Tónlist á Íslandi á 20. öld. Copyright © 1998: Bjarki Sveinbjörnsson 1. des. 1998

Hjálmar H. Ragnarsson
Svartálfadans
Nocturne

Snorri Sigfús Birgisson
Ad arborem inversam

Til bakaEfnisyfirlit Áfram

Síða 267 - 272
Hjálmar H. Ragnarsson

Hjálmar H. Ragnarsson (1952-)

Þó svo að tónskáldið Hjálmar H. Ragnarsson sé þekktur á Íslandi fyrir aðra tegund tónlistar en elektróníska tónlist, þá var hann mjög upptekinn af henni mikinn hluta 8. áratugarins. Það er því dálítið sérstakt að ekki hafa heyrst eftir hann opinberlega nema tvö elektrónískt verk, það fyrra í fyrsta sinni á tónskáldakvöldi á Ísafirði árið 1975 og það síðara ekki fyrr en á Erki-Tíðar hátíðinni árið 1994.

Hjálmar kemur frá Ísafirði sem hefur dálitla sérstöðu meðal lítilla íslenskra sveitarfélaga fram eftir öldinni hvað varðar tónlistarlíf. Faðir Hjálmars, Ragnar H. Ragnars hélt uppi blómlegu tónlistarlífi í áratugi, og þar áður Jónas Tómasson. Frá Ísafirði hafa einnig komið nokkur tónskáld sem sett hafa svip sinn á íslenskt tónlistarlíf eins og Jónas Tómasson eldri og Jónas Tómasson yngri, ásamt Hjálmari.

Hjálmar valdi 17 ára að flytjast til Reykjavíkur til framhaldsnáms í menntaskóla (355) þar sem þar voru betri tækifæri til frekara píanónáms en á Akureyri, en hefð var fyrir því að nemendur úr þessum landshluta færu í menntaskóla á Akureyri. Strax að loknu stúdentsprófi bauðst Hjálmari styrkur til framhaldsnáms í Bandaríkjunum, við Brandes háskólann í Massachusetts haustið 1972. Þar stundaði hann nám í píanóleik og fræðagreinum, og um leið í tónsmíðum. Lauk hann þar B.A. prófi vorið 1974. Við háskólann var lítið elektrónískt stúdíó og átti það hug Hjálmars allan.

    Ég sökkti mér fljótt í þessa nýju tækni og var eins og allar gáttir opnuðust í huga mínum. Það var ótrúlega heillandi að búa til ný hljóð sem maður hafði aldrei heyrt áður og ekki dreymt um að væru til og ekki síður að geta sjálfur formað þessi hljóð á þann hátt sem mér sýndist. Þarna hófst ástarsamband mitt við raftónlistina sem stóð meira og minna til ársins 1980. Með hana að leiðarljósi má segja að ég hafi stigið mín fyrstu skref á tónsmíðabrautinni, en mín fyrstu verk urðu einmitt til þarna á árunum 1973 og 1974. (356)

Háskólinn var nokkuð vel búinn elektrónískum tækjum, þ.e. Buchla og ARP hljóðgerflum ásamt fjölrása segulbandstækjum. Á þessum árum var komið á markað úrval hljómplatna með elektrónískri tónlist og hlustaði Hjálmar mikið á þær.

Þrátt fyrir mjög strangt nám í hefðbundnum greinum tónlistar gafst Hjálmari æ meiri tími til að sinna hinni elektrónísku tónlist. Þar sem námið var strangt, bæði að læra að meðhöndla tækin og svo hljóðeðlisfræðin, þá gafst ekki mikill tími til tónsmíða, enda ekki endilega


355 Á þeim árum var aðeins hægt að taka fyrsta bekk menntaskólanámsins á Ísafirði.
356 Viðtal í Bæjarins besta á Ísafirði, 3. nóvember 1993.

268

markmiðið á þeim tíma að verða tónskáld. Þó urðu til nokkur skólaverkefni sem orðið hafa gleymskunni að bráð.

Svartálfadans (Segulbandsverk – 1975)

Dæmi 73

Þetta verk er eina elektróníska verkið sem til er frá námsárum Hjálmars við Brandes háskólann. Verkið byggir á samnefndu ljóð eftir Stefán Hörð Grímsson ljóðskáld (dæmi 73). (357)

Hljóðefni verksins byggist m.a. á því að Hjálmar les upp kvæðið. Einnig er þar að finna ýmis hljóð sem hann bjó til á Buchla hljóðgerfilinn og brot úr tónverki eftir Ravel. Hljóðin eru svo unnin í tækjum stúdíósins eins og það bauð upp á á þeim tíma.

Verkið hefur verið leikið tvisvar sinnum opinberlega á Íslandi. Fyrst var það leikið á tónlistarkvöldi sem kennarar við tónlistarskólann á Ísafirði héldu þar í bæ árið 1975 (dæmi 74). Að öllum líkindum var það í fyrsta skipti sem elektrónísk tónlist er leikin á tónleikum utan Reykjavíkur. Verkið var flutt öðru sinni á Norrænum músíkdögum, á sérstökum raftónleikum sem haldnir voru í Norræna húsinu í Reykjavík 24. júní árið 1976, ásamt verkum nokkurra annarra norrænna tónskálda. Var þetta líklega í fyrsta sinni sem elektrónísk tónlist var flutt frá því ISCM-hátíðin var haldin árið 1973. Eru þessir tónleikar einnig merkilegir fyrir þá sök að þetta var í fyrsta skipti sem verk heyrðist eftir Hjálmar opinberlega í Reykjavík

Á árunum 1974-76 starfaði Hjálmar sem kennari við Tónlistarskóla Ísafjarðar. Árið 1976 hélt hann til Hollands í eins árs nám við Instituut voor Sonologie í Utrecth. Þar hafði dvalist við nám einn Íslendingur áður (ef frá er talinn Atli Heimir Sveinsson sem dvaldi þar mörgum árum áður), Gunnar Reynir Sveinsson, en síðar lögðu fleiri Íslendingar leið sína þangað til tónlistarnáms.

Þessi stofnun var – og er enn – virt elektrónísk kennslustofnun. Meðal kennara sem Hjálmar sótti tíma hjá voru stór nöfn í hinum elektróníska heimi, þ.e. Paul Berg, Kaegi, Koenig og Tempelaars – allt nöfn sem slá má upp í fræðibókum um elektróníska tónlist. Námið var


337 Kom út í ljóðabók með sama heiti árið 1951.

269

erfitt, fagið ekki einfalt og kröfurnar miklar. "Ætli ég hafi bara ekki "étið yfir mig" af raf- og tölvuhljóðum þennan hálfgeggjaða vetur í Hollandi," (358) segir Hjálmar um nám sitt þar ytra.

Nocturne (Segulbandsverk – 1977 – 17:50)

Þrátt fyrir að til hafi orðið nokkur verk í Hollandi þennan vetur þá er þetta verk stærst þeirra og um leið helsta elektróníska verk Hjálmars. Verkið er hugsað í þaula.

    Ég var orðinn hundleiður á þessum hálfimpróvíseruðu hljóðverkum þar sem maður getur bókstaflega séð fyrir sig feiderana (sleðana) hreyfast hægt upp og niður um leið og draugaleg reverb-hljóðin laumast inn og út úr hljóðmassanum, og var ég ákveðinn í að gera eitthvað allt annað. (359)

Upphafleg hugmynd að verkinu varð til við stúdíur í dramatískri sögu vestrænna vísinda og um leið hinu forna drúidíska trjástafrófi. (360)

    Í þessu stafrófi eru þrettán stafir sem hver er tengdur heiti á ákveðinni trjátegund: B (Beth), L (Luis), N (Nion), F (Fearn), S (Saille), H (Uath), D (Duir), T (Tinne), C (Coll), M (Muin), G (Gort), NG (Ngetal) og R (Ruis). Ég hljóðritaði lestur þessara heita á segulband, "demoduleraði" upptökurnar og notaði síðan styrkgröf (amplitude envelopes) þessara upplesnu orða til þess að stýra lögun allra þeirra hljóða sem heyrðust í verkinu, þ.e. í elektróníska hluta þess – rafhljóðin í verkinu taka sem sagt styrklögun sína af styrklögun orðanna! Með þessu móti losnaði ég við hinar hvimleiðu feiderinnkomur og útkomur. Ég notaði upptökurnar á þessum orðum bæði fram og afturábak og í einum tveimur eða þremur mismunandi hröðum. Reglan var sú að ég notaði aðeins "umslög" af einu orði í senn en verkinu var skipt í 13 nákvæmlega jafnlanga kafla (hver þeirra 84 sekúndur, verkið alls 1092 sekúndur, eða 18 mín. og 12 sek.) og sem sagt hver þeirra einkenndur af sínu einkennisorði, – fyrsti kaflinn: Beth, annar: Luis, etc. Hlutfall þagna og hljóða er útpælt fyrir hvern kafla og vann ég með það sem ég kallaði "sound/silence ratio". Verkið er á fjórum rásum og reiknaði ég nákvæmlega út hvernig hljóðin dreifðust á hverja rás fyrir sig og á köflum eru í verkinu hinar flóknustu "rýmisfúgur" ...þ.e. hljóðin hreyfast á milli hátalara í endurtekningum og umbreytingum eins og raddir elta hverja aðra í fjölradda tónverkum. (361)

Upphaflega hafði tónskáldið hugsað sér að verkið væri annars vegar elektrónískt og hins vegar fyrir flautu og mezzósópran, (362) í 13 köflum (hinn elektróníski) og 12 köflum (hinn "lifandi") og skyldu þeir aðeins vera samtaka í upphafi og endi. Nákvæmri útfærslu á flautu og sópranhlutanum er ekki lokið og hefur verkið því aldrei verið flutt eins og upphaflega var


358 Úr löngu bréfi höfundar til mín um nám sitt í elektrónískri tónlist.
359 Sama.
360 Sjá nánara um hin fornu keltnesku trúarbrögð á veraldarvefnum: http://www.reed.edu/~kday/druid.html eða http://www.raccoon.com/~aiko/druid.html. Drúidar voru keltneskar þjóðir Vestur-Evrópu og Bretlandseyja.
361 Úr löngu bréfi höfundar til mín um nám sitt í elektrónískri tónlist.
362 Höfundur hafði í huga Manuelu Wiesler flautuleikara og Rut Magnússon söngkonu.

270

ætlunin. En elektróníski hlutinn, sem höfundur kallar "Sounds and Silences", var frumfluttur á Erki-Tíðar hátíðinni í Reykjavík árið 1994.

Haustið 1977 fluttist Hjálmar að nýju til Bandaríkjanna og innritaðist í Cornell háskólann í New York. Þaðan lauk hann MFA (Master of Fine Arts) prófi árið 1979, og fjallaði lokaritgerð hans um tónlist Jóns Leifs. Þar sem rafstúdíóið í Cornell var afar ófullkomið, einkum þó fyrir Hjálmar eftir Hollandsdvölina, ýtti hann þeim vangaveltum til hliðar og hefur ekki sinnt elektrónískum tónsmíðum síðan.

Allar tilraunir á Íslandi í þá átt að stofna elektrónískt stúdíó höfðu legið niðri um árabil, (363) enda lítill áhugi meðal ráðamanna að koma á fót slíkri stofnun, einkum vegna kostnaðar. Eftir heimkomuna árið 1980 tók Hjálmar upp þráðinn að nýju og vann að því að stofnað yrði elektrónískt stúdíó á Íslandi og hafði þá m.a. í huga aðstöðu í húsakynnum STEFs, og þá um leið í samvinnu við Háskóla Íslands.

Þessari tilraun tókst ekki að fylgja eftir frekar en öðrum slíkum sem fram komu á árunum á undan, einkum vegna fjárskorts svo og annarra verkefna sem hlóðust upp. Lítil glæta í myrkrinu var þó vísir að tónsmiðju fyrir raftónlist, einskonar dvegstúdíó sem Tónmenntaskólinn kom á fót í kringum 1980, og var Hjálmar Ragnarsson fyrsti kennarinn þar. Að lokum kom þó aðstöðuleysið á Íslandi í veg fyrir frekari þróun í elektrónískri tónsköpun sem hjá fyrirrennurum hans sem fjallað hefur verið um hér að framan.


363 Sjá kaflann um "Elektróníska tónlist á hátíðum".

271

Snorri Sigfús Birgisson

Snorri Sigfús Birgisson (1954-)

Snorri Sigfús Birgisson er eitt þeirra íslensku tónskálda sem eingöngu hafa samið eitt elektrónískt verk en að öðru leyti lítið kannað möguleika tækninnar. Andstætt öðrum íslenskum tónskáldum sótti hann menntun sína til Norðurlandanna, var eitt ár í Noregi og sótti tíma í tónsmíðum hjá Finn Mortensen. Á því ári sótti Snorri einnig tíma í raftónlist og sónólógíu hjá Lasse Thoresen og Olav Anton Thommessen.

Snorri er úr hópi þeim ungra tónlistarmanna sem stunduðu nám í Tónlistarskólanum í kringum 1970 og voru mjög áberandi innan skólans – Karólína Eiríksdóttir, Edda Erlendsdóttir, Þorsteinn Hauksson o.fl. Hann stundaði píanónám í Tónlistarskólanum og lauk þaðan einleikaraprófi árið 1974. Einnig stundaði hann nám í tónsmíðum hjá Þorkeli Sigurbjörnssyni. Snorri fór í framhaldsnám í píanóleik og tónsmíðum til nokkurra landa á næstu árum: 1974-75 til Bandaríkjanna; 1975-76 til Noregs; og 1976-78 til Hollands (nám í tónsmíðum). Auk þess dvaldi hann eitt ár í París og annað ár í London. Hann kom fyrir fullt og allt heim til íslands árið 1980. Með þennan bakgrunn hefur Snorra tekist að skapa sér afskaplega sterka mynd af tónlistarviðhorfum hins vestræna heims, enda speglast sú reynsla og víðsýni, ásamt mikilli almennri þekkingu á bókmenntum og listum í tónlist hans.

Ad arborem inversam – Við viðsnúna tréð (Segulbandsverk - 1979 - 9:50)

Árið 1975 var NSEM – Norsk Studio for Elektronisk Musikk, sett á laggirnar í Nútímalistasafninu á Høvikodden í Ósló. Var það samvinnuverkefni Listamiðstöðvarinnar, Tónlistarháskólans, Norska Tónskáldafélagsins og Norska Ríkisútvarpsins. NSEM var í upphafi vel útbúið stúdíó og var fyrirmyndin sótt til EMS í Stokkhólmi, sem hefur gegnt lykilhlutverki sem stúdíó á Norðurlöndum til fjölda ára.

Eins og bent var á þá sótti Snorri tíma í tónsmíðum í Óslo í Noregi í eitt ár (1975-76). Auk hefðbundinna tónsmíðum, sótti hann tíma í elektrónískri tónlist. Snorri var á þessum tíma leitandi – leitandi að nýjungum, aðferðum, hugmyndum og þekkingu, öllu því sem komið gæti að gagni síðar í lífinu. Því var að hans mati sjálfsagt að kynna sér vel möguleika tækninnar og læra dálítið um hinn hljóðeðlisfræðilega þátt tónlistarinna.

Tveimur árum síðar eða árið 1978 fékk Snorri pöntun frá NOMUS um að semja verk í stúdíóinu í Osló. Það boð nýtti hann sér sumarið 1979 og varð útkoman verkið Ad aborem inversam – Við viðsnúna tréð.

272

    Verkið hét einu sinni "elektrónískt tónverk samið að loknum lestri frásagnar af trjám sem skjóta rótum á himnum og bera ávöxt á jörðinni á þeim vaxa fuglar og steinar og af þeim kviknar eldur"; engir punktar og engar kommur. Verkið hét þetta en svo skipti ég um nafn. (364)

Verkið er aðferðafræðilega samið í takt við þá helstu möguleika sem stúdíó buðu upp á á þessum tíma. Grunnhljóðgjafi stúdíósins var tölvustýrður hljóðgerfill og voru grunnhljóðefnin gerð í honum. Síðan eru hljóðefnin leikin inn á bönd og unnið með þau þar á mismunandi hraða, annaðhvort í sinni grunnmynd eða þá að þau eru leikin með mismiklu bergmáli. Að lokum er hljóðefnunum raðað saman í heildstætt verk.

Greinilegt er á verkinu að hér er um að ræða viðleitni höfundar til að skapa með tækninni "lifandi" hljóð, lifandi umhverfi, einskonar skógarstemningu, sem verður á stundum dálítið "frumskógarleg" vegna bergmálsins. Hljóðheimur verksins er afskaplega vel "orkestreraður"; hljóðin falla afskaplega vel saman, eiga vel saman og er samspil þeirra hnökralaust og heildstætt. Finna má jafnvægi bæði í spennu og formi og uppbyggingu verksins.

Það sama gilti um Snorra og mörg önnur íslensk tónskáld sem kynnt höfðu sér þessa tækni – hún vék fyrir öðrum aðferðum því aðstæður á Íslandi voru engar til að fylgja henni eftir.


347 Einkaviðtal, 24. september 1994.
Vefarinn
Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Sett upp 1. des. 1998