Tónlist á Íslandi á 20. öld. Copyright © 1998: Bjarki Sveinbjörnsson 1. des. 1998

Leifur Þórarinsson
Elektrónísk tónlist á tónleikum um og eftir 1970
Listahátið 1972
ISCM hátiíðin 1973
Elektrónísk tónlist á hátíðinni

Til bakaEfnisyfirlit Áfram

Síða 255 - 266

Leifur Þórarinsson (1934-)

Leifur Þórarinsson hefur aldrei sent frá sér elektrónískt verk en hann hefur bæði lært handbragðið og einnig nýtt sér þennan möguleika í ýmsum leikhúsverkum. (332)

Haustið 1964 fór Leifur til New York (333) til að semja tónlist og kynna sér ýmislegt nýtt í tónsmíðum. Hann sótti m.a. tíma í Columbia stúdíóinu í New York, en hann komst þar inn í gegnum persónulegan kunningja sinn, Mario Davidovsky. Þar sótti hann m.a. nokkra fyrirlestra hjá Vladimir Ussachevsky. Þó svo námið hafi eingöngu snúist um að æfa sig í að klippa bönd og sía hljóð þá eru til nokkur stutt verk frá þessari veru hans þar.

    Þetta var bara tapestúdíó með filterum – allt saman handavinna. Ég vildi bara kynnast þessari tækni, bara æfing. Þetta voru stutt stykki, 5 mínútur, og þau voru flutt þarna í skólanum. Ég hef notað eitthvað af þeim sem leikhúsmúsík. Ég hef gert ýmsa teipmúsík, ekki sem kúnstmúsík heldur leikhúsmúsík, eins og við leikverkið Macbeth árið 1989. Það eru svo teipverk frá 1967 sem ég gerði niðri í útvarpi. Ég vann bara með náttúruhljóð og mannsraddir og svo var sínusgenerator, sá sami og Magnús notaði, og svo það sem maður fékk út úr píanóinu – og svo var þarna white noise generator. Ég hugsaði þetta nú aldrei sem elektróníska músík heldur sem ódýra leið til að gera músík til að nota í leikritum. (334)

Þrátt fyrir að aldrei hafi nein verk verið leikin opinberlega eftir Leif sem eiginleg elektrónísk verk, (335) þá hefur hann – eins og fram kemur í viðtalinu – samið nokkur verk sem aldrei hafa verið flutt sem slík.

* * *

Leifur Þórarinsson er sá síðasti sem ég fjalla hér um af þeim sem ég kalla "fyrstu kynslóð" af íslenskum tónskáldum sem hafa kynnt sér og notað elektróníska tækni í tónsköpun sinni.


332 Í bókinni New Music in Iceland eftir Göran Bergendal er ekkert minnst á þennan þátt í kaflanum um Leif Þórarinsson.
333 Á eins árs styrk frá Ford Foundation.
334 Einkaviðtal í ágúst 1995.
335 Ég hef sjálfur ekki heyrt neitt eftir hann.

257 (Síða 256 er auð)

Elektrónísk tónlist á tónleikum um og eftir 1970

Íslensk elektrónísk tónlist vakti töluverða athygli og áhuga í músíklífinu í Reykjavík um og upp úr 1960 en þeim áhuga var ekki fylgt eftir að neinu ráði á árunum þar á eftir. Einstöku sinnum birtust viðtöl við tónskáld sem minntust lítillega á elektróníska tónlist: við Þorkel Sigurbjörnsson árið 1963: (336), við Magnús Blöndal í tilefni þess að verk hans Punktar var flutt á Norrænum músíkdögum í Helsinki í október 1964 – og eina verkið sem þar var flutt er hafði einhverja elektróník. (337) Í febrúar 1965 (338) er einnig minnst á Magnús í tilefni þess að brot úr Constellation var flutt í þáttum í útvarpinu í Saarbrücken í Þýskalandi. Þar er einnig minnst á að verkið hafi verið flutt víða um heim, m.a. í Los Angeles í Bandaríkjunum. (339)

Árið 1969 voru haldnir tónleikar á vegum Musica Nova í Norræna húsinu í Reykjavík þar sem Robert Aitkin flautuleikari og Halldór Haraldsson píanóleikari léku nokkur verk. Á þeim tónleikum voru eingöngu flutt verk eftir 20. aldar tónskáld og þar af tvö verk fyrir flautu og segulband, Musica su due dimensioni frá 1959 eftir Bruno Maderna og Synchronisms no. 1 frá 1963 eftir Davidovsky.

Musica Nova var aftur á ferð með elektróníska tónlist á tónleikum í Norræna húsinu í janúar 1971, en þá sótti Ísland heim danska tríóið Trio Mobile (340) ásamt norska tónskáldinu Arne Nordheim. Eftir hann voru flutt nokkur verk. Solitaire fyrir segulband eingöngu, eins og verkið Response (341) fyrir tvo slagverksleikara og segulband; Dinosauros fyrir harmónikku og segulband og Pace og Signals fyrir segulband. Þetta var söguleg stund, þekkt erlent tónskáld var gestur á tónleikum á Íslandi þar sem eingöngu voru flutt þess eigin verk.

Þó svo næstum engin ný elektrónísk verk hafi verið samin á Íslandi í kringum 1970 þá var þeim fáu verkum sem samin voru komið á framfæri. Verk Þorkels Sigurbjörnssonar, Fípur (1972) var m.a. framlag Íslands hálfu í samkeppni um tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs árið 1972.


336 Vísir: 28. ágúst 1963.
337 Morgunblaðið: 21. nóvember 1964.
338 Morgunblaðið: 19. febrúar 1965.
339 Í svari við fyrirspurn um staðfestingu á flutningi verksins á Ojai hátíðinni í Los Angelses 1964 barst mér tölvupóstur frá Jackie Saunders: "I did not have much luck. I did find the program with the piece listed and I will fax you a copy of that. The program notes do not reference the piece. Also press clippings do not reference the piece. So I am at a dead end. I'm sorry we could not be more helpful - Jackie Saunders
Executive Director Ojai Music Festival" – dagsett. 4. desember 1996. Ég fékk aldrei faxið þó svo ég hafi í tvígang leitað eftir því.
340 Í Trio Mobile voru Mogens Ellegaard harmonikkuleikari, Bent Lyhoff slagverksleikari og Ingolf Olsen rafmagnsgítarleikari.
341 Þetta verk hafði áður verið flutt á Íslandi, á Tónlistarhátíð Norðurlanda í september 1967.

258

Listahátíðin er nú orðin fastur viðburður í listalífi Íslendinga annað hvert ár. Árið 1972 var haldin Listahátíð á Íslandi öðru sinni og þá var flutt verk Magnúsar Blöndal Jóhannssonar, Sonorities III, fyrir píanó og segulband. Það var eina elektróníska verkið sem flutt var á þeirri Listahátíð.

Listahátíð 1972

Listahátíð, sem hleypt var af stokkunum árið 1970 og haldnin hefur verið annað hvert ár síðan, átti sér ákveðinn aðdraganda og ákveðna fyrirmynd. Norræna húsið í Reykjavík var opnað árið 1968 og breyttust þá til muna skilyrði til menningarstarfsemi í landinu. Markmið Norræna hússins var m.a. að gangast fyrir fræðslu- og skemmtikvöldum þar sem norrænir listamenn kæmu fram. Í tengslum við þetta upp fram sú hugmynd að Norræna hússið gerðist frumkvöðull að samvinnu á breiðum grundvelli við íslenskar menningarstofnanir. Í framhaldi af því var tekin sameiginleg ákvörðun stjórnar Norræna hússins og stjórnar Bandalags íslenskra listamanna að halda íslenska listahátíð í Reykjavík. Nýráðinn framkvæmdastjóri Norræna hússins, Ivar Eskeland, lagði fram bráðabirgðaáætlun um menningarviku í Reykjavík árið 1969 og sótti fyrirmyndina til hátíðar í Bergen í Noregi og víðar. Dagsetningin var ákveðin þriðja vikan í júnímánuði 1969.

Á fundi í Norræna húsinu 9. desember 1968 voru mættir fulltrúar frá: Félagi Íslenskra Myndlistarmanna, Félagi íslenskra listdansara, Bandalagi íslenskra listamanna, Borgarráði Reykjavíkur, Ríkisútvarpinu, Sinfoníuhljómsveitinni, Félagi Íslenskra organleikara, Félagi íslenskra leikara, Þjóðleikhúsinu og Norræna húsinu. Þessi hópur tók síðan ákvörðun um að "fresta fyrstu Hátíðarleikjunum til vorsins 1970 vegna þess, hve stuttur tími væri til undirbúnings og þá aðallega hvað snerti fjármálalegu hliðina. (342)

Þrátt fyrir að Listahátíð væri fyrst haldin árið 1970 var hugmyndin bæði gömul og ný. Listamannaþing höfðu verið haldin nokkrum sinnum þar sem flutt var bæði tónlist og leiklist og haldnar sýningar. Jón Leifs tónskáld hafði unnið ötullega að því um miðjan 7. áratuginn að koma á fót svokallaðri Íslandshátíð og til eru "frumdrög að samþykktum fyrir félagið "Íslandshátíðin. (343) Í 1. grein þessara frumdraga segir m.a.:

    Félagið heitir "Íslandshátíðin", og tilgangur þess er að halda í Reykjavík árlega listahátíð með tónleikum, sýningum og öðrum skemmtunum, þar sem fram koma allra fremstu kraftar, erlendir og innlendir, til að auka ferðamannastraum til Íslands og hagnað af honum öllum landsmönnum til gagns.


342 Bréf í gagnasafni Ríkisútvarpsins: Dhd/ 14 - M og N.
343 Í gagnasafni Ríkisútvarpsins DHd/22

259

Þessi frumdrög voru lögð fyrir stjórn Tónskáldafélagsins á stjórnarfundi 8. október 1965 og samþykkti stjórnin að "fela honum [Jóni Leifs] að skrá Tónskáldafélagið á þennan lista sem stofnanda með 50.000 kr árlegu framlagi." (344)

Þessari umræðu var aldrei framhaldið á fundum Tónskáldafélagsins þar sem í gang fór mikil barátta um stofnun Tónverkamiðstöðvar sem leiddi af sér ákveðið valdauppgjör milli Jóns Leifs og yngri manna í félaginu.

ISCM hátíðin 1973


Dæmi 70

Þó svo Listahátíðin (dæmi 70), sem telja má allt frá upphafi alþjóðlega listahátíð, hafi verið haldin tvisvar sinnum, þá fór lítið fyrir svokallaðri nútímalegri tónlist á efnisskránni. Því var ISCM (International Society for Contemporary Music hátíðin sem haldin var í Reykjavík sumarið 1973 kærkomin tilbreyting. (345)) Eins og fram hefur komið þá var starfsemi


344 Gerðabók Tónskáldafélagsins 8. október 1965.
345 ISCM var stofnaði árið 1922 í Salzburg. Tilgangur félagsins var að vinna að útbreiðslu nýrrar tónlistar og stuðla að kynningu tónskálda án tillits til þjóðernis, kynþáttar, trúarbragða, stjórnmála og fagurfræðilegra skoðana.

260

félagsskaparins Musica Nova að líða undir lok og því fáir virkir útverðir nýrrar tónlistar í tónlistarlífinu – eins og verið hafði allan áratuginn á undan.

Félag íslenskra tónlistarmanna hafði verið meðlimur í alþjóðlega ISCM félagsskapnum frá 1938 og Tónskáldafélagið gerðist aðili árið 1948. Sameinuðust þessi félög þá aðild sína undir heitinu Íslandsdeild ISCM.


Dæmi 71

Ísland hafði alltaf sent fulltrúa sinn eða beðið fulltrúa erlendra félaga að mæta fyrir sína hönd á aðalfundina. Það var því ekki óeðlilegt, eins og Jón Leifs var áhugasamur um að halda alls kyns tónlistarhátíðir, að hann og um leið stjórn Tónskáldafélagsins samþykktu eftirfarandi tillögu árið 1965:

261

    Samþykkt var að heimila formanni að leggja fram á aðalfundi ISCM í Madrid í þessum mánuði formlegt boð frá Tónskáldafélagi Íslands, sem Íslandsdeild ISCM, til að halda tónlistarhátíð Alþjóðasambandsins í Reykjavík í lok júní 1967. (346)

Ekkert varð úr þessari hátíð. Málið var tekið fyrir að nýju árið 1972, og til að gera langa sögu stutta er birta hér samantekt sem lögð var fyrir stjórnarfundí Tónskáldafélagi Íslands:

    Undirbúningur að aðalfundi ISCM hófst í október 1973. Leitað var fjárstyrkja til ýmissa aðila hér á landi til fundarins og tónlistarhátíðar þeirrar sem ráðgert var að halda. Stuðst var við fjárhagsáætlun sem Gunnar Larsson í Stokkhólmi hafði gert. Sótt var um styrk til Fjárveitinganefndar Alþingis, Menntamálaráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og Menntamálaráðs. Auk þess var unnið að því að tryggja atkvæði Íslands í Norræna menningarsjóðnum, og fékkst að lokum munnlegt loforð menntamálaráðherra fyrir því. En svo fóru leikar að sameiginleg umsókn allra norrænu deilda ISCM var felld á fundi Norræna menningarsjóðsins í Kaupmannahöfn í desember 1972, og þar með voru allar umsóknir um fjárstyrk heima fyrir úr sögunni. Hafði danska deildin beitt áhrifum sínum til að spilla fyrir afdrifum málsins eins og sjá má af Dansk Musiktidsskrift frá þeim tíma.

    Stjórn T.Í. var því í erfiðri aðstöðu og varð að aflýsa mótinu, og senda bréf til allra deilda ISCM þar að lútandi. Jafnframt ákveðið að leggja ekki árar í bát og var ritað bréf til stjórnar ISCM og boðið að halda aðalfundinn hér á vegum íslenzku deildarinnar ásamt takmörkuðu tónleikahaldi. Var það boð þegið og fór Þorkell Sigurbjörnsson á stjórnarfund ISCM í janúar 1973, sem haldinn var í Búdapest, þar sem hann gerði grein fyrir málinu. Stjórn ISCM styrkti fyrirtækið með ráðum og dáð frá upphafi. Var nú sótt um fjárstyrk á nýjan leik hér heima til Reykjavíkurborgar, Menntamálaráðuneytis og Menntamálaráðs. Veitti Reykjavíkurborg 60.000.00 og Menntamálaráðuneyti 50.000.00 kr, en Menntamálaráð felldi umsókn um styrkveitingu. Tónmenntasjóður STEFs og Tónskáldasjóður Ríkisútvarpsins lögðu sitt af mörkum og báru þunga kostnaðarins. Var haft náið samband við forráðamenn STEFs varðandi öll fjármál. Auk þess var leitað til annarra deilda ISCM um stuðning og gekk það greiðlega. Kanadíska deildin sendi The Lyric Arts Trio, hollenzka deildin Gaudeamus kvartettinn, þýzka deildin tríó og einleikara á sinfóníutónleika, Norðmenn sendu blásarakvintett og jazzista, Svíar sendur Harpans Kraft og hljómflutningstæki ásamt tveimur tæknimönnum. Auk þess kom fjárstyrkur frá Japan svo unnt var að flytja japanskt verk. Voru þar að verki Hempke og Harris frá USA. Sinfoníuhljómsveitin sá um eina tónleika undir stjórn Páls P. Pálssonar. Musica Nova reyndist ekki dauð úr öllum æðum og kostaði tvenna tónleika: flutning á The Tea Symphony og tónleika í Árnesi, þar sem Bob Aitken lék ásamt íslenzkum hljóðfæraleikurum. Íslenska deildin sá um tvenna tónleika, opnunartónleika og tónleika þar sem flutt var úrval af þeim verkum sem send höfðu verið inn. Einnig valdi íslenzka deildin verk fyrir sinfóníutónleika en hafði að öðru leyti engin áhrif á efnisskrá. Þó beindi hún þeim tilmælum til hinna erlendu gesta að spila ekki eingöngu eftir tónskáld frá sínu landi.


346 Gerðabók Tónskáldafélagsins: 12. maí 1965.

262

    Borgarstjóri tók á móti gestum að Höfða að loknum opnunartónleikunum, og Strætisvagnar Reykjavíkur fluttu fólk á milli, hvað ber að þakka gjaldkera vorum. Tónskáldafélagið hafði móttöku að Hótel Loftleiðum að lokum tónleikum The Lyrick Arts Trio... & ;msir félagar lögðu einnig hönd á plóginn og hjálpuðu til við skipulagningu t.d. Jónas Tómasson, Fjölnir Stefánsson og Páll P. Pálsson, auk Sigurðar Markússonar fulltrúa Musica Nova, en allir unnu þeir frábært starf.

    Stjórn T.Í. annaðist allan undirbúning og skipulagningu músíkdaganna. Voru margir fundir haldnir, þótt ekki væru þeir bókaðir, enda ekki fjallað um stefnumótandi mál, heldur einstök framkvæmdaratriði. (347)

Hér með birtist hin íslenska skýring á málefninu. Staðreyndin var sú að nokkrir forráðamenn í dönsku tónlistarlífi reyndu af öllu afli að hindra að þessi hátíð yrði haldin á Íslandi – kannski vegna ýmissa vandamála heima fyrir.

    Ég man eftir að ég fór til Graz á ISCM-hátíðina þar árinu áður og þegar ég millilenti á Kastrup koma þar maður í veginn fyrir mig út á flugvöll til þess að biðja mig að snúa aftur og hætta við að koma þessu boði á framfæri. (348)

Í leiðara í danska tónlistartímaritinu DMT frá desember 1972 má lesa (í lauslegri þýðingu):

    Á aðalfundi ISCM í Graz í október buðu hinar fimm norrænu deildir til ISCM-hátíðar í Reykjavík árið 1973. Boðið var háð þeim skilyrðum að deildunum tækist að útvega nauðsynlegar tæknilegar aðstæður og fjármagn. Þetta voru skilyrði framsett af mikilli nauðsyn, og eins og málin standa, verðum við að hvetja dönsku deildina - þ.e. DUT - til að vinna að því, af svo miklum krafti sem mögulegt er, að þessar kröfur verði ekki uppfylltar [undirstrikun mín].

Ástæða þessarar hvatningar er studd þeirri skýringu að gömul hugmynd sem hafði fengið "sitt ákveðna form á ISCM-hátíðinni í London árið 1971" væri of mikilvæg "til að falla í gólfið".

Hugmyndin er skilgreind á þennan hátt í leiðaranum:

    Hugmyndin um samnorrænna hátíð sem kostur við hinar hefðbundnu miðevrópsku hátíðar – kostur bæði í formi og innihaldi. Hugmyndin var að leika þá tónlist sem sjaldan eða aldrei finnur leið á hin hefðbundnu ISCM-prógröm og að gera það innan þess umhverfisramma sem braut róttækt þær djöfulsku ferðamannahefðir, sem ISCM hefur komið á í gegnum árin.

Vegna óvissu um fjármagn á þessum tíma voru menn í Danmörku hræddir við að klúðra þessari góðu hugmynd um sameiginlega norræna hátíð. En menn voru ekki aðeins hræddir


347 Gerðarbók Tónskáldafélagsins: 11. september 1973
348 Einkaviðtal við Þorkel Sigurbjörnsson 27.apríl 1994. Þessi maður var Kjeld Hansen og fundur þeirra er staðfestur í grein Kjeld Hansen – Genmäle om ISCM – í Nutida Musik, hefti 1, 1973/1974, bls. 40.

263

við að slegið yrði af hinum upphaflega háa "listræna metnaði" heldur einnig við það að "Ísland liggur ekki aðeins langt í burtu, heldur skal landið nánast flytja inn tónlistarlíf til að geta boðið upp á allranauðsynlegustu aðstæður"

Þá þegar höfðu verið haldnar á Íslandi alþjóðlegar hátíðir, árin 1970 og 1972. Ef halda átti sameiginlega norræna hátíð var nauðsynlegt að "flytja inn tónlistarlíf" að því leyti að hljóðfæraleikarar kæmu frá hinum norðurlöndunum. Menn á þessum tíma á Íslandi voru ekki allskostar ókunnugir nýrri tónlist og flutning hennar. Hér bjó eitthvað meira að baki frá Dönunum. Þeir vildu sjálfir fá að halda hátíðina. En því ekki það? Í grein í sænska tónlistartímaritinu reifar Carl-Gunnar Åhlén málið. Ég vil birta hér nokkra af hans punktum.

    Strax í Lundunum árið 1971 voru tvö gestgjafarlönd inni í myndinni: Danmörk sem bauð fram Árósa og Ísland með Reykjavík. Óhætt er að segja að hugmyndin um Ísland hafi í upphafi þótt nokkuð djörf. Báðir staðir fullnægðu aðalkröfunum tveim: þeir voru nægilega litlir til að forðast að ISCM-hátíðin drukknaði (eins og hafði gerst í Lundúnum) og hvorugur var mettaður af nýrri tónlist.

    Í ágústmánuði 1971 tilkynntu Íslendingar skriflega um áhuga sinn á að standa fyrir ISCM-hátíðinni. Samtímis sótti danska deildin til bráðabirgða um DKK 800.000 framlag úr Norræna menningarsjóðnum á grundvelli útreikninga þeirrar hátíðar sem stóð fyrir dyrum í Graz 1972 og fundar í Stokkhólmi þar sem aðalatriðin voru dregin fram:

    1. Hvert aðildarland skal eiga kost á upptökutækjum, sýningarrými og sölubásum fyrir plötur og nótur á sérstakri tónlistarstefnu. Með þessu móti væri hægt að veita ítarlegri upplýsingar um þróun tónlistar í öllum 27 aðildarlöndum.

    2. Lifandi tónlist skyldi flutt af annars vegar tónlistarmönnum frá Norðurlöndum – sérstaklega mismunandi tegundir spunatónlistar – hins vegar af tónlistarhópum frá löndum utan Evrópu sem ekki voru aðilar að ISCM. Þetta væri leið til að örva áhuga á ISCM og fjölga félagsmönnum.

    3. Aukin tengsl við mun stærri samtök IMC og ISME væri önnur leið til að fjölga félagsmönnum, helst í tengslum við ráðstefnu tónskálda.

    Norræni menningarsjóðurinn frestaði afgreiðslu á umsókninni í fyrstu atrennu en verkefnið var nú opnað. Þó hafði enn ekki verið tekin nein ákvörðun um staðarval fyrir ISCM-vikuna. Um þetta var haldinn fundur í Kaupmannahöfn (janúar 1972) og í Ósló (mars 1972). Á fundinum í Ósló áttu
    Íslendingar í fyrsta sinn fulltrúa. Þá var ákveðið að hvert land átti að athuga sína möguleika á að vera gestgjafar. Árósar voru ekki lengur á dagskrá, greinilega vegna ágreinings milli tónskálda í Árósum og í Kaupmannahöfn. Ágætri tillögu um Holstebro var hafnað án gildra röksemda.

    Þrátt fyrir ítrekaðar áminningar til Dana sem höfðu lofað að standa að næsta fundi dróst aftur og aftur að halda hann. Og svo þann 2. júní sendi formaður dönsku ISCM-deildarinnar bréf þar sem tilkynnt


264

    var að ekki væri unnt að halda hátíðina í Danmörku vegna þess "uppnáms sem danskt tónlistarlíf er í um þessar mundir en að menn væru þó reiðubúnir að starfa (með ykkur) að hátíð utan Danmerkur.

Þennan þátt málsins skýrir Carl-Gunnar Åhlén sem "fyrstu sprengjuna" í málinu. "Aðra sprengjuna" skýrir hann svo:

    Þann 20. ágúst kom svo önnur sprengja. Þá tilkynnti danska deildin að nú hefði verið stofnuð nefnd til að undirbúa ISCM-hátíð í Kaupmannahöfn. Það hafði verið ljóst á fundinum í Ósló í september að Danirnir voru sérstaklega ákveðnir að ná til sín hátíðinni á sínum forsendum. Í nýju dönsku útgáfunni var ekki vottur af þeim markmiðum sem rædd höfðu verið á fyrri fundum: tónlistarstefna, fulltrúar frá löndum utan Evrópu, tónlist annarra en afreksmanna, t.d. ætluð börnum o.s.frv. Burðarþátturinn var afhending Sonning-verðlaunanna til Sjostakovitj og ný uppfærsla á Katarina Ismajlova. Vilhelm Hansen-útgáfan átti að vera skrifstofa (!). Með öðrum orðum: Enn og aftur monthátíð.

Þriðju sprengjuna í málinu skilgreinir Carl-Gunnar Åhlén sem innihald leiðarans í DMT sem ég vitnaði í hér að framan.

Þessi barátta fékk þó farsæla lausn sem áður hefur verið greint frá, og bæði fyrr og síðar studdu ráðamenn í sænsku tónlistarlífi við bakið á íslenskum tónlistarmönnum. (349) Fram að þessu höfðu eftirtalin íslensk verk verið flutt á ISCM hátíðum: Sónata fyrir trompet og píanó eftir Karl O. Runólfsson (Salzburg 1952), Fiðlusónata eftir Leif Þórarinsson (Stokkhólmi 1956) Sönglög við Tímann og vatnið eftir Fjölni Stefánsson (Vín 1961), Flökt fyrir hljómsveit eftir Þorkel Sigurbjörnsson (Amsterdam 1963), Óró nr. 2 fyrir kammersveit eftir Leif Þórarinsson (Stokkhólmi 1966), Spectacles fyrir slagverk og tónband eftir Atla Heimi Sveinsson (Basel 1970). (350) Af þessu má sjá að Íslendingar höfðu verið virkir þátttakendur í starfsemi félagsins í um tuttugu ár.

Elektrónísk tónlist á hátíðinni

Það setti svip sinn á hátíðina hvað elektróníska tónlist varðar, að í fyrsta sinni mátti heyra slíka tónlist í "alvöru" tækjum á Íslandi. Fyrir utan hljóðfæraleikara sendu Svíar fullkomin tæki til að flytja elektróníska tónlist; fjögurra rása hljóðflutningskerfi ásamt tólf hátölurum.

    Þegar ISCM – hátíðin var hérna árið 1973 vorum við svo illa staddir hérna að við höfðum ekki möguleika á að spila raftónverkin nema með því að fá lánaðar græjur. Það var stofnun í Stokkhólmi sem bauðst til að lána okkur tæki með manni, þannig að við gátum haft þessa elektrónísku tónleika skammlaust á Kjarvalsstöðum. Sten Hanson, formaður sænska tónskáldafélagsins var þarna vakandi og sofandi. (351)


349 Frekar má lesa um þau vandamál sem upp komu í: DMT nr. 4 í desember 1972 bls. 99; Nutida Musik nr. 3, 1972-73 bls. 63ff.; Nutida Musik nr. 1, 1973/1974 bls. 39ff.
350 Þessar upplýsingar er að finna í skjalasafni Ríkisútvarpsins, DHd/22.
351 Þorkell Sigurbjörnsson: einkaviðtal 27. apríl 1994.

265

Það voru því ekki aðeins vandamálið að semja elektróníska tónlist á Íslandi – tækin til tónlistarflutnings voru hreinlega ekki fáanleg.

En andinn var til staðar. Á aðalfundi Tónskáldafélagsins í febrúar 1971 var samþykkt eftirfarandi tillaga frá Atla Heimi Sveinssyni og Leifi Þórarinssyni:

Dæmi 72

    Aðalfundur Tónskáldafélags Íslands skorar á stjórn félagsins að hlutast til um við Ríkisútvarpið og/eða Sjónvarpið að tónskáldum þeim, sem áhuga kynnu að hafa, verði sköpuð starfsaðstaða við samningu elektrónískra tónverka. Einnig verði athugaðir möguleikar á stofnun elektrónísks stúdíós, sem hér eins og annars staðar gæti orðið að miklu gagni við gerð svonefndra hljóðtjalda (effekta) í leikritum o.s.frv. (352)

Ekki voru þessi möguleika kannaðir að neinu gagni hjá stjórn félagsins. Tveimur árum síðar, í janúar 1973, bar Atli enn á ný fram eftirfarandi tillögu sem einnig var samþykkt í Tónskáldafélaginu:

    Aðalfundur T.Í., haldinn 13. janúar 1973, felur stjórn félagsins að kanna möguleika á að koma upp vísi að elektrónísku stúdíói hérlendis. Skal stjórnin leggja fram ýtarlega skýrslu í þessu máli, og tillögur fyrir næsta aðalfund, 1974.

Ágreiningur var meðal félagsmanna um framkvæmd þessarar tillögu. Þorkell hafði þá skoðun að rétt væri að bíða aðeins og sjá til í hinni öru tækniþróun sem þá var – og er enn. Atli vildi "stökkva á bak klárnum" og hefjast handa og þoka málinu áleiðis. Þessi skoðanaágreiningur varð þess valdandi að ekkert gerðist í þessum málum. (353) Því er að finna síðustu bókun um elektróníska tónlist í fundargerðabókum Tónskáldafélags Íslands sem hljóðar þannig:

    Elektrónískt stúdíó er ekki tímabært vegna kostnaðar, viðhalds o.s.frv. Betra væri að styrkja menn til vinnu í erlendum stúdíóum. (354)


352 Gerðabók Tónskáldafélags Íslands, 27. febrúar 1971.
353 Leiða má líkur að því að þegar öllu er á botninn hvolft þá snúist vandamálið um fjármagn, eða réttara sagt skort á fjármagni., sem ásamt viljaleysi hefur gert það að verkum að lítið sem ekkert gerðist í þessum málum fyrr en um miðjan þennan áratug. Þó má segja að það sem hefur verið gert hafi verið fjármagnað með vasapeningum úr sjóðum hins opinbera og því verið mjög ófullkomið.
354 Gerðabók Tónskáldafélags Íslands: 23. mars 1974.

266

Með þessari fundargerð lýkur að mínu mati baráttu fyrstu kynslóðar elektrónískra tónskálda á Íslandi fyrir opinberri viðurkenningu á þessum stíl tónlistar. Sú vítamínsprauta sem Atli og Þorkell höfðu fengið við að semja sín verk, Atli í Kanada (Búr) og Þorkell í Stokkhólmi (Fípur), ásamt því að gefa áheyrendum kost á að heyra slíka tónlist í góðum tækjum á Kjarvalsstöðum árið 1973, dugði ekki til að árangur næðist á heimavelli. Þó svo Þorkell hafi komist í stúdíó nokkru síðar í Bandaríkjunum, á páskum 1975 (La Jolla Good Friday I og II, og Race Track), þá voru þau verk síðustu verk hans á sviði elektrónískrar tónlistar.

Aðstæður í Evrópu voru á þann veg að hugmyndir að IRCAM (sjá nánar síðar) voru að fæðast og þar var að opnast stór möguleiki. En ef ná átti langt á þessu sviði varð að fara í langt nám í elektrónískum tónlistarfræðum og hafa aðstæður til að fylgja því eftir. Þorkell valdi þann kostinn að láta öðrum eftir þennan heim, enda voru tónskáldin Hjálmar H. Ragnarsson, Þorsteinn Hauksson og Lárus H. Grímsson komnir með annan fótinn í heim tækninnar. Það eru því þeir sem eru sporgöngumenn þeirra manna sem fjallað hefur verið um í þessum kafla ritgerðarinnar - sigldu í kjölfarið fyrstu kynslóðar elektrónískra tónskálda á Íslandi.


331 Sama.
Vefarinn
Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Sett upp 1. des. 1998