Tónlist á Íslandi á 20. öld. Copyright © 1998: Bjarki Sveinbjörnsson 1. des. 1998

Tónlistarsýningin 1947
Tónskáldafélag Íslands
Örlítið um Jón Leifs
Stofnun Tóskáldafélags Íslands
Tónlistarnefnd Tónskáldafélagsins
Norræna tónlistarhátíðin 1954
Tónlistarhátíð Tónskáldafélagsins 1957

Til bakaEfnisyfirlit Áfram

Síða 75 - 88

Tónlistarsýningin 1947

    Tónskáld á Íslandi eiga nú við álíka kjör að búa og rithöfundar hér á 13. öld, sem skráðu verk sín á skinn án hagnaðar. Þó er sá munur á, að handrit skáldanna fóru úr einum höndum í aðrar, vóru afrituð og lesin upphátt og í hljóði öllum landslýð til fyllilegra afnota. –
    Leifar af þeim lifa.

    Íslensk tónskáld rita verk sín á tortímanlegt efni Fáir geta lesið þau; – enn færri eða engir geta látið þau hljóma í landinu. Naumast eru hér skrifarar til, sem geti skráð þau. Fornskáldin höfðu fullan vinnufrið á höfuðbólum og klaustrum. Tónskáldin eiga sér ekki athvarf, nema til að semja alþýðlega söngva án samhengis listrænna þróunar.

    Sýning tónlistar er til að láta sjást það, sem ekki getr hljómað. Íslenzkt og útlent
    stendur hlið við hlið. Mörgum verðr hugsað: Hvað er þá orðið okkar starf í sjö hundruð sumur? Vér skynjum hinn mikla tónanna mátt: afl þjóðernis, – afl sambands milli þjóða, –orku, er skapað gæti, er fram liða stundir, þjóð vorri með öllum þjóðum fyllri rétt frelsis en nokkuð annað, sem íslenzkur andi og íslenzk hönd hafa látið frá sér fara. (102)

Tónskáldafélagið sem stofnað var árið 1945 (sjá síðar) beitti sér fyrir því að komið yrði á tónlistarsýningu á öðrum fundi þess, 6. janúar 1947, að tillögu Jóns Leifs. Til að sjá um þessa sýningu voru kosnir þrír menn í nefnd, Jón Leifs, Karl O. Runólfsson og Hallgrímur Helgason. Á sama tíma var mikil sýningaralda í Reykjavík. Má þar nefna byggingarsýningu, sjávarútvegssýningu, og af tónlistarsýningunni tók svo við landbúnaðarsýning. Þessi sýning var fyrsta tónlistarsýningin sem haldin var á Íslandi. Við opnunina voru m.a. viðstaddir ráðherrar og fjöldi erlendra gesta.

Á fundi Tónskáldafélagsins vakti Jón Leifs máls á því að "hyggilegt mundi og menningarlega nauðsynlegt að efna til tónlistarsýningar, sem bæði yrði í nafni og undir forgöngu félagsins". Á sýningunni mátti sjá ýmis forn hljóðfæri og var í tengslum við hana m.a. leikið á afsteypur fornra lúðra er fundist höfðu í jörðu í Danmörku. Umfjöllun fór fram um helstu þætti íslenskrar tónlistarsögu fram að þeim tíma og síðast en ekki síst var einn veggurinn skreyttur myndum af hljóðfæraleikurum að leika á hljóðfæri sem um hljómsveit væri að ræða. Höfuðtilgangur hátíðarinnar var m.a. að leggja fram nótur íslenskra tónverka sem óþekkt voru og nota tækifærið til að benda almenningi á ýmislegt sem gæti orðið tónlistinni í landinu til framdráttar – eins og til dæmis eitt stykki synfóníuhljómsveit! Kristján Eldjárn magister (síðar forseti Íslands) fjallaði um þessa sýningu í tímaritinu Samvinnunni og vitnar í grein sinni í fylgirit sýningarinnar. Þar segir m.a.:

    Fyrir stafni sýningarskálans er mynd af því sem forstjórar sýningarinnar hafa kallað hinn mikla draum íslenzkra hljómlistarmanna: hljómsveit. Um þetta farast Jóni Leifs, tónskáldi, orð á þessa leið:


102 Úr hefti sem lagt var fram á Tónlistarsýningunni 1947.


76

    "Höfuðverkefni sýningarinnar er að minna á gildi hljómsveita fyrir alla þróun tónmennta. Án hljómsveitar fær engin tónlist þróazt. – Við aðalvegg skálans er þögul eftirmynd hljómsveitar, - óskadraumur allra tónlistarvina í landinu. Sýnd er miðlungshljómsveit eða sá flokkur hljóðfæra, sem flutt getur hljómkviður Beethovens, þær er mannfærri eru – án þess að skerða tilætlun tónskáldsins."
    - - - - "Hljómsveit á Íslandi má ekki standa að baki nokkurri annarri hljómsveit erlendis að gæðum, – þarf eiginlega að vera betri en nokkur önnur hljómsveit: smáþjóðirnar þurfa að skara fram úr stórþjóðunum, ef þeim á að takast að vekja eftirtekt. Hins vegar getum vér látið oss nægja 50 manna hljómsveit til að byrja með og hún getur skólazt með því að flytja mörg sígild verk í fullkomnasta búningi áður en fleiri mönnum yrði bætt við". (103)

Á sýningunni mátti sjá ýmis hljóðfæri, allt frá gömlum bronslúðrum, til algengustu hljómsveitarhljóðfæra nútímans. En það varð nú samt á öðrum vettvangi en hjá Tónskáldafélaginu sem baráttan fyrir "hinum mikla draumi hljómlistarmanna" fór fram, eða með öðrum orðum, stofnun hljómsveitar.

Við opnun tónlistarsýningarinnar kynnti Brynjólfur Bjarnason menntamálaráðherra reglugerð um flutningsrétt á ritverkum og tónsmíðum. Þar með var Tónskáldafélag Íslands gildur aðili að Norræna tónskáldaráðinu og varð þar með jafn rétthátt tónskáldafélögunum á hinum Norðurlöndunum.


103 Samvinnan: febrúar 1947.


77

Tónskáldafélag Íslands

Örlítið um Jón Leifs

Þar sem nafn Jóns Leifs (1899-1968) ber oft á góma í þessum kafla tel ég nauðsynlegt að gera örlitla grein fyrir honum hér.

Jón Leifs fór til Þýskalands árið 1916 til að læra tónlist. Hann varð tónskáld - umdeilt tónskáld - og fékk mjög misjafnar móttökur á verkum sínum þar sem þau voru flutt. Það er fyrst á seinustu árum að menn dæma verk hans fordómalaust. En Jón var einnig félagsmálamaður.

Eftir mörg ár bæði í Þýskalandi og Svíþjóð flutti Jón aftir til Íslands árið 1945. Strax eftir heimkomuna hóf hann að vinna að réttindamálum tónskálda og stofnaði m.a. Tónskáldafélaið (1945), STEF (1948), útgáfufyrirtækið Islandia Edition (1949), Alþjóðaráð tónskálda (1954). Þá vann hann að stofnun Íslenskrar Tónverkamiðstöðvar (Í.T.–1968. Sjá þó nánar um það í kaflanum um Íslenska Tónverkamiðstöð) og fleira í sama anda.

Jón var allt sitt líf umdeildur maður – ekki aðeins fyrir tónlist sína heldur einnig fyrir harða baráttu að réttindamálum tónskáldanna. Hápunktur þessa var líklega vinna hans að stofnun STEFs. Þá mynd sem ég dreg upp af Jóni í kaflanum um persónu hans í tengslum við þátttökuna í Alþingishátíðinni stend ég við. En það hindrar mig ekki í því að undirstrika hið gífurlega framlag hans til íslensks tónlistarlífs eftir heimkomuna. Æfisaga Jón Leifs er ekki enn skrifuð en um hann og líf hans mætti skrifa margar bækur.

Stofnun Tónskáldafélags Íslands

    Árið 1945, miðvikudaginn 25. júlí komu saman í aðalskrifstofu Ríkisútvarpsins, til þess að ræða um stofnun tónskáldafélags Íslands eftirtaldir menn: Jón Leifs, Páll Ísólfsson, Sigurður Þórðarson, Karl O. Runólfsson og Helgi Pálsson. Frumkvæðið að fundi þessum átti Jón Leifs. Hafði hann reynt að koma boðum um fund þennan til allra þeirra er við tónsmíðar fást og félagar eru í Félagi íslenskra tónlistarmanna allra en vegna fjarveru og annara forfalla gátu ekki fleiri mætt á fundinum en ofan greinir. Félagið var stofnað á fundinum og nefnt Tónskáldafélag Íslands. Tilgangur þess er meðal annars, að gæta hagsmuna íslenskra tónskálda. Félagar geta öll þau tónskáld orðið, sem eru meðlimir í Félagi íslenskra tónlistarmanna. (104)

Hér var um sögulegan fund að ræða. Það var hér sem Jón Leifs kom fullur orku inn í íslenskt tónlistarlíf. Hann átti eftir – í nafni þessa félags – og einnig síðar STEFs – en þetta eru félög sem hann gegndi formennsku í – að berjast með kjafti og klóm í orðsins fyllstu merkingu fyrir réttindamálum íslenskra tónskálda, bæði á innlendum og á alþjóðlegum


104 Fyrsta gerðabók Tónskáldafélags Íslands 1945-51, bls. 1.


78

vettvangi. Starf hans á vegum þessara félaga átti eftir að kosta átök og stríð þar sem vopnin sem beitt var, voru stór orð og áttu í nokkrum tilfellum eftir að kosta vinslit og vonbrigði. En það sem hann hefur unnið að í sambandi við félagsmál og höfundarréttarmál er óumdeilanlegt þrekvirki frá hendi eins manns á Íslandi, á Norðurlöndum og í sumum tilvikum á alþjóðlegu sviði. Það skal tekið fram að í málefnum STEFs var annar kappi, Sigurður Reynir Pétursson lögfræðingur, er hafði numið lögfræði í London með sérstaka áherslu á höfundarréttarmál.

Á þessum fundi lagði Jón Leifs fram frumvarp að lögum fyrir félagið sem voru undirrituð og samþykkt af öllum fundarmönnum. Páll Ísólfsson var kosinn formaður að tillögu Jóns Leifs og Sigurðar Þórðarsonar, en Hallgrímur Helgason, sem ekki var á fundinum, ritari og Helgi Pálsson gjaldkeri. Á fyrsta fundinum var samþykkt að bjóða Árna Björnssyni, Árna Thorsteinsson og Hallgrími Helgasyni að gerast meðlimir í félaginu.

Rúmt ár líður frá aðalfundi þar til næsta fundargerð er rituð, sem einnig var haldinn í Ríkisútvarpinu, 18. oktober 1946. Þá var Tónskáldafélagið þegar farið að berjast fyrir réttindum félagsmanna sinna og og hafði í því sambandi sent Menntamálaráði Íslands svohljóðandi bréf:

    Tónskáldafélag Íslands leyfir sér hér með að senda Menntamálaráði íslands lög félagsins ásamt nöfnum félagsmanna og vill um leið virðingarfyllst vekja eftirtektir ráðsins á kjörum íslenzkra tónskálda. Fyrst er þess að geta, að lagavernd íslenzkra tónverka er bæði á Íslandi og erlendis ófullkomnari en í flestum ef ekki öllum öðrum löndum og möguleikar til flutnings tónverka á Íslandi minni en annarsstaðar, en gjöld fyrir flutning tónverka er aðaltekjur tónskálda. Erfið tónverk færa erlendis jafnvel þarlendum höfundum tiltölulegar litlar tekjur, og þær venjulega þeim mun minni, sem verkin eru veigameiri. Hæstu árslaun tónskálda á íslandi hrökkva nú tæplega til óhjákvæmilegrar afritunar eins meiri háttar tónverks ásamt raddheftum, en til flutnings þarf oft í fyrsta sinn allskonar fjölritun, þó að ekki sé hugsað um að prenta verkin. Ef tillit er tekið til sölumöguleika skáldsagana, virðist sízt viðeigandi að laun tónskálda séu lægri en laun rithöfunda. Þar sem laun leikara eru ekki veitt af fé til bókmennta eða rithöfunda, virðist heldur ekki réttmætt að launum túlkandi tónlistarmanna sé úthlutað af sömu upphæð og til tónskálda. Tónskáldafélag Íslands leyfir sér því að fara þess á leit, að Menntamálaráð ákveði við næstu úthlutun sérstaka upphæð til tónskálda eingöngu og aðrar upphæð til afritunar, fjölritunar eða prentunar tónverka. (105)

Á fundi Tónskáldafélagsins í janúar 1947 átti Jón Leifs tillögu þess efnis að:

    Ríkisútvarpið hefði starfandi dagskrárnefnd til þess að skipuleggja tónlistarflutning útvarpsins og hafa eftirlit með vali verka. Ennig var rædd tillaga þess efnis að gera samning við Ríkisútvarpið um útbreiðslu íslenskra tónverka á plötum með því að beita sér fyrir upptöku þeirra og dreifingu. (106)


105 Bréf dagsett í júlí 1945. Birtist sem grein í Vísi 8. október 1946.
106 Önnur fundargerð Tónskáldafélags Íslands: 6. janúar 1947.


79

Ef Jón Leifs hefði haft einhverja hugmynd um hverju hann var að koma af stað með þessum tillögum sínum, þá mætti efast um að hann hefði fylgt þeim eftir. (107) Sú barátta sem hann átti eftir að heyja fyrir réttindum íslenskra tónskálda og flutningi á verkum þeirra var nánast ofurmannleg.

Í upphafi árs 1948 héldu meðlimir Tónskáldafélagsins fund til undirbúnings stofnunar innheimtustofnunar Tónskáldafélagsins, STEFs ásamt því að lagt var fram uppkast að lögum um Tónskáldafélagið er leggja skyldi fyrir næsta aðalfund. Í lok janúar 1948 var síðan haldinn aðalfundur Tónskáldafélagsins þar sem samþykkt var annars vegar uppkast að nýjum lögum félagsins, ásamt reglugerðaruppkasti fyrir STEF. Þá var Jón Leifs kosinn formaður Tónskáldafélagsins og þar með líka STEF's þar eð þessi félög höfðu sameiginlega stjórn. Jón Leifs gegndi formennsku í þessum tveimur félögum nánast samfellt til æviloka.

Markvisst var unnið að því að því að koma ýmsum baráttumálum í höfn. Fundir voru haldnir vikulega. En það voru ekki aðeins baráttumál tónskáldanna sem voru efst á baugi, heldur var tekin afstaða til ýmissa mála varðandi listir almennt. Sem dæmi má nefna að á fundi 7. febrúar 1948 var samþykkt tillaga frá Jóni Leifs sem áskorun til Alþingis:

    Stjórn Tónskáldafélags Íslandi leyfir sér að skora á Alþingi að sjá svo um að Ísland gerist sem fyrst aðili í UNESCO, menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna og að athugað verði jafnframt að bjóða UNESCO að reist á Íslandi útvarpsstöð sem heyrist um víða veröld til þess að útbreiða menningarhugsjónir Sameinuðu Þjóðanna og allskonar þekkingu í listum og vísindum. (108)

Á næstu fundum voru ýmis mál tekin til umfjöllunar í þágu tónlistar og tónlistarmanna í landinu almennt. Sem dæmi má nefna eftirfarandi:

    1. Skrifa til Grove forlagsins viðvíkjandi útkomu tónlistarritsins"Music and Musicians".

    2. Áskorun til ríkisstjórnar Dana og Ríkisþings að hlutast til um að Íslendingum verði þegar afhent öll gömul íslensk handrit sem til eru í dönskum söfnum.

    3. Áskorun til Wilhelm Hansen forlagsins í Kaupmannahöfn að forlagið afsali sér útgáfurétti sínum á íslenska þjóðsöngnum til íslenskra aðila.

    4. Áskorun til utanríkismálaráðuneytis að gangast fyrir því við sendiherra sína og ræðismenn erlendis, að halda íslenska hljómleika á heimilum sínum eða annarstaðar, og bjóða til þeirra erlendum sérfræðingum og áhugamönnum.

    5. Vinna að því að koma útgáfurétti á íslenskum verkum erlendis til Íslands. Sótt
    um gjaldeyrisheimild fyrir pappír til ljósritunar á verkum höfunda.

    6. Samningar STEF's við Ríkisútvarpið um greiðslu fyrir flutning á íslenskum verkum í útvarpinu.


107 Enda segir hann í bréfi til Hallgríms Helgasonar dagsett 23. apríl 1954: ...störfin fyrir STEF og annan félgasskap hafa verið svo mikil að þau gætu sligað hvern mann. Ég hefði aldrei tekið þau að mér og byrjað allt þetta, ef ég hefði vitað að það myndi kosta mig fimm ein beztu ár minnar æfi....
108 Gerðabók Tónskáldafélgasins: 7. febrúar 1948.


80

    7. Áskorun til Ríkisútvarpsins að auka flutning á íslenskri tónlist í útvarpinu og að útvarpið hljóðriti íslenska tónlist á plötur.

    8. Sjá um samskipti við erlend tónskáldafélög og vinna að því að koma íslenskum tónverkum á erlendar tónlistarhátíðir – aðallega norrænar.

    9. Gerast aðilar að alþjóðlegum tónlistarsamtökum.

    10. Fara þess á leit við Fjárveitingarnefnd Alþingis að tekin verði upp á fjárlögum fjárveiting íslenskra sendiráða erlendis til að halda samkvæmistónleika.

    11. Barátta vegna listamannalauna tónlistarmanna.

    12. Ganga frá löggildingu STEF's sem innheimtustofnunar.

Í þessari upptalningu er aðeins fáein mál nefnd sem Tónskáldafélagið og STEF unnu að. Það var ljóst að byrja þurfti frá grunni og því var mikilvægt að forystumaðurinn væri víðsýnn og fylginn sér í starfi.

Eitt mikilvægt baráttumálum félagsins var að vinna að því að auka hlut íslenskrar tónlistar í útvarpinu. Á fundi í mars 1950 bar Jón Leifs fram eftirfarandi tillögu:

    Fundurinn samþykkir að beina því til útvarpsráðs að flytja meira af íslenskri tónlist í dagskrá útvarpsins og reyna að sjá um að ný og ókunn íslenzk tónverk verði endurtekin í útvarpsdagskrá, án þess að langur tími líði á milli.

Tónlistarfulltrúar útvarpsins, Páll Ísólfsson og Jón Þórarinsson, greiddu ekki atkvæði um þessa tillögu þar sem Páll var farinn af fundi og Jón sat hjá. Nú fór staðan milli hinna tveggja fylkinga innan Tónskáldafélagsins að taka á sig ákveðnari mynd. Það var greinilegt að Páll Ísólfsson og Jón Þórarinsson, með Útvarpið á bak við sig (og Tónlistarfélagið), mynduðu einn hóp, og Jón Leifs annan með marga félaga í Tónskáldafélaginu að bakhjarli. Þó fór svo á aðalfundinum í apríl 1950 að uppstokkun varð í stjórn félagsins við það að bæði Páll Ísólfsson var kosinn formaður Tónskáldafélagsins og Jón Þórarinsson var kosinn formaður STEF's.

Háværar raddir voru komnar fram opinberlega að Jón Leifs væri nasisti og hefði unnið með þeim, og var það óspart notað gegn honum. Verst var í þeim efnum að þáverandi stjórn Tónskáldafélagsins eða hluti hennar var einnig á þeirri skoðun, þrátt fyrir eftirfarandi samþykkt á stjórnarfundi 13. nóv. 1950:

    Hér með vill stjórn Tónskáldafélags Íslands votta samkvæmt ósk hr. tónskálds Jóns Leifs að stjórninni er ekki kunnugt um að Jón Leifs hafi verið nazisti eða á nokkurn hátt í tengslum við þá. Stjórnin styður eindregið þá ósk tónskáldsins að rannsókn þessa máls verði látin fram fara ef ástæða þykir til. (109)


109 Gerðabók Tónskáldafélags Íslands: 13. nóvember 1950.


81

Undir fundargerðina skrifa Páll Ísólfsson, Skúli Halldórsson og Jón Þórarinsson. Á fundi í október sama ár lagði Jón Leifs fram uppkast að skýrslu um dvöl sína í Þýskalandi og óskaði að hún yrði send ýmsum aðilum til að hreinsa sig af öllum grun. Mjög erfitt var að taka afstöðu til þessa máls enda voru þessar fullyrðingar byggðar á sögusögnum og sem erfitt var að sanna eða afsanna. Niðurstaðan varð sú að meiri hluti stjórnarinnar, þ.e. Páll Ísólfsson og Jón Þórarinsson, sáu ekki að svo stöddu ástæðu til að hafa afskifti af málinu enda var þetta persónulegt mál Jóns Leifs og Tónskáldafélaginu alls ótengt. Hefur Jón Þórarinsson aldrei verið á annarri skoðun en að Jón Leifs hafi verið nasisti, allt fram á þennan dag. (110) Það er því ljóst að bilið sem var að opnast á milli hinna tveggja fylkinga varð breiðara.

Um það bil einu ári eftir að Páll Ísólfsson tók við formennsku í félaginu sló í brýnu milli þessarra tveggja fylkinga. Jón Leifs, þáverandi varaformaður, lagði fram greinargerð um stjórn Tónskáldafélagsins, og í framhaldi af því tillögu um vantraustsyfirlýsingu á hendur stjórninni sem Jón taldi ekki vinna skipulega að málefnum félgsins. (111) Þótti stjórn félagsins þessi greinargerð og vantraustsyfirlýsing hið versta frumhlaup af hendi Jóns Leifs og aðeins til þess fallið að skapa sundrungu og efla flokkadrætti innan félagsins. Stjórnarmenn svöruðu til baka með því að gefa í skyn í umsögn sinni um greinargerðina að Jón Leifs hefði reynst óheiðarlegur í fjármálum félagsins. Töldu þeir að fé hefði "runnið" til Jóns á tveimur undanförnum árum. Jón Leifs lagði þá fram fjölritaða greinargerð og skýringar með öllum sínum fjármálum hjá félaginu, og í framhaldi af henni létu Jón Þórarinsson og Páll Ísólfsson bóka "að þeir viðurkenna það óheppilegt orðalag og ekki rétt, þar sem svo er komist að orði í athugasemdum þeirra við "greinargerð" Jóns Leifs í lið VI í athugasemdunum á bls. 11 að til Jóns Leifs hafi "runnið" á rúmum tveim árum samtals um 114.500 kr." (112) Þetta dæmi er einungis dregið hér fram til að sýna þá spennu sem orðin var í Tónskáldafélagi Íslands árið 1952.

Við frekari skoðun á Greinargerð Jóns Leifs og Athugasemdum (113) Jóns Þórarinssonar og Páls Ísólfssonar kemur í ljós, eins og oft í málflutningi Jóns Leifs, að fullyrðingar hans eru órökstuddar og byggjast óskir hans oft á því hvað æskilegt væri í stað þess hvað mögulegt var miðað við aðstæður á Íslandi á þeim tíma. Má þar t.d. nefna að hann áskar þá útvarpsmenn um að sinna ekki dagskrárskiftum útvarpsins við önnur lönd, sem haldi miklum samskiptum sín á milli á þessu sviði. Í Athugasemdum Jóns Þ. og Páls kemur fram að á Norðurlöndum, og á meginlandinu öllu séu sérstakar útvarpslínur milli útvarpsstöðvanna sem geti flutt efni milli sín án nokkurs tilkostnaðar, og verði ekki nein


110 Nýjustu rannsóknir í dag benda til að svo hafi verið. Má í þessu sambandi benda á mjög vel rökstutta getgátu í þá átt í bókinni Stund Milli Stríða; bls. 53- 54 og bls. 116 og 118.: Þór Whitehead; Reykjavík, 1995. Niðurstöður mínar á þessari stundu mætti orða þannig að ég telji að tengsl Jóns Leifs við nazista hafi að minnsta kosti verið "kunningsskapur".
111 Jón Leifs: Greinargerð með tillögu um vantraustyfirlýsingu á stjórnum Tónskáldafélags Íslands og STEFs. Reykjavík 28. mars 1951.
112 Gerðabók Tónskáldafélags Íslands: 14. apríl 1951.
113 Ahugasemdir við Greinargerð Jóns Leifs með tilögu um vantraustsyfirlýsingu á stjórnir Tónskáldafélags Íslands og STEFs, Reykjavík, 8. apríl 1951.

82

afbökun né rýrnun á tóngæðum við þennan flutning. Þessari línu var ekki fyrir að fara milli Íslands og Evrópu. Ef af þessu átti að verða á vegum útvarpsins, varð að hljóðrita sérstaklega allt efni og senda í pósti og fylgdi því þá mikill kostnaður.

Í greinargerðinni koma fram ásakanir þess efnis að Jón Þórarinsson ráði því einn hverjar plötur séu teknar upp hjá útvarpinu og fari í herslu og dreifingu hjá Fálkanum. Staðreyndin var sú að Jón Þórarinsson hafði umsjón með upptökum þessum og þá fólst umsjónin aðallega í því að ekki væri verið að taka upp sama efnið með mismunandi flytjendum, og að tæknilega væri rétt staðið að málum. Hvað varðaði Fálkann þá var hann einkafyrirtæki og réðu markaðslögmál þess eingöngu um hverjar upptökur það keypti af útvarpinu til dreifingar og sölu fyrir almenning.

Af þessu má sjá að ekki er að undra þótt bæði Páll Ísólfsson og Jón Þórarinsson hafi að vissu leyti hafnað samstarfi við Jón Leifs. Andúð Jóns Leifs á Páli var ekki eingöngu vegna mismunandi skoðana á tónlistarmálum – hún var persónuleg. (114) Má undrun sæta í öll þessi ár hvílíkt langlundargeð Páll Ísólfsson sýndi Jóni Leifs, og áttu þeir síðar eftir þetta að starfa sameiginlega að ýmsum málum, þrátt fyrir að Jón Leifs héldi áfram allt til dauðadags, að senda Páli opinberlega persónuleg "skeyti". Fljótlega eftir þessa uppákomu í Tónskáldafélaginu skýrðust valdalínurnar. Jón Leifs varð þar nánast einráður til dauðadags Páll Ísólfsson og síðar Jón Þórarinsson sögðu sig úr félaginu og sinntu sínum málum á vegum Ríkisútvarpsins og í samvinnu við Tónlistarfélagið. Páll var gerður að heiðursforseta Tónskáldafélagsins um miðjan 6. áratuginn og tók hann þátt í ýmsum málum þess þó svo hann væri þar ekki í stjórn. Jón Þórarinsson óskaði inngöngu í Tónskáldafélagið á ný árið 1973, 20 árum eftir að hann hafði sagt sig úr félaginu.

Tónlistarnefnd Tónskáldafélagsins

Eitt af verkefnum Tónskáldafélagsins var að stofna tónlistarnefnd til að gera tillögur um flutning tónlistar í útvarpinu. Tónskáldafélagið skyldi hafa fulltrúa í henni og fór þess á leit að útvarpslögum yrði breytt til þess að því gæti orðið. Tónskáldafélag Íslands ritaði eftirfarandi bréf til formanns útvarpsráðs, Ólafs Jóhannessonar, varðandi þetta mál hinn 15. apríl 1951:

    Á aðalfundi Tónskáldafélags Íslands í gær voru undirritaðir kjörnir í nefnd til samvinnu við Ríkisútvarpið um tónlistarmál, enda voru þeir hr. Páll Ísólfsson og Jón Þórarinsson á fundinum og á


114 Í bókinni Líf mitt og gleði; Þuríður Pálsdóttir söngkona: Reykjavík 1986 bls. 175-176, má lesa eftirfarandi: "Jón Leifs þjáðist af afbrýðisemi út í pabba og notaði hvert tækifæri sem gafst til að gera lítið úr honum og starfi hans... Óvild Jóns hafði engin áhrif á viðhorf pabba til starfa hans, hvorki sem tónlistarmanns né stjórnanda Stefs. Hann virtist einhvern veginn ósnortinn af þessu og þess vegna er ekki rétt að tala um gagnkvæma óvild á milli þeirra... Ef ég hefði verið hér á Íslandi þessi þrjátíu ár en ekki í Þýskalandi, þá væri ég í þeim stöðum sem pabbi þinn er nú í, sagði hann með þunga. – Það getur vel verið Jón minn, svaraði ég, – en ef pabbi hefði verið í Þýskalandi þessi þrjátíu ár en ekk hér í fámenninu, þá væri hann löngu orðinn heimsfrægur tónlistarmaður. Þá þagnaði Jón".


83

    engan hátt mótfallnir slíkri nefndarkosningu. Með tilvísun til samninga milli Ríkisútvarpsins og STEFs, þar sem fram er tekið að Ríkisútvarpið mæti með velvilja tillögum Tónskáldafélagsins í þessum efnum, leyfum vér oss að fara þess á leit að þér boðið oss á næsta fund útvarpsráðs til að ræða samkomulag um undirstöðuatriði þessara mála. (115)

15. maí 1951 ritar svo Tónskáldafélagið eftirfarandi bréf til Útvarpsráðs:

    Undirrituð nefnd hefir meðtekið bréf skrifstofu Útvarpsráðs dagsett 10. þ.m. varðandi samþykkt á fundi Útvarpsráðs 18.f.m. Nefndin hefir átt fund með tónlistarráðunautum Ríkisútvarpsins þeim Páli Ísólfssyni og Jóni Þórarinssyni, og hafa þeir orðið nefndinni sammála um að leggja til að Útvarpsráð setji eftirfarandi reglur um flutning íslenzkrar tónlistar í útvarpinu, að svo miklu leyti sem tónverkin eru til á plötum eða böndum hjá útvarpinu:

    1. Hvert íslenskt verk fyrir hljómsveit eða hljómsveit og kór sé ekki flutt í útvarpinu sjaldnar en 2 sinnum á ár.
    2. Hvert íslenzkt verk stofutónlistar (hljóðfæralög, sónötur , dúó, tríó, kvartettar m.m.) ekki sjaldnar en 3 sinnum á ári
    3. Hvert íslenzkt verk fyrir kór án undirleiks ekki sjaldnar en 6 sinnum á ári
    4. Hvert íslenzkt einsöngslag ekki sjaldnar en að minnsta kosti 12 sinnum á ári
    5. Hvert íslenzkt danslag eða skemmtilag sé ekki flutt sjaldnar en 52 sinnum á ári
    6. Ókunn eða lítt kunn íslenzk tónverk séu á fyrsta og næstfyrsta ári endurtekin í útvarpinu ekki sjaldnar en 6 sinnum á ári með ekki lengra tímabili á milli en 10 dögum.
    7. Ef talið er orka tvímælis að plötur eða tónbönd verka séu nothæfar að því er snertir flutninginn eða upptökugæðin, þá skulu tónskáldin sjálf eða erfingjar þeirra skera úr þessu að því er snertir þeirra eigin verk.

Þessar tillögur urðu að sannkölluðu baráttumáli. Tveimur árum síðar, þ.e. 11. mars 1953, birtust þessar tillögur í dagblöðum. Jón Leifs boðaði fréttamenn útvarps og blaða á sinn fund daginn eftir. Frétt kom frá þeim fundi deginum eftir og segir í henni m.a.:

    Aðalfundur Tónskáldafélags Íslands haldinn sunnudaginn 1. marz 1953 lýsir megnri óánægju sinni yfir vanrækslu þeirri, sem Ríkisútvarpið hefir, þrátt fyrir margítrekuð tilmæli, sýnt um útbreiðslu og kynningu á íslenzkri tónlist. Tónskáldafélagið hefir á seinustu árum oftsinnis farið þess á leit:

    1. að kjörin yrði sérstök dagskrárnefnd tónlistar við útvarpið til að gæta hlutleysis og réttlætis í vali dagskrárliða tónlistar eins og 5. gr. laga um útvarpsrekstur og 7. grein reglugerðar um útvarpsrekstur mæla fyrir um og eins og tíðkast hvarvetna við útvarpsstöðvar annarra landa.
    2. Félagið hefir einnig gert aðrar endurbótatillögur, m.a. um sérstakar reglur fyrir flutning íslenzkrar tónverka í útvarpinu, sem þar eru á plötum, og endurtekningar þeirra.


115 Bréf Tónskáldafélags Íslands til formanns útvarpsráðs, dags. 15. apríl 1951.


84

    Öllum þessum tilmælum hefur verið hafnað. Flutningur íslenzkrar tónlistar í útvarpinu hefir verið mjög lítið aukinn. Ríkisútvarpið hefir ennfremur vanrækt stórlega að hagnýta sína ágætu aðstöðu til að koma á dagstkárskiptum við erlendar útvarpsstöðvar og kynna þannig Ísland, íslenzka framleiðslu, íslenzk sjónarmið og íslenzka menningu og tónlist á erlendum vettvangi... Mbl. hefur aflað sér upplýsinga um að tónlistarráðunautar útvarpsins voru ekki staddir á fundi þessum, enda mun a.m.k. dr. Páll Ísólfsson hafa sagt sig úr Tónskáldafélaginu á sl. ári.

Sama dag barst Tónskáldafélaginu úrsagnarbréf Jóns Þórarinssonar.

Svarið sem þeir Tónskáldamenn fengu frá Útvarpinu gæti alveg eins verið: Hvern fjandann eruð þið að skifta ykkur af þessu. Ykkur kemur þetta ekki nokkurn skapaðan hlut við!

Í viðtali formanns og varaformanns Tónskáldafélagsins við formanns útvarpsráðs kom fram að að hans áliti kæmi ekki til greina að útvarpsráð setti einhverjar reglur um flutning tónlistar í útvarpinu. Útvarpið hefði tvo menn, Pál Ísólfsson og Jón Þórarinsson sem störfuðu með fullu umboði ráðsins við að sjá um tónlistardagskrá útvarpsins. Með öðrum orðum: Þeir réðu þessu í einu og öllu sjálfir.

"Sjaldan veldur einn þá tveir deila", segir máltækið, og átt það við hér. Báðir höfðu eitthvað til síns máls. Valdabaráttan átti eftir að ríkja meðal þessara fylkinga næstu 20 árin, en tæpast verður hægt að losa útvarpsmenn algjörlega undan þeirri ásökun um að þeir hafi misnotað vald sitt á þessum árum. Staðreyndir tala þar sínu máli. Það er ekkert leyndarmál að þeir álitu mörg íslensk tónskáld skrifa svo lélega tónlist að hana bæri ekki að flytja í útvarpi. Þeir álitu einnig flutning margra hljóðfæraleikara og kóra svo lélegan að hann væri ekki samboðinn þjóðinni. Það er ekkert launungarmál að Jón Þórarinnsson hefur alla tíð metið lítils bæði heimspekilegar og tónlistarlegar forsendur tónverka Jóns Leifs. Það er heldur ekkert leyndarmál að Páll Ísólfsson mat lítils tónlistarstarf Björgvins Guðmundssonar á Akureyri. Má þar vísa til "opins bréfs til tónlistardeildar" eftir Björgvin Guðmundsson sem gefið var út á prenti árið 1951 og fjallað var um hér að framan. En hvorki þá fremur en nú ríkti friður um listirnar.

Norræna tónlistarhátíðin 1954

Við það að Ísland gerðist aðili að Bernarsambandinu haustið 1943 opnaðist leið fyrir Tónskáldafélag Íslands að gerast meðlimur í Norræna Tónskáldaráðinu eins og bent hefur verið á. Við það öðluðust Íslendingar rétt til að halda hinar Norrænu Tónlistarhátíðir. Var það viðburður í hverju Norðurlandanna annað hvert ár frá árinu 1947 (þó fjórða hvert ár frá 1888-1938, en féll þá niður í 9 ár vegna stríðsins. Íslendingar áttu í fyrsta sinni fulltrúa árið 1938).


34 Úr bréfasafni Sigfúsar Einarssonar í vörslu Þjóðskjalasafns.
35 Bréf til Páls Ísólfssonar sent frá Dresden 9. janúar 1929.


85

Það kom í hlut tónskáldafélagsins íslenska að halda hátíðina í fyrsta sinni hér á landi árið 1954. Undarlegt verður að teljast, ekki síst í ljósi baráttu Jóns Leifs fyrir kynningu á íslenskri tónlist, að ekki var flutt íslensk tónlist á hátíðinni. Mun nú útskýrt hvernig á því stóð.

Í bókun Tónskáldafélagsins á fundi þesssem send var útvarpi og blöðum segir eftirfarandi:

    Að gefnu tilefni leyfir stjórn Tónskáldafélags Íslands sér að vekja eftirtekt á því, að reglur Norræna Tónskáldaráðsins mæla svo fyrir, að á hátíðum þess verði aðeins flutt verk, er ekki hafa áður heyrst á hátíðarstaðnum. Ennfremur vill stjórn Tónskáldafélagsins að gefnu tilefni, vekja eftirtekt á því, að ef svo kynni að vilja til, að eitthvert íslenskt tónskáld eigi verk í smíðum, sem ekki geta verið fullsamin fyrir 1. des. nk. geri þau stjórn félagsins grein fyrir því og mun þá í hverju einstöku tilfelli tekið til athugunar hvort hægt er að framlengja frestinn. (116)

Ennfremur segir í bókun frá stjórnarfundi félagsins

    Skúli Halldórsson óskaði bókað eftirfarandi:
    Frá því að ákveðið var að halda norræna tónlistarhátíð í Reykjavík á árinu 1954, hefir það verið álit mitt að flytja bæri íslenska tónlist þar. Tjáði ég þegar í upphafi meðstjórnendum mínum í Tónskáldafélaginu þessa skoðun mína, og marg ítrekaði hana síðar. Tel ég með öllu óviðeigandi að íslensk tónlist skuli ekki flutt á hátíðinni og get ekki fallist á þær röksemdir, sem færðar eru fram fyrir því, að slíkt sé ekki framkvæmanlegt, eins og þær að ekki séu fyrir hendi verk...

    Helgi Pálsson óskar bókað:

    Það er rétt í framanritaðri bókun Skúla Halldórssonar, að hann vakti máls á því snemma á sumri s.l. árs, að æskilegt væri að ísl. tónleikar væru haldnir á komandi norrænu tónlistarhátíð, og var ég honum fyllilega sammála um það og ítrekaði það oft síðan. Hins vegar bárum við Skúli þetta atriði aldrei undir atkvæði í stjórn Tónskáldafélagsins, þó að ég marg sinni héldi því fram að hefja yrði straks á s.l. sumri undirbúning að þeim hljómleikum og auglýsa eftir verkum og æfa þau. Við þessu komu aldrei fram nein ákveðin mótmæli og ekki heldur var hafist handa um þennan undirbúning og málið látið dankast fram í nóv. s.l., að auglýst var eftir verkum, og ekki heldur hefur dómnefnd sú, sem kosin var til að kanna verkin enn fengið þau í hendur. Ég leit þá svo á að þar sem við ekki höfum krafist þess að þessi vilji okkar yrði framkvæmdur þá sé of seint að gera ágreiningsatriði um þetta og sé stjórn Tónskáldafélagsins öll samábyrg fyrir þessum óeðlilega drætti öllum og óviðeigandi með öllu nokkur Pílatusarþvottur á máli þessu. (117)

Í fundargerðinni segir:


116 Gerðabók Tónskáldafélags Íslands: 25. september 1953.
117 Gerðabók Tónskáldafélags Íslands: 9. maí 1954.


86

    Formaður vill í þessu sambandi taka fram, að hann hafi ætíð talið æskilegt að halda íslenska hljómleika á hátíðinni, en þó álitið, að höfuðáherslu yrði að leggja á að flytja verk hinna norðurlandanna með sama hætti og á öðrum hátíðum Tónskáldaráðsins og að íslensku verkin yrðu að víkja fyrir þeirri skyldu, ef ekki væru fyrir hendi nægilegt fé og nægilegir listrænir kraftar til framkvæmda, en hann telur að svo sé ekki.

Spyrja verður, hvað hafi vakað fyrir Jóni Leifs með þessu? Ef hann treysti hinum íslensku "listrænu kröftum" – og þar reikna ég með að hann eigi við hljófæraleikara og hljómsveit – til að flytja tónlist hinna Norðurlandanna, hvað var þá að vanbúnaði að leika verk íslensku tónskáldanna? Hann hafði barist fyrir því í stjórn Tónskáldafélagsins að fá setta á stofn tónlistarnefnd við Ríkisútvarpið til að vera til ráðleggingar um flutning á íslenskri tónlist þar. Hann hafði oft gagnrýnt tónlistarstjórann og tónlistarráðunautinn fyrir að leika ekki meira af íslenskri tónlist. Stjórn félagsins hafði sett fram óskalista um hve oft íslensk tónlist væri flutt í útvarpinu. Frá útvarpsins hálfu hafði verið gefið í skyn að upptökur væru lélegar og flutningurinn eftir því. Að manni læðist sá grunur hvort Jón Leifs hafi ekki hér verið að staðfesta það sem útvarpsmenn sögðu, það er að þessi barátta snerist ekki eingöngu um flutning á tónlist heldur einnig um völd.

Skiljanlegt er að gagnrýni kæmi fram á hátíðina hvað varðar hlut Íslands. Jón Þórarinson skrifaði m.a. í Helgafell:

    Ein átakanleg vonbrigði urðu þó í sambandi við þessa hátíð: þar var ekkert íslenskt tónverk flutt. Annars staðar mundi það sennilega vera gert að skilyrði fyrir opinberum styrkjum til slíkrar hátíðar, að innlend tónlist sæti að minnsta kosti við sama borð og tónlist annarra þátttökuþjóða. Mjög oft er hún jafnvel sett skör hærra, ef ekki beinlínis á hátíðinni sjálfri, þá með því að halda sérstaka tónleika á sama tíma og hátíðin fer fram. Hér hefði verið hið ágætasta tækifæri til að kynna íslenzka tónlist, og mun sízt vera vanþörf á því, eftir því sem stundum hefur verið látið í veðri vaka, m.a. af talsmönnum Tónskáldafélagsins. Það virðist því koma úr hörðustu átt, að einmitt Tónskáldafélagið skylda ráða því, að horfið var frá flutningi íslenzkrar tónlistar að þessu sinni, og bætir þar lítið úr skák, þótt félagið hafi boðað aðra hátíð á næsta ári, þar sem eingöngu verði flutt innlend verk. Tilgangur þessarar hátíðar átti að vera tvíþættur: annars vegar að kynna okkur tónlist frænda okkar á Norðurlöndum, hins vegar að lofa þeim að heyra okkar tónlist. Síðarnefnda atriðið er fyrir okkur ekki síður mikilvægt en hið fyrrnefnda, og það er ljóst af blaðaskrifum erlendu gestanna á hátíðinni, að það hefur valdið þeim miklum vonbrigðum að þeir skyldu enga íslenzka tónlist fá að heyra, þá loks að norræn tónlistarhátíð var haldin á Íslandi. (118)

Þarna glötuðu íslendingar góðu tækifæri til að kynna tónlist sína og gefa norrænum kollegum dálitla mynd af stöðunni eins og hún var á þeim tíma. Þeir hefðu ekki þurft að skammast sín fyrir vel valið íslenskt framlag, því þá þegar voru til mörg ágætis tónverk sem samin voru bæði í stíl fyrri alda og einnig nokkur verk sem á þeim tíma voru framsækin 20.


118 Helgafell: 3. hefti, 1954.


87

aldar tónverk. Þarna voru því gerð óþarfa mistök sem bera vott um skipulagsleysi og ósamheldni ráðandi tónlistarmanna á þessum áratug.

Tónlistarhátíð Tónskáldafélagsins 1957

Haustið 1955 stóð til af hálfu Tónskáldafélagsins að minnast 10 ára afmælis þess með því að halda tónlistarhátíð þar sem flytja skyldi eingöngu íslenska tónlist. En á síðustu stundu var þessari hátíð frestað vegna skorts á simfóníuhljómveit. Útvarpsstjóri, Vihljálmur Þ. Gíslason, hafði lagt niður simfoníuhljómveitina á vegum útvarpsins og því strandaði allt af sjálfu sér (sjá nánar kaflann um sinfóníuhljómsveitina). Hljómsveitin var síðan stofnuð að nýju 1956 og í apríl árið eftir varð draumurinn um íslenska tónlistarhátíð að veruleika. Dagana 27.-30. apríl 1957 var hátíðin haldin í Reykjavík í tilefni af 10 ára afmæli Tónskáldafélagsins (sem að vísu var árið 1955). En hvernig mátu ungu tónskáldin stöðu sína, hvernig var starf þeirra metið af "hinum eldri"? Jórunn Viðar tónskáld hugleiddi það í tímaritsgrein sama ár:

    Aldrei hefur verið reynt að koma með einhverja nýjung hér á sviði lista svo að hún hafi ekki mætt áhugaleysi. Menn hefja ævistarfið fullir lífsgleði og bjartýni, en um leið og þeir reyna að framkvæma eitthvað af áformum sínum er þeim greitt rothögg einhversstaðar frá. Þeir átta sig um stund - en sköpunarþráin verðu ekki bæld. Þeir reyna aftur - högg, - og aftur: högg högg. Samt eru rothöggin betri en sinnuleysið. Og svo er það þó vonin um samsæti á sjötugsafmælinu: Hver veit? Il faut continuer, sagði skáldið og hélt áfram að borða grautinn. (119)

Sundrungin og samstöðuleysið náði líklega hámarki sínu á þessum áratug – ekki aðeins í tónlistinni, heldur flestöllum öðrum listgreinum. Jórunn Viðar skrifar ennfremur:

    Árum saman hefur undirrituð setið á fundum Tónskáldafélagsins og Bandalags íslenzkra listamanna og hlustað á þann mannamun sem gerður er á "skapandi" og "túlkandi" listamönnum. Alltaf hefur þetta haft sömu áhrif á taugakerfið í mér. Hvers vegna? Vegna þess að:

    ef túlkandi list er ekki skapandi, þá er hún engin list
    ef skapandi list er ekki túlkandi, er hún engin list
    ef list er ekki sköpuð og túlkuð, er hún ekki list. (120)

Á hátíðinni var gefin ákveðin mynd af stöðu tónsköpunar í landinu, þó svo ýmislegt hafi vantað þar á. Viðhorfin til hins nýja og hins gamla birtist kannski helst í umfjöllun um tónleikana, annars vegar frá Jóni Þórarinssyni, sem teljast verður á þessum tíma til yngri kynslóðarinnar, og hins vegar umfjöllun Eggerts Stefánssonar söngvara, sem hóf sinn söngferil árið 1916, árið áður en Jón fæddist. Um verk Jóns Nordal, Sinfonietta Seriosa skrifaði Jón Þórarinsson: "Þetta er að dómi þess, er þessar línur ritar, athyglisverðasta verk


119 Birtingur: 3. hefti, 1957. Jórunn Viðar.
120 Sama.


88

hátíðarinnar, þaulhugsað, vel unnið, hugmyndaríkt og á margan hátt glæsileg tónsmíð...". Eggert Stefánsson skrifar hins vegar: "Senfonietta – lítil sinfónía eftir Jón Nordal. – Fannst mér hún ekki nógu lítil." Í mati þessara tveggja manna mætist nýi og gamli tíminn, og einmitt á þessum árum verða kynslóðaskipti og ekki síst stílskipti í íslenskri tónsköpun. Nýtt líf fæðist í íslenskt tónlistarlíf og tími nýrra viðhorfa, í takt við það sem var að gerast á hinum Norðurlöndunum.

Þetta var ekki fyrsta tónlistarhátíðin sem haldin var með flutningi á íslenskri tónlist. Þeirri fullyrðingu aðstandenda hátíðarinnar andmælir Eggert Stefánsson í grein sinni í dagblaðinu Vísi:

    Hann [formaður tónskáldafélagsins] hefur lagt áherzlu á að þetta sé fyrsta hljómleikahátíð íslenzkra tónskálda. Það rennur þá upp fyrir mér, að hér er ég í hópi manna, sem hafa falsað tónlistsögu Íslendinga. – Sögufölsun, hvað þá tónlistarinnar er svo algeng hér, að enginn nennir að elta ólar við slíkt. – Þetta var ekki fyrsta, þetta var líklega nær 100. hljómleikahátíð tónskálda. – Sveinbjörn Sveibjörnsson hafi hér hljómleikahátíðir sínar fyrir aldamót. – Sigfús Einarsson hafði einnig tónskáldahátíð sína, rétt eftir aldamót. – Sigvaldi Kaldalóns hafði mörg tónskáldakvöld – og hátíðir. – Eggert Stefánsson hafði 20-30 tónskáldakvöld, þar sem verk flestra tónskálda sem eru á tónskáldakvöldunum 27.-30. apríl í ár voru flutt. Og svona má lengi telja, líka úti á landi. – Svo þessi Bjartur í Sumarhúsum hefur slátarað of fljótt þessum fyrirennurum sínum." (123)


121 Nýtt Helgafell 2. hefti; 1957.
122 Vísir: 8. maí 1957.
123 Sama.

Vefarinn
Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Sett upp 1. des. 1998