Íslensk þjóðlög - safn séra Bjarna Þorsteinssonar
  <— 2. grein (bls. 10 - 14)Efnisyfirlit4. grein (bls. 23 - 67) —> 

Inngangur: 3. gr.

Um söfnun laganna í þessari bók

15

Jeg er fæddur á Mel i Hraunhrepp i Mýrasýslu 14. október 1861, og upp alinn á þeim bæ til þess tíma, er jeg fór í skóla, 1877. Faðir minn, Þorsteinn Helgason, dóttursonur síra Þorsteins Einarssonar á Staðarhrauni, og bróðir hans Helgi, voru góðir söngmenn, sem þá var kallað, auk nokkurra fleiri manna þar í grenndinni, og var það helzt haft sjer til skemmtunar í samkvæmum að syngja, bæði í brúðkaupsveizlum og í rjettunum, Hítardalsrjett og Hraundalsrjett; voru rjettirnar sannkallaðar alþýðuhátíðir um þær sveitir. Optast var sungið einraddað og mest innlend lög, þau er síðar verða talin, en einnig nokkur útlend lög, t. d.: Upp á himins bláum boga, Þrennt jeg trúi og treysti á, Að bíða þess, sem boðið er, Nú svífur sagan þangað o. fl. Hvorki þeir bræður nje aðrir þar í grennd kunnu bassa í neinu lagi, því enginn snefill af áhrifum hins svo kallaða nýja söngs hafði þá náð til þess hjeraðs, nema hvað einstöku sálmalag var að byrja að taka breytingum í hina nýju stefnu, svo að það kom fyrir í kirkjum, að sumir sungu gamla lagið, en sumir hið nýja. Þó var yfirleitt góður og mikill söngur i sóknarkirkju minni, Staðarhraunskirkju, og var faðir minn þar í mörg ár forsöngvari.

Snemma hneigðist hugur minn í þá átt, að gefa hinum innlendu lögum gaum og læra þau. Nótnabók sá jeg enga, hvorki skrifaða nje prentaða, fyr en jeg var kominn á 15. ár og farinn að læra undir skóla vestur á Skógarströnd, og svo eptir að jeg kom í latínuskólann 1877. Þá var Hörpuheptið komið út fyrir skömmu með öllum þjóðhátíðarlögunum, og þá byrjuðu sönghepti Jónasar Helgasonar að koma út. Óðar en jeg fór að hafa kynni af nótnabókum, og einkum af þessum heptum Jónasar, tók jeg eptir því, að þar var nóterað undarlega fátt af uppáhaldslögunum mínum, þeim lögum, sem jeg hafði lært og svo opt heyrt sungin á uppvaxtarárum mínum á Mýrunum. Jeg spurði einn og annan, hverju þetta mundi sæta, og fjekk ýmisleg svör. Einn sagði:

16

„Það eru innlend lög, sem hvergi eru til á nótum.“ Annar sagði: „Það er ómögulegt að gefa slík lög út, því það syngur þau hver upp á sinn máta“. Þriðji sagði: „Það væri fallegt fyrirtæki, eða hitt þó heldur, að fara að prenta bannsett tvísöngsgaulið þeirra, gömlu karlanna“. En við allt þetta vaknaði einmitt hjá mjer sú löngun og styrktist að mun, að kynna mjer betur þessi lög, þessi uppáhaldslög eldri mannanna, þessi olbogabörn nýju söngmannanna, og að reyna að varðveita þau frá gleymsku og glötun; og jeg missti ekki sjónar á „gömlu lögunum“, sem svo voru kölluð, innan um allan þann sæg af nýjum, fallegum, útlendum lögum, sem jeg var svo að segja kafinn i alla mína skóla- og stúdentatíð. Þegar í skóla byrjaði jeg að skrifa upp lista yfir þau gömul lög innlend, sein jeg kunni þá, og á jeg enn einn slikan lista frá 1880 og annan nokkru fullkomnari frá 1883. Í skóla kynntist jeg mikið Birni Gunnlaugssyni Blöndal, og kunni hann talsvert af gömlum lögum fram yfir það, sem jeg kunni, af honum lærði jeg fyrst tvísöng, og sungum við síðan opt tvísöng saman, og vorum nær því hinir einu i skóla, sem gerðu það. Jafnskjótt og þekking mín á söngfræði og tónbilum leyfði, fór jeg að fást við að setja þessi gömlu lög á nótur, bæði þau, sem jeg hafði lært í föðurgarði, og þau, er jeg hafði lært af Birni, og á jeg enn á blöðum frá þeim tíma ýmsar tilraunir í þá átt, og misjafnlega góðar. Löngun mín til að safna saman öllu þess konar og skrifa það upp, fór ávallt smá-vaxandi, og sat jeg mig aldrei úr færi, ef eitthvað slíkt var í vændum. Á mínum stúdentaárum náði jeg í gamlan karl í Reykjavik, Hans Viingaard að nafni, sem kunni töluvert af gömlum lögum, og skrifaði jeg upp eptir honum allt, sem hann kunni eða mundi. Litlu síðar var jeg 9 mánaða tíma hjá Lárusi Blöndal á Kornsá í hinni miklu tvísöngssveit Vatnsdalnum, og jókst þekking mín á gömlum lögunum og einkum tvísöng mjög mikið við samveruna við hina mörgu og góðu söngmenn þar.

Nokkru síðar, eða 1888, kom lykkja á leið mína og gjörðist jeg prestur norður í Siglufirði og hef verið þar

17

síðan. Jeg jók þjóðlagasafn mitt smátt og smátt og kynntist nú ýmsum mönnum i Skagafjarðar-, Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum, er jeg hafði ekki þekkt áður, en gátu orðið mjer að talsverðu liði í þessum efnum. Á öllum ferðum mínum, lengri og skemmri, gjörði jeg mjer hið mesta far um að klófesta allt það, smátt og stórt, sem með nokkru móti gat heyrt undir íslenzk þjóðlög; og einnig hef jeg ár eptir ár skrifað hinn mesta urmul af brjefum út um allt land til allra þeirra, sem jeg gat búizt við að eitthvað gætu stutt mig við söfnun þessa; hefur það stundum haft töluverðan árangur, einkum nú á seinustu árunum, en opt og tíðum engan; því það er mörgum sinnum betra og heillavænlegra að finna menn að máli í þeim erindum heldur en að skrifa þeim.

Smámsaman varð jeg þess vís, að gömul, íslenzk þjóðlög voru ekki að eins til í minni hins eldra fólks, heldur var einnig á stöku stað í landinu dálítið af skrifuðum þjóðlögum frá eldri tímum; þessu þurfti jeg endilega að ná, en það er stundum erfiðleikum bundið að, fá slík gömul uppáhaldskver ljeð langar leiðir. Þó hef jeg getað fengið ýmist ljeð eða gefið töluvert af slíkum skræðum, og þótti mjer það mikils virði.

Eptir að bók Ólafs Davíðssonar, Íslenzkar skemmtanir, kom út, varð mjer það ljóst, að meira en lítið af nótum frá fyrri öldum var til í íslenzkum handritum á skinni og pappír á bókasöfnum utanlands, og hafði enginn neitt rannsakað slík handrit að því er lögin snerti. Jeg sá því, að hjer var mikið starf fyrir hendi, og að söfnun þessi gat aldrei orðið annað en hálfverk nema mjer gæfist kostur á bæði að ferðast hjer dálítið um, meira en jeg hafði áður gert, og einkum að rannsaka það, þessu máli viðkomandi, sem kynni að finnast á bókasöfnum ytra, einkum í safni Árna Magnússonar. En til þessa þurfti opinberan styrk, og hafði jeg fremur litla von um að geta fengið hann, því mjer var vel kunnugt um, hve lítinn áhuga margir höfðu á máli þessu, og hve margir voru fúsir á að trúa þeirri kenningu Ól. Davíðssonar í bók hans, er jeg nefndi áðan, að það væri

18

„ekki um auðugan garð að gresja hjá oss Íslendingum að því er þjóðlög snerti“. Einn háttvirtur þingmaður, sem jeg færði þetta í tal við, tók þannig í það mál, að engin íslenzk þjóðlög mundu vera til; sum lögin væru algjörlega útlend, en sumt væri heilaspuni okkar sjálfra, söngfræðinganna; við byggjum þetta til sjálfir, bæði viljandi og óvart, og gæfum það svo út sem þjóðlög. Annar mikils metinn maður í Reykjavík sagði, að íslenzk þjóðlög væru ekki þess verð, að þeim væri safnað, og því síður, að þau væru gefin út; þau væru svo ljeleg og ljót, að þau væru þjóðinni til minnkunar.

Samt sem áður sótti jeg til alþingis 1895 um styrk til þess, að halda áfram að safna íslenzkum þjóðlögum hjer innanlands og að fara til Kaupmannahafnar í þeim erindum. Umsóknarskjal mitt til þingsins var langt og rækilegt, og skal jeg hjer taka upp úr því örfá atriði.

Jeg minnist á hinar ýmsu tegundir íslenzkra þjóðlaga, t. d. tvísöngslögin og hið einkennilega eðli tvísöngsins, Hina lýdisku tóntegund, og hvernig tvísöngur hafi verið sunginn hjer um mörg hundruð ára, bæði við andleg lög og veraldleg. Því næst á önnur íslenzk þjóðlög, sem ekki sjeu talin tvísöngslög; á hin innlendu sálmalög, sem töluvert mikið sje til af, og að síðustu á rímnalögin og hinar ýmsu tegundir þeirra. Öllum þessum innlenda söng og kveðskap sje nú mjög farið að hnigna, og margt af lögunum sje nú algjörlega glatað og gleymt, sem aldrei náist í framar; og sömu leiðina muni það fara, sem enn sje eptir, ef ekki sje bráðlega gerð gangskör að því, að bjarga því upp á pappírinn. Þá get jeg þess, hve miklu jeg sje þegar búinn að safna og hve mikið samt sem áður sje ógjört. Jeg hafi við frekari afskipti af þessu máli sjeð það betur og betur, hversu mikið sje til af þjóðlögum í landinu, meira en bæði jeg og aðrir haft í fyrstunni ímyndað sjer, enda væri það lítt hugsanlegt, að vjer Íslendingar, sem ættum þau ógrynni af þjóðsögum, þulum og gátum og öðrum alþýðlegum fræðum, skyldum fá eða engin þjóðlög eiga. Að verja dálitlu af opinberu fje til þess að safna þjóðlögum og varðveita þau, segi jeg sje í fullu samræmi við það, sem aðrar menntaðar þjóðir gera

19

eða hafa gert fyrir löngu; og það sje einnig í fullu samræmi við það, sem hjer hjá oss haft verið gert, og það með rjettu, nú um mörg undanfarin ár, þar sem varið haft verið talsverðu af almannafje til að safna forngripum, þjóðkvæðum, fornbrjefum og fleiru fornu og þjóðlegu, og varðveita það frá glötun með því að gefa sumt af því út, en geyma sumt í söfnum; og það sje mitt álit, að þjóðlög sjeu að minnsta kosti fullt eins vel og margt annað fallin til þess, að gefa rjetta hugmynd um menntunarþroska og andleg einkenni þeirrar þjóðar, sem þau haft myndazt hjá. Þá skýri jeg þinginu frá því, að jeg haft þá á næstliðnum, vetri skrifazt á við tvo útlenda, mjög mikils virta menn, viðvíkjandi þjóðlögum yfir höfuð og sjerstaklega um íslenzk þjóðlög, um tvísönginn og fleira þessu viðvíkjandi, og sent þeim sýnishorn af lögum vorum. Hafi svör þeirra gengið í þá átt, að það væri mjög þjóðræknislegt og í mörgu tilliti fróðlegt fyrir hverja þjóð sem er, að safna sínum eigin þjóðlögum; íslenzk tvísöngslög kváðust þeir alls eigi þekkja og aldrei hafa sjeð þau og engin önnur íslenzk þjóðlög en þau fáu, sem væru í Berggreens Folkemelodier, en þar eru ekki nema 9 lög alls og ekkert tvísöngslag. Margt fleira sögðu þeir viðvíkjandi máli þessu, t. d. um nauðsynina á því, að hafa stór og góð bókasöfn við hendina við allar þess konar rannsóknir o. fl. Þessir tveir menn voru þeir statsråd Gunnar Wennerberg í Stokkhólmi og prófessor J. P. E. Hartmann í Kaupmannahöfn. Að síðustu taldi jeg upp, samkvæmt upplýsingum í bókum Ól. Davíðssonar og Jóns dr. Þorkelssonar yngra hin helztu íslenzk handrit á bókasöfnum ytra, sem nótur væru í, og eru þau ærið mörg, bæði talin og ótalin.

En þetta kom allt fyrir ekki. Hin langa og rækilega umsókn mín um dálítinn styrk til þessa nauðsynjaverks fann ekki náð fyrir þingsins augum og hafði engan árangur.

Það var samt fjarri skapi mínu að hætta við svo búíð. Jeg skrifaði gamla prófessor Hartmann enn á ný, og sendi honum vel valin sýnishorn af hinum ýmsu tegundum íslenzkra þjóðlaga, um leið og jeg sagði honum frá úrslitunum á þinginu. Í brjefi 3. ágúst 1896 segir hann meðal

20

annars: „De Prøver, De denne gang har sendt mig, ere meget ejendommelige og, med deres antike Tone, tyde paa et virkelig folkeligt Udspring“. Hann rjeð mjer því næst til þess að sækja um styrk af því fje, sem Culturministeriet hefði árlega til umráða til eflingar vísindum, og gaf mjer sína beztu meðmælingu; og hann endaði brjefið með þessum orðum: „Her med maa det for dense Gang være nok; men hvad jeg senere formaar at gjøre for Deres Sag.; skal, om Gud lades mig leve, ikke mangle“.

Og það er ekki of mikið sagt, þó jeg segi það, að gamla Hartmann á jeg það mest og bezt að þakka, að jeg fjekk nokkurn tíma nokkurn styrk til þessa verks, og þá einnig það, að verk þetta varð það, sem það er orðið.

Meðmæling Hartmanns er svo hljóðandi:

    „Pastor Thorstensson, Siglufjord, Island, har i længere Tid været ivrigt beskjæfliget med at tilvejebringe en Samling islandske Folkemelodier. Han hasr sendt mig en Prøe paa saadaanne, og jeg har i disse fundet en ejendommelig Tone, som tyder paa et virkelig folkeligt Ophav. Det er Pastor Thorstenssons Overbevisning, at der oppe i Landet findes flere saadanne Melodier; som ere for gode og ejendommelige til ikke at paaagtes, men som alt nu kun synges og kjendes af gamle Folk, og som derfor ere udsatte for inden kort Tid ganske at glemmes. Et virksomt Middel til at modvirke dette vilde det være, om der gavesPastor Thorstensson Lejlighed til, ved en Rejse i Island at undersege Forholdene; samle de Melodies, som har efter sin Erfaring maatte anse for ægte og udskille det øvrige: Men dertil maatte fordres nogen offentlig Understettelse, da Pastor Thorstensson ikke er i Stand til, ved egne Midler, at foretage Noget til Sagens Fremme. Det antydede Foretagende maa for saa vidt betragtes som et nyt Indlæg paa Folkemusikens Omraade, som der ikke findes andet, saa vidt mig bekjendt, af islandsk Folkemusik, som vi kjende, end de ganske faa Viser, som staa i A. P. Berggreens Samling. Jeg kan derfor ikke skjenne andet, end at Pastor Thorstenssons

21

    Plan tiI at forberede en Udgave af islandske Folkemelodier, fortjener at støttes, og skal derfor efter hans Anmodning meget anbefale Foretagendet til velvillig Opmærksomhed og Understettelse overalt hvor der maatte findes Midler til dets Fremme.

    5te Aug. 1896.
    J. P. E. Hartmann, Professor, Dr. phil.

Því næst sótti jeg til Kirkju- og kennslmálaráðaneytisins danska um nokkurn styrk í þessu skyni, sagðist hafa sótt um styrk til alþingis 1895, en enga áheyrn fengið, og sendi nú meðmæli Hartmanns. Árangurinn varð sá, eins og lesa má í skjalaparti Alþ.tíð. 1897, að ráðaneytið veitti mjer 500 króna styrk með því móti, að alþingi veitti 1000 krónur í sama skyni; en ef alþingi vildi ekkert veita, kvaðst ráðaneytið ekki sjá ástæðu til að veita neitt. Svo tók íslenzka ráðuneytið þessar 1000 krónur upp í stjórnarfrumvarpið til fjárlaganna, og það marðist í gegn á þinginu 1897, að veita þessar 1000 krónur, þar eð Danir hefðu orðið fyrri til að veita styrk til þessa verks og sett áður greint skilyrði. Þessi styrkur þingsins kom í góðar þarfir, og að líkindum væri málefnið skemmra komið en er, hefði hann ekki veittur strax, 1895, og veittur af fúsum vilja.

Til þingsins 1897 sendi jeg, ásamt hinni endurteknu umsókn minni , meðmæli Hartmanns og einnig skjal frá dr. Jóni Þorkelssyni yngra; sem þá átti heima í Kaupmannahöfn. Í skjali þessu segir Jón meðal annars:

    „Mjer er ánægja að votta það, að mjer er kunnugt um, að til og frá í handritasöfnum erlendis er býsna margt, sem snertir íslenzkan söng. Það er jafnvel til nótaður íslenzkur kirkjusöngur allar götur ofan frá 13. öld, svo sem tíðasöngurinn á Þorláksmessu, auk þess, sem til eru nótaðar ljóðabækur frá seinni öldum, að ótöldu því, sem finnast má í sjerstakri rannsókn á víð og dreif innan um annars kyns

22

    efni í ýmsum handritum. Hvert gildi þetta hefur, eða hvað af því er íslenzkt að uppruna; verður aldrei vitað, nema það sje kannað af þeim manni, sem vit hefur á. — — — Þó að ofmikið sje ógert enn fyrir íslenzka fræði í mörgum greinum, hefur þó eitthvað dálitið verið gert til skýringar flestu; en fyrir íslenzkan söng og sögu hans hefur hreint e k k e r t verið gert í heild sinni. Menn vita svo sem ekkert hvað enn lifir af innlendum þjóðlögum, sem ef til vill hafa lengi gengið frá kyni til kyns i munni fólks, og menn vita ekkert hvað felast kann af innlendum söng í handritum, sem aldrei hafa verið rannsökuð. Það er því ekki einungis æskilegt að þetta sje rannsakað, því safnað saman og því komið á prent til hvers manns nota, sem nýtilegt er og innlent gildi hefur, heldur er það bein skylda. Menn hafa talið það nytsamlegt, að ýmsum mönnum hefur verið veittur styrkur til þess, að nema útlendan söng erlendis til að útbreiða hann á Íslandi, og mun þá engum rjettsýnum manni þykja fært að neita því, að styrkja til þess, að rannsaka það, sem til kann að vera af þeim söng, sem runninn er frá brjósti Íslendinga sjálfra, og útbreiða hann, því að það getur engum dulizt, aða slíkt má verða til þess, að gera sönginn á Íslandi framvegis þjóðlegan og innlendan, og það er skyldast alls um það efni“.

Vorið 1899 sigldi jeg svo til Kaupmannahafnar og dvaldi þar við rannsókn handrita í safni Árna Magnússonar tæpa þrjá mánuði. Verkið var ákaflega mikið og mjög seinlegt, því handritin eru, sum hver, fremur ill aflestrar. Ber safn þetta með sjer, hver handrit jeg hef rannsakað; en mörg handrit önnur fór jeg yfir og eyddi miklum tíma við, án þess að finna þar neitt, sem jeg gæti talið eiga heima i safni þessu. Jeg fór einnig til Svíþjóðar í sömu erindum; dvaldi 1 dag í Málmey, 1 dag i Lundi, 7 daga i Stokkhólmi og 1 dag i Uppsölum. Þá er jeg varð að fara frá Kaupmannahöfn og heimleiðis, hafði jeg ekki lokið starfi mínu til fulls á Árnasafni, ekki getað rannsakað neitt á hinu stóra

23

konungl. bókasafni nje til fulls skoðað handritasafn Bókmenntafjelagsins.

Tvo menn vil jeg nefna, sem jeg kynntist í Kaupmamahöfn, auk margra annara, og veittu mjer mikla og margvíslega hjálp og leiðbeiningu, hvor upp á sinn máta, en það eru þeir dr. Angul Hammerich söngfræðingur og Finnur Jónsson prófessor. Fyrir þeirra mikilsverðu og góðu meðmælingar veitti stjórn Carlsbergs-sjóðsins í Kaupmannahöfn mjer 600 króna styrk á ári í þrjú ár, 1901-3, til þess að halda áfram söfnun íslenzkra þjóðlaga; og þessa styrkveitingu framlengdi stjórn sjóðsins síðar einnig til ársins 1904. Þessum árlega styrk Carlsbergs-sjóðsins er það mjög mikið að þakka, hve vel þessu verki hefur miðað áfram hin síðustu árin, því jeg hef þau árin betur en áður getað gefið mig við þessu erfiða og vandasama starfi.

Að síðustu skal jeg geta þess, að alþingi 1903 veitti mjer 9000 kr. styrk fyrir árið 190 og gat jeg þá farið aptur til Kaupmannahafnar og dvalið þar lengri tíma en áður, rannsakað bókasöfnin betur, og lokið við allt það, sem ógert var 1899. Má því handritið heita að öllu fullbúið frá minni hendi með vorinu 1904, þótt ýmsu smávegis hafi verið aukið við síðar og fáein atriði lagfærð, allt fram undir þann dag, að byrjað var á prentun safnsins.


<— 2. grein (bls. 10 - 14)Efnisyfirlit4. grein (bls. 23 - 67) —>
Vefstjórisr. Bjarni21. júlí 2001 © Músa