Tónlist á Íslandi á 20. öld. Copyright © 1998: Bjarki Sveinbjörnsson 1. des. 1998

Ríkharður H. Friðriksson
Adagio
Ísland Farsælda frón ásamt nokkrum laufléttum tilbrigðum
Via de Gelata - Glerhákur
Sónata
Postlude
Andar
Vowel Meditation - Computer Phase
Fimm smálölg - Æfing nr. 1

Til bakaEfnisyfirlit Áfram

Síða 319 - 324

Ríkharður H. FriðrikssonRíkharður H. Friðriksson (1960-)

Ríkharður H. Friðriksson hefur bakgrunn, eins og aðrir tónsmiðir af hans kynslóð, í íslenskri popptónlist. Áhrifanna gætir þó að verulega litlu leyti í elektónískri/tölvu tónlist hans. Ríkharður útskrifaðist úr tónfræðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík árið 1985, lauk B.A. prófi í sagnfræði við Háskóla Íslands sama ár og síðan lokaprófi úr gítarkennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík árið 1989. Ríkharður var einn úr hópi fyrstu nemenda sem fengu kennslu í meðferð elektrónískra tækja í tónsmiðju Tónmenntaskólans. Þá voru komnir í stúdíóið ARP 2600 og Roland hljóðgerflar, en engin tölva. Var því aðeins um að ræða að leika inn á segulband, klippa og mixa saman.

Að loknu lokaprófi í tónfræðadeild, þar sem lokaverkefnið var verkið Music for imaginary film, eins konar prógramtónlist fyrir átta hljóðfæri, hélt Ríkharður til framhaldsnáms í Manhattan School of Music í New York. Þaðan lauk hann M.A. prófi í tónsmíðum árið 1987. Titanic var lokaverkefni hans frá deildinni – fyrsta og eina hljómsveitarverkið hans til þessa. Þetta var einnig prógramtónlist þar sem hugmyndir eru sóttar í örlög farþegaskipsins Titanic. Fyrir utan þetta hljómsveitarverk urðu til tvö sönglög – Songs – árið 1986. Þau eru samin við ljóð Steins Steinarr, Undanhöld samkvæmt áætlun og Hin hljóðu tár, fyrir bariton, flautu, klarinettu, básúnu, 2 slagverksleikara, gítar og víólu. (399)

Adagio (Fyrir fiðlu og segulband - 1987)

Það tók Ríkharð langan tíma að staðsetja sig í þeim möguleikum sem tækin buðu upp á í stúdíóinu í háskólanum. "Það helltist yfir mann öll þessi rosalega tækni og maður var í rauninni að fikta þarna í tvö ár". (400) Út úr þessu tveggja ára "fikti" urðu til nokkur smáverk eftir Ríkharð sem flutt voru á skólatónleikum, en enduðu síðan upp í hillu; "það tók mann tíma að ná valdi á þessum miðli". (401)

Ríkharður lauk prófverki sínu, Titanic, nokkrum vikum fyrir skólalok og notaði síðustu vikurnar til að semja verkið Adagio. "Mig langaði að eiga eitthvað sem ég hafði gert í stúdíóinu þannig að ég gerði þetta stykki". (402)


399 Þó svo að textinn sé íslenskur þá eru lögin aðeins til í enskri útgáfu höfundar af honum. Til að fella íslenska textann að laginu þarf að gera breytingu á laglínunni.
400 Einkaviðtal við Ríkharð H. Friðriksson í ágúst 1996.
401 Sama.
402 Sama.

320

Adagio er "tónalt" verk, þ.e.a.s. tölvutæknin er mjög lítið notuð til úrvinnslu hljóða. Tóna-/hljómaskotin hljóðgerfilshljóð eru mjög áberandi í hljóðmyndinni, en verkið er lagrænt og ljúft áheyrnar.Undir lokin er greinilegt að höfundur gerir tilraunir til að ná fram vissum "skyldleika" milli hljóða fiðlunnar og þeirra hljóða sem hann kallar fram í tölvunni.

Eftir heimkomuna frá Bandaríkjunum (1987) hóf Ríkharður auk kennslu, spilamennska í poppgeiranum og því gafst lítill tími til tónsmíða. En tveimur árum síðar hófst óbrotinn tónsmíðaferill með frekara námi.

Ísland farsælda frón ásamt nokkrum laufléttum tilbrigðum
(Altrödd, klarínett, flauta og píanó - 1989 - 8:30)

Þetta verk, sem var flutt í fyrsta skipti á menningarhátíð herstöðvarandstæðinga í Reykjavík árið 1989, er fyrir altsöngkonu, klarínett, flautu og píanó. Í þessu verki gerir höfundur tilraun til að taka það lag sem líklegast telst eitt það íslenskasta af öllum lögum og setja á það ameríska "slikju".

Lagið hefst á hinu alkunna íslenska tvísöngslagi, Ísland farsælda frón leikið á flautu og klarínett. Því næst er lagið endurtekið þar sem raddirnar tvær fá dálitla algorytmíska úrvinnslu og ganga því á mis.

Þetta verk er fyrsta tilraun höfundar til tölvutónsmíða og um leið algorytmískra tónsmíða. Þar að auki birtist hin ameríska "slikja" í formi djasshljóma, rólegs swings, bee boops og endar í minimalistísku yfirbragði. Þetta er hefðbundin laglína útsett fyrir hefðbundin hljóðfæri og söngrödd, en samin á tölvu. Andstaða Ríkharðs við ameríska herliðið í Keflavík gat vart verið tjáð betur músíkalskt en að taka tvísönginn Ísland farsælda frón og "sósa" til með amerískum tónlistarstílum frá því í kringum seinna stríð. Í þessu verki tekst tónskáldinu virkilega að hreyfa við þjóðernisvitundinni og benda á það sem predikað var á fyrstu áratugum þessarar aldar um hættuna á að erlendir straumar í öllum listum myndu eyðileggja ungdóm okkar og vitund þeirra um "allar sannar listir".

Via Di Gelata (403) (Óbó - 1990)
Glerhákur (Klarínett, 2 slagverksleikarar og píanó - 1990)

Árið 1990 dvaldi Ríkharður við hefðbundið tónsmíðanám og tónsmíðar í Accademia Musicale Chigiana í Siena á Ítalíu. Hann bjó á stúdentagarði í Siena, ásamt öðrum hljóðfæraleikurum. Verkið Via Di Gelata samdi hann fyrir óbóleikara sem bjó á stúdentagarðinum – að hans ósk – en líklega hefur þetta verk aldrei verið flutt því að leiðir tónskáldsins og hljóðfæraleikarans skildu stuttu síðar. Einnig samdi hann á Ítalíu verkið Glerhákur fyrir klarinett, tvö slagverk og


403 Titillinn er í rauninni rangt ritaður - ítalska orðið gelata er fleirtala af orðinu gelate, en Ríkarður skrifaði orðið upp eftir frönskum semballeikara og því kom þessi villa inn.

321

píanó, stutt verk með minimalístisku yfirbragði sem var frumflutt á tónleikum á Kjarvalsstöðum í Reykjavík árið 1994. Það verk er ekki unnið með aðstoð tölvu.

Sónata (Píanó - 1990 - 12:10)

Dæmi 104
Dæmi 104

Með útgangspunkt í fyrstu sónötu Beethovens op. 2 nr. 1 (dæmi 104) samdi Ríkharður píanósónötu í þremur þáttum stuttu eftir heimkomuna frá Ítalíu árið 1990. Í fyrsta þættinum eru aðalstefin fengin "að láni" úr sónötu Beethovens, en við hlustun á verknu kemur í ljós að um "lauslega tilvitnun" er að ræða þar sem höfundur breytir stefjunum á áberandi hátt. Úrvinnsla tónefnis og rytminn í fyrsta og síðasta þættinum er ákvarðaður í tölvu sem spinnur úr lánuðu og breyttu stefjaefni Beethovens (dæmi 105).

Dæmi 105
Dæmi 105

Til að gera aðaltema Beethovens persónulegra, ákveður Ríkharður að breyta inngangstemanu á þann hátt að hækka efsta tón þess, F, upp um hálfan tón (dæmi 108). Það gerir það líka að verkum að tóntegundatilfinningin deyfist og gerir úrvinnslu efnisins í atónal stíl auðveldari en ella hefði orðið.

322

Annar kafli sónötunnar er handunnin þ.e. tölvan kemur ekki þar við sögu. Þetta er hægur kafli sem ber íslenskt yfirbragð og greinilega má heyra áhrif frá tónlist Jón Leifs í laglínuhreyfingu þáttarins og yfirbragði. (404) Þessi milliþáttur er einstakt dæmi um það að íslenskt tónskáld hafi tekið tónlist Jóns Leifs sér svo rækilega til fyrirmyndar.

Þriðji kaflinn, sem er að mestu unninn í tölvu, er í hefðbundu rondó formi, A B A C A. Niðurlag kaflans, sjálfur kódinn er handskrifaður. Efniviður B og C kaflanna eru eins konar "gegnfærslur" á efnivið fyrsta og annars kafla sónötunnar.

Postlude (Píanó - 1990)

Þetta verk er lítið píanóverk, samið fyrir Örn Magnússon píanóleikara. Verkið er byggt á einskonar "leifum" frá píanósónötunni, þ.e. átti upphaflega að vera kadensa í fyrsta þætti hennar, en höfundi þótti hún vera of mikið úr stíl við þáttinn og gerði því lítið píanóverk úr efniviðnum.

Andar (Klarínett og segulband -1991 - heildartími 21:00)

Þetta verk fyrir einleiksklarínett og tölvu er röð tíu verka sem samin eru í tölvu. Þau eru eins konar tilraun höfundar til að átta sig á hve langt hann næði með tónsmíðar á tölvu. Þau eru öll byggð á stuttum "handskrifuðum" þáttum. Verkin eru mislöng, allt frá mjög stuttum verkum til nokkurra mínútna. Þau hafa öll sama viðskeyti í heiti sínu sem er -andi, þ.e. Tvístígandi, Masandi, Marandi, Skakklappandi, Rigsandi, Drjúpandi, Leikandi, Dansandi, Æðandi og Strandandi. (405) Höfuðúrvinnsluaðferð sem beitt er í þessari tónsmíð eru svokallað Markovkeðjur, (406) þ.e. aðferð við að þróa músíkalskt efni "frá einum stað til annars". Þetta verk er í heild sinni gott dæmi um algorytmískar tónsmíðar. Höfundur setur fyrirfram ákveðið músíkalskt efni inn í tölvuna og lætur hana vinna úr því, þróa það eftir ákveðnum leiðum. Sjálf tónsmíðaforritin voru tvö, annars vegar forrit sem heitir M, hinsvegar Jam Factory sem sá um svokallaða Markovkeðju úrvinnslu. (407) Tónskáldið lét tónsmíðaefnið inn í annaðforritið, flutti það síðan yfir í hitt o.s.frv. þar til fullvinnslu var náð. Að því búnu flutti hann efnið yfir í sekvenserforrit, Performer sem á þessum árum var mjög algengt fyrir Macintosh tölvur. Í því forriti var efniviðurinn síðan "orkestreraður". Ríkharður samdi verkið á Macintosh SE tölvu.


404 Hef ég þá einkum í huga verkið Requiem
405 Heiti þáttanna urðu til þegar tónsmíðinni var lokið.
406 Sjá nánar skýringu á þessari tækni í bókinni Elements fg computer music eftir F.R. Moore, s. 429.
407 Sjá nánar um þessi forrit og önnur svipuð í bókinni New Directions in Music, s. 309ff.

323

Dæmi 106
Dæmi 106

Kaflarnir eru á margan hátt líkir, einkum þó ef borin er saman hin grafíska mynd þeirra (dæmi 106).

Verkið var frumflutt á afmælisdegi höfundar, 5. nóvember 1991 í Listasafni Íslands af Guðna Franzsyni klarínettuleikara. Guðni hefur síðan flutt verkið nokkuð víða, m.a. í Danmörku, Svíþjóð, Hollandi og Þýskalandi. Verkið var upphaflega samið í Reykjavík, en höfundur endurvann það í Institute of Sonology í Hollandi árið 1972 og er það þekkt í þeirri mynd í dag.

Vowel Meditation (segulbandsverk -1992 - 10:40)
Computer Phase (segulbandsverk -1992 - 11:35)

Þessi tvö verk eru nánast sama verkið, byggð á sömu hugmynd og sama efni, en unnin á mismunandi hátt. Fyrra verkið, Vowel Meditation, byggir á umsókn sem höfundur sendi inn

324

um starfslaun listamanna. (408) Sérhljóðar og tvíhljóðar voru dregnir út úr umsókninni og gefin lengdargildi í samræmi við fjölda samhljóða á milli þeirra. Í framhaldi af því voru niðurstöður settar í tölvu sem vann úr efniviðnum eftir líkindareikningi.

Síðara verkið, Computer Phase, byggir á sömu umsókn en hér vinnur höfundur minimalistískt með hljóðefnið. Hann hefur sjálfur gert skriflega grein fyrir úrvinnslu verksins:

    Í verkinu er þrjár raddir sem færast mjög hægt úr fasa, þannig að til að byrja með breytast hljóðeiginleikarnir, síðan fara að koma fram bergmál og að lokum fara þær að mynda síbreytileg taktmynstur, þó hver röddin um sig sé allaf að gera sama hlutinn. Við þetta er bætt tilbrigðum í tímahlutföllum milli raddanna og þéttleika þeirra, þ.e. hversu margar nótur stefsins ná að heyrast. (409)

Þetta verk var upphaflega hugsað sem "interaktíft" verk, þ.e. að jafnvel áheyrendur gætu komið að tölvunni og í vinsamlegu notendaumhverfi haft áhrif á ferlið. Það bíður hins vegar betri tíma.

Fimm smálög (rödd og harpa - 1992)
Æfing nr. 1 (sjálfspilandi píanó (midi) -1992 - 2:40)

Sem dæmi um fleiri tölvuunnin verk höfundar vil ég hér nefna Fimm smálög sem hann hefur að hluta til samið með aðstoð tölvu. Lög nr. tvö og fjögur af þessum smálögum eru samin með aðstoð tölvu.

Verkið Æfing nr. 1 er hreint tölvuverk þar sem höfundur vinnur með forrit kennara síns, Clarens Barlow. Hann er í hópi þeirra tónskálda sem samið hafa forrit til að aðstoða höfunda til að nota tölvur til tónsmíða og gengur undir samheitinu "automated music". (410) Með þessu forriti má á ýmsan hátt stýra úrvinnslu þess efnis sem tölvan er mötuð á bæði í þá átt að velja ýmsa jaðra sem unnið er innan, eins og ákveðnar tónhæðir, tónbil, rytma og fleiri þætti, út í það að sleppa tölvunni frjálsri og vinna tilviljanakennt úr efniviðnum. Seinustu tónsmíðar höfundar beinast einnig í þessa átt.


408 Umsókninni var hafnað en höfundur sá ákveðið notagildi í henni við tónsköpun.
409 Úr prógramnótum höfundar með verkinu.
410 Sjá nánar í David Cope: New Directions in Music s. 292.
Vefarinn
Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Sett upp 1. des. 1998