Tónlist á Íslandi á 20. öld. Copyright © 1998: Bjarki Sveinbjörnsson 1. des. 1998

Tónlistarskólinn í Reykjavík
Tónlistarfélagið
Fyrsta óperettan
Fyrsta íslenska óperettan
Tónlistarfélagskórinn
Tónlistarhöll í Reykjavík

Til bakaEfnisyfirlit Áfram

Tónlistarskólinn í Reykjavík

Síða 27 - 38

Sú mikla vinna sem lögð var í tónlistarflutning í tengslum við Alþingishátíðina varð meðal annars til þess að menn gerðu sér betur grein fyrir slæmri stöðu hljómsveitarmála. Berlega kom í ljós sú staða að hér vantaði stórlega hljóðfæraleika sem væru það færir á hljóðfæri sín að hægt væri að flytja stærri verk svo vel færi. Til að hægt yrði að mynda hljómsveit, sem gæti staðið undir nafni sem slík, varð að byrja á byrjuninni. Fyrir forgöngu Páls Ísólfssonar og Franz Mixa var stofnaður tónlistarskóli í Reykjavík árið 1930, og voru það meðlimir Hljómsveitar Reykjavíkur sem héldu honum gangandi í 2 ár, en þá tók nýstofnað Tónlistarfélag við rekstrinum. Mixa hélt til Vínarborgar og réði til landsins fiðlu- og sellókennara við skólann, þá Karl Helle og Fr. Fleischmann. Þessir áhugasömu hljómsveitarmenn höfðu ekki bolmagn til að halda starfinu áfram og stefndi í að skólinn legðist niður á árinu 1932.

Með stofnun Tónlistarskólans var lagður grunnur að "alvöru" tónlistarlífi í Reykjavík. Skólanum óx smám saman fiskur um hrygg, enda hafði hann á að skipa úrvals kennaraliði allt frá upphafi. Með tímanum var svo stofnuð nemendahljómsveit, undir stjórn Björns Ólafssonar. Til landsins komu vel menntaðir erlendir hljóðfæraleikarar og gengu í þær kennarastöður sem Íslendingar gátu ekki skipað. Allt frá stofnun skólans var eitt af markmiðunum að mennta og þjálfa hljóðfæraleikara sem gætu leikið í sinfóníuhljómsveit. Í skólasetningarræðu á 25 ára afmæli skólans komst Páll Ísólfsson skólastjóri, svo að orði: að:

    [að]...við stofnun skólans hefði þegar verið sett þrjú aðalmarkmið. Að undirbúa sinfóníuhljómsveit, þannig að skólinn útskrifaði nemendur, er síðar gætu starfaði í slíkri hljómsveit. Að efla músíkalska menningu í landinu og undirbúa nemendur er legðu fyrir sig tónlist sem lífsstarf og síðar sæktu til annarra landa til þess að fullnuma sig. (47)

Af þessum orðum má sjá að stofnendur skólans höfðu gert sér grein fyrir því árið 1930 að þeir yrðu að byrja á að ala upp kynslóð tónlistarmanna sem leggja mundi grunn að tónlistarlífi landsins í framtíðinni. Á fyrstu árum skólans var aðaláherslan lögð á að kenna á hin hefðbundnu strengjahljóðfæri auk píanós, tónfræði og tónlistarsögu. Að loknum fyrsta starfsvetri má lesa eftirfarandi athugasemd í skýrslubók skólans:

    Kennslufyrirkomulag var þannig að hver nemandi fær tvo tíma (48) vikulega í aðalnámsgrein, tvo tíma í tónlistarsögu og 2 tíma í tónfræði, einn tíma í aukanámsgrein, t.d. píanó eða fiðlu. Nemendur voru 41 að tölu, þarf af 20 píanónemendur, 13 fiðlunemendur, 7 cellónemendur, 1 kontrabassanemandi, 1 Violanemandi, 5 theorienemendur. Sumir hafa þannig stundað 2 fög, svo sem t.d. fiðlu og píanó.


47 Morgunblaðið 13. september 1955.
48 Það skal undirstrika hér að inna hins íslenska tónlistarskólakerfis er hefð fyrir því að allir nemendur fá 2 x 30 mínútur í hljóðfæraleik.


28

    Flestir nemendur höfðu hljómfræði sem aukafag, einnig tónlistarsögu. Píanókennarar voru þeir dr. Franz Mixa og Páll Ísólfsson. Fiðlukennar var Karl Heller. Celló: Fleischman. Tónlistarsögu og hljómfræði kendi Páll Ísólfsson sem einnig var skólastjóri. Próf fóru fram: miðsvetrarpróf í janúar og vorpróf í maí. (49)

    Reykjavík í lok maí 1931, Páll Ísólfsson.

Eitthvað fækkaði nemendum næsta ár, og Karl Heller fiðlukennari sneri aftur til síns heimalands. Í stað hans var ráðinn nýr kennari sem átti eftir að taka þátt í íslensku tónlistarlífi mörg næstu árin, Hans Stepanek. Veturinn 1932-33 stunduðu hins vegar 54 nemendur nám við skólann og þeim fór síðan fjölgandi næstu árin.

Í lok skólaárs 1934 tóku fyrstu nemendurnir burtfararpróf. Það voru Björn Ólafsson á fiðlu, Helga Laxness á píanó, Katrín Dalhoff Bjarnadóttir á píanó og Margrét Eiríksdóttir á píanó. Prófdómari var Emil Thoroddsen. Katrín Dalhoff lauk svo tveimur árum síðar einnig burtfararprófi í fiðluleik.

Árið 1955, á 25. starfsári skólans, var fjöldi nemenda orðinn 150. Flestir (91) stunduðu nám í píanóleik, 22 á fiðlu, 18 söngnemendur, 4 klarinettnemendur, 2 sellistar, 2 í orgelleik og 1 á kontrabassa. Á þeim vetri voru 8 nemendur sem höfðu kontrapunkt og hljómfræði sem aðalnámsgrein og á vortónleikunum var m.a. leikið verk eftir einn nemenda skólans, Jón S. Jónsson. (50)


49 Tónlistarskólinn: Nemendaskrá 1930 - 1936.
50 Hann fluttist síðar til Bandaríkjanna og gerðist kennari og tónskáld.


29

Tónlistarfélagið

Árið 1932 komu saman 12 tónlistaráhugamenn í höfuðborginni og stofnuðu þeir með sér félag sem fékk heitið Tónlistarfélagið. Þeir fengu gælunafnið "postularnir 12". Í 2. grein laga félagsins, sem samþykkt voru á stofnfundinum, er haldinn var 27. júní 1932, segir m.a.: "Tilgangur félagsins er að efla tónlist hér á landi og vinna að viðgangi hennar. Tilgangi sínum vill félagið ná með því meðal annars, að glæða áhuga almennings fyrir tónlist, stofna til hljómleika og kennslu, og á hvern þann hátt annan sem félagið sér sér fært".

Þessir áhugasömu menn voru: Óskar Jónsson prentari, Tómas Albertsson prentari, Þórarinn Björnsson póstfulltrúi, Ólafur Þorgrímsson lögfræðingur, Haukur B. Gröndal verslunarmaður, Hálfdán Eiríksson kaupmaður, Stefán Kristinsson bókari, Helgi Lárusson framkvæmdastjóri, Kristján Sigurðsson póstfulltrúi, Sigurður E. Markan verslunarmaður, Björn Jónsson kaupmaður og Ragnar Jónsson forstjóri. Þeir tóku að sér að tryggja rekstur skólans og hljómsveitarinnar.

Enda þótt – þegar þetta er skrifað – Tónlistarfélagið sé að hætta starfsemi sinni vegna breyttra þjóðfélagshátta þá hefur það síðustu 65 árin verið bjargföst driffjöður í íslensku tónlistarlífi. Hefur það í öll þessi ár staðið að, að flutt væri tónlist sem spannaði frá einföldu íslensku ættjarðarlagi upp í helstu kór- og hljómsveitarverk tónbókmenntanna bæði af heimamönnum jafnt og þekktum flytjendum úr mörgum heimsálfum, auk reksturs sjálfs skólans.

Áðurnefndir menn tóku af skarið og tóku að sér rekstur Hljómsveitar Reykjavíkur og Tónlistarskólans þegar hann var að komast í þrot. Það gerðu þeir með dálitlum fjárhagslegum styrk frá Reykjavíkurborg og ríkinu. Einnig styrki Ríkisútvarpið Tónlistarskólann með því að kaupa nokkra tónleika á hverjum vetri af skólanum, en að öðru leyti komu tekjur frá félagsmönnum Tónlistarfélagsins og aðgangseyrir af tónleikum.

Til gamans má nefna að á árunum í kringum 1960 var íbúafjöldi Reykjavíkur um 75.000 , og styrktarmeðlimir Tónlistarfélagsins um 1600. Frá stofnun félagsins og fram að þeim tíma höfðu verið haldnir á vegum þess um 600 tónleikar í Reykjavík auk fjölda tónleika víða um land. Á fyrstu 30 starfsárum félagsins höfðu komið til landsins nokkrir þekktustu hljóðfæraleikarar og söngvarar hins vestræna heims og haldið tónleika í Reykjavík. Munu margir þessara erlendu tónlistarmanna hafa komið fyrir áeggjan og milligöngu Jóns Leifs.

Af frægum nöfnum má nefna: Adolf Buch, Rudolf Serkin, Dietrich Fischer-Dieskau, ásamt Gerald Moor, Andrés Segovia, og Isaak Stern. Af frægum söngkonum má nefna Aulikki Rautavara, Hertha Töpper, Betty Allen, Diana Eustrati og Camilla Williams. Þá má nefna kvartetta svo sem Prag- kvartettinn, Smetana- kvartettinn, Komitas- kvartettinn, Julliard- kvartettinn og La Salle strengjakvartettinn. Auk þessa fólks kom stór hópur listamanna bæði


30

frá Sovétríkjunum, Evrópu og Ameríku til að halda tónleika á vegum Tónlistarfélagsins. Er þá ótalið tónleikahald á vegum félagsins, bæði með Hljómsveit Reykjavíkur, Samkór Tónlistarfélagsins, óperu- og óperettusýningar, tónleika á vegum Tríós Tónlistarskólans og ótal margt annað sem félagið stóð fyrir. Enn er ónefndur rekstur kvikmyndahúss, sem átti eftir að gefa félaginu heilmiklar tekjur á komandi árum.

Fyrsta óperettan

Til að afla Tónlistarskólanum rekstrarfjár, beitti Tónlistarfélagið sér m.a. fyrir því at færa upp óperettu. Fyrir valinu varð "Dreimäderlhaus" – sem fékk íslenska titilinn Meyjarskemman. Þetta var árið 1934 og var það um leið í fyrsta sinn sem slíkt verk var fært upp hér á landi. Úr þessu má lesa hvílíkar framfarir höfðu orðið í músíklífi Reykjavíkur undanfarin 10 ár. Um aldamótin mátti telja á fingrum annarrar handar þá sem "leikið gátu" á fiðlu, og það vakti m.a. undrun og furðu almennings þegar Rósenbergkjallarinn hóf að skemmta gestum sínum með fiðluleik. Tónlistarélagið átti eftir að beita sér fyrir flutningi fjölda slíkra verka bæði í Reykjavík og einnig úti á landsbyggðinni. Þetta starf skóp m.a. hljómsveitinni skemmtileg verkefni að glíma við.

Í hljómsveitinni, sem lék undir í óperettunni, voru 20 hljóðfæraleikarar úr Hljómsveit Reykjavíkur undir stjórn Franz Mixa en leikstjóri var Ragnar Kvaran sem að auki lék eitt aðalhlutverkið, þ.e. gleðimanninn Schober. Aðrir sem voru í helstu hlutverkum voru Kristján Kristjánsson, Gestur Pálsson, Jóhanna Jónsdóttir, Salbjörg Thorlacius, Elín Júlísdóttur, Sigurður Markan, Erling Ólafsson, Nína Sveinsdóttir, Óskar Guðnason og Gunnar Guðmundsson. Þessum sýningum var forkunnarvel tekið og þótti mikil framför í tónlistarlífi bæjarins.

Fyrsta íslenska óperettan

Árið 1944 stóð Tónlistarfélagið fyrir sýningu á fyrstu íslensku óperettunni. Var það verkið Í álögum eftir þá Sigurð Þórðarson, sem samdi tónlistina, og Dagfinn Sveinbjörnsson sem fléttaði saman textann.

    Efni þessarar fystu íslenzku óperettu er sótt tvær aldir aftur í þjóðlífið, þegar einokun og önnur óáran hafa þjáð þjóðina og lamað orku hennar, en fyrstu glætu viðreisnar og vakningar bregður fyrir. Inn í söguþráð leiksins er ofið ýmsum þjóðsögum og fyrirbrigðum liðinna tíða, og þó að efnið sé hvorki staðfært né tímabundið í sögunni, má telja það táknrænt um baráttu þjóðarinar við hin illu öfl og sigur hennar á 19. öld með vakningu Fjölnismanna, er þá koma fram. (51)

Hér var um viðburð að ræða í tónlistar- og leiklistarlífinu. Í leikskránni skrifaði Haraldur Björnsson leikari m.a.: "Árið 1929 bauð ég í fyrsta skipti Leikfélagi Reykjavíkur óperettu til


24 Útvarpstíðindi: 6. árg., 6.-20. maí 1944.


31

sýningar, en þá voru ástæðurnar þannig í tónlistarmálunum, að ekki var hægt að ráðst í að sýna hana vegna vöntunar á samæfðri hljómsveit". (52) Það var samstarfið við Leikfélag Reykjavíkur sem gerði þessar uppfærslur mögulegar. Talið var að leiksviðið hafi verið eitt það fegursta sem þá hafði verið skapað í íslenskri leiksögu. Mjög góð aðsókn var að óperettunni og vakti hún mikla athygli. Skemmtilegt er að hugsa til orðanna á forsíðu Fálkans þar sem birt er mynd af leiksviðinu undir fyrirsögninni Álfahöll - - - Tónlistarhöll. Í textanum segir m.a.

    En því oftar, sem leikurinn fyllir húsið, því styttra verður þangað til tónlistarhöllin kemst upp, því að til hennar rennur ágóðinn af sýningum. Það er því tengsl milli álfa- og tónlistarhallarinnar. (53)

Í íslenskum álfasögum talar maður gjarnan um að álfheimur sé mönnum ósýnilegur. Vera má að tónlistarhöllin sé risin - en þá er það í álfheimum.

Tónlistarfélagskórinn

4. nóvember árið 1943 var haldinn stofnfundur félagsins Samkór Tónlistarfélagsins á heimili Ólafs Þorgrímssonar hrl. að Víðimel 63 í Reykjavík. Í 2. grein laga fyrir félagið segir svo:

    Tilgangur félagsins er fyrst og fremst að flytja úrvalstónverk sígildra eða nútímameistara fyrir kóra og hljómsveit og að kynna hin bestu íslensku tónverk, sem fram koma á þessu sviði. (54)

Undir lög félagsins skrifuðu með eigin hendi 55 stofnfélagar. Söngstjóri kórsins var Victor Urbancic. Þessi kór var að vissu leyti sjálfstæð stofnun þótt hann væri stofnaður að tilhlutan Tónlistarfélagsins þar sem hann hafi sín eigin lög og sjálfstæða stjórn. Á aðalfundi Tónlistarfélagsins hafði hr. Ólafur Þorgrímsson verið kosinn formaður kórsins. Var hlutverk hans að starfa sem tengiliður milli kórsins og Tónlistarfélagsins. Í fyrstu aðalstjórn kórsins voru kosnir Sigfús Halldórsson og Sigríður Þorsteinsdóttir. Einnig skipaði kórinn með sér sérstaka raddstjóra. Aðalstjórnin var skipuð þremur mönnum, eins og kvað á um í 4. grein laganna, en þar segir að félagið kjósi 2 menn í stjórn en Tónlistarfélagið einn mann og sé hann jafnframt formaður.

Kórinn hafði heimild til að starfa sjálfstætt, en skuldbatt sig jafnframt til að flytja ýmis verk á vegum Tónlistarfélagsins. 5. 6. og 7. grein félagsins hljóðuðu þannig:

    § 5
    Tónlistarfélagið leggur félaginu til söngstjora, endurgjaldslaust, og heldur uppi kennslu fyrir meðlimi kórsins í nótnalestri og öðru sem að söng lýtur, eftir því sem við verður komið.


52 Vikan: 4. maí 1944.
53 Fálkinn: 19. maí 1944.
54 Úr gerðabók Samkórs Tónlistarfélagsins.


32

    § 6
    Verkefnum kórsins ræður söngstjóri í samráði við stjórnina, nema þegar sungið er fyrir Tónlistarfélagið, þá ræður stjórn þess í samráði við söngstjóra.

    § 7
    Heimilt er félaginu að halda sjálfstæða hljómleika eða á annan hátt að koma fram sérstaklega ef fulltrúi Tónlistarfélagsins í stjórninni og söngstjóri samþykkja, og á félagið sjálft allan afrakstur af slíkri starfsemi.

Klausan "ef fulltrúi Tónlistarfélagsins í stjórninni og stöngstjóri samþykkja" segir nokkuð um stöðu kórsins. Það var hefð í Tónlistarfélaginu að enginn sem ráðinn var á vegum Tónlistarfélagsins (Tónlistarskólann, Hljómsveit Reykjavíkur, kórinn o.s.frv. ) hefði heimild til að vinna fyrir aðra án leyfis Tónlistarfélagsins. Þetta þýddi, að engar ákvarðanir voru teknar á vegum kórsins – og þar með alls tónlistarlífsins – nema með heimild Tónlistarfélagsins. Það "átti" fólkið! Síðar kom í ljós að nokkrir kennaranna við Tónlistarskólann unnu næstum helming vinnu sinnar án launa. Þeir urðu að kenna svo og svo marga tíma á viku sem skilgreint var sem heil staða, en allt sem hét hljómfræði- og sögukennsla og samspil var ekki skilgreint sem "launuð vinna". Einnig upplifðu þeir að vera sendir út á vegum Tónlistarfélagsins að vinna verkefni sem ekkert hafði með stöðu þeirra að gera, svo sem að taka til, og planta blómum og trjám á byggingarlóð Tónlistarfélagsins þar sem til stóð að byggja tónlistarhöll (sjá nánar kaflann um Tónlistarhöll í Reykjavík).

Á fyrst fundi kórsins tilkynnti söngstjóri að farið yrði hægt af stað, en síðar yrði ráðist í stærri verkefni. Strax á öðru starfsári kórsins var hafist handa við að æfa Jólaóratorínuna eftir Bach, og hafði flutningur á henni bæði sögulegt og menningarlegt gildi. Síðar var Jóhannesarpassían flutt, og vann Urbancic það stórvirki að setja íslenskan texta við passíuna, þ.e. texta úr Biblíunni, við resitatívin og nokkra sálma úr Passíusálmum Hallgríms Péturssonar við kóralana. Þetta hafði mikið gildi fyrir tilheyrendur því fólk skildi um hvað textinn fjallaði. Ennþá meira gildi hafði það fyrir fólk úti á landsbyggðinni því tónleikunum var útvarpað og gat því fólk betur fylgst með bæði tónlist og texta.

Samkór Tónlistarfélagsins undir stjórn Victors Urbancic átti síðar eftir að vinna mörg stórvirki í íslenskri tónlistarsögu á þessari öld. Kórinn hélt marga tónleika í Reykjavík, og einnig úti á landsbyggðinni í þau mörgu ár sem hann starfaði. Einnig er fræg utanlandsför kórsins á Norrænu Tónlistarhátíðina í Kaupmannahöfn árið 1948. Ein fræknasta ferð kórsins innanlands var þegar kórinn fór með Ms.Heklu til Vestmanneyja á hvítasunnunni árið 1950 til að heimsækja Samkór Vestmannaeyja.

Mikil áhersla var lögð á félagslega samveru meðlima kórsins og margt gert til að vekja samhug allra aðila. Hópurinn fór í margar skemmtiferðir út úr höfuðborginni og hélt einnig margar skemmtanir undir ýmsum heitum. Eitt var Sumarnæturvaka sumarið 1950. Einnig var haldin Bassavakt sama haust og síðar Sópranvakt og fleira í þeim dúr. Með þessum


33

heitum var átt við að þessar raddir sæju um hverja skemmtun. Skemmtanirnar voru haldnar til að afla kórnum fjár.

Á Pálmasunnudag árið 1950 flutti kórinn Jóhannesarpassíu Bachs í Fríkirkjunni með hinni nýju sinfóníuhljómsveit Ríkisútvarpsins. Hinn félagslegi andi sem ríkt hafði svo lengi í tónlistarlífinu fór smám saman dvínandi, þ.e. viðhorfið til tónlistarflutnings var ekki aðeins á félagslegum grunni, heldur var það einnig farið að færast yfir á svið atvinnumennskunar, og einstaklingar sem höfðu atvinnu sína af tónlistarflutningi voru farnir að fá greitt fyrir vinnu sína.

Sú staða kom bersýnilega í ljós við flutning á Jóhannesarpassíunni. Eins og kvað á í lögum kórsins mátti hann halda sjálfstæða tónleika í eigin fjáröflunarskyni. Það var einnig ætlun kórsins með þetta verk, þ.e. að það yrði flutt tvisvar á vegum Tónlistarfélagsins og svo einu sinni til ágóða fyrir kórinn. En nú voru komnin ný viðhorf, þ.e. það þótti ekki fjárhagslega hagkvæmt að flytja verkið oftar en einu sinni. Um þetta er fjallað lítilsháttar í gerðabók kórsins:

    Hann [Þorsteinn Sveinsson]sagði að eins og menn vissu hefði þetta tónverk verið flutt aðeins einu sinni, í stað þess að allir hefðu álitið að flytja ætti verkið oftar a.m.k. þrisvar, og þar af einu sinni fyrir Tónlistarkórinn sjálfan til ágóða fyrir starfsemi hans. Nú hefði hinsvegar svo tekist til að Tónlistarfélagið og Sinfóníuhljómsveitin sem sá um flutning verksins með aðstoð Tónlistarfélagskórsins, hefði eigi verið fáanleg til þess að flytja verkið oftar, þar sem sá boðskapur sem verkið flytti ætti aðeins heima til flutnings í páskavikunni og auk þess væri það dýrt að uppfæra verkið að vafasamur væri hagnaður af því ef ekki með öllu tap fullvíst og í það áhættuspil vildi Tónlistarfélgagið, Sinfóníuhljómsveitin og Útvarpið eigi leggja. (55)

Á þessu má sjá hverjir það voru sem á þessum tíma réðu öllum meiriháttar tónlistarflutningi í Reykjavík. Voru það Tónlistarfélagið og Útvarpið. Kórmönnum þótti komið aftan að sér í þessu máli. Þeir höfðu fengið leyfi biskups og lögreglustjóra til að flytja verkið alla páskadagana en ekki var vilji fyrir hendi hjá hinum aðilunum til að flytja verkið aftur.

Þetta dró þó á engan hátt kjarkinn úr kórmönnum, og var starfsemi kórsins sjaldan eins lífleg og árið 1950. Þar má nefna uppfærsluna á Jóhannesarpassíunni, ferðin til Vestmanneyja, Sumarnæturvöku í Sjálfstæðishúsinu, Bassavaktina í Iðnó auk 7 stjórnarfunda, 3 almennra funda og eins skemmtifundar. Starf þessa kórs hafði því ekki aðeins músíkalskt gildi fyrir meðlimi hans, heldur var hann mikilvægur félagslegur vettvangur fyrir fólkið.

Meðal stórra afreka kórsins, bæði fyrir formlega stofnun hans og eftir, þá flutti söngfólkið í samstafi við Tónlistarfélagið Sköpunin eftir Haydn í bifreiðaskála Steindórs fyrir um 1500 áheyrendur undir stjórn Páls Ísólfssonar. Undir stjórn Urbancic flutti kórinn m.a. Messías


55 Gerðabók Tónlistarfélagskórsins; Almennur fundur 17. apríl 1951.


34

eftir Händel, Jóhannesarpassíuna og Jólaóratoríuna eftir Bach, Requiem eftir Mozart, Judas Maccabeus eftir Händel og einnig verkið Friður á Jörðu eftir Björgvin Guðmundsson. Segja má að þessi kór hafi flutt flest helstu stórverk hinna klassísku verka fyrir kór og hljómsveit og teljist því brautryðjandi í flutningi slíkra verka á Íslandi.

Starfsemi Tónlistarfélagsins var ekki alltaf auðveld. Í fyrstu var félagið til húsa í Hljómskálanum, sem var óhentug bygging með tilliti til kennslu, á sama tíma og önnur starfsemi fór fram í húsinu. Þá var gripið til þess ráðs að fá 3 herbergi í Þjóðleikhúsinu sem þá var í byggingu. Félagið notaði þó nokkurt fé til að innrétta þau herbergi. Nú var í fyrsta sinni sæmileg aðstað til æfinga og kennslu. Í upphafi stríðsins var Þjóðleikhúsið ein af fyrstu byggingunum sem breska herliðið lagði hald á, og þar með aðstöðu Tónlistarfélagsins og allar fjárfestingar þess. Eina húsnæðið sem hægt var að fá aðgang að til tónleikahalds í Reykjavík voru kvikmyndahús og olli því að oft voru haldnir tónleikar seint á kvöldin að loknum kvikmyndasýningum, sem var afar óhentugt. Vegna þessa hófst um 1940 sú umræða af alvöru að Tónlistarfélagið hæfi byggingu tónlistarhallar í Reykjavík. Skal það nú rakið stuttlega.

Tónlistarhöll í Reykjavík

    Aðeins eitt af samkomuhúsum bæjarins er nothæft til hljómleikahalds. Fram að hernáminu var sæmilega greiður gangur að því til þessara nota. En nú orðið er varla um annan tíma að ræða til hljómleikahalds en klukkan hálf tólf að kvöldi, þar sem starfsemi eigenda hússins krefst alls annars tíma. Með þessu er fjölda manns bægt frá því að sækja hljómleika. Jafnvel þótt engu af þessu hafi verið til að dreifa, þá eru það fleiri en Tónlistarfélagið, sem alið hafa þá von í brjósti, að höfuðstaðurinn eignaðist sem fyrst glæsilega sönghöll, sem orðið gat miðstöð íslenzks tónlistarlífs... Það sama ástand sem svift hefur okkur húsnæði til daglegrar starfsemi og hljómleikahalds og torveldað alla starfsemi okkar hefur samtímis margfaldað peningaveltu landsmanna og fært ýmsum einstaklingum ótrúlegar upphæðir fjár. (56)

Nokkrar byggingar á Íslandi hafa ekki eingöngu orðið þekktar fyrir tilgang sinn og starfsemi þá sem þar fer fram innan dyra. Þær hafa einnig fengið rúm í sögu okkar fyrir þá sök hversu langan tíma hefur tekið að byggja þær. Misjafnlega hefur verið hlúð að listgreinum í landinu hvað varðar aðstöðu til að framfæra listina. Leiklistin fékk sína höll árið 1950 við byggingu Þjóðleikhússins og svo síðar við stórbyggingu Leikfélags Reykjavíkur, og enn áður Iðnó. Myndlistin hefur fengið Kjarvalsstaði og Listasafn ríkisins auk margra annarra smærri sala. Tónlistin hefur fengið... EKKERT!

Árið 1940 flutti Páll Ísólfsson erindi í Ríkisútvarpið og birtist tilvitnun úr því í grein í Vísi. Í henni sagði m.a.:


56 Bréf úr safni Tónlistarfélagsins frá því í nóvember 1941.


35

    Það er mikið talað um, sem vonlegt er, að allt beri að gera til að varðveita þjóðerni og tungu. Um það þarf ekki að fjölyrða; það er sjálfsagt: Þess vegna þarf nú meðal annar að byggja yfir listirnar og söfnin. Við höfum ekki efni á því, að láta listaverkin grotna niður. Við höfum heldur ekki efni á, að vera lengur svo fátæk í þessum greinum, að margt af því allra bezta, sem býr með þjóðinni, fái ekki notið sín, vegna húsnæðisskorts. Þess vegna ætti nú að hefjast handa og byggja höll fyrir listirnar á góðum stað, sem bærinn gæfi. Höll þessi geymdi Þjóðminjasafnið og Myndasafnið, sem óðum er að stækka. Þarna ættu að vera minnsta kosti tveir salir til tónleikahalds, annar stór og hinn minni, og þarna mætti gjarna vera tónlistarskóli og myndlistarskóli, og ef til vill fleira. Eins og "vísindin efla alla dáð", eins gera listirnar það. Háskólinn, höll vísindanna, er risinn af grunni. Höll listanna verður líka að rísa, voldug og glæsileg." (57)

Orð Páls voru töluð á þeim tíma sem stríðsgróðinn var að flæða inn í landið (eins og bent er á í tilvitnun í bréfið frá Tónlistarfélaginu). Á þeim tíma sem hlutabréf, er varla höfðu verið "tombólutæk", fengust ekki lengur fyrir tífalt nafnverð. Þeir, sem áður höfðu þurft að margtjasla saman skóreimum, gengu nú um á lakkskóm.

Það sem olli áhyggjum – svo sem reyndin var – að gróðinn fór á fáar hendur og var þetta kærkomna tækifæri stundargróðans ekki nýtt til að beina fé einnig í menningu og listir. Í lok greinarinnar í Vísi segir:

    Efling íslenzkra lista á að vera einn ríkasti þátturinn í þjóðernisbaráttu okkar. Aldrei hefir verið auðveldara en nú að sýna þann skilning í verki. Þess vegna skulum við öll taka undir við Pál og strengja þess heit, að reisa hér listahöll, sem samboðin sé þeim hæfileikum, er þjóðin býr yfir.

Umræðunni var ekki lokið hér; hún var rétt að fara í gang - og er enn í gangi. En það var einnig þá – eins og oft þegar Páll sló einhverju fram í erindi, viðtali eða grein – sem eitthvað fór í gang. Umræðan hélt áfram, vonin um að eitthvað gerðist jókst og almenningur gerði ýmislegt til að svo mætti verða. Sem dæmi má nefna er það að í janúar 1944 hélt Samkór Reykjavíkur söngskemmtun í Reykjavík og gaf allan ágóðann af tónleikunum til byggingar tónlistarhallar í bænum. Einnig munu ýmsir aðrir kóra, hljóðfæraleikarar og einsöngvarar hafa lagt til sitt framlag.

Árið 1944 var gert sérlegt átak á vegum Tónlistarfélagsins til byggingar tónlistarhallar í Reykjavík. Hafist var handa við heildarútgáfu á verkum Hallgríms Péturssonar og kom fyrsta heftið út það ár, Passíusálmarnir (52. útgáfa á 277 árum). Lítið heyrðist um þessi mál næstu árin. Þó tóku menn gleði sína aftur við byggingu Þjóðleikhússins, en eins og rakið er í kaflanum um Sinfóníuhljómsveitina, þá varð það skammgóður vermir.

Árið 1958 tilkynnti Tónlistarfélagið á blaðamannafundi að það hyggðist ráðast í byggingu tónlistarhallar. Þar var ljóst að markmiðin sem Páll Ísólfsson talaði um tæpum 20 árum áður


57 Vísir: 20. október 1941.


36

voru orðin heldur léttvægari. Ekki var þarna um að ræða neina tónlistarhöll, heldur nýtt húsnæði fyrir Tónlistarskólann í Reykjavík, með stórum tónleikasal. Sama ár kom út þriðja og síðasta bindi í heildarútgáfu á verkum Hallgríms Péturssonar á vegum félagsins, það er Sálmar og hugvekjur.

Tónlistarfélagið hafði þá þegar yfir að ráða dálitlu fjármagni til að hefja bygginguna, en langt í frá nægilegt til að ljúka henni. Hugmyndir voru um að Hljómsveit Tónlistarskólans, sem stofnuð hafði verið árið 1943 af Birni Ólafssyni, fengi aðstöðu í kjallara byggingarinnar. Hún hafði nú fengið þennan titil – hét áður Nemendahljómsveit Tónlistarskólans – með það í huga að einnig fyrrverandi nemendur eða aðrir gætu leikið þar með. Tónlistarfélagið hafði fengið úthlutað lóð á Grensásvegi, á mótum Grensásvegar og Suðurlandsbrautar, til að byggja "höllina", en ekkert varð úr þeim áformum. Engin spurning var að þörfin væri mikil á slíku húsnæði. Sinfóníuhljómsveitin hafði heldur engan samanstað fyrir starfsemi sína og starfaði t.d. á mörgum stöðum í bænum og greiddi háa húsaleigu.

Draumurinn um 1000 manna áheyrendasal varð þó að veruleika í Reykjavík árið 1961. Háskóli Íslands hafði á sama tíma áform um að reisa tónlistarhöll og kvikmyndahús. Byrjað var á grunni hússins í september 1958, og var það hús tekið í notkun á 50 ára afmæli skólans haustið 1961. Háskólabíó varð frá þeim tíma heimili Sinfóníuhljómsveitar Íslands og má nærri geta hvílíkur aðstöðumunur þetta varð fyrir hljómsveitarmenn. Húsnæðið er um 1800 m2 og tekur um 1000 áheyrendur í sæti. Hefur það síðan verið neyðarlausn Sinfóníuhljómsveitarinnar. Fljótlega eftir að húsið var tekið í notkun hófst mikil umræða um hljómburð þar, og hefur svo verið nokkuð reglulega síðan. Ýmsar endurbætur hafa verið gerðar, en húsið er byggt sem kvikmyndahús og því eru takmarkaðir möguleikar á því hvað hægt er að gera í hljómburðarmálum. 1968 voru gerðar heilmiklar breytingar á sviði bíósins og fenginn til landsins hljómburðarsérfræðingur til ráðgjafar. Árið 1970 vor tilkvaddir – vegna ítrekaðra kvartana bæði hljómsveitarmanna og hlustenda – ýmsir menn til að gefa skriflegt álit sitt á þessum breytingum. Niðurstöðurnar voru í stuttu máli þær að húsið væri óhæft til tónlistarflutnings. Nú mun það talið "nothæft".

Tónlistarfélagið reisti árið 1963 stórhýsi – á þeirra tíma mælikvarða – undir starfsemi Tónlistarskólans í Skipholti í Reykjavík, þar sem hann er enn til húsa. Allan tímann hefur verið rekið kvikmyndahús á neðri hæðinni en starfsemin skólans verið á hinni efri. Kvikmyndasýningar hafa gefið félaginu miklar tekjur um árabil, og hafði það til margra ára einkarétt á sýningum á kvikmyndum ýmissa helstu bandarísku kvikmyndaframleiðandanna.

Tónlistarfélagið gafst ekki upp. Tíu árum síðar eða upp úr 1970 hafði Tónlistarfélagið uppi fyrirætlanir um að byggja tónleikahöll við Sigtún í Reykjavík. Þar skyldi vera tónleikasalur sem tæki um 1000 manns, kvikmyndasalur sem tæki um 500 manns og kammermúsíksal fyrir um 300 áheyrendur. Ástæðan var sú að húsnæði Tónlistarskólans í Reykjavík var löngu orðið of lítið. Þessi tónlistarhöll átti einnig að hýsa starfsemi Tónlistarskólans. Til er líkan af þessu húsi, en á lóðinni stendur nú hótel og aðrar byggingar. Upp úr 1980 komst


37 (Síða 38 er auð)

þessi umræða aftur í gang og er nú í dag á því stigi að íslensk stjórnvöld hafa látið hafa það eftir sér að næsta stórframkvæmd í þágu menningarbyggingar í landinu verði Tónlistarhús. Tónlistarmenn og velunnarar þessa málefnis hafa því nú um þessar mundir unnið að því að safna fé meðal almennings í yfir 50 ár til að reisa hús er sæmdi tónlistinni. Málið hefur komið upp nokkuð reglulega á u.þ.b. áratugs fresti allan þennan tíma þannig að ekki er enn vonlaust að ætla að húsið verið tekið í notkun árið 2000, ef sú umræða sem nú er í gangi verður að veruleika – 60 árum eftir að hún hófst.


Vefarinn
Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Sett upp 1. des. 1998