Tónlist á Íslandi á 20. öld. Copyright © 1998: Bjarki Sveinbjörnsson 1. des. 1998

Helgi Pétursson
Trans I - Trans II - Niðhöggur
Bak við Maríuglerið
Maximus Fidus
Samningaumleitanir
Partita II
Þórólfur Eiríksson
Án titils
Listen to the Geigerchicken
Mar
Í Geislasnöru
Karólína Eiríksdóttir
Scottish Dompe
Adagio
Finnur Torfi Stefánsson
Tilbrigði um þrástef og notuna A1

Til bakaEfnisyfirlit Áfram

Síða 331 - 338

Helgi Pétursson (1962-)

Helgi Pétursson lauk tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1985 og lokaprófi frá tónfræðadeild sama skóla árið 1987. Í framhaldi af því fór hann í nám við University of Reading í Englandi og lauk þaðan MA prófi í örtölvutækni í tónlistarkennslu. Helgi hefur auk þess lokið prófi í orgelleik og einnig sótti hann um skeið tíma í raftónlist hjá Þorsteini Haukssyni í tónfræðadeildinni.

Fyrstu kynni Helga af tölvum voru árið 1985 er hann eignaðist svokallaða CX-5 tónlistartölvu af Yamaha gerð. Þessi tónlistartölva bjó m.a. yfir svokallaðri BASIC túlkun sem gaf möguleika á forritun. Fljótlega vakti Helgi á sér athygli með notkun tölvu við tónlistarkennslu. Hann útbjó á tölvuna tónheyrnarforrit fyrir nemendur til að þjálfa sig í tónheyrn. Fljótlega komu í ljós takmörk þessarar litlu tölvu og hófst hann því handa sumarið 1987 að skrifa forritið að nýju, að þessu sinni í Turbo Pascal þýðanda fyrir PC tölvur. Hafði hann í hyggju að smíða einn allsherjar hugbúnaðarpakka til notkunar við tónlistarkennslu. Tónheyrnarforritið fékk heitið TÓNVÍS, en náði þó aldrei neinni útbreiðslu. (425) En tilraunir Helga á þessu sviði voru þær fyrstu sem gerðar voru á Íslandi til notkunar tölvu við tónlistarkennslu.

Fyrstu rafverk Helga voru flutt á nemendatónleikum Tónlistarskólans í Reykjavík vorið 1981 og báru þau heitin Elektrónískt tríó og Draugadans. Bæði þessi verk eru hrein segulbandsverk, stutt og einföld verk þar sem höfundur vinnur með bergmál og mismunandi hratt leikin hljóð. Auk þessara verka urðu til nokkur verk fyrir hefðbundin hljóðfæri: Passía fyrir 10 málmblásara, Þrjár grafískar bagatellur fyrir sjálfvalin hljóðfæri, Gyrðisljóð fyrir sópran og slagverk, flautuverk -Fjúk, fiðluverkið Við brúna og hljómsveitarverkin Prelúdía og Kórall.

Trans I (Segulbandsverk - 1985 - 5:50)
Trans II (Segulbandsverk - 1985 - 6:50)
Níðhöggur (Segulbandsverk - 1986)

Eina elektróníska verk Helga sem hann samdi í tónfræðideildinni var segulbandsverk sem hann kallar Níðhöggur. Er það samið á Casio CZ-5000 hljóðgerfil og var frumflutt á tónleikum Tónlistarskólans í Reykjavík árið 1986. Helgi hafði stórar hugmyndir um smíði þessa verks – elektrónískt tónaljóð um Völuspá (en titillinn er tekinn þaðan). Til voru fyrir verkin Trans I og Trans II sem eru segulbandsverk þar sem hljóðlindir eru hljóðgerfill og hljóðrituð hljóð. Hefur höfundur hugsað sér að þau skapi ramma um verkið Níðhöggur á þann hátt að Trans I sé inngangur verksins og Trans II lokaþáttur verksins. Ennþá eru nokkrir milliþættir ósamdir. Frekari þróun verksins er "í ró".


425 Má þar m.a.kenna um tölvuskorti í Tónlistarskólunum.

332

Bak við Maríuglerið (1991)

Bak við Maríuglerið er heiti á kvæði eftir Gyrði Elíasson skáld. Í þessu verki vinnur höfundur með samspil "lifandi" og "gagnvirkrar" tækni. Ljóðið er lesið, en tónlistin kemur frá tölvunni. Upplesarinn gegnir tvíþættu hlutverki, er þátttakandi í sjálfur verkinu, en gegnir á sama tíma hlutverki stjórnanda/einleikara þegar hann les kvæðið inn í hljóðnema sem tengdur er tölvunni og er um leið A/D umbreytir. (426) Þeim stafrænu upplýsingum sem koma inn í tölvuna, frá upplesaranum hefur höfundur gefið ákveðinn farveg í tölvunni með forritun. (427) Á þann hátt getur upplesarinn stjórnað ýmsum áður innsettum sekvensum eða þá að tölvan fær "frjálsar hendur" til að spinna efnið. Vegna þessa verður verkið aldrei eins í flutningi.

Maximum Fidus (1991)

Titill verksins er að hluta til sóttur í þá tækni sem höfundur vann með í þessu verki, þ.e. MAX forritunarpakkann. Um er að ræða tilraunir höfundar til tölvustýrðrar tónsköpunar, algrímskra tónsmíða. Helgi byggði upp vinnuumhverfi í forritinu þar sem hann gat haft áhrif á þætti eins og hraða, tónsvið, styrk og blæ, en að öðru leyti er verkið sjálfvirkt ferli. Hljóðin eru unnin á Roland CM-32-L hljóðgerfil. Síðari hluti verkheitisins vísar til forrits sem Helgi hefur búið til og er það hugsað til algrímskrar úrvinnslu efnisins.

Samningaumleitanir (1993)

Þetta verk er samið fyrir klarínettutónlist sem leikin er af segulbandi. Segulbandshlutinn er tölvuunnin í forritinu Fidus. Í þessu verki varpar höfundur tónsmíðaefninu á milli flytjenda, þ.e. klarínettsins og tölvunnar. Nýtir það í samspili, sem andstæðu og notar tölvuna til undirleiks í hluta verksins þar sem efniviður klarínettsins, sem er þó nákvæmlega útskrifaður, minnir á spuna – frjálslega impróvísasjón.

Partita II (1994)

Þetta verk er eins konar úrvinnsluverk í fimm stuttum þáttum og allir þættirnir byggja á sama hljóðefnivið. Verkið er númer tvö í röð verka sem höfundur hefur í hyggju að semja. Er hér um að ræða algrímska úrvinnslu stefja eftir forskrift tölvuforritsins Fidus sem höfundur hefur samið.


426 Kallað MIDImic.
426 HMSL (Hierarchical Music Specification Language).

333 (Síða 334 er auð)

Karólína EiríksdóttirÞórólfur Eiríksson (1959-)

Þórólfur Eiríksson er ekki einn af mest áberandi tónskáldum á Íslandi en hann er samt einn þeirra sem samið hafa elektróníska tónlist.

Þórólfur var músíkalskt leitandi maður á unglingsárum sínum. Strax 11 ára hóf hann að læra á píanó og á unglingsárum lærði hann að leika á nokkur mismunandi hljóðfæri – gítar, flautu og fiðlu. Það sem tók mest af tíma hans á menntaskólaárunum voru ýmsar leiktilraunir með segulband og elektrónísk tæki. Þessar tilraunir notaði hann m.a. í ýmsum popphljómsveitum sem hann var meðlimur í.

Árið 1984 fór Þórólfur til Hollands – til Mekka íslenskra elektrónískra tónskálda – borgarinnar Utrecht, til að læra elektrónískar tónsmíðar. Frá fjögurra ára námstíma þar eru til fjögur verk: (428)

Án titils (Segulbandsverk - 1985 - 7:50)
Listen to the Geigerchicken (Segulbandsverk - 1986 - 6:40)
Mar (Klarínett og segulband - 1987 - 9:15)
Í Geislasnöru (Segulbandsverk - 1988 - 7:10)

Verkin Listen to... og Mar eru tengd. Þessi verk eru hugsuð sem hluti trílógíu sem tónskáldið vann við að semja í kringum temað kjarnorkumengun í samvinnu við heimspekinginn Gunnar Hersvein. Þessi samvinna er í biðstöðu nú um stundir.

Öll fjögur verkin eru analóg verk með bæði konkrét og elektrónískt mynduðum hljóðum. Eitt verkanna, Mar, var gefið út á geisladiski með klarínettuleikaranum Guðna Franzsyni. Í því verki eru notuð hvalahljóð. Þórólfur Eiríksson hefur ekki samið elektrónísk verk á síðari árum.


428 Þá er til eitt verk frá þessum tíma sem heitir Herm þú mér Haraldur þar sem höfundur notar m.a. rödd söngkonunnar Ingveldar Ólafsdóttur. Höfundur sendi þetta verk í keppni á Íslandi árið 1985 – þar að auki sjálft frumbandið. Hann fékk það aldrei aftur og á ekkert afrit af því.

335

Karólína EiríksdóttirKarólína Eiríksdóttir (1951-)

Karólína Eiríksdóttir er úr hinum skapandi og drífandi hópi sem var áberandi í Tónlistarskólanum í Reykjavík upp úr 1970. Hún lauk píanókennaraprófi frá skólanum árið 1974 og hélt til Bandaríkjanna í framhaldsnám – til Michigan háskólans í Ann Arbor. Hún lauk M.Mus. prófi. (429) í tónlistarsögu og tónvísindum árið 1976 og M.Mus. prófi í tónsmíðum árið 1978. Kennari hennar í tónsmíðum á Íslandi var Þorkell Sigurbjörnsson, en í Bandaríkjunum George B. Wilson og William Albright.

Samhliða náminu sótti Karólína tíma í elektrónískri tónlist í stúdíóinu við háskólann sem var á þeim tíma hefðbundið stúdíó með analóg tækjum. Bakgrunn hafði Karólína frá Íslandi í áðurnefndum föndurtímum hjá Þorkeli Sigurbjörnssyni í Tónlistarskólanum í Reykjavík þar sem nemendur fengu grunnþekkingu í meðferð segulbandstækis. Karólína samdi nokkur verk í skólanum í Bandaríkjunum sem enn hafa ekki verið flutt á Íslandi.

Það sama á við um Karólínu og fleiri af hennar kynslóð að aðstöðuleysið á Íslandi að loknu námi erlendis kom í veg fyrir frekari elektróníska tónsköpun. Þetta á við um Hjálmar H. Ragnarsson og Snorra Sigfús Birgisson – að ekki sé minnst á kynslóðina á undan þeim.

    Þegar ég kom heim [1979] þá var ekkert stúdíó hérna. Mér fannst alltaf að annaðhvort væri maður í þessu eða ekki – ekkert dútl. Ég saltaði þennan möguleika. Mér fannst þessi heimur mjög heillandi á þessum tíma og mér þótti óþægilegt að vita af þessari tækni í kringum mig og vita ekkert af því hvað var að gerast. (430)

Karólína hefur í mörg ár getið sér gott orð sem tónskáld bæði á Íslandi og víða um lönd. Það var því skemmtileg nýbreytni frá hennar hálfu þegar hún samdi fyrsta tölvuverkið sitt í Skotlandi.

Scottish Dompe (Tölvuverk - 1992 - 11:00)

Vegna menningarsamstarfs Íslands og Skotlands fóru Karólína og Þorsteinn Hauksson sem gestir til tónsmíða í stúdíóinu við Háskólann í Glasgow haustið 1992. Þar samdi hún sitt fyrsta verk á tölvu sem fékk heitið Scottish Dompe. (431) Í stúdíóinu í Glasgow voru NeXT


429 Master of Music.
430 Einkaviðtal við Karólínu Eiríksdóttur 16.10.1994.
431 Dompe er heitið á gömlum skoskum dansi frá endurreisnartímanum og er titillinn tekinn þaðan. Engin áhrif frá þessum dansi er að finna í verkinu. Það var aðeins titillinn sem heillaði höfundinn.

336

tölvur og notaði Karólína þær til að búa til ýmis hljóð sem hún svo raðaði saman í ákveðna heild, ákveðna hljóðmynd í tíma frekar en ákveðið form. Verkið var frumflutt í Skotlandi fljótlega eftir að það var samið og síðan flutt á Íslandi á Myrkum músíkdögum í febrúar 1993.

Adagio (tölvuverk - 1994 - 10:00)

Verkið Adagio er samið í EMS stúdíóinu í Stokkhólmi árið 1994 og var frumflutt á Íslandi á ErkiTíðar hátíðinni í Reykjavík haustið 1994. Verkið er pöntunarverk fyrir Skindskatteberg hátíðina í Svíþjóð sem haldin er í júní á hverju ári og var frumflutt þar. Verkið er samið á Macintosh tölvu og er alls óskylt fyrra verkinu bæði í hljóðefnum og umhverfi. Má segja að nafnið á verkinu hæfi því vel því um er að ræða "þokukenndan" hljóðheim sem líður rólega eins og þoka í fjallshlíð en er brotinn upp með dálítilli "rigningu" um miðbikið. Þessi hljóðheimur er mjög abstrakt og óáþreifanlegur, en samt mjög heill og sannfærandi.

Karólína er eitt þeirra íslensku tónskálda sem bíða eftir að sköpuð verði aðstaða til elektrónískra tónsmíða á Íslandi.

337

Finnur Torfi Stefánsson (1947-)

Haustið 1994 var haldin í Reykjavík tónlistarhátíð undir heitinu ErkiTíð. Á hátíðinni, sem stóð í nokkra daga, var reynt að gefa yfirlit yfir elektróníska tónlist á Íslandi frá upphafi og var Magnús Blöndal Jóhannsson heiðurstónskáld hátíðarinnar. Flutt voru gömul verk og ný verk sem sérstaklega voru samin í tilefni hátíðarinnar.

Eitt af markmiðum hátíðarinnar var að fá tónskáld sem enn ekki hafði samið elektróníska tónlist til að semja verk og varð tónskáldið Finnur Torfi Stefánsson fyrir valinu.

Finnur Torfi lauk tónsmíðanámi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1983 og fékk þar dálitla innsýn í grunnatriði elektrónískrar tónsköpunar undir handleiðslu Snorra Sigfúsar Birgissonar. Sem nemandi samdi hann eitt segulbandsverk sem fékk heitið Jarðfræði Íslands. Hugmyndin að baki verkinu var sú að ferðast í gegnum bergtegundir Íslands frá Vestfjörðum til Austfjarða. Ímyndaði hann sér að hver bergtegund hefði sinn lit og sinn þéttleika og reyndi síðan að búa til hljóð sem líktust því.

Finnur Torfi samdi ekki fleiri slík verk heldur eru öll verk hans fyrir hefðbundin hljóðfæri og raddir. Tölvan hefur þó ekki verið langt undan í starfi hans sem tónskálds því hún hefur í mörg ár verið hjálpartæki hans í nótnaritun. Að loknu námi í Tónlistarskólanum hélt hann í framhaldsnám til Bandaríkjanna og lauk þaðan M.A. prófi í tónsmíðum frá UCLA háskólanum í Los Angeles.

Það var svo haustið 1994 að tilstuðlan ErkiTíðar hátíðarinnar að hann féllst á að semja nýtt elektrónískt tónverk og fékk það titilinn Tilbrigði um þrástef og nótuna A1..

Tilbrigði um þrástef og nótuna A1.

Með dálítilli tæknilegri aðstoð Þorsteins Haukssonar samdi Finnur Torfi Stefánsson þetta verk sem síðan var flutt á tónlistarhátíðinni. Í verkinu er unnið út frá tveimur aðalhugmyndum, þrástefi og nótunni A-440.

    Verkið sjálft eru tilbrigði, ég tók einn tón, nótuna A-440, og breytti honum með því að gera hana svona mismunandi falska. Ég var með 440Hz, 430Hz, 420Hz, og breikkaði þetta svo alveg upp í hreina þríund. Verkið er svona smátt og smátt í gegn að fikra sig út frá A-inu í litlum míkrótónum og svo heyrir maður í lokin að komið er upp í þríund. (432)

Verkið brýtur sig úr frá nótunni A í báðar áttir og leitar svo í gegnum bogaform heim aftur. Einnig vinnur höfundur með þrástef.


432 Einkaviðtal við Finn Torfa Stefánsson, 24.10.1994.

338

    Svo er ég með eitt þrástef sem ég nota í mismunandi tempóum, mismunandi lengdargildum sem eru hljóðfallslegur grundvöllur undir verkið. Púlsinn er alltaf sá sami, en innan púlsins er þrástefið mismunandi langt, í mismunandi löngum gildum, – fjórðupartsnótur – síðan tríóluseríaðar, en þó alltaf sami grunnpúls. (433)

Með þennan útgangspunkt lék höfundur sér svo með hin ýmsu hljóð hljóðgerfilsins og valdi þau eins og liti af litaspjaldi – eftir eigin smekk. Finnur Torfi Stefánsson hefur ekki, þegar þetta er skrifað, samið fleiri elektrónísk tónverk.


433 Sama.
Vefarinn
Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Sett upp 1. des. 1998