GM2065CD GM Recordings 1999 Á þessum diski flytur CAPUT kammerverk Leifs Þórarinssonar (1934 - 98), samin á árunum 1960 - 95. Þessi tónverk eru: - Afstæður (1960), fyrir fiðlu, selló og píanó
- Mosaik (1961), fyrir fiðlu og píanó
- Smátríó (1974), fyrir flautu selló og píanó
- Pente X (1994), fyrir flautu, selló, sembal og slagverk (2 spilarar)
- Preludio - Intermezzo - Finale (1995), fyrir píano
- Serena við hafið (1995), fyrir fiðlu og hörpu.
Verkin Afstæður var fyrsta verkið sem ég samdi með aðferð tótalserialisma, undir miklum áhrifum frá Boulez og Schuller og uppgötvun minni á tónlist Charlie Parker sem ég lít enn á sem einn af mestu tónlistarmönnum aldarinnar. Þetta gerðist allt saman í New York árið 1960 þegar ég var að vinna fyrir Sameinuðu Þjóðirnar og nema tónsmíðar hjá Gunther Schuller. Afstæður var frumflutt á tónleikum Composer's Forum í Ditson tónleikasalnum í desember 1961.
Mósaik var einnig frumflutt við sama tækifæri.
Smátríó var samið í Kaupmannahöfn árið 1974 sem afmælisgjöf til vinar míns og læriföður, Gunther Shuller sem varð fimmtugur í nóvember 1975. Stíll verksins er mjög ólíkur New York tónlistinni (1960 - 1965) enda er þetta kveðja frá þeirri glöðu Danmörku sem var samastaður minn frá '71 til '76.
Pente X er reyndar fimmti kafli 10 þátta tónverks sem hefur ekki enn verið skrifað niður. Pente var samið á mjög huggulegu hótelherbergi í bæ við Garda-vatnið á Ítalíu snemma vors árið 1994. Stíllinn ber keim af óperu minni Maríuglerið.
Hvatinn að Preludio - Intermezzo - Finale fyrir píano var tvíþættur. Annars vegar er verkið skrifað til minningar um vin sem lést af slysförum í Frakklandi, hins vegar er það tileinkað píanóleikara CAPUT-hópsins Snorra Sigfúsi Birgissyni sem er m.a. frábær Brahmstúlkandi.
Serena við hafið, einnig frá árinu 1995, var samið til að hemja alls kyns storma sálarlífsins.
Flytjendur: - Auður Hafsteinsdóttir, fiðla
- Bryndís Halla Gylfadóttir, selló
- Eggert Pálsson, slagverk
- Elísabet Waage, harpa
- Guðrún Óskarsdóttir, semball
- Kolbeinn Bjarnason, flauta
- Snorri Sigfús Birgisson, píanó
- Steef van Oosterhout, slagverk
Við tókum þessi tónverk upp veturinn 1995 - 96 í framhaldi af Leifstónleikum CAPUT um haustið. Leifur var með í ráðum frá upphafi, valdi verkin, fylgdist með æfingum og upptökunum sjálfum. Þær fóru fram í Víðistaðakirkju, Fella- og Hólakirkju og Garðakirkju. Upptökurnar voru gerðar á vegum Ríkisútvarpsins. Bjarni Rúnar Bjarnason var upptökumeistari og annaðist alla eftirvinnslu. |