig eru silfurplötur Iðunnar ekki aðeins heimild um rímnalög og vísnagerð fyrri alda: þar stendur lífsbarátta fólksins í landinu okkur ljóslifandi fyrir hugskotssjónum.

Þegar grafist var fyrir um uppruna kvæðalaganna reyndist mikilvægt að leita til afkomenda sumra kvæðamanna. Í flestum tilfellum var það gerlegt en alls ekki alltaf. Stundum voru þeir nýfallnir frá sem hugsanlega hefðu getað orðið að liði og þannig fóru mikilvægar upplýsingar forgörðum. Af þessu má sjá hversu miklu skiptir að rannsóknir á þeim upptökum sem til eru hér á landi haldi áfram, áður en hugsanlegir heimildarmenn hafa smeygt sér undir græna torfu. Í fórum Iðunnar eru enn eftir 300 lög óútgefin. Á Stofnun Árna Magnússonar eru 400-500 klukkutímar af tónlist á upptökum.  Hér höfum við fjórar klukkustundir af efni! Þá eru ótalin lagasöfn kvæðamannanna Jónbjörns Gíslasonar og Hjálmars Lárussonar, vaxhólkar Jóns Leifs og upptökur Jóns Pálssonar sem bíða þess að verða rannsökuð, skráð á nótur og gefin út. Það er okkur Íslendingum til vansa að ekki skuli enn vera komin á fót sérstök rannsóknarstöð sem helgar sig alfarið tónlistararfi þjóðarinnar. Slíkar miðstöðvar eru starfræktar í nágrannalöndunum og hafa í áratugi sinnt rannsóknum á tónlistararfi viðkomandi þjóðar. Nú er unnið að stofnun þjóðlagaseturs á Siglufirði í minningu sr. Bjarna Þorsteinssonar. Þar er einmitt ætlunin að bjóða upp á aðstöðu til rannsókna á þjóðlagaarfinum og kynna hann almenningi á aðgengilegan hátt. Vonandi sjá íslensk stjórnvöld þýðingu þess að þjóðlagasetrinu verði komið á fót sem fyrst og styðji uppbyggingu þess með myndarlegum hætti. Árið 2006 verða liðin 100 ár frá því að safn sr. Bjarna Þorsteinssonar, Íslensk þjóðlög, kom út. Vel væri við hæfi að opna þjóðlagasetrið á þeim merku tímamótum.

Kvæðamennirnir þrettán á silfurplötum Iðunnar gáfu okkur mikinn fjársjóð, tónlistina úr heimahögum sínum. Þessi gjöf lætur lítið yfir sér og var kvæðamönnunum eflaust sjálfsögð og eðlileg en nýjum kynslóðum mun hún reynast óendanlega dýrmæt og mikils virði. Helst hefði ég viljað þakka þeim öllum á þessari stundu en af óviðráðanlegum ástæðum er það ekki hægt. Einn er þó á enn meðal okkar sem kvað inn á silfurplötur Iðunnar árið 1935 aðeins 9 ára að aldri. Þetta er Jón Eiríksson, sonur Eiríks Jónssonar járnsmiðs sem lét son sinn ganga í Iðunni ungan að árum og læra kvæðalögin af Birni gamla Friðrikssyni. Mig langar að lokum að biðja Jón Eiríksson um taka við, fyrir hönd kvæðamannanna á silfurplötum Iðunnar, örlitlum þakklætisvotti fyrir framlag þeirra til íslenskrar menningar.


Gunnsteinn Ólafsson

Ræðan var haldin á 75 ára afmæli Iðunnar og í tilefni af útgáfu á silfurplötum Iðunnar, 15. september 2004.Á Vefnum frá sept. 2004©  2004  Músa