Tónlist á Íslandi á 20. öld. Copyright © 1998: Bjarki Sveinbjörnsson 1. des. 1998

Tónlistarhátíðir
Listamannaþing
Listamannaþing 1942
Listamannaþing 1964
Lýðveldishátíðin 1944
Hátíðarkvæði
Lög við ljóðin
Kvartettar í Reykjavík
Strokkvartettinn Fjarkinn

Til bakaEfnisyfirlit Áfram

Síða 39 - 48

Tónlistarhátíðir

Auk þeirra hátíða sem hér verða nefndar, tóku íslensk tónskáld og tónlistarmenn þátt í mörgum innlendum og erlendum hátíðum um árabil, en þó aðallega Norrænum. Fyrst og fremst skal nefna þátttöku kórs undir stjórn Sigfúsar Einarssonar á mikla norræna kóramótinu í Kaupmannahöfn árið 1929 og einnig fyrstu þáttöku íslenskra tónskálda í hinni miklu norrænu tónlistarhátið sem haldin var í Kaupmannahöfn árið 1938, þáttöku Tónlistarfélagskórsins undir stjórn Urbancic í kóramóti árið 1944, og þátttöku íslenskra tónskálda og Tónlistarfélagskórsins í Norræna tónlistarmótinu 1948 o.s.frv. Ég mun hér á eftir nefna nokkrar hátíðir sem haldnar hafa verið á landi á fyrri hluta þessarar aldar, þar sem tónlistarflutningur skipaði veglegan sess.

Listamannaþing

Upphaf listamannaþinga á Íslandi má rekja til greinar eftir Pál Ísólfsson sem birtist í Morgunblaðinu 24. apríl 1942 undir fyrirsögninni Skyldan við listina. Hún er skrifuð vegna ýmissa hugleiðinga varðandi stöðu listamanna í landinu – óskin um "að sameinast". Rætur þeirra hugleiðinga er að finna í þeirri sundrung og því óréttlæti sem ýmsir listamenn urðu fyrir á þeim tíma. Páll hvatti í grein sinni til þess að Bandalag íslenskra listamanna hæfist handa og héldi listamannaþing. Þar skyldu listamenn taka til meðferðar ýmis mál sín "eða hvert það mál, sem varðaði menningu þjóðarinnar, bókmenntir og listir". Hann bendir á að listum sé hvorki sýndur nægilegur sómi hér á landi né að menn geri sér grein fyrir því hversu miklu hlutverki listir gegni í landinu. Að auki segir hann: "...nema hvað allir þykjast skilja, að fornritin og list Snorra Sturlusonar hafi sína þýðingu ...og gengir furðu, að jafn stórbrotin list skuli hafa dafnað í þessu landi, sem raun ber vitni."

Listamannaþing 1942

Fyrsta listamannaþingið hófst 22. nóvember 1942 með þátttöku allra helstu listamanna þjóðarinnar og stóð það yfir í vikutíma. Í framhaldi af því var gerð ályktun á vegum Bandalags íslenskra listamanna þess efnis að Bandalagið ályktaði að stofna til listamannaþings á komandi hausti og fæli stjórn sinni að skipa þá þegar fimm manna nefnd til undirbúings þessu máli. Alla daga þingsins voru flutt verk eftir íslenska höfunda, bæði tónlistarverk og bókmenntaverk og haldnar voru listsýningar. Á árunum 1945-50 voru haldin í Reykjavík þrjú listamannaþing á vegum Bandalags íslenskra listamanna.

Listamannaþing 1964

Í tilefni 20 ára afmælis lýðveldisins hélt Bandalag íslenskra listamanna listahátíð í Reykjavík árið 1964, þá fimmtu í röðinni. Þrátt fyrir að málinu hafi verið nokkuð reglulega hreyft í Bandalaginu allt frá fyrstu tíð, varð þetta sú næsta á eftir hátíðinni 1950, sem var haldin í


40

tilefni af opnun Þjóðleikhússins. Mikið var um dýrðir, ballettsýning, leiksýningar, óperetta, upplestur, og ekki síst var frumflutt íslensk ópera eftir Þorkel Sigurbjörnsson er hét Tónsmíð í þremur atriðum. Þó svo þetta sé ekki fyrsta óperan sem samin hefur verið á Íslandi, þá var þetta fyrsta óperan sem flutt var opinberlega. Hún er samin fyrir fjóra einsöngvara, kór og hljóðfæri. Einnig eru notuð hljóð leikin af segulbandi. Einsöngvarar voru Eygló Viktorsdóttir, Guðmundur Guðjónsson, Kristinn Hallsson og Hjálmar Kjartansson. Tónskáldið stjórnaði uppfærslunni og vakti hún mikla athygli, ekki síst fyrir að stigið var á ósnortið land í tónlistarsögu landsins.

Lýðveldishátíðin 1944

Að undatekinni Alþingishátíðinni 1930, sem margir minnast gjarnan vegna Alþinigishátíðarkantötu Páls Ísólfssonar, voru stórhátíðir ekki algengar á Íslandi fram að þeim tíma. Þó mætti kannski segja að hver sæmilega skipulagður konsert, sem ekki aðeins var karlakórssöngur, væri tónlistarhátíð í sjálfur sér. Líklega er þó hátíðin 1930 sú stærsta og viðamesta sem haldin var á fyrri hluta þessarar aldar hvað varðar undirbúining og skipulag. Árið 1944, er Ísland varð fullvalda, var haldin lýðveldishátíð á Þingvöllum. Svipað form var haft á þeirri hátíð og hátíðinni 1930 þó svo þessi hátíð væri miklu minni í sniðum.

Margt hafði gerst í samskiptum Íslands og Danmerkur síðustu árhundruð, eða allt frá árinu 1380, er Ísland komst undir Danakonung. Sumt þótti gott í þessum samskiptum en annað vægast sagt miður gott og beindist það meira og minna í þá átt að hindra þróun og þroska þjóðarinnar. Dæmi þess má m.a. finna í kirkjusöng á seinni hluta 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Í bókinni Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur (58) eru tilvitnantir í ýmis rit þar sem getið er um söngstíl Íslendinga fyrr á öldum og stendur þar m.a. á bls. 241:

    Það er óheyrilegt hvernig menn, sem annars hafa ekki afleit hljóð, afskræma þau með allskonar hnykkjum og rykkjum og dillandi viðhöfn - - -. Það er reglulegt hneyxli að heyra, hvernig saungurinn fer víða fram í kirkjunum. Það er einatt sálmalagið súngið rammskakt og skælt. Sumir eru á undan í vessinu, sumir á eptir, sumir streytast við að belja sem barkinn þolir og hafa lángar lotur, en þó tekur út yfir, þegar einhver, sem hyggst hafa meiri og merkilegri hljóð en hinir, rekur upp gól með glymjandi rödd, sem kallað er að fara í tvísaung. Vér viljum reyndar eigi neita, að tvísaungur, þegar rétt er súngið, getur verið allfallegur - -, en í kirkjum á hann eigi við. (59)

Skoða mætti þetta sem dæmi um hve litla rækt Danir lögðu við að viðhalda menningu í landinu og hinn langvarnadi kúgunardoði smátt og smátt "leysti upp" alla meðvitund um eigin tilverurétt, menningu og í það að leggja einhvern metnað í tónlistarflutninginn sem og annað er viðvíkur menningarlíf þjóðarinnar. En þeim til bóta skal tekið fram að Íslendingar


58 Íslenzkar gátur, skemtanir vikivakar og þulur: safnað hafa J. Árnason og Ó. Davíðsson; Kaupmannahöfn 1888-92.
59 Norðlingur I: bls. 235-236.


41

voru íhaldsamir á hefðir. Ég get ekki látið það vera hér að benda á hér að í fyrsta sinni sem leikinn er píanókonsert í Færeyjum, þá var það að frumkvæði Íslendinga – í kringum 1970. Sama má segja um að í fyrsta sinni sem sinfoníuhljómsveit leikur á Grænlandi, þá var það Sinfoníuhljómsveit Íslands sem stóð að því. Það er leitt til þess að hugsa að enn í dag rekst maður á þau viðhorf að hin norrænu lönd í vestri, Færeyjar, Ísland og Grænland séu álitin skandínavískar hjáleigur.

Á 19. öldinni vaknaði þjóðin til meðvitundar um sjálfstæði sitt og með ærinni fyrirhöfn gátu Íslendingar vakið ráðamenn í Danmörku af djúpum svefni hvað varðaði sjálfstæðan tilverurétt íslensku þjóðarinnar. Má þar til nefna endurreisn Alþingis árið 1843-45 og svo stjórnarskrána árið 1874. Í framhaldi af því kom svo heimastjórnin árið 1903-04. Þegar leið á 19. öldina og í byrjun 20. aldar var orðið ljóst að Íslendingar gerðu kröfu til sjálfstæðis þjóðarinnar, sem hún hafði í rauninni aldrei afsalað sér með löglegum hætti.

Árið 1918 var undirritaður samningur milli þjóðanna þess efnis, að fullveldi íslenska ríkisins var viðurkennt. Þessi samningur var gerður að sambandslögum sem gengu í gildi 1. desember 1918. Svo var búið um hnútana í þessum sambandslögum að eftir árið 1940 gátu þjóðþing hvors ríkis hvenær sem væri krafist endurskoðunar laganna. Hin endanlega þróun í átt að sjálfstæði Íslands átti sér stað með þessum sambandslögum árið 1918 og síðar með stjórnarskánni árið 1920, þar sem Ísland er í fyrsta skipti nefnt konungsríki.

Upphafið að endinum má svo rekja til innrásar Þjóðverja í Noreg og Danmörku 9. apríl árið 1940 og var með því sambandi Íslands við þau lönd endanlega lokið. 10. apríl samþykkti Alþingi þingsályktanir um töku hins æðasta valds og eru þær ályktanir svohljóðandi:

    1. Með því að ástand það, sem nú hefur skapazt, hefur gert konungi Íslands ókleift að fara með vald það, sem honum er fengið í stjórnarskránni, lýsir Alþingi yfir því, að það felur ráðuneyti Íslands að svo stöddu meðferð þessa valds.

    2. Vegna þess ástands, er nú hefur skapazt, getur Danmörk ekki rækt umboð til meðferðar utanríkismála Íslands samkvæmt 7. gr. dansk-íslenzkra sambandslaga né landhelgisgæzlu samkvæmt 8. gr. téðra laga, og lýsir Alþingi þess vegna yfir því, að Ísland tekur að svo stöddu meðferð mála þessara að öllu leyti í sínar hendur.

Í maí mánuði sama ár hertóku svo Bretar Ísland en þeir viðurkenndu í alla staði að íslensk stjórnvöld væru alls ráðandi hér á landi. Málið vatt smám saman upp á sig og ljóst varð að tilkynna varð þau viðhorf Íslendinga að losna undan endanlegum yfirráðum Dana eftir um 550 ár. Sem lið í þeim undirbúningi samþykkti Alþingi 17. maí árið 1941 eftirfarandi tillögur til þingsályktunar:


42

    1.
    Alþingi ályktar að lýsa yfir því:
    að það telur Ísland hafa öðlazt rétt til fullra sambandsslita við Danmörku, þar sem Ísland hefur þegar orðið að taka í sínar hendur meðferð allra sinna mála, enda hefur Danmörk ekki getað farið með þau mál, sem hún tók að sér að fara með í umboði Íslands með sambandssamningi Íslands og Danmerkur frá 1918; lagasáttmálanum við Danmörku, þótt ekki þyki að svo stöddu tímabært, vegna ríkjandi ástands, að ganga frá formlegum sambandsslitum og endanlegri stjórnarskipun ríksisin, enda verði því ekki frestað lengur en til styrjaldarloka.

    2.
    Alþingi ályktar að kjósa ríkisstjóra til eins árs í senn, sem fari með það vald, er ráðuneyti Íslands var falið með ályktun Alþingis hinn 10. apríl 1940, um æðsta vald í málefnum ríkisins.

    3.
    Alþingi ályktar að lýsa yfir þeim vilja sínum, að lýðveldi verði stofnað á Íslandi jafnskjótt og sambandinu við Danmörku verður formlega slitið.

Íslendingar voru smátt og smátt að styrkja stöðu sína á alþjóðavettvangi með því að fleiri þjóðir viðurkenndu þá sem sjálfstæða þjóð. Árið 1941 gerðu Íslendingar samkomulag við Bandaríki Norður- Ameríku þess efnis að þau tækju að sér að verja Ísland fyrir ágangi erlendra ríkja á meðan á styrjöldinni stæði. Í forsendum þessa samkomulags var m.a. tekið fram að:

    a.
    Bandaríkin skuldbinda sig ennfremur til að viðurkenna algert frelsi og fullveldi Íslands og beita öllum áhrifum sínum við þau ríki, er standa að friðarsamningunum, að loknum núverandi ófriði, til þess, að friðarsamningarnir viðurkenni einnig algert frelsi og fullveldi Íslands.

    b.
    Bandaríkin lofa að hlutast ekki til um stjórn Íslands, hvorki meðan herafli þeirra er í landinu né síðar.

Mikil vinna fór í hönd við að undirbúa sambandsslitin við Danmörku. Málið var rætt og kynnt á víðum vettvangi og öllum efa um réttmæti þessarar ákvörðunar eytt, bæði innan lands og utan. Tillagan um endanlega skilnað við Dani var samþykkt í heild sinni 25. febrúar 1944 og hljóðaði hún þannig:

    Þingsályktun
    um niðurfellingu dansk-íslenzka sambandslagasamningsins frá 1918.
    Alþingi ályktar að lýsa yfir því, að niður sé fallinn dansk-íslenzki sambandslagasamningurinn frá 1918.


43

    Ályktun þessa skal leggja undir atkvæði allra alþingiskjósenda til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg. Nái ályktunin samþykki, tekur hún gildi, er Alþingi hefur samþykkt hana að nýju að aflokinni þessari atkvæðagreiðslu.

Fyrst varð að fara fram atkvæðagreiðsla í landinu og var hún ákveðin 20.-23. maí. Niðurstöður þeirrar atkvæðagreiðslu urðu að 98,6% kjósenda á kjörskrá greiddu atkvæði (en til gamans má geta að aðeins 43,8% greiddu atkvæði um sambandsslitin 1918). Af þessum 98,6 % kjósenda greiddu 991/2% atkvæði með fullum skilnaði frá Danmörku, en aðeins 1/2% voru fylgjandi því að halda fast í konungssambandið. Má því segja að Lýðveldishátíðin 1944 hafi verið ein mesta sigurhátíð í sögu Íslands frá upphafi.

Hátíðarkvæði

Vegna þess að mörg fegurstu ljóð íslenskrar tungu hafa verið ort í tengslum við ákveðna atburði í sögu og frelsisbaráttu þjóðarinnar, þótti þjóðhátíðarnefnd sjálfsagt, að hvetja íslensk skáld til að semja "alþýðlegt og örvandi ljóð, er gæti orðið frelsissöngur Íslendinga". Alls bárust dómnefnd þjóðhátíðarnefndar kvæði frá 104 skáldum. Í henni sátu Alexander Jóhannesson, Símon Jóhann Ágústsson og Þorkell Jóhannesson. Dómnefndin lauk störfum og sendi hún þá frá sér eftirfarandi álit. (60)

    Til Þjóðhátíðarnefndar lýðveldisstofnunar á Íslandi:

    Við undirritaðir, er Þjóðhátíðarnefnd fól að dæma um ættjarðarkvæði þau, er berast kynnu, höfum við nú lokið störfum. Alls bárust 104 kvæði, og komu sum þeirra eftir tilsettan tíma, en oss fanst ekki ástæða til að hafna þeim af þeirri ástæðu, og höfum vér því dæmt um öll kvæðin. Það er álit vort, að ekkert eitt kvæði skari fram úr öllum öðrum, eða fullnægi allskostar þeim kröfum, sem Þjóðhátíðarnefnd virðist hafa sett. Hinsvegar hafa mörg falleg kvæði borizt, og er það samróma álit vort, að tvö þeirra beri af hinum, og leggjum vér því til, að verðlaununum, sem heitið var, sé skipt jafnt á milli þeirra. Kvæði þessi nefnast: "Söngvar helgaðir Þjóðhátíðardegi Íslands 17. júní 1944", merkt smára blað, og reyndist höfundur vera Unnur Benediksdóttir Bjarklind (Hulda) og "Íslendingaljóð 17. júní 1944", merkt I.D., og reyndist höfundur vera Jóhannes úr Kötlum.

    Virðingarfyllst,
    Reykjavík, 27. apríl 1944

    Alexander Jóhannesson
    Símon Jóh. Ágústsson
    Þorkell Jóhannesson


60 Bréf úr skjölum forsætisráðuneytis um Lýðveldishátíð. Þjóðskjalasafn.


44

Ekki urðu allir sammála þessu áliti dómnefndarinnar og komust sögusagnir á kreik, m.a. þess eðlis að vegna þess að kvæði Huldu var póstlagt norður í landi, þá hafi menn talið það vera eftir Davíð Stefánsson. Urðu þetta einungis munnmæli úr smiðju Gróu á Leiti. En þó voru aðrir sem sýndu viðbrögð og rituðu Landsnefndinni lýðveldiskosningabréf þar sem þeir lýstu áliti sínu á kvæði Huldu. Við lestur eins bréfs er ekki laust við að telja megi forsendur óánægjunnar dálítið langsóttar, en ég birti það hér til gamans:

    Landsnefnd lýðveldiskonsninga, Alþingishúsi, Reykjavík.

    Hæstvirta nefnd!
    Hugsæi (rómantík) sem enga stoð á í raunveruleikanum, (realism) má nú kallast dauðadæmd með flesum siðmenntuðum þjóðum. – þér hafið með vali þessa svonefnda "hátíðarkvæðis", (Huldu) misvirt land vort og þjóð og sanna skáldmennt á Íslandi. – Þér megið reiða yður á, að alþýða manna á landi hér hefur miklu meira vit á þessum málum en þér hyggið, gerið yður grein fyrir eða ætlist til, og mun ekki láta skenkja sér hvaða rómatízt guttl sem vera skal, án þess, að endurgjalda í þeirri mynt er sanngjörnust mun reynast. Eitthvert mesta skáld og hetja, sem nokkru sinni hefur uppi verið: Jesú frá Nazaret, sameinaði ávalt og í hvítvetna hugsæi og raunveruleika, enda fékk hann engin verðlaun hjá þjóðhátiðarnefnd sinnar tíðar í lifandi lífi, en mátti hinsvegar blæða. Ég geri ekki ráð fyrir að þér skiljið þetta, með því yður mun vera ókunnugt um hvað er sannur skáldskapur og kristinndómur. Kannski skoðið þér hvorrtveggja sem rómantízt atvinnuspursmál, vitandi þess eða óvitandi, að Jesús Kristur hefur, eftir líkamsdauða sinn, jafnan verði stærzti og mesti atvinnurekandi á jörðu hér, – að öllum ólöstuðum.

    Virðingarfyllst,
    Reykjavík, 7. júní, 1944

    Jochum M. Eggertson (Skuggi). (61)

Lög við ljóðin

Hin mikla sönghefð, sem fyrir var í landinu, kallaði að sjálfsögðu á að samið yrði lag við verðlaunakvæðin, því á þann hátt myndi kvæðið lifa á vörum þjóðarinnar um ókomin ár. Á fundi 2. maí var ákveðið að efna til samkeppni meðal tónskálda um lag við ljóðin. Frestur til að skila lagi var gefinn til 1. júní og bárust lög frá 27 höfundum. Þó voru miklu fleiri sem undirrituðu móttökuskjal fyrir ljóðunum, en í því stóð m.a. að móttakandi "hefi veitt viðtöku 2 hátíðarljóðum í þeim tilgangi að samja lag við þau, og lofa hér með, að sýna þau ekki óviðkomandi mönnum eða nota þau í öðrum tilgangi". Mjög misjafnt var hvenær í maímánuði menn tóku við þessum ljóðum, allt fram til 27. maí, en 45 undirritaðir móttökuseðlar (62) eru til frá þessum tíma fyrir kvæðunum. Þó skal taka fram að í örfráum tilfellum fékk sama tónskáld 2 eintök af kvæðunum.


61 Bréf úr skjölum forsætisráðuneytis um Lýðveldishátíð. Þjóðskjalasafn.
62 Seðlar úr skjalasafni forsætisráðuneytis. Þjóðskjalsafn.


45

Nokkrir sömdu lög við bæði ljóðin þó svo flestir hafi látið sér nægja að semja lag við eitt lag úr ljóðaflokki Huldi eða við ljóð Jóhannesar úr Kötlum. Í dómnefndinni sem þjóðhátíðarnefndin skipaði sátu Árni Kristjánsson, Páll Ísólfsson og Victor Urbancic. Skilaði hún eftirfarandi niðurstöðu. (63)

    Við undirritaðir, sem Þjóðhátíðarnefndin hefur kvatt til að dæma um lög við hátíðarljóðin, sem verðlaunuð voru, leggjum til, eftir að hafa athugað öll lögin, að lag það við kvæði Huldu "Hver á sér fegra föðurland", auðkennt "Högni"(64), sem við teljum skara fram úr, hljóti verðlaunin, sem heitið var. Við viljum ennfremur beina þeim óskum til nefndarinnar, að hún stuðli að því, að tvö lög önnur, annað við textann "Land míns föður", merkt "Ríp", en hitt við ljóðið "Syng frjálsa land", aukennt [H], verði birt.

    Reykjavík, 3. júní 1944
    Árni Kristjánsson
    Páll Ísólfsson
    Victor Urbantschitsch

Í ljós kom að verðlaunalagið var eftir Emil Thoroddsen tónskáld. Hin lögin voru eftir Árna Björnsson tónskáld sem samdi lög við Syng frjálsa land, 4. kaflann úr hátíðarljóðum Huldu, en hitt lagið var eftir Þórarin Guðmundsson fiðluleikara sem samdi við hátíðarljóð Jóhannesar úr Kötlum, Land míns föður, landið mitt. Tvö síðastnefndu lögin voru birt í viðurkenningarskyni. Öll þessi lög voru prentuð í bókinni um Lýðveldishátíðina, og hafa einkum tvö þeirra, lag Emils og Þórarins, orðið sígild sem kórsöngslög á Íslandi.

Verðlaunin fyrir vinningslagið voru þau sömu og fyrir ljóðið, þ.e. 5000 krónur. Fram kom dálítil óánægja með það að ljóðskáldin urðu að deila með sér verðlaununum, en eitt tónskáld fékk öll fyrstu verðlaunin fyrir lagið. Einnig þótti Jóhannesi úr Kötlum ósanngjarnt að jafvægishlutföllin milli kvæðanna í vali tónskáldsins væru ekki jöfn þar sem ljóðabálkur Huldu var 4 kaflar en hans aðeins einn. Þar sem tvö ljóðskáld urðu að deila með sér 1. verðlaunum, þá var hætt við að það ljóð sem verðlaunalagið yrði samið við fengi meira vægi. Hann bendir m.a. í bréfi til hátíðarnefndar á eftirfarandi atriði:

    2. Söngvar helgaðir Þjóðhátíðardegi Íslands 17. júní 1944, eftir Huldu skáldkonu, munu vera fjórir kaflar, - kvæði mitt hinsvegar aðeins einn. Þegar tónskáldum var gefið frjálst val um hvern einstakan kafla sem texta, urðu líkindahlutföllin milli þessara kvæða því 4:1, að öðru jöfnu. Þar að auki getur slíkt val helgast af ástæðum, sem engin ástæða væri til að sætta sig við, ef kunnar væru.


63 Bréf til Þjóðhátíðarnefndar lýðveldisstofnunar á Íslandi. Þjóðskjalasafn.
64 Leiðréttist hér með sú fullyrðing í bókinni Lýðveldishátiðin 1944; bls. 75 að verðlaunalagið hafi verið merkt "F". Leiftur, Reykjavík 1945.


46

    3. Jafnstaða kvæðanna að lokinni tónsmíðakeppni gat, að svo komnu máli, ekki varðveitzt nema með því eina móti - sem þó raunar stríðir í móti sjálfum tilaganginum - að einnig tvær tónsmíðar, sín við hvort kvæði, hefði hlotið verðlaun. (65)
    4. Í rauninni var tónskáldi, er full verðlaun hlaut, veitt úrslistadómsvald um tilætlaða hæfni viðkomandi kvæða, og virðist því sá texti, sem útundan varð og aldrei var miðaður við annað en tónbúning, þar með úr leik af sjálfu sér.
    5. Með tilliti til ævinlegrar hefðar íslenzkrar ljóðlistar, tel ég vart sæmandi, að ljóði, er tónskáld velur undir slíkum kringumstæðum, sé ekki gert jafn hátt undir höfði og lagi því, sem við það er samið, og þá einnig af því er snerti upphæð verðlaunafjár.

    Að öllu þessu athuguðu vona ég, að háttvirt hátíðarnefnd líti ekki á það sem ástæðulaust og óviðeigandi frumhlaup, þótt ég nú leyfi mér að leggja til og óska þess eindregið, að kvæði mitt, Íslendingaljóð 17. júní 1944, verði algerlega dregið til baka í sambandi við væntanleg hátíðahöld í tilefni af lýðveldisstofnuninni. Mun ég þá að sjálfsgöðu jafnframt falla frá innheimtu á mínum hluta verðlauna og telja mér bæði ljúfa skyldu og heiður að leggja þannig fram, að hálfu við ríkissjóð, þá fjárhæð, er mér ein sýnist boðleg höfundi kvæðis, er valið hefur verið til tónflutnings við svo einstakt og gleðilegt tækifæri.

    Virðingarfyllst,

    Jóhannes úr Kötlum.

Þessar ábendingar skáldsins áttu fullan rétt á sér því að með því vali sem tónskáldin höfðu um kvæði, þá gátu þau í rauninni valið úr 4 ljóðum eftir Huldu, en einungis einu eftir Jóhannes. Benda má á að á söngskrá Þjóðhátíðarkórsins, sem myndaður var úr 5 karlakórum, Karlakór Fóstbræðra, Karlakór Reykjavíkur, Karlakórnum Kátir Félagar, Karlakór iðnaðarmanna og Karlakórnum Þresti, voru lög við kvæði beggja verðlaunahafa kvæðanna á söngskránni, lög Emils og Þórarins.

Tónlistarflutningurinn mótaðist fyrst og fremst af karlakórssöng og lúðrablæstri – spegilmynd hins hefðbundna tónlistarflutnings á Íslandi undanfarna öld. Á þessari hátíð mun einnig hinn eiginlegi Þjóðkór, sem oft var nefndur í tengslum við söngþátt þann er Páll Ísólfsson hafið í útvarpinu, hafa sungið opinberlega. Öll Fagrabrekka á Þingvöllum var þakin fólki og tók það undir í söng undir stjórn Páls. Það var þó engin strengjasveit sem lék með á þessari hátíð eins og árið 1930, heldur Lúðrasveit Reykjavíkur. Þó mun sérstök strengjasveit hafa verið ráðin til að leika í veislu í Hótel Valhöll. Einnig tóku kirkjukórar Reykjavíkur þátt í hátíðarhöldunum.


65 Bréf til hátíðarnefndar lýðveldisstofnunar. Þjóðskjalasafn.


47

Kvartettar í Reykjavík

Í Reykjavík störfuðu m.a. tveir kvartettar á árunum 1940-50 og héldu þeir nákvæmar æfingabækur, ritaðar af Þorvaldi Steingrímssyni fiðluleikara, en hann var meðlimur í þeim báðum. Í öðrum kvartettinum, sem ekki er nafngreindur en var stofnaður 23. febrúar 1944 voru Björn Ólafsson á 1. fiðlu, Þorvaldur Steingrímsson 2. fiðlu, Sveinn Ólafsson violu og Heinz Edelstein á selló. Kölluðu kvartettmenn þessa æfingabók Kvartett-skinnu. Kvartettinn æfði 90 sinnum fyrsta árið samkvæmt æfingabókinni en á ársafmæli kvartettsins, 23. febrúar 1945, og þar með á 91. æfingunni stendur eftirfarandi athugasemd:

    Kvartettinn árs gamall. Spilað á Fjólugötu 7 hjá frú Borghildi, í fyrzta sinn fyrir áheyrendur. Beethoven: Kvartett op. 59 nr. 1. Shostakowitch: Kvartett op. 49.

Það er ljóst á æfingabókinni að kvartettinn var eins konar "kammer" kvartett, og virkaði þannig í Reykjavík, í anda stofutónlistar fyrri aldar í Evrópu. 100. æfingin, í byrjun mars 1945, var kölluð "Kvartettkvöld á Laufásveg hjá frú Hönnu og Stefáni" og voru þar einnig leiknir áðurnefndir kvartettar. Þessi kvöld fengu ýmsa titla í æfingabókinni svo sem 111. æfingin sem hét "Kvartett- stund á Freyjugötu hjá prof. Nordal og frú". Einnig er að finna Kvartett- konzert, sem haldinn var í Trípólí-bíó. Þá lék kvartettinn í Útvarpið. Fyrstu opinberu tónleikar þessa kvartetts voru á Listamannaþingi þar sem leikinn var kvartett eftir Helga Pálsson.

Um mitt árið 1945 fór hópurinn að reyna fyrir sér með að leika kvintetta og fékk sér til liðsinnis þá Vilhjálm Guðjónsson, Einar Waage og Victor Urbancic. Einnig lék Árni Kristjánsson með þeim, en fyrsti kvintettkonsertinn var haldinn í janúar 1946. Kvartettinn hélt áfram að halda tónleika í heimahúsum og voru um 20 gestir á 200. kvartettkvöldinu á "Fjólugötu 7 hjá frú Borghildi" og skrifuðu tónleikagestir nafn sitt í Kvartett-skinnu. Má til gamans geta þeirra hér: Borghildur Björnsson, Ólöf Nordal, Katrín Ólafsdóttir Mixa, Sigurður Nordal, Árni Kristjánsson, Jón Nordal, Helga Egilson, Ingirbjörg Sveinsdóttir, Björg Ellingsen, Íris Gröndal, Björn Jónsson, Ragnar Jónsson, Kobrún Jónasdóttir, Hanna Sigurbjörnsdóttir, Charlotte Edelstein, Ingibjörg Halldórsdóttir, Victor Urbantschitsch, Rögnvaldur Sigurjónsson, Elisabet Thors og Haukur Gröndal. Þarna var saman komin, auk hljóðfæraleikaranna, stór hópur úr kjarna þess fólks, sem átti geysistóran þátt í því að þróa og þroska tónlistarlíf á Íslandi á öldinni.

Lýkur þessari Kvartett-skinnu á 217. æfingunni með þessum orðum:

    Boð inni hjá Halldór Kiljan Laxnes. Spilað: Horn-kvintett eftir Mozart með Lanzky Otto og Þorv. með vioulstemmda fiðlu. Mozart quartett D-dúr.


48

Strokkvartettinn Fjarkinn

Hinn kvartettinn sem hér um ræðir hét Strokkvartettinn Fjarkinn, stofnaður í maí 1948 af Þorvaldi Steingrímssyni 1. fiðlu, Óskari I. Cortes 2. fiðlu, Sveini Ólafssyni víólu og Jóhannesi Eggertssyni á celló. Kvartettinn lék m.a. inn á nokkrar plötur, samvkæmt Fjarka - bók. Kom hann fram 10 sinnum opinberlega á árinu 1948 og hélt m.a. konsert í Háskóla Íslands, með Rögnvaldi Sigurjónssyni í maí 1949. Fjallað var um þessa tónleika í dagblöðunum og lesa má lesa eftirfarandi í Vísi:

    Samleikurinn var mjög góður, og strengjakvartettinn vakti athygli fyrir samþjálfaðan leik. Hann hefir leikið í útvarpið og er sennilega nýstofnaður, þótt þess gæti furðu lítið, enda eru strengleikararnir allir mjög vel þjálfaðir. Er þess að vænta að þessum efnilega kvartett verði langra lífdaga auðið, og getur hann orðið styrkur þáttur í íslensku músíklífi. (66)

Kvartettinn hélt áfram að æfa fram í febrúar 1950, en um það leyti var Sinfóníuhljómsveitin stofnuð. Ekki eru skráðar æfingar í bókina aftur fyrr en 29. ágúst 1951 og voru þá aðeins haldnar tvær æfingar. Næst eru skráðar 11 æfingar árið 1956 og virðist þá þessu kvartettspili lokið af hálfu "Fjarkanna".


66 Vísir: 10. maí 1949.

Vefarinn
Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Sett upp 1. des. 1998