Tónlist á Íslandi á 20. öld. Copyright © 1998: Bjarki Sveinbjörnsson 1. des. 1998

Ircam í Paris
Þorsteinn við störf í Ircam
Rannsóknir hjá Ircam
Ritgerðin

Til bakaEfnisyfirlit Áfram

Síða 278 - 282

IRCAM í París

Árið 1976 var vígð í París ný rannsóknastofnun sem m.a. hafði að markmiði að rannsaka nýjar leiðir í tónsmíðum og flutningi á nýrri tónlist. Skyldi m.a. unnið að því að finna upp ný hljóðfæri og áður óþekktar aðferðir í spilamennsku. Mikil áhersla skyldi lögð á hátalarann sem miðil. Stofnunin skiptist niður í nokkrar deildir, svo sem deild fyrir elektró-akústíska tónlist undir stjórn Luciano Berio, tölvutónlistardeild undir stjórn Jean-Claud Risset, og hljóðfæra- og raddrannsóknir undir stjórn Vinko Globokar. Sjórnandi stofnunarinnar var Pierre Boulez. Stofnunin hlaut nafnið Institut de Recherche et de Coordination Acoustique - Musique, þ.e. IRCAM, og var hún hluti Pompidou menningarmiðstöðvarinnar. Ætlunin var að fremstu tónskáld veraldar, sem létu sig varða nýjar aðferðir við tónsmíðar, myndu starfa þar í lengri eða skemmri tíma.

Á 8. áratugnum voru miklir umbrotatímar í veröld tækninnar, tölvur voru að taka yfirhöndina og gataspjöldin smám saman að hverfa. Tölvuskjárinn var orðinn tengiliðurinn milli eyrans/augans og tækninnar. Við IRCAM var risastór tölva sem fyllti heilan sal og við hana voru tengdir skjáir um alla bygginguna. Við þetta ferlíki var síðan tengdur heilmikill hljóðmekanismi sem notaður var í tengslum við rannsóknir og tónsmíðar – allt það nýjasta sem til var í heiminum á þeim tíma.

Þorsteinn við störf í IRCAM

Árið 1978 birtist grein í tímaritinu Newsweek þar sem segir frá þessari nýju stofnun í París. Þorsteinn varð fyrir eins konar uppljómun – þangað verð ég að komast. Hann skrifað bréf til IRCAM og sendi með því hljómsveitarverkið, Drengurinn og glerfiðlan. (372) Í framhaldi af því bauð IRCAM stofnunin Þorstein velkominn til starfa. Í IRCAM dvaldi hann við rannsóknir og tónsmíðar næstu tvö árin, m.a. sem aðstoðarmaður Max Matthews, eins af frumkvöðlum tölvutónlistarinnar.

Meðal deilda stofnunarinnar var svokölluð þvervísindaleg deild eða "skástriksdeild", sem tengdist öllum öðrum deildum hennar. Það var einmitt við þessa deild sem Þorsteinn starfaði í tvö ár. Yfirmaður hennar var Gérald Bennett, er síðar varð yfirmaður svissneska þjóðartölvustúdíósins.

Eins og áður er getið, var í byggingu IRCAM fjöldinn allur af tölvuskjám, ekki bara skjáir sem birtu texta heldur gátu einnig verið myndir á þeim – grafískir skjáir – sem öllum þykir sjálfsagt að hafa í dag. Þeir voru stórir og hávaðasamir og ólíkir þeim sem við þekkjum nú í dag, en þóttu á þeim tíma mikil nýjung. Við þessar aðstæður samdi Þorsteinn sitt fyrsta


372 Þetta verk er stórt hljómsveitarverk og var liður í lokaprófi Þorsteins við háskólann í Illinois. Titill verksins vísar ekki til neins sérstaks. Verkið er undanfari hljómsveitarverksins Are We? sem fjallað verður um hér á eftir, hvað varðar pákunotkunina. Þó svo höfundur segist nota gjörólíkar aðferðir við samningu þessara tveggja verka, þá eru hinar hljómandi niðurstöður ekki ólíkar.

279

tölvuverk sem heitir Tvær Etýður og er byggt á stýrðri yfirtónauppbyggingu. Verkið var m.a. samið til að sýna fram á hvernig semja mætti verk út frá þjöppuðum eða strekktum yfirtónum, en það var einmitt það sem rannsóknir Þorsteins við stofnunina snerust um. Þessar tvær etýður eru algjörar andstæður þó svo tæknin við samningu þeirra sé ekki ólík (sjá nánar hér að neðan).

Etýðurnar eru andstæðar að því leyti að fyrri etýðan byggir á skærum og þjöppuðum yfirtónum en sú síðari byggir á djúpum tónum og strekktum. Því miður var hin stafræna tækni ekki orðin nægilega þróuð til að hægt væri að hljóðrita verkið úr tölvunni nema á analóg bönd og hin örfínu hljóðbrigði, sem koma fyrir í verkunum, koma ekki nægilega skýrt fram. Til gaman má geta þess að ef gerð er spectralgreining á verkinu, þá kemur G-lykillinn fram í þeirri fyrri og F-lykillinn í þeirri síðari. Etýðurnar voru á sínum tíma spilaðar mjög víða í Evrópu á tónleikum og tónlistarhátíðum og voru margir sem könnuðust orðið við þær í umræðu um tónlist.

Rannsóknir hjá IRCAM

Í upphafi fékkst Þorsteinn aðallega við rannsóknir á yfirtónaröðinni hjá IRCAM. Til að byrja með var hann aðstoðarmaður Max Matthews – það sem Frakkar kalla "stagiare". Hann kom sér strax vel í IRCAM og lærði þar m.a. frekari forritun hjá Gerard Bennett. Bennett jók áhuga Þorsteins til muna á tölvutónlist og möguleikum hennar. Hann eygði mikla möguleika við einar bestu aðstæður sem hægt var að hugsa sér á þeim tíma.

    Þeir komu þremur mánuðum á eftir mér og tók ég þátt í ýmsum tilraunum þeirra. Ég tók þátt í þessu með þeim og það sem mér þótti mikilvægast var að kynnast þessum feðrum tölvutónlistar svona náið og kynnast þeirra aðferðum. Ég var nú að segja þeim að ég væri svo nýr í þessu að ég væri ekki búinn að ná tökum á forritun og þá kemur í ljós að þeir vour hálf nervösir yfir því líka því þeir voru ekki nógu vel inni í forritunarmálum öllum. Þeir fara síðan heim en ég held áfram þarna. Ég hélt áfram að byggja mig upp og fékk ýmis verkefni. Þegar Johan Sundberg kom þarna þá þurfti að gera einhverja spectalanalýsu á raddhljóðum og var ég látinn í það. &Ý;mislegt sem svona til féll og lærði ég gríðarlega mikið á því. Allan tímann mátti ég vinna að eigin verkefnum eins og ég vildi. Bennett ýtti síðan undir mig að skrifa ritgerð; hún er stutt en bendir á ýmsar leiðir sem má fara í yfirtónarannsóknum. (373)

Ritgerðin

Í febrúar 1979 vinnur Þorsteinn að ritgerðinni þar sem hann skýrir helstu niðurstöður rannsókna sinna. Í grófum dráttum fjallar hún um rannsóknir á uppbyggingu óharmónískrar yfirtónaraðar með aðstoð tölvu. Þorsteinn notaði MUSIC V forritunarmál og FORTRAIN IV nótnaskriftarforrit. Formúlan sem hann notar er eftirfarandi:


373 Einkaviðtal við Þorstein Hauksson 27. júní 1995.

280

fi = f0 (i m/n)
þar sem
f0 = tíðni 1. yfirtóns
fi = tíðni iÕendaðra yfirtóna
m, n = venjulega litlar heiltölur


ef m = 5 og n = 4 fáum við
ef i = 1 i m/n = 1
ef i = 2 i m/n = 2.378
ef i = 3 i m/n = 3.948
ef i = 4 i m/n = 5.657
ef i = 5 i m/n = 7.477

Með 1. tón sem 250 Hz fáum við eftirfarandi yfirtónaröð:
1 - 250
2 - 595
3 - 987
4 - 1414
5 - 1869


ef m = 4 og n = 5 fáum við
ef i = 1 i m/n = 1
ef i = 2 i m/n = 1.741
ef i = 3 i m/n = 2.408
ef i = 4 i m/n = 3.031
ef i = 5 i m/n = 3.624
ef i = 6 i m/n = 4.193
ef i = 7 i m/n = 4.743
ef i = 8 i m/n = 5.278
ef i = 9 i m/n = 5.800
ef i = 10 i m/n = 6.310

Með 1. tón sem 250 Hz fáum við eftirfarandi yfirtónaröð:
1 = 250
2 = 435
3 = 602
4 = 758
5 = 906
6 = 1048

281

7 = 1186
8 = 1320
9 = 1450
10 = 1578

Þessi tvö ofangreindu dæmi eru úr hljóðdæmasafni Þorsteins sem fylgir ritgerðinni. Til að sýna þennan mismun grafískt á strekktum og þjöppuðum yfirtónum þá gerði ég yfirtónagreiningu á tveimur hljóðdæmum frá höfundi þar sem aðferðir rannsóknarinnar koma greinilega fram (dæmi 78):

Dæmi 78
Dæmi 78

Í fyrra dæminu (rautt) er um að ræða greiningu á tóni nr. 2 í dæminu hér að ofan, þar sem þriggja tóna skali er úr strekktum yfirtónum út frá ofangreindri formúlu, m = 5 og n = 4. Í síðara dæminu (blátt) er tekin greining úr fimmta tóninum (þ.e. annar tónninn í pressaða dæminu) sem er byggður á þjöppuðum yfirtónum út frá sömu formúlu m = 4 og n = 5. Tíðni yfirtónanna hef ég fundið með því að setja merkjastikuna sem næst hápunkti hvers yfirtóns (eins og rauða strikið í gegnum fyrsta yfirtóninn gefur til kynna) og birtist þá á skjámyndinni (efst til hægri í neðri glugganum) tíðni yfirtónsins, sem í þessu tilfelli er 249 Hz.

Bláir yfirtónar í Hz:Rauðir yfirtónar í Hz:
1. 2491. 249
2. 4342. 589


282

3. 5993. 983
4. 7504. 1404
5. 8955. 1855
6. 1037
7. 1175
8. 1306
9. 1434
10. 1558

Samræmi milli reiknaðrar og mældrar tíðni virðist mjög náið.


Dæmi 79

Þessi mynd sýnir sömu niðurstöður á örlítið annan hátt (dæmi 79). Hljóðdæmið er hið sama, en annað form af spectralgreiningu. Hér kemur greinilega fram mismunur á þéttleika yfirtónanna (fyrstu þrír eru þeir sömu og rauðu tónarnir á síðunni fyrir framan og seinni þrír sem þeir sömu og bláu tónarnir á sömu síðu).

Rannsóknir Þorsteins og tilraunir hans þeim tengdar áttu eftir að einkenna alla hljóðvinnslu hans í þeim elektrónísku/tölvu verkum sem hann samdi síðar, og fjallað verður um hér á eftir. Ef þjöppun eða strekking yfirtónanna er hlutfallslega stór (eins og í þessum tveimur dæmum) fá þeir hljómandi yfirbragð óharmónísks "tongemisché" - ekki ólíkt því hljómandi "tongemisché" sem Stockhausen notar í Studie I og Studie II.
Vefarinn
Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Sett upp 1. des. 1998