Forsíðadiskar24. jan. 2001 
English      
Á döfinniMeðlimirDiskarTónskáldSaganUmfjöllun
 Haukur Tómasson  
Haukur Tómasson: Spírall, Árhringur, Fiðlukonsert, Stemma

CD-1068 BIS 2000

Á þessari geislaplötu leikur Caput fjögur verk eftir Hauk Tómasson, samin á árunum 1992-1997. Verkin eru Fiðlukonsert, þar sem Sigrún Eðvaldsdóttir leikur einleik, Árhringur, Spírall og Stemma. Stjórnandi er Guðmundur Óli Gunnarsson.

Verkin
Elsta verkið er Spírall sem CAPUT frumflutti í Skálholti 1992. Sama verk er til á annari plötu í flutningi CAPUT og því tækifæri til að bera saman! Sú upptaka var gerð 1993 (ITM 7-07). Fyrir þetta verk var Haukur tilnefndur til tónskáldaverðlauna Norðurlandaráðs.

Árhringur er frá árinu 1993 og var upphaflega saminn fyrir Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, en síðan útsettur fyrir kammersveit. Verkið er í fjórum köflum sem bendla má við árstíðirnar.

Stemma, sem byggir á íslensku þjóðlagi, var samin að beiðni STEFs á 50 ára afmæli samtakanna og byggir verkið á gömlu þjóðlagi sem teygt er og togað á ýmsan hátt. Þjóðlagið í upphaflegri upptöku er einnig að finna á diskinum í flutningi Jóns Ásmundssonar, en það var hljóðritað 1966.

Fiðlukonsertinn var pantaður af Listahátíð í Reykjavík og saminn handa Sigrúnu Eðvaldsdóttur og CAPUT 1997 og frumfluttur árið eftir. Í bæklingi sem fylgir plötunni fjallar Atli Ingólfsson tónskáld um tónlist Hauks, eðli hennar og einkenni.

Flytjendur:
Hljóðfæraleikarar CAPUT í þessum upptökum eru: Kolbeinn Bjarnasson flauta, Arna Kristín Einarsdóttir flauta (Spírall), Eydís Franzdóttir óbó, Guðni Franzson klarinett, Brjánn Ingason fagott, Emil Friðfinnsson horn, Eiríkur Örn Pálsson trompet, Sigurður Þorbergsson básúna, Steef van Oosterhout slagverk, Helga Bryndís Magnúsdóttir píanó, Guðrún Óskarsdóttir semball (Spírall), Sigrún Eðvaldsdóttir fiðla, Hildigunnur Halldórsdóttir fiðla, Sigurlaug Eðvaldsdóttir fiðla , Guðmundur Kristmundsson víóla, Sigurður Halldórsson selló, Bryndís Halla Gylfadóttir selló (Spírall) og Richard Korn kontrabassa.

Tónskáldið:
Haukur Tómasson er fæddur í Reykjavík 1960. Hann lauk Mastersprófi frá Kaliforníuháskóla í San Diego 1990 og hefur síðan unnið að tónsmíðum og kennslu. Meðal helstu verka hans eru hljómsveitarverkin Strati og Storka og einleikskonsertar fyrir flautu og fiðlu. Haukur hefur hlotið ýmsar viðurkenningar svo sem tvívegis verðlaun í tónverkasamkeppni RÚV, annarsvegar fyrir hljómsveitarverkið Strati og hins vegar fyrir Sögu fyrir kammersveit. Þá hlaut hann Bjarsýnisverðlaun Bröste 1996 og Menningarverðlaun DV fyrir tónlist 1998. Haukur hefur tvívegis verið tilnefndur til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs, árið 1996 fyrir Spíral og 2000 fyrir Fiðlukonsert. Geisladiskurinn Fjórði söngur Guðrúnar var valinn einn af 5 bestu diskum ársins 1998 af gagnrýnanda Gramophone.

© 2000 Haukur Tómasson


Á döfinniMeðlimirDiskarTónskáldSaganUmfjöllun
Forsíða 


Vefstjóri© 2001 Músa