|
Á döfinni | Meðlimir | Diskar | Tónskáld | Sagan | Umfjöllun |
Auður Hafsteinsdóttir (fiðla) Auður var við nám hjá Guðnýju Guðmundsdóttur í Tónlistarskólanum í Reykjavík þar sem hún lauk einleikaraprófi 17 ára gömul. Auður var við framhaldsnám í New England Conservartory í Boston og síðar við University og Minnesota þar sem hún lauk Master of Music gráðu 1991. Kennarar hennar þar voru hin virtu Almita og Roland Vamos. Auður hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir leik sinn. árið 1985 fékk hún C.D.Jackson verðlaun sem framúrskarandi strengjaleikari á hinni alþjóðlegu tónlistarhátíð í Tanglewood og 1988 fyrstu verðlaun í The Schubert Club Soloist Competition í Minneapolis. Auður var fulltrúi Íslands í keppni ungra norrænna einleikar í Finnlandi árið 1991 og var einnig valin borgarlistamaður Reykjavíkurborgar til þriggja ára haustið 1991. Arið 1996 voru henni úthlutuð listamannalaun til þriggja ár frá menntamálaráðuneytinu. Auður hefu komið fram víða sem einleikari og í kammermúsík á alþjóðlegum vettvangi m.a. í Bandaríkjunum, Kanada, víða á meginlandi Evrópu, á Norðurlöndum, Íslandi, Japan og Kína. Hún er ein af stofnendum Trio Nordica og leikur einnig með strengjakvartett. Auður hefur jafnframt leikið inn á fjölda geisladiska fyrir íslensk og erlend útgáfufyrirtæki. |
Brjánn Ingason (fagott) <brbr@ismennt.is> Brjánn stundaði nám í fagottleik hjá Hafsteini Guðmundssyni í Tónlistarskóla FÍH, Martin Gatt við Guildhall School of Music í London, Torleiv Nedberg við Norges Musikkhögskole í Osló og hjá John Moustard við Sweelinck Conservatorium, Amsterdam. Lék með ýmsum hljómsveitum og kammerhópum í Noregi og Hollandi og hefur verið fagottleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands frá 1991. |
Bryndís Halla Gylfadóttir (selló) <brynka@vortex.is> Bryndís Halla starfar sem fyrsti sellóleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Eftir nám í sellóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem Gunnar Kvaran var meðal kennara hennar hélt hún til náms við New England Conservatory í Boston þar sem kennarar hennar voru Colin Carr og Laurence Lesser. Hún lauk þaðan bachelors-prófi 1987 og útskrifaðist með masters-próf tveimur árum síðar. Hún sótti einkatíma í sellóleik í Amsterdam um skeið eftir Ameríkudvölina, en kom aftur til Íslands haustið 1990 til að taka við áðurgreindur starfi. Bryndís Halla hefur víða leikið íslenska samtímatónlist. Hún hlaut starfslaun listamanna 1993-96 sem menntamálaráðuneytið úthlutaði. Bryndís Halla bar sigur úr býtum í keppni flytjenda um Tónvakann, Tónlistarverðlaun Ríkisútvarpsins 1992, í fyrsta sinn sem keppnin var haldin. |
Daníel Þorsteinsson (píanó) <dato@est.is> Daníel píanóleikari fæddist í Neskaupstað og hóf þar sitt tónlistarnám. Að loknu burtfarar- og píanókennaraprófi frá Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar hélt hann til framhaldsnáms við Sweelinck - tónlistarháskólann í Amsterdam og útskrifaðist þaðan árið 1993. Daníel hefur verið virkur í íslensku tónlistarlífi um árabil. Hann hefur komið fram með einsöngvurum, smærri tónlistarhópum og sem einleikari, m.a. með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Í september 2000 lék hann ásamt Sigurði Halldórssyni sellóleikara allar sónötur Beethovens fyrir píanó og selló á sömu tónleikum, bæði í Norðurlandahúsinu í Færeyjum og í Salnum í Kópavogi. Þá hafa þeir Sigurður staðið fyrir tveimur tónlistarhátíðum, Hindemith / Fauré árið 1995 og Brahms / Schubert tveimur árum síðar. Daníel hefur verið meðlimur í CAPUT - hópnum frá upphafi, komið fram með honum víða um heim og gert upptökur fyrir hljómdiska og útvarp. Hann hefur samið og útsett tónlist s.s. fyrir leikhús, kóra og einsöng og leikið inn á fjölda hljómdiska tónlist af ýmsu tagi. Daníel var útnefndur Bæjarlistamaður á Akureyri árið 2000, en þar hefur hann búið og starfað síðan 1993. |
Eggert Pálsson (slagverk) <epal@centrum.is> xx |
Eiríkur Örn Pálsson (trompet) <heirikur@tal.is> Eiríkur hóf tónlistarnám hjá Páli P. Pálssyni. Síðan lærði hann við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Jóni Sigurðssyni og Lárusi Sveinssyni. Hann stundaði framhaldsnám í Boston við Berklee College of Music og sótti einkatíma hjá Charles Schlueter, sem leikur fyrsta trompet með Sinfóníuhljóm-sveitinni í Boston. Þaðan lá leiðin til Los Angeles að California Institute of the Arts. Aðalkennari hans þar var Mario Guarneri. Eiríkur Örn er fastráðinn hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands en einnig hefur hann leikið einleik með hljómsveitinni og með Kammersveit Rvíkur. Þá kennir hann við Tónlistarskóla FÍH og Tónskóla Sigursveins. Hann hefur staðið sjálfur fyrir og spilað á einleikstónleikum, bæði einn og með öðrum og er virkur þátttakandi í flutningi kammertónlistar á höfuðborgarsvæðinu. Hann hefur einnig leikið með Hljómsveit Íslensku óperunnar og Íslensku hljómsveitinni. |
Elísabet Waage (harpa) <fredlef@dutch.nl> Elísabet stundaði nám í píanóleik hjá Halldóri Haraldssyni og hörpuleik hjá Moniku Abendroth við Tónlistarskólann í Reykjavík. Að loknu píanókennaraprófi hélt hún til framhaldsnáms við Konunglega Tónlistarskólann í Haag hjá hinum virta hörpuleikara Edward Witsenburg. Hún lauk einleikara og kennaraprófi árið 1987. Elísabet hefur starfað á Íslandi og í Hollandi auk margra annara Evrópulanda. Árið 1993 var henni boðið að leika á alþjóðlegu þingi hörpuleikara (World Harp Congress) sem haldið var í Kaupmannahöfn. Kammermúsík skipar stóran sess í starfi Elísabetar en einnig leikur hún oft í hljómsveitum. Hún hefur gert upptökur fyrir Ríkisútvarpið m.a. með Sinfóniuhljómsveit Íslands og fyrir ýmsa geisladiska t.d. með Kammersveit Reykjavíkur. Hollenska plötútgáfan Arsis gaf út geisladisk með leik Elísabetar og hollenska flautuleikarans Peter Verduyn Lunel. Elísabet hefur leikið einleik með Kammersveit Reykjavíkur, Íslensku hljómsveitinni, Autunno Ensemble í Hollandi , Avanti í Finnlandi og Århus Sinfonietta í Danmörku. |
Emil Friðfinnsson (horn) <sabine@allianz.is> Emil fæddist á Akureyri og hóf þar tónlistarnám hjá Roar Kvam. Hann stundaði framhaldsnám við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Joseph Ognibene og síðan við tónlistarháskólann í Essen í Þýskaland hjá prófessor Hermann Baumann. Eftir að hafa starfað í hljómsveitum í Þýskalandi um nokkura ára skeið sneri Emil heim og hefur síðan verið fastráðin í Sinfóníuhljómsveit Íslands auk þess að leika með ýmsum kammerhópum s.s. kvintett Coretto og Kammersveit Reykjavíkur. Emil hefur verið hornleikari CAPUT-hópsins frá 1987. |
Eydís Franzdóttir (óbó) <ef@ismennt.is> Eydís nam óbóleik í Tónlistarskólanum í Reykjavík hjá Kristjáni Þ. Stephensen og lauk þaðan burtfararprófi 1987. Hún stundaði framhaldsnám í London næstu fjögur árin, hjá óbóleikurunum Michael Winfield og Gordon Hunt, en sótti einnig fjölda námskeiða. Að námi loknu lék Eydís um skeið með sam-evrópsku hljómsveitinni Acadya í Frakklandi, en var svo ráðin 1. óbóleikari tékknesku útvarpshljómsveitarinnar í Pilzen í apríl 1992. Hún hlaut starfslaun frá Reykjavíkurborg 1996 og listamannalaun til tveggja ára frá Menntamálaráðuneytinu 2000. Auk þess að vera óbóleikari CAPUT-hópsins, hefur Eydís hefur komið fram sem einleikari, með kammerhópum og með hljómsveitum víða um Evrópu, Norður-Ameríku og á Íslandi. |
Gerður Gunnarsdóttir (fiðla - konsertmeistari)<gerdur@puntin.de> Gerður stundaði tónlistarnám við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og framhaldsnám í fiðluleik í Köln og Amsterdam. Árið 1990 hlaut hún fyrstu verðlaun í Postbank- Sweelinck fiðlukeppninni í Amsterdam. Hún lauk Konzertexamen frá Tónlistarháskólanum í Köln árið 1991 og hefur frá 1992 starfað sem 3. konsertmeistari í Sinfóníu- og óperuhljómsveit Kölnarborgar. 1994-1995 starfaði hún í Sinfóníuhljómsveit Íslands og jafnframt sem 1. konsertmeistari Íslensku óperunnar. Gerður hefur verið meðlimur Caput hópsins frá upphafi. Einnig hefur hún leikið með kammerhópum víðsvegar um Evrópu (s.s Ensemble Modern, Neusser Kammerakademie, Consortium Classicum, Kölner Kammerorchester) og sem einleikari, bæði hér heima og erlendis. 1995 stofnuðu Gerður og Claudio Puntin (klarinett) dúóið "Essence of North" (CD: "Ýlir" ECM 2001) og árið 2000 kvintettinn "clap-you" (alþjóðleg tónlist). |
Guðmundur Óli Gunnarsson (stjórnandi) <goli@ismennt.is> Guðmundur Óli nam hljómsveitarstjórn í Utrecht og Helsinki. Hann hefur verið fastur stjórnandi CAPUT frá upphafi. Hann hefur einnig verið stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands frá 1992. Guðmundur Óli hefur komið fram sem stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Kammersveitar Reykjavíkur og Íslensku Hljómsveitarinnar. Þá hefur hann einnig starfað sem stjórnandi kóra og hljómsveita nemenda og áhugamanna, stjórnað óperuuppfærslum og frumflutningi á fjölda tónverka íslenskra og erlendra tónskálda. Guðmundur Óli er hestamaður og býr á bæ þeim í Svarfaðardal er Bakki heitir. |
Guðmundur Kristmundsson (víóla) <gugr@ismennt.is> Guðmundur lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1986 og UM prófi frá Brabantsconservatorium de Tilburg í Hollandi 1990. Hann hefur komið fram víða um heim sem félagi í Bernardel kvartettinum, EÞOS kvartettinum og kammerhópnum Cammerarctica. Guðmundur kennir við Tónlistarskólann í Reykjavík hefur verið fastráðinn við Sinfóníuhljómsveit Íslands frá 1990. Hann hefur komið fram sem einleikari með hljómsveitinni. Guðmundur fékk úthlutað starfslaunum listmanna 2000 - 02. |
Gudni Franzson (klarinetta) <gf@ismennt.is> Guðni lauk einleikaraprófi á klarinettu og prófi frá tónfræðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík árið 1984. Þar nam hann m.a. hjá Einari Jóhannessyni og Atla H. Sveinssyni. Síðar fór Guðni til Hollands og stundaði framhaldsnám í klarínettuleik hjá George Pieterson, Walter Boeykens og Harry Sparnaay, til þess hlaut hann m.a. styrki frá hollenska menntamálaráðuneytinu og hinum danska Léonie Sonning sjóði. Guðni hefur komið fram sem einleikari í mörgum löndum Evrópu, Brazilíu, Canada og í fyrrum Sovétríkjum, hljóðritað fjölda geisladiska með nýrrir og klassískri tónlist jafnframt því að leika og hljóðrita þjóðlega tónlist t.d. með hljómsveitinni Rússíbönum. Einnig vinnur hann reglulega fyrir útvarp og sjónvarp. Guðni var einn af stofnendum CAPUT árið 1987. Samhliða hljóðfæraleiknum vinnur Guðni einnig sem tónsmiður, hefur samið tónlist fyrir fjölda dans-verka, leiksýninga, kammerverk, músík fyrir börn og tónverk fyrir framandi hljóðfæri eins og leirker. Hann hefur tekið virkan þátt í dans og leiksýningum m.a. með Pars Pro Toto, Bandamönnum og leikið Títlu Bjarts í Sumarhúsum á fjölum Þjóðleikhússins. |
Guðrún Óskarsdóttir (semball) <gudrunos@ismennt.is> Að loknu píanókennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1986 nam Guðrún semballeik hjá Helgu Ingólfsdóttur. Framhaldsnám stundaði hún hjá Anneke Uittenbosch við Sweelinck Conservatorium í Amsterdam, hjá Jesper Böje Christensen við Scola Cantorum í Basel og hjá Francoise Langéllé í París. Guðrún hefur leikið inn á nokkra hljómdiska og komið fram sem einleikari, meðleikari eða sem þáttakandi í kammertónlist á fjölmörgum tónleikum á íslandi og víða í Evrópu. Hún hefur leikið með Bach-sveitinni í Skálholti, Kammersveit Reykjavíkur og með Sinfónlíuhljómsveit Íslands. Guðrún hefur verið semballeikari CAPUT-hópsins frá 1992. |
Hávarður Tryggvason (kontrabassi) <ht-tmj@isholf.is> Hávarður stundaði fyrst nám við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar en hélt árið 1983 til framhaldsnáms við Tónlistarháskólann í París þar sem aðalkennari hans var J.M.Rollez. 1986 útskrifaðist hann þaðan með fyrstu einkunn og lauk tveimur árum síðar einnig námi frá einleiksdeild skólans. Samhliða náminu lék hann í atvinnuhljómsveit Tónlistarháskólans. 1989 fluttist Hávarður til Belgíu og hóf störf með Konunglegu Flæmsku Óperuhljómsveitinni í Antwerpen. Jafnframt stundaði hann framhaldsnám við Tónlistarháskólann þar í borg. Árið 1995, eftir 12 ára dvöl erlendis, fluttist Hávarður aftur til Íslands og tók við stöðu leiðandi kontrabassaleikara við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Jafnframt kennir hann við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hávarður hefur bæði komið fram sem einleikari og verið virkur í flutningi kammertónlistar hér heima og erlendis. |
Helga Bryndís Magnúsdóttir (píanó) <goli@ismennt.is> Helga Bryndís lauk einleikara- og kennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 1987 og var kennari hennar þar Jónas Ingimundarson. Síðan stundaði hún framhaldsnám í Vín og Helsinki. Helga er meðlimur í CAPUT hópnum og býr í Svarfaðardal. |
Hildigunnur Halldórsdóttir (fiðla) <hildig@simnet.is> Hildigunnur lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík haustið 1987. Kennarar hennar voru Guný Guðmundsdóttir og Mark Reedman. Hún stundaði framhaldsnám við Eastman tónlistarskólann í Rochester í Bandaríjunum og lauk þaðan Mastersgráðu 1992. Hildigunnur var ráðinn í Sinfóníuhljómsveitar Íslands haustið 1992 og starfar, auk CAPUT, einnig með kammerhópunum Camerartica og Contrasti. |
Kolbeinn Bjarnason (flauta) <gudrunos@ismennt.is> Kolbeinn las bókmenntir og heimspeki við Háskóla Íslands í nokkur ár. Hann lauk burtfararprófi í flautuleik frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 1979, stundaði síðan nám hjá Manuelu Wiesler í Grjótaþorpinu í 3 ár og bjó um skeið í Basel, Amsterdam og New York þar sem hann nam af ýmsum flautumeisturum, Julius Baker, Robert Dick o.fl. og einnig í Toronto hjá Robert Aitken. Veturinn 1983 - 84 stundaði hann nám í japanskri tónlist og Shakuhachi-leik hjá Ralph Samuelson í New York. Kolbeinn hefur komið fram sem einleikari á fjölmörgum tónlistarhátíðum á Íslandi, með Sinfóníuhljómsveit Íslands, í útvarpi og sjónvarpi; einnig í mörgum Evrópulöndum, Bandaríkjunum, Mexíkó og Japan. Einleiksdiskur Kolbeins Implosions kom út á Ítalíu og Íslandi árið 1995, og var endurútgefinn af hollensku Arsis útgáfunni 1999. Hljómdiskur þar sem hann leikur verk Leifs Þórarinssonar með Guðrúnu Óskarsdóttur, semballeikara kom út 1999. Kolbeinn hefur frumflutt einleiksverk fjölmargra íslenskra og erlendra tónskálda. Meðal þeirra sem hafa samið fyrir hann eru Hafliði Hallgrímsson, Atli Heimir Sveinsson og Leifur Þórarinsson. Kolbeinn hefur verið - ásamt Guðna Franzsyni - listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri CAPUT hópsins frá stofnun 1987. |
Richard Korn (kontrabassi) <korn@ismennt.is> xx |
Sif Tulinius (fiðla) <sifmtul@yahoo.com> Sif hóf nám í fiðluleik sjö ára gömul hjá Gígju Jóhannsdóttur og lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorid 1991 undir handleiðslu Guðnýjar Guðmundsdóttur. Hún stundaði framhaldsnám í Bandaríkjunum og lauk B.M. prófi frá Oberlin College í Ohio sem nemandi Almitu og Roland Vamos. Hún lauk síðan meistaragráðu frá New York þar sem kennarar hennar voru Joyce Robbins og Joel Smirnoff. Sif hefur unnið undir handleiðslu Juilliard- og Amadeus kvartettanna og starfað með ýmsum tónskáldum s.s. Sofia Gubaidulina og George Crumb. Sif tók þátt í gerð geisladisksins Homogenic með Björk og hélt í tónleikaferðalag um heiminn með henni í kjölfar þess. Sif hefur komið fram á fjölmörgum tónlistarhátíðum í Bandaríkjunum, Evrópu og Japan m.a. Tanglewood Music Festival, Massachusettes, Aspen Music Center, Colorado og Prussia Cove, Englandi. Sif hefur starfað reglulega með ýmsum tónlistarhópum s.s. Ensemble Modern (Frankfurt), Oriol Ensemble (Berlin) og Munchener Kammerorchester. Sif var ráðin 2. Konsertmeistari Sinfóniuhljómsveitar Islands frá hausti 2000. |
Sigrún Eðvaldsdóttir (fiðla) <siggae@centrum.is> Sigrún hóf fiðlunám 5 ára gömul við Tónmenntaskóla í Reykjavíkur hjá Gígju Jóhannesdóttur. Hún stundadi síðan fiðlunám undir handleiðslu Guðnýjar Guðmundsdóttur við Tónlistarskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan árið 1984. Sigrún hélt síðan til Bandaríkjanna þar sem hún sótti einkatíma hjá hjónunum Roland og Almitu Vamos og síðan hjá Jascha Brodsky og Jaimee Laredo í Curtis tónlistarháskólanum í Fíladelfíu og lauk þaðan B.M. gráðu árið 1988. Hún var 1. fiðluleikari í Miami strengjakvartettinum árið 1988-1990 og vann sá kvartett til 1. verðlauna í hinni virtu Fischoff kammermúsíkkeppni árið 1989. Sigrún hefur tekið þátt í fjölda alþjóðlegra fiðlukeppna og m.a unnið 2. verðlaun í Leopold Mozart keppninni árið 1987, 5. verðlaun í Carl Nielsen keppninni árið 1988, bronsverðlaun í Síbelíusar keppninni árið 1990 og 2. verðlaun í Carl Flesch keppninni árið 1992. Hún hefur komið víða fram sem einleikari og kammermúsíkant og komið fram fyrir Íslands hönd á ýmsum tónlistarhátíðum. Hún var ráðin konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands í starfsleyfi Guðnýjar Guðmundsdóttur en med S.Í. hefur Sigrún margoft komið fram sem einleikari. Sigrún hefur yndi af að leika nýja tónlist og hafa nokkur tónskáld samið sérstaklega fyrir hana. Hún hefur auk þess leikið inn á hljómdiska fyrir ÍTM, Steinar hf. og Chandos. 1998 var Sigrún sæmd riddarakrossi hinnar Íslensku fálkaorðu fyrir störf sín á sviði tónlistar. |
Sigurður Flosason (saxófónn) <sivi@simnet.is> Sigurður lauk einleikaraprófi í klassískum saxófónleik frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1983. Stundaði framhaldsnám við Indiana University í Bandaríkjunum undir handleiðslu Eugene Rousseau og David Baker. Lauk Bachelor of Music prófi í klassískum saxófónleik og jazzfræðum 1986 og Master of Music í sömu greinum 1988. Einkanám hjá George Coleman í New York 1988-89. Sigurður starfar á mörgum ólíkum sviðum tónlistar. Hann hefur um árabil verið einn af atkvæðamestu jazztónlistarmönnum Íslands. Sigurður hefur samið tónlist, gefið út eigin hljómplötur, leikið á hátíðum víða erlendis og tekð þátt í mörgum fjölþjóðlegum samstarfsverkefunum. Sigurður hefur leikið mikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands og tekið þátt í kammertónlist, m.a. með Kammersveit Reykjavíkur og öðrum hópum. Sigurður er yfirkennar jazzdeildar Tónlistarskóla F.Í.H. |
Sigurður Halldórsson (selló) <siha@ismennt.is> Sigurður nam sellóleik í Reykjavík hjá Gunnari Kvaran og í London við Guildhall School of Music and Drama hjá Raphael Sommer. Hann hefur komið fram sem einleikari á tónlistarhátíðum, í kvikmyndum og leikhúsverkum og einnig með hljómsveitum og hefur haldið marga einleikstónleika. Hann gaf nýlega út hljómdiskinn Eintal eða Monologue, þar sem hann leikur einleiksverk frá 20. öld, m.a. sónötu Kodálys op. 8. Hann er eftirsóttur kammertónlistarmaður en auk þess að starfa með CAPUT þá leikur hann með kammerhópnum Camerarctica og syngur með sönghópnum Voces Thules sem sérhæfir sig í flutningi Íslenskrar miðaldatónlistar. Sigurður hefur leikið með Daníel Þorsteinssyni píanóleikara í CAPUT síðan 1983. Þeir hafa leikið saman á tónleikum víðs vegar í Evrópu og Ameríku, auk Íslands, og flutt mörg helstu verk fyrir selló og píanó, nú nýlega allar sónötur Beethovens fyrir píanó og selló á Íslandi, í Færeyjum og Danmörku. Sigurður leikur einnig á barrokselló og starfar á því sviði bæði sem einleikari og í samleik, m.a. með Bachsveitinni í Skálholti. Sumarið 2000 lék hann allar einleikssvítur Bachs á Sumartónleikum í Skálholtskirkju. |
Sigurður Sveinn Þorbergsson (básúna) <jusig@mi.is> Sigurður Sveinn er fæddur og uppalinn í Neskaupstað og hóf þar tónlistarnám hjá Haraldi Guðmundssyni. Hann lauk síðar fullnaðarprófi frá Tónskóla Sigursveins undir handleiðslu Janine Hjaltason. Sigurður dvaldi um 5 ára skeið við nám í Guildhall School of Music and Drama í London, og lærði m.a. hjá Denis Wick, Eric Crees, Peter Gane og Dudley Bright. Á þeim tíma kom hann fram með helstu hljómsveitum skólans m.a. Guildhall Jazz Band sem hlaut á þeim tíma tvisvar verðlaun BBC útvarpsins. Sigurður kom einnig fram sem einleikari undir merkjum Park Lane Group í Purcell Room. Árið 1989 lauk hann námi og fékk á sama tíma fasta stöðu í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ásamt stöðu sinni þar hefur Sigurður komið víða við í kammermúsik m.a. með Kvinttet Corretto og Kammersveit Reykjavíkur. Hann hefur einnig lagt stund á kennslu m.a. við Tónskóla Sigursveins og verið leibeinandi blásara í Sinfóníuhljómsveit Æskunnar. Árið 1998 vann Sigurður til verðlauna í básunukeppni sem haldin var í Lieksa, Finnlandi í tengslum við eina helstu brasshátið á Norðurlöndum og lék þá einleikskonsert með Oulu Sinfóníúhljómsveitinni. Sigurður hefur verið aðal básúnuleikari í CAPUT frá 1989 og komið fram á öllum helstu tónleikum, geisladiskum og tónleikaferðum hópsins. Árið 1999 kom hann fram í Salnum í Einleikaraseríu CAPUT og lék þar m.a. verk eftir Rabe, Hindemith og Stockhausen. |
Sigurlaug Eðvaldsdóttir (fiðla) <laug@ismennt.is> Sigurlaug nam fiðluleik við Tónlistarskólann í Reykjavík undir handleiðslu Guðnýjar Guðmundsdóttur og útskrifaðist þaðan árið 1983. Framhaldsnám stundaði hún í Manhattan School of music í New York hjá Ani Kavafian. Eftir námið starfaði hún í 5 ár við sinfóníuhljómsveit í Mexico. Frá haustinu 1994 hefur Sigurlaug starfað í Sinfóníhljómsveit Íslands. Hún kennir við Tónlistarskóla Seltjarnarness, auk þess sem hún er meðlimur í ýmsum tónlistarhópum eins og Kammersveit Reykjavíkur og Cammerarctica. Sigurlaug spilar einnig reglulega á vegum Kammermúsíkklúbbsins og í Íslensku Óperunni. |
Snorri Sigfús Birgisson (píanó) <ssb@centrum.is> Snorri Sigfús er fæddur 1954. Hann stundaði píanónám fyrst hjá Gunnari Sigurgeirssyni en innritaðist síðan í Tónlistarskólann í Reykjavík. Þar lærði hann á píanó hjá Hermínu S. Kristjánsson, Jóni Nordal og Árna Kristjánssyni en lagði einnig stund á tónsmíðar hjá Þorkeli Sigurbjörnssyni. Hann lauk einleikaraprófi 1974. 1974-1975 stundaði hann framhaldsnám í píanóleik hjá Barry Snyder við Eastman School of Music í Bandaríkjunum, 1975-76 tónsmíðanám í Osló hjá Finn Mortensen (enn fremur nám í raftónlist hjá Lasse Thoresen og "sonology" hjá Thoresen og Olav Anton Thommessen) og 1976-1978 lærði hann tónsmíðar hjá Ton de Leeuw í Amsterdam. Veturinn 1978-79 bjó hann í París og árið eftir í London þar sem hann kenndi á píanó í einkaskóla (Hill House International School for Boys). Snorri hefur starfað í Reykjavík sem tónskáld, píanóleikari og tónlistarkennari síðan hann kom heim frá námi (1980). Hann hefur samið einleiksverk, kammertónlist, raftónlist, kórtónlist og sinfónísk verk. |
Steef van Oosterhout (slagverk) <s.vanoosterhout@internet.is> Steef lauk einleikaraprófi frá Sweelinck Conservatorium í Amsterdam 1987. Starfaði sem tónlistarmaður í Hollandi og víðar í Evrópu m.a. með Asko ensemble, Schönberg ensemble og Nederlands blazers ensemble. Einnig lék hann með flestum sinfóníuhljómsveitum í Hollandi, þ.á.m. Concertgebouwhljómsveitinni í Amsterdam. 1991 var hann ráðinn sem slagverks og pákuleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands, hefur að auki leikið með ýmsum kammertónlistarhópum, svo sem Kammersveit Reykjavíkur, Camerarctica, og er meðlimur í Contrasti hópunum. |
Valgerður Andrésdóttir (píanó) <valaaa@islandia.is> Valgerður lauk einleikaraprófi í píanóleik frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1985. Kennarar hennar voru m.a. Anna Þorgrímsdóttir og Margrét Eiríksdóttir. Hún stundaði framhaldsnám við Listaháskólann í Berlín hjá prof. Georg Sava. Þaðan lauk hún burtfararprófi árið 1992. Hún sótti einnig reglulega námskeið hjá György Sebök. Hún bjó um tíma í Kaupmannahöfn þar sem hún starfaði sem undirleikari og píanókennari. Valgerður hefur haldið fjölmarga tónleika á Íslandi og erlendis, unnið með söngvurum og í kammermúsík. Hún starfar nú við tónlistarskólann í Hafnarfirði. |
Valur Pálsson (kontrabassi) <valur@swipnet.se> xx |
Zbigniew Dubik (fiðla) <valur@swipnet.se> Zbigniew er fæddur í Póllandi og nam við Academy of Music í Gdansk 1978 - 83. Árið 1982 hóf hann að leika með Pólsku Fílharmóníuhljómsveitinni og ferðaðist með henni sem konsertmeistari um Bandaríkin, Sovétríkin og ýmis Evrópulönd. Hann hefur leikið kammertónlist inn á hljómplötur fyrir pólsk, frönsk og þýsk útgáfufyrirtæki. Zbigniew kom til starfa hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 1988. Haustið 1989 varð hann fyrsti konsertmeistari hjá Íslensku óperunni. Zbigniew hefur tekið mjög virkan þátt í tónlistarlífi Íslendinga síðan hann fluttist til landsins. Hann er meðlimur Bernardel strengjakvartettsins og hefur leikið með CAPUT í mörg ár, meðal annars sem einleikari í konsert fyrir fiðlu og kammersveit, River and Leaf eftir Lars Graugaard (CLASSCD-189). |
Á döfinni | Meðlimir | Diskar | Tónskáld | Sagan | Umfjöllun |
Vefstjóri | © 2001 - 2002 Músa |