Tónlist á Íslandi á 20. öld. Copyright © 1998: Bjarki Sveinbjörnsson | 1. des. 1998 | ||||
|
Síða 89 - 100 | |||||||||||||||||
STEF
BernarsáttmálinnNokkuð algeng mun hafa verið fyrir aðild Íslands að Bernarsáttmálanum að þýðendur og útgefendur erlendra bóka öfluðu sér þýðingarleyfa og einnig leyfa til útgáfu beint frá höfundum og gengu þá greiðslur beint til þeirra. Aftur á móti mun það einnig hafa verið algengt framan af öldinni að út væru gefnar ýmsar bækur í heimildarleysi, þ.e. án þýðingar- eða útgáfuleyfis. Þegar líða tók á 5. áratuginn fór að bera á mikilli óánægju frá erlendum höfundum vegna þess að hugverk þeirra nytu engrar verndar á Íslandi, en íslensk verk nytu hins vegar verndar erlendis. Mun þessi gagnrýni hafa einna helst ýtt undir það að menntamálaráðherra, Brynjólfur Bjarnason, staðfesti árið 1947 Bernarsáttmálann sem Íslendingar gerðust aðilar að árið 1943. Sáttmáli sá er gerður var í Bern í Sviss hinn 9. september 1886, endurskoðaður í Berlín 13. nóvember 1908 og í Róm 2. júní 1928 fjallar um vernd bókmennta og listaverka. Með lögum nr. 74, 5. júní 1943, sem fjalla um inngöngu Íslands í Bernarsambandið, fékk ríkisstjórnin heimild fyrir Íslands hönd að staðfesta þann sáttmála. Það var gert 7. september 1947. Samkvæmt sáttmálanum gildir sú almenna regla að vernd sú, sem hann veitir hugverki, vari í 50 ár eftir andlát höfundar þess. Fyrstu almennu lög á Íslandi á sviði höfundarréttar eru lög nr. 13, 20. október 1905 sem sniðin voru að mestu leyti eftir dönskum lögum um rétt rithöfunda og listamanna frá árinu áður. Þessi lög tóku til höfundarréttar á sömdu máli (rit, ræður og fyrirlestrar), tónsmíða, stærðfræðiuppdrátta, landsuppdrátta og annarra líkra (ekki er átt við uppdrætti á sviði lista, heldur á sviði vísinda). Í greinargerð með frumvarpi að lögunum segir: það skal tekið fram, að ákvæði danska lagboðans um réttindi listamanna yfir verkum sínum er ekki tekin upp í frumvarp þetta, af því að listamennska er svo í bernsku hér á landi, að of snemmt virðist að semja lög um verndan íslenzkra listaverka hér á landi. Þessi ákvæði voru þó örlítið rýmkuð árið 1912 en þar er talað um "alls konar myndir og uppdrætti". (125) Á Listamannaþinginu árið 1942 varð gerð ályktun til Alþingis þess efnis að bæta ágalla þessara laga frá 1905, sem síðar voru samþykkt árið 1943. (126) Þar er tekin til verndar 124 Tilvitnun í orð fulltrúa fyrirtækis í Reykjavík sem hafði góðar tekjur af því að gefa út íslensk og erlend hugverk, úr skjölum STEF. 125 Lög nr. 11, 22. október 1912. 126 lög nr. 49. 14. apríl 1943.
eignarrétturinn á sömdu máli og tónsmíðum og til hvers kyns eftirmyndunar á listaverkum og öðrum hugverkum. Ekki skyldu þó þessi lög koma til framkvæmda fyrr en settar hefðu verið nánari reglur um aðild stéttarfélaganna. Þau stéttarfélög sem um var að ræða voru: Félag íslenskra rithöfunda, Félag íslenskra tónlistarmanna, Tónskáldafélag íslands, Félag íslenskra leikara, Félag íslenskra myndlistarmanna, Húsameistarfélag Íslands og Félag íslenskra listdansara. Voru þau öll undir einum hatti er nefndist Bandalag íslenskra listamanna. Með reglugerð árið 1947 (127) var Bandalagi íslenskra listamanna veitt heimild til að semja við ýmsar stofnanir og einstaklinga, í umboði félaga bandalagsins um flutningsrétt. Jafnframt fékk það heimild til að gefa út gjaldskrá. Þessa heimild nýtti Bandalagið sér aldrei né gerði samninga eða gaf út gjaldskrá. Þar mun hafa haft mest áhrif að Tónskáldafélag Íslands sem ásamt Alþjóðasambandi höfunda og rétthafa og íslensk tónskáld neituðu að leyfa framsal umboða til Bandalagsins. Ástæðan var m.a. sú að í Bandalaginu áttu sæti ýmsir aðrir hagsmunaaðilar en rétthafarnir sjálfir. Þessari reglugerð frá árinu 1947 var þá breytt tveimur árum síðar (128) og kveður þar á um að menntamálaráðherra verði heimilt með þeim skilyrðum sem hann setur að löggilda einstök félög eða samtök til að fara með réttinda- og innheimtumál hvers félags fyrir sig. Ekki voru allir listamenn sammála um hagnýtingu slíks hagsmunafélags og erfitt var að sannfæra sérfræðinga um að af þessu gætu hlotist einhverja tekjur fyrir listamenn. Þó voru tveir lögfræðingar í Reykjavík, hæstaréttarlögmennirnir Gústaf A. Sveinsson og Egger Claessen, sannfærðir um að svo væri. Eggert Claessen hafði unnið að höfundarlögunum sem Hannes Hafstein kom á árið 1905. Tónskáldafélag Íslands stofnaði félag er gæta skyldi hagsmuna tónskálda og hlaut það nafnið Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar - STEF. Félagið var stofnað á skrifstofu fyrrnefndra lögfræðinga 13. janúar 1948 og eru samþykktir félagsins dagsettar 26. nóvember sama ár. Ríkisstjórnin hafði sem fulltrúa sína þá Hans G. Andersen þjóðréttarfræðing og Jóhannes Elíasson héraðsdómslögmann, en þeir höfðu aðstoðað við undirbúning félagsins. Eins og kvað á um í lögunum frá 1949 (129) um að löggildingu ráðuneytisins á einstökum félögum, þá fékk
STEF löggildingu 2. febrúar 1949 og samþykkti menntamálaráðherra
þá um leið samþykktir STEFs. Þær skyldur er lögðust á herðar Íslendinga
við inngöngu í Bernarsambandið voru m.a. að sjá um greiðslur til
erlendra útgefenda, tónskálda og erfingja þeirra fyrir opinberan
flutning tónverka á Íslandi. Þetta opnaði leið fyrir hreinum viðskiptum
milli Íslands og annarra landa. Það kom í hlut STEFs og hlutafélagsins
Landsútgáfunnar að safna réttindum og réttindaumboðum, erlendum
sem innlendum, og greiða fyrir opinberum flutningi íslenskra tónverka
erlendis. 127 Reglugerð nr. 12. 21. janúar 1947; Stjórnartíðindi 14. febrúar 1947. 128 Reglugerð nr. 19, 1. febrúar 1949. 129 Reglugerð nr. 19, 1949.
Geysimikil samningavinna fór nú í hönd á vegum félagsins, og eftir miklar umræður var hið íslenska STEF tekið inn sem fullgildur meðlimur í norræna Stefjasambandið haustið 1948. Á þingi alþjóðasambandsins í Buenos Aires í Argentínu haustið 1948 var Ísland tekið inn í alþjóðlega Stefjasamandið að undangengnum vissum lagabreytingum á íslensku lögunum. Jón Leifs ferðaðist um í Evrópu allan fyrri hluta árs 1949 til að ganga frá sérsamningum við hin einstöku Stefjasambönd í hverju landi. Jón Leifs vann markvisst að réttindamálum STEFs og risu í kjölfarið upp miklar deilur á Íslandi um aðferðir hans við innheimtu og réttindagæslu á vegum félagsins næstu 10 árin. Hér er ekki vettvangur til að líta á öll þau mál sem upp komu á næsta áratug, en hér skal nefna nokkur þau helstu sem komu starfsemi félagsins í fastar skorður. LandsútgáfanSegja má að þáttaka Jóns Leifs í íslensku tónlistarlífi (á félagslegum grunni) hafi tekið yfir flesta þætti þess. Hans hugmyndir um alls kyns mál sem betur máttu fara voru margar og hefur hann eflaust byggt þær á reynslunni eftir margra ára dvöl í Þýskalandi þar sem tónlistarlíf var í fastari skorðum eftir langa tónlistarhefð. Í sambandi við útgáfumál kom hann á fót útgáfufyrirtæki í árslok 1945 undir heitinu Landsútgáfan (Islandia Edition). Jón fékk lán til stofnsetningarinnar hjá íslenska ríkinu að upphæð 60.000 krónum með veði í frumhandritum allra þeirra verka sem brunnu í Þýskalandi. Verk hans sem samin voru fram að síðari heimsstyrjöldinni, höfðu verið gefin út í Þýskalandi, en sá lager brann allur í loftárás í stríðinu. Hafa þessi handrit verið í vörslu Handritadeildar Landsbókasafns síðan um miðjan 5. áratuginn en voru dregin fram í dagsljósið við flutning safnsins í hina nýju byggingu þess árið 1995. Þarna var um verulega upphæð að ræða á þeim tíma, en Jóni mun ekki hafa tekist að endurgreiða hana og eru því þessi handrit í eigu íslenska ríkisins. Tilgangurinn með stofnunl Islandia Edition - með starfsleyfi atvinnumálaráðuneytisins var að annast útgáfu og útbreiðslu á íslenskum bókmenntaverkum og annarrar listar og vinna að kynningu á íslenskri list erlendis. Meðal áforma félagsins var að gæta höfundarréttar, annast þýðingar og útgáfu á íslenskum ritverkum erlendis og einnig útgáfu íslenskrar tónlistar erlendis. Þá voru uppi áform um að rekstur sérstakrar blaðadeildar sem legði erlendum blöðum til efni um listir og mannlíf á íslandi. En sömu lögmál giltu fyrir Islandia Edition sem og mörg önnur fyrirtæki að starfsemi þess var háð gjaldeyrisyfirvöldum í landinu. Sannfæra varð stjórnvöld um að starfsemin myndi ekki hafa stór gjaldeyrisútlát í för með sér. Við aðild að Bernarsamkomulaginu og þar með löggildingu á STEFi varð að greiða erlendum höfundum fyrir útgáfurétt hér á landi, og því meira sem STEF vann af einurð í þeim málum fyrir erlenda höfunda þá fjölgaði gjaldeyrisumsóknum. Segja má að mörg góð mál í tengslum við tónlistina hafi tafist í marga áratugi vegna takmarkana á gjaldeyri til handa þessum málaflokki.
Starfsskilyrði útgáfufyrirtækisins voru slæm þrátt fyrir að félagið ætti sér góða stuðningsmenn. Miðað við markmið félagsins mætti ætla að umsvif þess yrðu svo mikil að ekki yrði hægt að reka það án stuðnings opinberra aðila. Árið 1948 var hlutafé félagsins orðið 90.000 krónur. Islandia Edition náði aldrei þeim markmiðum sem að var stefnt. Jóni Leifs og Hallgrími Helgasyni var vel til vina og áttu þeir mörg sameiginleg áhugamál. Hallgrímur rak einnig útgáfufélag Gígjan sem átti við sömu vandamál að stríða. Í bréfi til Jóns Leifs skrifar hann m.a.: (130) Hvernig er með Islandeditionina þína? Vildurðu ekki forleggja hjá henni eitt verk eftir mig? Sjálfsforlagsbaslið er alveg að setja mig á höfuðið, eintóm útgjöld og ekkert selzt. Er líka leiðinlegt til lengdar að vera að vafstra í þessum kaupsýsluhliðum músíkframleiðslunnar. Það dreifir huganum um of frá mergi málsins, sjálfri tónsköpuninni..... Gaman væri að heyra frá þér um þetta. Vildirðu kannske láta bræða saman GÍGJUNA og þína EDITION? Þarna er lýsandi dæmi um ástand tónlistarmála á umræddum tíma. Of mikill tími fór í alls kyns félagsmál (þó aðallega hjá Jóni) á kostnað tónsköpunar. Þó að Íslandsútgáfunni hafi tekist að láta prenta mörg verk var hætta á að fyrir henni færi eins og Gígjunni hjá Hallgrími "eintóm útgjöld og ekkert selzt". Á vegum Islandia Edition útgáfunnar komu út nokkur verk íslenskra tónskálda meðan Jón Leifs lifði. Fyrirtækið varð þó aldrei að því sem til var ætlast í upphafi. Gjaldskrá STEFsÞað sem ýmsir menn höfðu helst á móti stofnun STEFs var hættan á að mikill gjaldeyrir streymdi út úr landinu til erlendra höfunda. Miklar gjaldeyrishömlur grúfðu yfir landsmönnum enda gjaldeyrisskortur á Íslandi. Oft var ekki hægt að fá gjaldeyri til greiðslu erlendra skulda eða reikninga nema með svokölluðum bátagjaldeyri, þ.e. afgreiðslu gjaldeyrisumsókna er tengdist sölu íslenskra skipa erlendis. Við staðfestingu á Bernarsáttmálanum á Íslandi jukust greiðslur til erlendra höfunda til muna. Benda skal á í þessu sambandi að við opnun Þjóðleikhússins árið 1950 jókst flutningur á erlendum verkum sem voru vernduð og krafðist flutningur þeirra erlends gjaldeyris í höfundarréttargjöld. Eins og nefnt hefur verið var STEF stofnað árið 1948. Félagið fékk vilyrði frá þáverandi menntamálaráðherra, Eysteini Jónssyni, fyrir að hann setti nýja reglugerð um flutningsrétt og þar með löggilti STEF. Skilyrðin voru þó að STEF gengi frá samningum við Ríkisútvarpið, sem setti ákveðin skilyrði um greiðslurnar. Niðurstaðan var að gjaldskrá sú er Ríkisútvarpið fór eftir reyndist allt of lág. Bundu menn þá vonir við að sú gjaldskrá sem 130 Bréf frá Hallgrími Helgasyni til Jóns Leifs, dags. 12.júlí, 1954.
innheimt væri hjá kvikmyndahúsum, veitinga- og skemmtistöðum yrði á móti miklu hærri. STEF leitaði árangurslaust samninga við hina margvíslegu aðila, og í sumum tilfellum innheimtu höfundarnir sjálfir fyrir flutning án þess að greiða neitt til STEFs. Þegar samningaleiðin virtist þrautreynd gaf STEF út gjaldskrá vorið 1949 og sendi Lögbirtingarblaðinu til birtingar. Menntamálaráðherra brást harkalega við og lagði hann bann við birtingu gjaldskrárinnar. Gengu lögfræðingar STEFs þá á fund skrifstofustjóra menntamálaráðuneytisins og bentu á að bannið við birtingu gjaldskrárinnar væri ólöglegt. Til að komast hjá málshöfðun birti STEF gjaldskrá sína í dagblöðum ásamt meðfylgjandi greinargerð. Gjaldskráin var hugsuð sem viðmiðun til greiðslu skaðabóta fyrir ólöglega flutta tónlist og höfðu STEF-menn til viðmiðunar svipuð dæmi frá Danmörku allt frá árinu 1917 þar sem sektin fyrir að flytja tónlist án greiðslu var 50 danskar krónur í hvert skipti. Að loknum Alþingiskosningum árið 1950 mætti Jóhannes Elíasson fulltrúi menntamálaráðherra á stjórnarfund STEFS með nýjar tillögur um gjaldskrá ásamt loforði um birtingu slíkrar skrár í Lögbirtingarblaðinu. Ósk STEFs um að almennan rekstur þessarar innheimtustofnunar yrði styrktur af ríksivaldinu rættist ekki. Umræður fóru fram milli STEFs og Samband veitinga- og gistihúsaeigenda og óskuðu veitingamenn eftir að upplýsingar kæmu frá hinum Norðurlöndunum um hvernig þessum málum væri háttað þar. Mun Hans G. Andersen, sem var milligöngumaður í umboði ráðherra, ekki hafa sinnt því að afla þessara upplýsingaog dróst því málið á langinn. (131) Að lokum kom í ljós að sænska gjaldskráin var töluvert hærri en gjaldskrá STEFs kvað á um, en gjaldskráin í Noregi og Danmörku töluvert lægri. Þó skal undirstrika í þessu sambandi að greiðsla útvarpsins danska var þrefalt hærri miðað við heildartekjur en á Íslandi. Þann 28. ágúst 1950 gerðu svo fulltúar STEFs og fulltrúar S.V.G. með sér samning í fullri vinsemd og virðingu. Á aðalfundi S.V.G. var þessum samingi hafnað og krafist var sama gjalds og í Danmörku, þrátt fyrir mikinn aðstöðumun félaganna. Málin stóðu föst. Hinn nýi menntamálaráðherra, Björn Ólafsson, gaf í skyn að Ísland myndi ef til vill segja sig úr Bernarsambandinu og löggilding STEFs yrði afturkölluð enda mátti telja löggildinguna lítils virði þar sem stuðningur af hálfu ríkisvaldsins var enginn. Í skýrslu stjórnar STEFs segir eftirfarandi: Núverandi menntamálaráðherra hefur lýst því yfir, að hann muni ekki veita STEFi neina aðstoð meðan hann sé ráðherra. Hefir hann að svo stöddu synjað um staðfestingu á úthlutunarreglum STEFs, (sem eru nærri því samhljóða úthlutunarreglum sænska félagsins STIM), og eigi heldur staðfest viðauka við samþykktir STEFs varðandi dramtisk réttindi. (132) 131 Skýrsla framkvæmdastjóra STEFs, 17. júlí 1951. 132 Skýrsla STEFs dags. 22.ágúst 1951.
Eftir að ráðherra hafði neitað öllum stuðningi við STEF var engin leið önnur til úrlausnar en að fara til dómstólanna með málið. Fyrstu dómarnirÁ svipaðan hátt og hjá S.V.G. (Samband veitinga- og gistihúsaeigenda) höfðu kvikmyndahússeigendur stofnað með sér hagsmunafélag sem í fyrstu hafði fallist á drög að samningi við STEF en hafnað síðan. Að lokum fór svo að STEF höfðaði mál á hendur Gamla Bíói um flutningsgjöld af tónlist samkvæmt gjaldskrá sinni. Í dómi þessa máls segir svo m.a.: Mál þetta, sem dómtekið var 26. júní s.l. hefur Jón Leifs, tónskáld, Bókhlöðustíg 2 hér í bæ, sem framkvæmdastjóri STEFs, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar hér í bænum, f.h. The Performing Right Society Ltd. í London vegna tónskáldsins Cedric Thorpe Davie's í Glasgow, höfðað fyrir bæjarþingi Reykjavíkur með stefnu útgefinni 22. desember f.a. gegn stjórnendum Gamla bíós hér í bænum.... (133) í Dómsorði segir: Stefndu, stjórnendur Gamla bíós h/f. ... greiði f.h. félags stefnanda, Jóni Leifs, framkvæmdastjóra STEFs, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, f.h. the Performing Right Society Ltd. vegna Cedric Thorne Davie's kr. 125,97 með 6% ársvöxtum frá 11. desember 1950 til greiðsludags. Áðurnefnd stjórn Gamla bíós h/f greiði persónulega, hver fyrir sig 150.00 króna sekt í ríkissjóð, og komi tveggja daga varðhald í stað sektarinnar, verði hún ekki greidd áður en aðfararfrestur í máli þessu er liðinn. Þá greiði stefndu stjórnendur Gamla bíós h/f fyrir félagsins hönd og persónulega, stefnanda kr. 750.00 í málskostnað (134). Nú fékk STEF úr því skorið að óheimill væri flutningur verndaðrar tónlistar með kvikmyndum sem seldur verði aðgangur að nema með leyfi (STEFs). Einnig varðaði það refsingu að flytja í heimildarleysi verndaða tónlist í kvikmyndum. Kvikmyndahúsum bæri samkvæmt þessum dómi að greiða tónhöfundum fyrir flutning verndaðrar tónlistar, og ekki var síður mikilvægt að gjaldská STEFs skyldi vera til viðmiðunar við gjaldtöku þessa nema um annað yrði samið. Var málið flutt af lögfræðingi félagsins, Gústafi A. Sveinssyni. Um sama leyti, eða 27. apríl árið 1951, féll dómur í undirrétti; dómur höfðaður af Sigurði Reyni Péturssyni lögfræðingi f.h. Jan Van Loewen vegna dánarbús Stefan Zweigs gegn Leikfélagi Reykjavíkur vegna sýningar á leikritinu Volpone, sem var endursamið eftir leikriti Ben Johnsons. Í stuttu máli var Leikfélag Reykjavíkur dæmt til að greiða STEFi 6% af miðasölunni auk málskostnaðar. Þetta var fyrsti dómurinn um flutningsrétt á Íslandi. Hæstaréttardómur féll í máli kvikmyndahússins seint á árinu 1952 þar sem það var dæmt til 133 Endurrit úr dómskbók bæjarþings Reykjavíkur 134 Sama.
að greiða 1 1/4% af miðaverði í höfundarréttargjöld. Niðurstaðan varð sú að samningar tókust við 6 kvikmyndahús í Reykjavík um greiðslu gjalda til STEFs. Fyrir hönd STEFs var Jón Leifs óþreytandi í að kynna starfsemi félags síns og gæta hagsmuna félagsmanna. Hann leitaði uppi hverja smugu til að koma í veg fyrir misnotkun á höfundarrrétti tónskálda og er annað þekktasta dæmið sem varð opinbert mál er tengdist sérleyfisbílum (hitt er svokallað Keflavíkurmál). SérleyfisbílamáliðJón Leifs hafði afdrep í sumarbústaði við Straum, sunnan Hafnarfjarðar,
til tónsmíða. Hann ferðaðist þangað með Sérleyfisbílum Keflavíkur.
Það þótti þá góð þjónusta við farþega að leyfa þeim að hlusta
á útvarp á ferðum sínum með fólksflutningabílum um allt land.
Engir samningar höfðu verið gerðir milli STEFs og Sérleyfisbíla
Keflavíkur né önnur slík fyrirtæki um opinberan tónlistarflutning.
Að ósk Sigurðar Steindórssonar f.h. Sérleyfisbíla Steindórs ritaði
lögfræðingur STEFS, Sigurður Reynir Pétursson, bréf til fyrirtækisins.
Í því segir m.a.: STEF, Samband tóhskálda og eigenda flutningsréttar hefur falið mér að leita samninga við félag yðar út af tónflutningi þeim úr útvarpsviðtækjum, sem á sér stað í sérleyfisbifreiðum hér á landi. Eins og yður mun kunnugt er opinber tónflutningur án leyfis frá STEFi með öllu óheimill í sambandi við hvers konar skemmtana og atvinnurekstur og þá um leið tónflutningur sá er á sér stað í sérleyfisbifreiðum. Slíkt leyfi veitir STEF gegn gjaldi skv. gjaldskrá félagsins, en skv. henni ber að greiða árlega kr. 100.- að viðbættir vísitölu fyrir hverja sérleyfisbifreið. Leyfi ég mér hér að óska eftir samkomulagi um mál þetta við yður, þar sem langsamlegast væri hagkvæmast, að mál þetta yrði í gegnum félag yðar leyst í einu lagi fyrir allar sérleyfisbifreiðar í landinu. (135) Í september 1955 ferðaðist Jón með Sérleyfisbílum Keflavíkur í sumarbústaðinn sunnan Hafnarfjarðar. Í bréfi til sakadómara í Reykjavík um þá ferð segir Jón Leifs m.a. svo frá: Undirritaður kom inn á afgreiðslu sérleyfisbílanna hjá Ferðaskrifstofu ríkisins rétt fyrir klukkan hálftólf laugardagskvöldið 3. sept. 1955 og bað um farseðil fyrir "musiklausan" bíl að Straumi. Afgreiðslustúlkan seldi honum farseðilinn í viðurvist vagnstjóra viðkomandi bíls. Fór undirritaður síðan inn í bílinn og dró niður í útvarpstæki, sem þar var í gangi, svo að tónlistin heyrðist ekki. Kom þá bílstjórinn, opnaði aftur fyrir tækið og sagði að hann einn réði því hvort útvarpið væri opið eða ekki. Undirritaður sagðist banna honum að láta verk þau hljóma fyrir farþegana, sem hann, þ.e. STEF, hefði umboð fyrir, en það væru tónverk nærri allra rétthafa í heiminum. Bílstjórinn lét sér ekki segjast og opnaði fyrir útvarpstækið og tónlistina, enda þótt undirritaður spyrnti fæti við tækinu til að binda endi á þófið, og þagnaði þá tækið. Síðan bað undirritaður bístjórann að sækja lögregluna til að fá 135 Bréf dagsett 19. ágúst 1955 og stílað til Félags sérleyfishafa.
tilfellið rannsakað og dæmt sem lögreglumál. Bílstjórinn gerði það, og samkvæmt ósk undirritaðs skrifuðu lögregluþjónarnir niður nöfn votta meðal farþeganna. Bílstjórinn tjáði lögreglunni að hann vildi ekki taka undirritaðan með sem farþega, en krafðist þess að undirritaður væri tekinn fastur. Fór ég með lögreglunni á varðstofuna, en þar var engra nákvæmra skýringa óskað, og tók ég mér síðan far með bílnum R-6777 að Staumi. (136) Með þessu atviki vildi Jón Leifs leita úrskurðar hvort höfundar og fulltrúum þeirra væri heimil sjálfsvörn í baráttu þeirra í vernd hugverka. KeflavíkurútvarpiðMenntamálaráðherra, Björn Ólafsson fyrirskipaði þáverandi útvarpsstjóra, Jónasi Þorbergssyni að veita Bandaríkjaher "leyfi" til reksturs útvarpsstöðvar á Keflavíkurflugvelli með bréfi dagsettu 13. febrúar árið 1952. Þetta "leyfi" var gefið út í fullkominni mótsögn við íslensk lög nr. 68 frá 28. desember 1934 sem kveða á um að ríkisstjórn landsins hafi einkarétt á að reka útvarpsstöð á Íslandi. Oft hefur verið bent á þessa staðreynd í ræðum og rituðu máli. Það var ekki fyrr en rúmum 30 árum síðar að þetta einkaleyfi ríkisins var afnumið. Á fundi stjórnar STEFs 13. ágúst 1953 var samþykkt að gera kröfur á hendur Keflavíkurútvarpinu um greiðslu 2500 dollara á mánuði, eða um þrefalt hærri upphæð en Ríkisútvarpið greiddi. Forsendan var að það flytti þrisvar sinnum meiri tónlist en Ríkisútvarpið, enda sendi það dagskrá sína út allan sólarhringinn. Þrátt fyrir kurteisleg bréfaskrif milli STEFS og útvarpsstöðvar bandaríska hersins í Keflavík bar það engan árangur. Í byrjun ársins 1955 var af alvöru unnið að undirbúningi málshöfðunar á hendur Bandaríkjaher. Helsti hvatinn var tilkynning frá franska stefjasambandsfélaginu SACEM þess efnis að ef ekki hefði borist viðurkenning Bandarískra yfirvalda fyrir þann 1. mars árið 1955 um greiðsluskyldu fyrir tónlistarflutning í útvarpsstöðvum hersins yrði höfðað mál á hendur þeim. Nú varð að afla upplýsinga og sannana í málinu. Upptökur voru gerðar af útsendingum útvarpsins í Keflavík og fólk beðið að undirrita staðfestingu þess efnis að það hefði heyrt tiltekin tónverk í útvarpsstöðinni. Mikil vinna hvíldi á herðum Sigurðar Reynis Péturssonar lögfræðings STEFs, og á Jóni Leifs framkvæmdastjóra STEFs við undirbúning málshöfðunar, en þeir höfðu fengið einskonar hvataloforð frá stjórn STEFs þess efnis að hvor um sig fengi greidd 6% af því fé sem innheimtist frá Varnarliðinu þegar sigur ynnist. Að undangengnum mörgum dómum á hendur Varnaliðsins, að það viðurkenndi greiðsluskyldu sína með ákveðnu tilboði til STEFs, tókst að fá viðurkenningu á kröfunum 136 Bréf Jóns Leifs til sakadómara dags. 4. september 1955.
haustið 1957. Vandamálið var, að íslensk lög gengu miklu lengra hvað varðaði verndun hugverka en bandarísk. Ekki var tekið fram í Bernarsáttmálanum neitt þess efnis að útvarpstöðvar herja væru á neinn hátt undanskildar þessum lögum, enda greiddu bæði breski og franski herinn gjöld til félaga þeirra landa. Höfundarrétturinn tók til eftirfarandi atriða:
Höfuðatriði samkomulagsins er það að rétturinn tekur til þess staðar sem verkið er gefið út en ekki til þjóðernis höfundar. Ef verk bandarísks höfundar (Bandaríkin voru ekki aðilar að Bernarsáttmálanum) var gefið út á Íslandi, þá naut það fullrar verndar hvað varðaði opinberan flutning. Bandaríkjamenn litu aftur á móti svo á að útgefin verk væru almenningseign "public domain" en furðuðu sig á að það sem skilgreint var á þann hátt í Bandaríkjunum ætti ekki við á Íslandi, þar sem verk nutu verndar í 50 ár eftir dauða höfundar. Vernd í Bandaríkjunum náði til 56 ára eftir fyrstu útgáfu verksins og að því tilskildu að skráning þess færi eftir settum reglum þar í landi. Meða 30 systurfélaga STEFs voru þrjú bandarísk, ASCAP, BMI og ALACA. Á þessum grundvelli byggði STEF málshöfðun sína þar sem útvarp Bandaríska hersins í Keflavík flutti verk sem nutu verndar þessara félaga. Það sem einnig batt hendur bandaríska hersins var klásúla í lögum nr. 110 frá 19. desember 1951 þar sem segir: "It is the duty of members of the United States forces and their dependents in Iceland to respect the laws of Iceland" (bandaríksa varnarliðið hóf útvarpsrekstur í Keflavík 1. nóvember 1951). Undir þessa skilgreiningu féllu einnig lög um höfundar- og útgáfurétt. Sigurður Reynir Pétursson lögfræðingur STEFs hafði til langs tíma unnið að samningum við Varnarliðið í Keflavík og reynt að ná árangri bæði með almennum samningum og einnig með dómsmálum. Varnarliðsmenn voru alltaf "með málið í athugun" og því dróst málið á langinn. Stjórnarfundur STEFs í febrúar 1958 (137) samþykkti svo að lokum heimild til handa formanni sínum þess efnis að ganga frá samningum við Varnarliðið fyrir eina greiðslu 3.000 dollara fram til ársloka 1955 og síðan 4500 dollara fyrir hvert ár eftir það. Niðurstaðan varð að Varnarliðið samþykkti að greiða 4500 dollara á ári næstu þrjú árin. 137 Gerðabók STEFs: 228. fundur 5. febrúar 1958.
En lokaáhlaupið gekk ekki átakalaust. Allt frá miðju sumri 1958 fram til febrúar 1959 fékk Varnarliðið senda stefnu á hverjum degi og fóru formaður og lögfræðingur félagsins til Keflavíkur til viðræðna í hverri viku allan þann tíma. Samtímis voru stöðug fundarhöld með varnarliðsnefndinni og málið var sótt á öllum vígstöðvum, bæði við Varnarliðið, untanríkismálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið. Hafði það verið í gangi í 8 ár. Umtalsverður árangur náðist árið 1956 er dómur féll í bæjarþingi Reykjavíkur þess efnis að Varnarliðinu bæri að greiða gjöld til STEFs, en það tók samt rúm tvö ár til viðbótar að fá málið í höfn. STEF vann sig mikið í álit fyrir málið og vakti það víða athygli erlendis enda hafði félagið sýnt alþjóðlega forystu í málinu og varð niðurstaðan m.a. sú að erlendu sambandsfélögin samþykktu að greiða allan málareksturskostnað STEFs í málinu. Alþjóðaráð TónskáldaEitt þeirra félaga sem Jón Leifs kom á laggirnar var Alþjóðaráð Tónskálda (Conseil International des Compositeurs CIC). Að frumkvæði Tónskáldafélags Íslands (Jóni Leifs) var boðað til fundar í Reykjavík dagana 12.-17. júní 1954 um stofnun slíks ráðs er gæta skyldi hagsmuna tónskálda á alþjóðlegu sviði. Í ráðinu áttu sæti einn fulltrúi frá hverju landi og voru það fulltrúar félaga "æðri" tónskálda eða þá persónulegir meðlimir. Stofnendur ráðsins voru: Salvatore Allegra frá Ítalíu, Henri Dutilleux frá Frakklandi, Klaus Egge frá Noregi, Hilding Hallnäs frá Svíþjóð, Karl Höller frá Þýskalandi, Oskar Wagner frá Austurríki, Guy Warrack frá Bretlandi og Jón Leifs frá Íslandi. Fundir voru haldnir í sal efri deildar Alþingis. Hinn formlegi stofndagur alþjóðaráðsins var svo 17. júní 1954 en undirskrift skjala fór fram á Þingvöllum þann dag. Þessi félagsskapur komst aldrei almennilega á flug og þrátt fyrir einlæga viðleitni Jóns Leifs í þá átt að halda honum lifandi lagðist hann endanlega niður árið 1963. Stofnun þessa félags vakti mikla athygli með tímanum og á aðalfundi ráðsins sem haldinn var í London í maí 1955 birtist grein um fundinn í "The Times". Á þeim fundi bættust við fulltrúar frá Argentínu, Bandaríkjunum, Hollandi og Sviss. Í upphafi greinarinnar í Times segir: "Ísland hefur haft forustuna í herferð, sem gæti haft að einkunnarorðum: Tónskáld allra landa sameinist." (138) Hér var á ferðinni enn eitt félagið sem Jón Leifs hafði talið nauðsynlegt að kæmist á fót tónlistinni til frama. Meðal svipaðara hugmynda sem hann tók með sér í farteskinu til Íslands í stríðinu voru m.a. stofnun alþjóðlegs útgáfufyrirtækis (sem síðar var Landsútgáfan sem aðeins náði að gefa út fáein smáverk, aðallega þó eftir hann sjálfan) Endurreisn íslensks menningarráðs alþjóðaviðskipta, Þjóðmenningarsamband Íslands, Bandalag Íslendinga erlendis, Landsfegrunarsamband Íslands, Sumarháskóli á Íslandi og einnig "Baðhverfi" við Nesjavelli. Eru þetta bara örfá dæmi um slíkar hugmyndir hans. Frjósemi hans á félagsmálasviði tónlistarinnar var engu minni hjá honum en sem tónskáld. 138 Alþýðublaðið: 15. maí 1955.
Önnur mál í lok 6. áratugarinsMálaferlin við varnarliðið á Keflavíkurflugvelli voru aðeins eitt þeirra mála sem unnið var að á vegum STEFs á þessum tíma. Nefna má að á árunum 1958 og 1959 var gengið frá samningum um tónlistarflutning á vinnustöðum, unnið að samningum í svokölluðu segulbandsmáli. Á þessum tíma lá fyrir á Alþingi frumvarp þess efnis að fólk mætti nota og hljóðrita á segulbönd tónlist endurgjaldslaust. Það tókst með miklu harðfylgi að fá því máli vísað frá og með góðri aðstoð bæjarstjórans í Reykjavík, Gunnars Thoroddsen. Einnig var unnið að nýjum samningum við Ríkisútvarpið. Geysilegt álag var á þeim einstaklingum sem harðast börðust fyrir réttindamálum STEFs frá stofnun þess og fram til ársins 1960. Sú vinna gekk ekki átakalaust og var gagnrýnd úr öllum áttum. En segja má að sigur hafi unnist í nánast öllum málum sem tekin voru fyrir af STEFi og var það ekki síst að þakka þeim Jóni Leifs formanni og lögfræðingi félagsins, Sigurði Reyni Péturssyni. ListamannaklúbburinnListamannaklúbbur Bandalags Íslenskra Listamanna var stofnaður
á fulltrúafundi 21. nóvember 1956. Tilgangurinn með stofnun klúbbsins
var sá að listamenn gætu hist "í menningarlegu umhverfi, átt kost
veitinga, ræðst við, lesið menningarrit erlend og innlend, séð
góða myndlist, hlustað á valda tónlist og kynnst ýmsu nýstárlegu
úr heimi listanna". Allar deildir bandalagsins höfðu rætt málið
og voru reglur samþykktar fyrir klúbbinn. Klúbburinn fékk aðstöðu
í Þjóðleikhússkjallaranum og var hann opinn á mánudögum. Venjulega
var stutt dagskrá á mánudagskvöldum. Jón Leifs, þáverandi formaður
bandalagsins, lýsti opnun klúbbsins og af því tilefni var opnuð
sýning á málverkum sem stjórn Félags íslenskra Myndlistarmanna
hafði valið. Einar Bragi Sigurðsson var framkvæmdastjóri klúbbsins,
en í dagskrárnefndinni sátu Jórunn Viðar tónskáld, Thor Vilhjálmsson
rithöfundur og Þorsteinn Ö Stephensen leikari. Í framkvæmdastjórn
var Jón Leifs, Rögnvaldur Sigurjónsson og Sigvaldi Thordarson.
Í klúbbnum voru rædd ýmis mál er vörðuðu listir almennt ( sjá
dæmi um tónlistarumræðu í klúbbnum í kaflanum um Musica Nova).
|