Forsíðadiskar24. jan. 2001 
English      
Á döfinniMeðlimirDiskarTónskáldSaganUmfjöllun
 Animato: Íslensk kammertónlist  
Animato: Icelandic Chamber Works

[1] Rímnadansar [3:27]  Jón Leifs (1899-1968)
  flauta, clarínett, fiðla, selló og píano
  Útsetning Atli Heimir Sveinsson (1938)
[2] Elja [10:54]  Áskell Másson (1953)
  Stjórnandi: Guðmundur Óli Gunnarsson
[3] Tales from a Forlorn Fortress [10:50]  Lárus H. Grímsson (1954)
  fagott, fiðla, vióla og sello
[4] Strengjakvartett [9:34]  Snorri Sigfús Birgisson (1954)
[5] Trio Animato [9:27]  Haukur Tómasson (1960) [Sérstakar þakkir til RUV]
[6] Vink II [3:56]  Atli Ingólfsson (1962)
  piccoló, clarínett, fiðla, víóla, sello, og píano
[7] Romanza [14:58]  Hjálmar H. Ragnarsson (1952)
  flauta, clarínett og píano

CAPUT-félagar byrja með því að rifja upp rammíslenskan tónlistararf, rímnalögin, og heiðra um leið tvö af merkustu tónskáldum Íslendinga á þessari öld, Jón Leifs (1899-1968), brautryðjanda á fyrri hluta aldarinnar og Atla Heimi Sveinsson (f.1938), boðbera nýrra hugmynda í tónsmíðaaðferð og byltingarmann á síðari hluta aldarinnar.

Rímnadansar op. 14 eftir Jón Leifs eru hér í útsetningu Atla Heimis fyrir flautu, klarínettu, fiðlu, selló og píanó. Útsetningin er frá 1994, létt og leikandi og leiftrar af þeirri glettni í efnistökum sem auðkennir svo margt af því sem tónskáldið hefur samið. Atli Heimir setti dansana út fyrir CAPUT í tilefni tónleika þeirra í Wigmor Hall í London í júní 1994.

Elja fyrir kammersveit eftir Áskel Másson var samin fyrir CAPUT-hópinn árið 1994 og frumflutt á Myrkum músíkdögum, í febrúar 1995. Myrkir músíkdagar eru tónlistarhátíð Tónskáldafélags Íslands sem haldin er í Reykjavík annað hvert ár og þar getur að heyra fjölda nýrra íslenskra verka hverju sinni. Verkið er skirfað fyrir 10 hljóðfæraleikara, flautu (og pikkoló), óbó, klarínettu (og bassaklarínettu), fagott (og bassaklarínettu), horn, fyrstu og aðra fiðlu, lágfiðlu, selló og kontrabassa. Það er í einum þætti sem deilist í snarpan og ólgandi upphafskafla, (allegretto), rólegan miðkafla, (andante), og stuttan coda (allegro, moderato), þar sem verkinu lýkur stillt og rólega. Gamalt stef, Eljakvæði, heyrist leikið í þrem hlutum, í fyrsta kafla, við mörk fyrsta og annars kafla og í niðurlagi verksins. „Elja“ er gamalt orð, haft um konu sem keppti við aðra konu um hylli karlmanns, ástkonu eða frillu. Önnur merking orðsins og nýrri er ákafi og barátta og höfðar titill verksins fyrst og fremst til þeirrar nýrri. Stjórnandi CAPUT í þessu verki er Guðmundur Óli Gunnarsson.

Tales from a Forlorn Fortress (Sögur úr yfirgefnu virki) eftir Lárus H. Grímsson var samið fyrir fagott, fiðlu, lágfiðlu og selló árið 1993. Þessi stutti kammerþáttur skiptist í hægan, ljóðrænan inngang fyrir sellóið (og bakgrunnsraddir fiðlu og lágfiðlu) og eitlítð hraðari meginbálk þar sem fagottið er oftast í aðalhlutverki á móti strengjahljóðfærunum. Efnistök eru með þeim hætti að ekki er fjarri lagi að lýsa verkin sem svo að það nálgist að vera stuttur konsertþáttur fyrir fagott og strengi enda segist tónskáldið hafa haft í huga sérstaklega fagottleikarann „fingralanga“ Brján Ingason. Með hliðsjón af nafngift verksins geta áheyrendur svo leikið sér að því að líta á fagottið sem rödd sögumanns.

Strengjakvartett nr. 2 eftir Snorra Sigfús Birgisson var saminn árið 1991 og frumfluttur á tónleikum CAPUT-hópsins á Myrkum músíkdögum í febrúar 1995. Kvartettinn er í þremur þáttum, leiknum án hlés. Höfundur segir svo um verkið: „Fyrsti kaflinn er lengstur, settur saman úr margbreytilegu efni, sem þó stefnir í eina átt. Annar kaflinn er fábreytilegur í eðli sínu en stefnir í margar áttir samtímis. Síðasti kaflinn er örstuttur, kinkar þrisvar kolli til hinna tveggja.“

Trio Animato eftir Hauk Tómasson var samið fyrir CAPUT-hópinn árið 1993. Verkið er skrifað fyrir klarínettu, selló og kontrabassa og skiptist í sex hluta þar sem hljóðfærin leikast á um að skapa sér sína eigin rödd í tónvef sem byggir á mismikilli samröddun og fjölröddun.

Vink II efti Atla Ingólfsson er skrifað fyrir fiðlu, selló pikkolóflautu, klarínettu og píanó. Upphaflega var verkið samið í tilefni af 50 ára afmæli Njarðvíkurbæjar en umskrifað fyrir tónleika CAPUT í Wigmore Hall í London í júní 1994 og kallað þá Vink II.

Romanza, tríó fyrir flautu, klarínettu og píanó, eftir Hjálmar H. Ragnarsson var samin árið 1981 og frumflutt sam ár í Reykjavík og Stokkhólmi af þeim Manuelu Wiesler, flautuleikara, Einari Jóhannessyni, klaínettuleikara, og Þorkatli Sigurbjörnssyni, tónskáldi og píanóleikara. Verkið hefur síðan verið leikið víða um heim. Tónskáldið teflir hér fram miklum andstæðum, ekki aðeins í tónáferð, efnivið og hughrifum milli gjörólíkra meginkafla verksins heldur skerpir hann einnig þær andstæður sem fólgnar eru á milli hljóðfæranna sjálfra. Til að undirstrika þetta auðkenni tónverksins hefur Hjálmar gefið því nafnið „Romanza“, nafn sem er í æpandi andstöðu við þann skilning sem viðtekið er að leggja í orðið og þann tónheim sem áheyranda er boðið inn í.

Úr bæklingi með geisladiski. © 1995 Jón Örn Marinósson


Á döfinniMeðlimirDiskarTónskáldSaganUmfjöllun
Forsíða 


Vefstjóri© 2001 Músa