Tónlist á Íslandi á 20. öld. Copyright © 1998: Bjarki Sveinbjörnsson 1. des. 1998

Sonorities2, frh.
Sonoritis 3
Eftirmáli


Til bakaEfnisyfirlit Áfram

Síða225-229
(Sonorities2, frh.)
 
Mig langar að minnast á það Sonorities verk sem aldrei hefur verið flutt, þ.e. verkið Sonorites II (298) sem höfundur samdi í London árið 1968.

Eins og fram kemur á fyrstu síðu (dæmi 49) af fimm þá er þetta verk fyrir píanó. Verkið er eingöngu hugsað sem "hljóð"- verk, þ.e. að eingöngu er leikið með sleglum inni í píanóinu og því um að ræða nýja aðferð við að nýta píanóið sem hljóðfæri. Hugmyndirnar að Sonorities II sækir höfundur í verkið Pacem in terris (dæmi 50) eftir pólska tónskáldið Juliusz Luciuk frá árinu 1964. (299) Um er að ræða áframhaldandi músíkalska vinnu á innviðum píanósins frá fyrra Sonorities. Það eina sem í rauninni er nýtt er að verkið er fullkomlega "ótónalt", engar fastar tónhæðir koma þar fyrir.

 


Dæmi 50


298Ég reikna með að höfundur hafi skrifað vitlaust í titli verksins þegar hann kallar það Sonorities III. Ekkert verk er til sem heitir Sonorites II og svo næsta verk á eftir með þessum titli (1972) kallar höfundur Sonorities III.
299Þessi fullyrðing mín er til komin vegna þess að ég hef fundið nótur af Pacem in terris í fórum höfundar og má sjá mjög líkar grafískar framsetningar í partítúr þessara verka ef "canto" – hluta hins pólska verks er sleppt en enginn "canto"-hluti fylgir þessu verki – a.m.k. ekki í píanópartítúrnum.


226

Þegar bornar eru saman þessi síða úr Pacem in terris frá 1964 og fyrsta síðan af Sonorities II leynir sér ekki að tónskáldið hefur sótt ýmsar hugmyndir að Sonorities hingað, þó með þeirri undantekningu að Pacem in terris er samið fyrir píanó og söngrödd. (300)

Sonorities III (segulband og píanó – 13’35’’)

Sonorities III eins og það verk er þekkt á Íslandi í dag, samdi Magnús árið 1972 fyrir píanó og segulband og var það frumflutt á Listahátíð árið 1972. (301) Þrátt fyrir að tæknilegir möguleikar höfundar hafi ekki aukist að neinu ráði frá því hann hóf að vinna með segulband í tónsmíðum sínum árið 1959, þá var hann mjög leitandi í tónlistarlegri þróun sinni. Í þessu verki leitar höfundur á ný mið með því að taka trommusett inn í hljóðmyndina og um leið sjálft verkið. Sem bakgrunnur samanstendur bandhlutinn af innspiluðum píanóparti (bæði á sjálfar nóturnar og inni í sjálfu píanóinu) mjög áberandi trommuspili í nokkuð reglulegu hljóðfalli (í stíl við þess tíma pop-/og rokktónlist) hljóði með miklu bergmáli, leiknu afturábak og áfram. Verkið er mjög „kaótískt“ á köflum og frjálsleikinn í fyrirrúmi. Í millikafla verksins, sem er segulbandshluti, koma fyrir ýmsir impúlsar, bæði raddir, fiðlutónar, marimba og trommur, og er þekktri tækni frá höfundi beitt í vinnslu þessara hljóða, þ.e. hratt - hægt, áfram - afturábak, og síðan mikið bergmál. Hljóðin er öll þekkt frá fyrri verkum og einkum þó ýmis hljóð úr hans kvikmyndatón- eða/hljóðlist.

Liðin voru tíu ár síðan höfundur hafði síðast sent frá sér verk með elektrónískt unnum hljóðum. (302) Í hugum fólks var Magnús fyrst og fremst elektrónískt tónskáld eins og fram kom í umfjöllun um verkið. En á sama tíma gætti hjá sumum háðs og fordóma. Í umfjöllun um verkið talar Gunnar Björnsson t.d. um að það sé "handa píanói og segulbandi" og réttlætir hann verkið með rytmanum því "rytminn er nefnilega katetóría mannssálarinnar" og verkið því ánægjulegt í heild sinni, enda Magnús "músíkalskur og góður drengur".(303)

Öllu meira gaman fylgir að lesa umfjöllun Guðmundar Emilssonar um þetta verk en hann segir meðal annars:

    Að eiga við segulbandstæki er hættulegur leikur. Í öllum sínum fjölbreytileika er tækið einhæft, er og verður aldrei annað en sálarlaus vél. Hættan á að eitt segulbandsverk líkist öðru er því ekki lítil... Að mínu mati gætti Magnús ekki hófs. Þeir sem eitthvað hafa átt við segulbandstæki gátu auðveldlega greint í Sonorities III margþvældar og hversdagslegar tæknibrellur. (304)

 


300 Í inngangi partítúrsins stendur : „Pacem in tessis für Frauenstimme und Klavier...“ .
301 Listahátíð árið 1972 var önnur í röð listahátíða sem haldnar hafa verið í Reykjavík annað hvert ár síðan árið 1970.
302
Eru þá ekki meðtalin kvikmynda- og leikhúsverk.
303 Vísir: 13. júní 1972.
304 Morgunblaðið: 14. júní 1972.


227

Dæmi 50



228
Eins og frem kemur á fyrstu síðu handritsins (dæmi 51) af þremur, þá hefst verkið í píanóinu þar sem píanóleikarinn leikur "kluster"- hljóm sem hleypur frá dýpstu tónum svörtu nótnanna og yfir til "kluster"- hljóma á hvítu nótunum. Kveikt er á bandinu strax eftir þennan inngang í píanóinu og þar strax á eftir leikur píanóleikarinn með járnsleglum á strengi píanósins. Eins og fram kemur neðst á síðunni þá er ostinatóið leikið með tónlist á bandinu.

Eftirmáli

Þó að full ástæða sé til að fjalla um kvikmynda- og leikhústónlist Magnúsar þá er hún utan ramma þessarar ritgerðar. Þrátt fyrir þá staðreynd að Magnús sé fyrstur á Íslandi til að nota sjálft hljóðið sem útgangspunkt við gerð tónlistar við kvikmyndir Osvalds Knudsens kvikmyndagerðarmanns um hin ýmsu eldgos, þá verður að segja, að innihald myndanna hafi gefið fullt tilefni til þess; hljóð og mynd mynduðu eina heild. Allar vinnuaðferðir eru þær sömu og í annarri segulbandstónlist Magnúsar, enda hvorki ný tæki né tækni. Það er því rétt sem fram kemur í umfjölluninni um Sonorities hér að framan að um "margþvældar og hversdagslegar tæknibrellur" hafi verið að ræða í vinnslu hljóðanna.

Um hljóðfæratónlist Magnúsar í kvikmyndum og leikhúsverkum er það að segja að hún er mjög "tónöl" og rómantísk. Má þar nefna hið fræga stef Sveitin milli sanda úr samnefndri kvikmynd og lagið Dóminó úr samnefndu leikriti. Þetta eru lög sem hafa orðið vinsæl á Íslandi, einkum það fyrrnefnda.

Í íslenskri elektrónískri tónlist hefur Magnús Blöndal Jóhannsson gegnt hlutverki frumherja. En það á ekki einungis við um elektróníska tónlist. Hann var fyrstur til að tileinka sér módernismann í íslenskri tónlist. Ekki bara á einn hátt heldur á svo mörgum sviðum – seriella tónlist, aleatóríska tónlist, elektróníska tónlist, elektróník og hefðbundin hljóðfæri.

Þróun Magnúsar sem elektrónísks tónskálds byggist fyrst og fremst á því að hann lærði betur á segulbandið frekar en að um tæknilega þróun hafi verið að ræða. Eina viðbótin sem varð á úrvinnslu hljóðs eftir verkið Punktar var „ekkómaskína“ sem verður svo áberandi í öllum hljóðum hans. Eina hreina elektróníska hljóðið sem Magnús hefur notað eru hreinir sínustónar – öll önnur hljóð eru "concréte" hljóð (ef horft er framhjá suðhljóðinu í Constellation sem hann bjór til með því að stilla útvarp á "milli stöðvanna").

Ekki er um að ræða neina hljóðeðlisfræðilega stúdíu sem bera má saman við þær rannsóknir sem þekktust í Evrópu í kringum 1960. Tónlistin byggist á nýtingu þeirra möguleika sem sjálft segulbandstækið gaf við að spila hljóð hægt, hratt, afturábak og áfram, veikt, sterkt, og svo klippa og líma þessi hljóð saman. Að mínu mati náði Magnús hápunkti sínum í elektrónískri tónsköpun strax í upphafi, í verkinu Constellation, enda stendur það verk mjög vel í formi og úrvinnslu og er leikið öðru hvoru á tónleikum. Sama gildir um Sonorities III. Elektrónísk stúdía heyrist aldrei og Punktar örsjaldan. En það eru hin lýrísku lög Magnúsar


229

sem lifa og þá einkum vókalísurnar Sveitin milli sanda og La La Lísa sem hann samdi í tilefni Gigtarársins árið 1992.

Eftir Magnús Blöndal Jóhannsson liggja hátt í hundrað verk, sönglög, kvikmyndatónlist, leikhústónlist, hljómsveitar- og kammertónlist. Mörg þessara verka hafa lent í kössum sökum hirðuleysis, en nú hefur tekist að finna þau og skrá og verður tíminn að leiða í ljós hvort og hvenær þau verða tekin fram að nýju.

Á árunum 1972-80 sinnti Magnús ekki tónsköpun. En árið 1980 tók hann upp þráðinn að nýju og samdi nokkur verk, bæði sönglög, kórtónlist, einleiks- og hljómsveitarverk. Líklega stendur verkið Adagio frá árinu 1980 upp úr – hápunktinum náð öðru sinni í upphafi ferils. (305) Þetta verk var upphaflega samið á hljóðgerfil og leikið inn á tölvu en síðar umskrifað fyrir hljómsveit. Þá er einnig útsetning af verkinu fyrir orgel.

En það sama á við um þetta verk og verkin Hieroglyphics og Atmos I frá árunum 1982 að þau eru samin á hljóðgerfil og mjög lík að yfirbragði. Þetta eru verk sem eru impróvíseruð beint inn á segulbandið og því skilgreini ég þau ekki sem elektrónísk verk heldur verk leikin á hljóðgerfil. Segja má um þessi verk og önnur frá höfundinum eftir 1980 að þau séu "nýrómantísk" og virðist sem höfundur gangi í "barndóm" hvað varðar stíl og inntak. Hinn brennandi áhugi og þor sjöunda áratugarins hefur dvínað og frumleikinn, sem var svo áberandi upp úr 1960, er horfinn.

Magnús hefur fært okkur fjölda verka sem eiga skilið miklu meiri athygli. Það á sérstaklega við um hljóðfæraverkin sem sjaldan eru leikin. Sem módernisti hefur Magnús sérstöðu í íslensku tónlistarlífi ekki síst vegna þess að þörfin fyrir að tjá sig á þann hátt sem hann gerði er svo sérstaklega „orginal“. Það var ekkert í umhverfi hans – þvert á móti – sem hvatti hann til að semja í nútímalegum stíl. Hann varð hugfanginn af þeirri tónlist sem hann heyrði í útvarpinu og það var honum nóg. Hann naut engrar aðstoðar, það var enginn sem hvatti hann og það voru fáir sem hrósuðu honum, en samt hélt hann áfram eins og sannur listamaður.


305 Hér á ég við að á tímabili hinnar elektrónísku- eða nútímalegu tónlistar hafi Magnús Blöndal Jóhansson náð tónsmíðalegum hápunkti sínum í upphafi tímabilsins með verkunum Constellation og Puntar. Þegar hann hefur að nýju að semja tónlist, árið 1980, og þar með hefja nýtt tímabil, tel ég að verkið Adagio sé hápunktur fram að þessu.
Vefarinn
Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Sett upp 1. des. 1998