Tónlist á Íslandi á 20. öld. Copyright © 1998: Bjarki Sveinbjörnsson 1. des. 1998

Sónata
Ad Astra
Chantouria

Til bakaEfnisyfirlit Áfram

Síða 287 - 290

Sónata (Segulbandsverk - 1980 - 22:05)

Dvölin við IRCAM hafði mikil áhrif á tónsmíðar Þorsteins á þessum árum. Verkin voru aðallega elektrónísk. Minnstu munaði að Þorsteinn lenti í vísindageiranum því hann var kominn með annan fótinn inn í þann heim, niðursokkinn í náttúruvísindalegan þátt tónlistarinnar, en sköpunin varð þó ofan á. Áherslunni á hina þjöppuðu og strekktu yfirtóna í tónsmíðatækni lýkur Þorsteinn í verkinu Sónata sem hann samdi í EMS stúdíóinu í Stokkhólmi árið 1980. Það verk hefur verið gefið út á hljómplötu á vegum Íslenskrar tónverkamiðstöðvar.

Hér er um að ræða mjög flókna og yfirgripsmikla útfærslu á ýmsum tónlistar- og tæknilegum hugmyndum og aðferðum. Heyra má bæði míkrótónstiga, tækni sem höfundur vann með í verkinu Drengurinn og glerfiðlan, Shephard- skala (376) og brot úr kirkjutóntegundum. Í þessu verki sameinast bæði tónsmíðaleg og tæknileg þekking sem og aðferðir áranna á undan.

Ad Astra (Hljómsveitarverk - 1982 - 10:40)

Eftir tveggja ára dvöl hjá IRCAM í París flutti Þorsteinn aftur til Bandaríkjanna, og innritaðist að þessu sinni í Stanford háskólann í Kaliforníu haustið 1981. Hann lagði allar fyrri vangaveltur um yfirtóna á hilluna en einbeiti sér enn frekar að möguleikum tölvunnar.

Við Stanford háskólann var að finna nýtt tæki, svokallaðan Sambox sem var einn af fyrstu stafrænu hljóðgerflunum. Var hann búinn 256 oscillatórum og var með 16 bita hljóðupplausn, - þ.e.a.s. mjög kraftmikill hljóðgerfill. Þessi hljóðgerfill var tengdur stórtölvu háskólans. Reynsla Þorsteins af forritun gerði honum mögulegt að vinna út frá eigin hugmyndum með þessa tölvu. Forrit, sem hann bjó til, gerði honum mögulegt að setja inn á tölvuna fjarlægðarafstöðu nokkurra helstu sjáanlegra stjarna á himinhvolfinu. Hann lét síðan tölvuna reikna afstöðu stjarnanna yfir í hljóð, sem mynduðu grunninn að hljómsveitarverkinu Ad Astra.

Sömu útreikninga hefur höfundur síðan látið ákvarða tónalengdir og rytmamynstur, en sjálf orkestrasjónin er handgerð. Einnig styðst höfundur við hugmyndir sem fram komu í verkinu Mosaic, "laglínum" er dreift á hjóðfærin, - hvert hljóðfæri leikur aðeins einn einstakan tón í sjálfri laglínunni og við það má segja að laglínan verði "marglit".


376 Nánar má lesa um þessa tóna í F. Richard Moore: Elements of Computer Music, bls. 221.

288


Dæmi 85

Vegna þess að allar innkomur og hreyfingar í verkinu eru mjög hægar, má segja að hugmyndirnar séu fleygaðar hver inn í aðra – hægfara straumur sem líður áfram (dæmi 85). Eitt einkenni verksins eru að höfundur notar kristalsglös sem fiðluleikararnir leika á í síðari hluta verksins. Glösin eru fyllt með 0vatni og stillt í kvarttónaskala milli tónanna CÕÕ og DÕÕ. Annað sem höfundur vinnur með hér er aðferð sem kalla má "mávagliss", eins og fram kemur í selló og kontrabassa. Í athugasemd til hljóðfæraleikarana segir höfundur að þeir

289

skuli " halda jafnri fjarlægð milli fingra á meðan þetta glissando er leikið. Þetta er ákveðin aðferð sem höfundur sækir hugmynd að til Betram Turetzky í bók um kontrabassaspil. (377)

Einnig koma fyrir ýmsar óhefðbundnar aðferðir í hljóðfæraleik eins og að leika á xylófóna og upphengda symbala með fiðluboga.

Ótrúlega margt er líkt með titli verksins og stemningu þess. Við hlustun getur áheyrandi ímyndað sér að hann svífi milli stjarna í himingeimnum. Þrátt fyrir að verkið sé samið fyrir hefðbundin hljóðfæri þá líður það hægt áfram í framandi hljóðheimi sem víkkar til muna, aðallega uppávið, vegna þeirra aðferða sem notaðar eru við hljóðfæraleikinn og á sama tíma við að leika á kristalsglös með boga sem gefa mjög háa tíðni.

Ad Astra er síðasta verkið sem Þorsteinn semur í mörg ár þar sem tölvan kemur á einhvern hátt við sögu. Framundan var tími þagnar, tími íhugunar, lestrar, upprifjunar og fagurfræðilegra vangaveltna um stöðuna sem tónskáld.

Chantouria (Tölvutónlist á segulbandi - 1987 - 9:50)

Eftir um það bil fjögurra ára hvíld frá tónsmíðum semur Þorsteinn nýtt verk fyrir tölvu – líklega fyrsta íslenska verkið sem samið er fyrir einmenningstölvu á Íslandi – Chantouria. (378) Þó verður til stuttu áður lítið gítarverk, Toccata, fyrir gítar sem höfundur samdi fyrir gítarleikarann Josef Fung, og hefur verið leikin víða um heim.

Þorsteini barst boð frá Aþenu í Grikklandi um að koma og semja raftónverk í stúdíói þeirra. Í ljós kom þó við komuna þangað að tækjakostur heimamanna var heldur fátæklegur og gamaldags og bauð ekki upp á neina tónsmíðavinnu. En hann notaði tíma sinn vel, hélt fyrirlestra um elektróníska tónlist og tók þátt í umræðum við heimamenn um málefnið. Þrátt fyrir fjárskort til kaupa á nýjum tækjum, þá voru heimamenn vel að sér í því sem var að gerast í tónsmíðum á þeim tíma úti í hinum stóra heimi.

Meðan á dvölinni stóð komst Þorsteinn að því að forstöðumaður menningarmiðstöðvarinnar sem hann heimsótti var mikill safnari hljóðritana af grískri þjóðlagatónlist og átti miðstöðin eitthvert stærsta hljóðritasafn grískrar tónlistar sem til er í heiminum. Þar var að finna hljóðritanir af öllum grískum hljóðfærum og einnig hljóðritanir af mjög gömlum grískum munkasöng sem náðist við að smygla upptökutækjum inn í klaustur. Þessi efniviður vakti


377 Þorsteinn hefur gefið mér eftirfarandi skýringu: Þetta er aðferð sem Betram Turetzky talar um í bókinni The Contemporary Contrabass, gefin út af University of California Press árið 1974... á bls. 74 segir hann:"A most interesting effect is produced by a glissando in artificial harmonics without adjusting the hands position as you move up and down. The descending glissando, with the many breaks resembles a sea gull call" – þ.e. mávagliss.
378 Titill verksins er orðaleikur. Hluti hljóðfæranna sem notuð voru sem hljóðlindir í verkinu eru grísk og heita cantouri. Inn í heitið er einnig dregið orðið Chant, þ.e. einradda munkasöngur og ia, sem þýðir saga.

290

áhuga Þorsteins og fékk hann leyfi til að afrita það sem hann hafði áhuga á sem síðar skyldi nota sem efnivið í nýtt verk.

Upp úr miðjum 9. áratugnum var komið á fót verkefni sem þekkt er undir heitinu Composers Desktop Project – DSP við York háskólann í Englandi. Hér var um að ræða ákveðið forritasafn sem höfðaði til áhuga og þarfa einstakra tónskálda um meðferð og úrvinnslu hljóðlinda. Þetta forritasafn var byggt í kringum Atari 1040 ST tölvu og gerði m.a. mögulegt, með sérstöku "interface" sem var hluti pakkans, að tölva og venjulegt segulbandstækis gátu "talað saman", þ.e. A – D og D – A. (379) Aðferðin byggðist m.a. á því að leika af bandinu inn á tölvuna og svo úr henni inn á band aftur. (380) Þorsteinn gerðist aðili að þessu verkefni og fékk þar með til eigin nota forritasafnið sem myndaði þennan DSP-pakka.

Eftir heimkomuna frá Grikklandi notaði hann síðan þetta forritasafn til úrvinnslu hljóðlindanna sem hann hafði afritað þar. Að lokinni hljóðblöndun í stúdíói varð til verkið Chantouria.

Nú liðu nokkur ár en verkin komu eitt og eitt og þá aðallega fyrir hljóðfæri, eins og Webby in the Woodland (1982) sem er fyrir rödd og píanó, Psychomachia (1987) fyrir sópran og celló, Toccata (1987) fyrir gítar, Sapientia (1990) fyrir blandaðan kór. Einnig sendi hann frá sér tvö verk fyrir flautu og segulband, Fléttur (1992) fyrir tenórblokkflautu og tölvuhljóð og Cho (1992) fyrir flautu og tölvuhljóð, en í síðara verkinu tölvuvinnur höfundur stafræna upptöku af náttúrulegu bergmáli flautunnar. (381) Þau hljóð voru tölvuunnin með forritinu Csound á NeXT tölvu við háskólann í Glasgow. Auk þess urðu á þessum tíma til verkin Myndun (1993) fyrir þrjár klarínettur og Ever changing Waves (1995) fyrir strengjasveit, sem var frumflutt á Norrænum Músíkdögum í Gautaborg vorið 1995. Í sumum þessara verka notar höfundur tölvuna við úrvinnslu hugmynda, en aðeins í flautuverkunum er að finna tölvuhljóð. Nokkur verkanna, þ.e. Psychomachia, Sapientia, og Ever Changing Waves, mynda í dag órartóíuna Psykomachia – Stríðið um mannssálina, sem samin er við samnefndan texta eftir Prudentius (348-410) og var flutt á Skálholtshátíð sumarið 1995.


279 Analog – Digital, Digital – Analog umbreyting.
280 Sjá nánar um þessi verk í Tímariti Máls og Menningar 2. 1996 í grein um Þorstein Hauksson: Drýpur drop, drop,drop...! eftir Bjarka Sveinbörnsson.
Vefarinn
Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Sett upp 1. des. 1998