Tónlist á Íslandi á 20. öld. Copyright © 1998: Bjarki Sveinbjörnsson 1. des. 1998

Þriðju tónleikarnir
Fjórðu tónleikarnir
Framhaldið

Elektrónísk tónlist á Íslandi
Inngangur

Til bakaEfnisyfirlit Áfram

Síða 156-166

Þriðju tónleikarnir

Síðar um veturinn, þ.e. í mars 1961, voru aftur haldnir tónleikar á vegum Musica Nova á Hótel Borg. Hinn mikli áhugi á starfi félagsins kom í ljós og opna varð inn í stóran veitingasal hótelsins svo allir tónleikagestir kæmust fyrir. Þá komu fram í fyrsta sinn opinberlega þrír ungir hljóðfæraleikarar, þeir Sigurður Örn Steingrímsson fiðluleikari sem að loknu námi í Tónlistarskólanum í Reykjavík hjá Birni Ólafssyni hafði dvalist 6 ár við framhaldsnám í Vínarborg; Kristinn Gestsson píanóleikari sem eftir nám hjá Árna Kristjánssyni í Tónlistarskólanum hafði dvalist tvö ár í London við framhaldsnám, og Pétur Þorvaldsson sem eftir nám hjá H. Edelstein og Einari Vigfússyni í Tónlistarskólanum hafði


157

numið í fjögur ár hjá Erling Blöndal Bengtsson við konunglega músíkkonservatoríið í Kaupmannahöfn. Þessir ungu menn, ásamt Gísla Magnússyni píanóleika sem þá var orðinn kunnur á Íslandi, fluttu verk eftir Schönberg, Strawinsky og Shostakovitch. Tuttugustu aldar tónlistin var komin til að vera í íslensku tónlistarlífi.

Á árunum 1950-60 tóku ungir íslenskir hljóðfæraleikarar að streyma til landsins eftir framhaldsnám í erlendum tónlistarháskólum. Íslendingar voru smátt og smátt að eignast eigin tónlistarmenn sem síðar skyldu bera þungann af þróun tónlistarmála framtíðarinnar.

Fjórðu Tónleikarnir

Næsta stórátak félagsins í flutningi nýrrar íslenskrar tónlistar var í desember 1961 (dæmi 5). Á þessum tónleikum voru frumflutt ný verk. Þarna mátti heyra svokallaða "aleatoriska" tónlist í 15 tóndæmi fyrir flautu, óbó, klarínettu og fagott eftir Magnús Blöndal, tvö elektrónísk verk, sónötu eftir Jón S. Jónsson og svo Kvintett op. 50. Það voru hin elektrónísku verk Magnúsar Blöndal og Þorkels Sigurbjörnssonar sem boðuðu dómsdag. Átti virkilega að stofna "hinum lifandi uppsprettulindum" í eilífa glötun?

    ...En þeir sem heyrðu hin elektrónísku "tónverk" þessa kvölds, (220) - hljóta þeir ekki flestallir að gera sér þess grein, að hér með er öfugþróun listarinnar komin á leiðarenda? Héðan af á hún ekki nema um tvennt að velja: Lokaskrefið út í tómið kalt og dimmt og dautt eða afturhvarf að hinum lifandi uppsprettulindum allrar sannrar listsköpunar. (221)


Dæmi 5


220 Hér á Björn við tónleika Musica Nova sem haldnir voru 6. desember 1961 en þar voru flutt tvö elektrónísk verk, Constellation eftir Magnús Blöndal og Leikar 3 eftir Þorkel Sigurbjörnsson.
221 Björn Franzson: Tímarit Máls og Menningar 4. - 5. hefti 1962, bls. 391 - 404.


158

Hér var öðru sinni ráðist á " alla sanna listsköpun", þ.e. tónlistarhefðir fyrri alda að mati Björns, með verkum Magnúsar og Þorkels. En þrátt fyrir að Björn hafi átt sér marga skoðanabræður meðal tónlistamanna í landinu þá urðu þessar aðvaranir hans vindhögg. Mikilvægust var sú staðreynd að ný íslensk tónlist eftir ung tónskáld var flutt af ungum íslenskum hljóðfæraleikurum. Ef Musica Nova hefði ekki verið stofnað, þá hefði þessi tónlist að öllum líkindum aldrei fengið að hljóma á þessum árum. Tónleikahaldarar, þ.e. Sinfóníuhljómsveitin, Kammermúsíkklúbburinn og Tónlistarfélagið hefðu aldrei opnað dyr sínar fyrir þessari nýju tónlist og því voru þessi skilyrði sem sköpuðust við stofnun Musica Nova ómetanleg í tónlistarsögu þessara aldar á Íslandi

Framhaldið

Eitt af stórum verkefnum Musica Nova á fyrstu árum þess var frumflutningur á óperunni Amahl og næturgestirnir eftir Gian-Carlo Menotti. Óperan var flutt á 2. jóladag árið 1962 og þótti kærkomin sending á tíma þegar sjaldgæft var að heyra óperu á Íslandi. Óperuáhuginn á 6. áratugnum hafði ekki náð að lifa inn í 7. áratuginn. Það sem vakti mesta athygli við sýninguna var framistaða hins efnilega tónlistarmanns, Sigurðar Rúnars Jónssonar, sem þá var aðeins tólf ára gamall.

Á tónleikum Musica Nova 24. febrúar 1963, var verkið Hlými frumflutt. Það var höfundurinn sjálfur, Atli Heimir Sveinsson, sem stjórnaði frumflutningi verksins sem er fyrir 11 hljóðfæri og byggir á röðum óvæntra atburða, þ.e. svokölluð aleatorísk tónlist. Áhugi á verkinu var vakinn meðal tónlistarfólks undir æfingunum því sögur bárust út í bæ að einum stað í verkinu brotnaði flaska og á öðrum stað væri kallað "hó". Þessar sögusagnir juku á áhugann og spennuna; eftirvæntingin eftir því hverju Musica Nova menn tækju næst upp á var mikil og aðsókn yfirleitt mjög góð á tónleika félagsins.

Atli Heimir Sveinsson nam við Tónlistarháskólann í Köln og lauk þar námi árið 1963. Þá þegar hafði hann vakið athygli fyrir tónsmíðar sínar á háskólatónleikum í Köln. Segja má að Atli hafi á þessum árum verið einna "opnastur" fyrir nýjungum í listaheiminum og módernisminn kristallaðist einna mest í hans verkum, enda fékk hann orð í eyra frá hinum íhaldssömustu músíkskríbentum í Reykjavík fyrir borgaralega úrkynjun í verkum sínum.

Hápunktur músíkalsks "modernisma" hefur á þessum áratug verið heimsókn hins fræga tvíeykis, Nam June Paik tónskálds og Scharlotte Moorman sellóleikara til landsins. Komu þau fram undir merkjum svokallaðrar Flúxushreyfingar og Paik samdi verk undir hugtakinu "ekki" - tónlist, "anti" - tónlist. Atli Heimir Sveinsson og Dieter Roth, höfðu veg og vanda af heimsókn þeirra og fluttu þau verk sín á tónleikum Musica Nova í maí 1965. Leikin voru m.a. verk eftir John Cage, Earl Brown, Chiari og Paik, og meðal verkanna var Vögguvísa 4 við Kristmann Guðmundsson eftir Paik. Var verkið flutt á þann hátt að gripið var einhvers staðar niður í bókum Kristmanns og textinn leikinn á þann hátt að hver bókstafur kallaði á ákveðinn tón. "Úff"! sögðu sumir.


159

Margt var annars skrifað um þessa uppákomu í bæjarblöðunum, og í kjölfarið kom svohljóðandi yfirlýsingu frá stjórn Musica Nova. Var hún svohjóðandi:

    Að gefnu tilefni vill stjórn Musica Nova taka fram, að allir flytjendur, sem fram hafa komið á vegum félagsins á liðnum árum hafa

    1. átt hér leið um Reykjavík hvort eð er,
    2. þeir hafa boðið félaginu list sína með erlendum meðmælum (t.d. blaðadómum),
    3. einstaklingar innan félagsins (eða aðrir kunningjar flytjendanna)hafa á eigin ábyrgð mælt með þeim.

    Varðandi seinustu heimsókn (cellóleikkonu, Kóreumanns og gervikarls) vill stjónin taka fram,

    1. að fólkið átti leið hér um,
    2. að það hefur komið fram á vegum hliðstæðra samtaka í nágrannalöndunum,
    3. að blaðadómar lögðu áherzlu á hæfileika frk. Moorman til að túlka hina ágætustu samtímatónlist.

    Það ætti að vera óþarfi að bend á það, að háttalag seinustu "gesta", þegar til kastanna kom, var algerlega óskylt markmiðui félagsins, nánar sagt ófyrirsjáanlegt slys. Markmið Músika Nova er kynning á góðri samtímatónlist, með aðstoð hinna færustu fáanlegra túlkenda, innlendra og erlendra.

    Stjórn Músíka Nova. (222)

Tónleikarnir komu öllum í opna skjöldu (nema kannski Atla Heimi og myndlistarmönnum). Atli Heimir var hinn ungi, djarfi einstaklingur sem algjörlega var óbundinn öllum hefðum og skoðunum, enda fékk hann umtal í samræmi við djarfleika sinn. Þessir tónleikar voru sýnishorn þeirra tilrauna sem fólu í sér mótmæli í garð hefðarinnar, leit listamanna að nýjum leiðum og sameiningu listforma í verkum sínum. Oft höfðu ýmsar uppákomur átt sér stað á vegum myndlistarmanna, en tónleikagestum sem fram til þessa höfðu sýnt vilja sinn og áhuga í garð nýrrar tónlistar með því að sækja reglulega tónleika félagsins, var misboðið. Á þessu áttu þeir ekki von. Þessi uppákoma gerði næstum út af við félagið og þóttu mönnum sér misboðið með skrípalátum og fíflaskap eins og þegar Paik rak berann bossann út í áhorfendasalinn. Af þessu tilefni byrjuðu gárungarnir að kalla félagsskapinn "Bossa Nova".

Nú á dögum skoðast slíkar tilraunir sem hluti músíksögunnar og þykir engum mikið um. En vorið 1965 þegar hópur íslenskra tónleikagesta fékk að "sjá" og heyra það nýjasta í tónlistartilraunum vesturheims verður lengi í minnum haft. (223)

Þrátt fyrir þessa Fluxus-uppákomu lægði öldurnar smám saman og haustið 1965 héldu Musica Nova og Tónlistarfélagið sameiginlega tónleika. Þar voru þar á ferðinni íslenska tónskáldið Þorkell Sigurbjörnsson og bandaríski fiðlusnillingurinn Paul Zukofsky. Léku þeir eingöngu 20. aldar verk eftir W. Riegger, Charles Ives, Georg Crumb, D. Martiono,


222 Þjóðviljinn: 25. maí 1965.
223 Um upphaf og þróun þessarar stefnu má lesa í bókinni Musikalsk Modernisme eftir Jan Maegaard, bls. 83-90.


160

Webern, Penderecki og Leif Þórarinsson. Á því ári var Zukofsky 22 ára gamall og þekktur af fiðluleik sínum. Poul Zukofsky verður seinna í sögunni minnst sem stofnanda og stjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Æskunnar, og á hin yngsta kynslóð íslenskra hljóðfæraleikara honum mikið að þakka að fá tækifæri til að leika undir hans stjórn nokkur stærstu verk hljómsveitartónbókmenntann.

Tónleikahald á vegum félagsins hélt áfram og flutt var innlend og erlend 20. aldar tónlist. Í mars (224) 1966 héldur fjórir meðlimir Musica Nova - Ingvar Jónasson, Gunnar Egilsson, Pétur Þorvaldsson og Þorkell Sigurbjörnsson, tónleika í Stokkhólmi. Fluttu þeir Svíum þverskurð af íslenskri kammermúsík, allt frá verkum Sveinbjörns Sveinbjörnssonar til verka Jóns Nordal og Þorkels Sigurbjörnssonar o.fl. Hópurinn fékk stórkostlegar móttökur hjá Svíum og lofsamlega umfjöllun í blöðum um verkin og flutning þeirra.

Þau íslensku verk sem hópurinn frumflutti í Svíþjóð – þ.e. eftir Þorkel Sigurbjörnsson og Leif Þórarinsson voru síðan flutt á tónleikum í Austurbæjarbíói 8. maí sama ár. Á þeim tónleikum voru einnig flutt ýmis erlend verk.

Félagið var sjaldan jafn virkt eins og fyrri hluta ársins 1966. Í júní voru haldnir tvennir tónleikar á vegum félagsins, aðrir voru helgaðir tónlist Igor Stravinskys og var m.a. flutt verkið Saga hermannsins, en á hinum tónleikunum voru flutt verk eftir íslensk og erlend tónskáld, Jón Nordal, Þorkel Sigurbjörnsson, S. Revuelts, Ch. Ives., Erik Satie, J.K. Randall. S. Wholpe og D. Milhaud. Einleikari á báðum tónleikunum var Paul Zukowsky.

Vegna aukinnar starfsemi félagsins jókst vinnan og álagið á einstaka félagsmenn samtímis og útgjöldin jukust. Svo var komið að STEF krafði félagið um flutningsgjöld (mynd 6 á næstu síðu) af verkum sem flutt voru á vegum félagsins og var það einnig þess valdandi að tónleikahaldið varð dýrara. Félagið naut nokkurra opinberra styrkja, eða um 100.000 króna á ári. Á árunum 1968-71 hélt félagið tónleika sem hér segir:

1968:
Tvennir tónleikar, þar af aðrir með nýrri íslenskri tónlist.

1969:
Tvennir tónleikar í júní. Þeir fyrri með verkum eftir íslensk tónskáld og þeir seinni með kanadíska flautuleikaranum Robert Aitken. Á þeim tónleikum var m.a. flutt verkið Sonorities III sem er verk fyrir píanó og segulband eftir Magnús Blöndal Jóhannsson.


224 Nánar tiltekið 13. og 16. mars.


161

Dæmi 6

1970:
Í febrúar voru haldnir tónleikar helgaðir austurrískum tónskáldum en í október voru tvennir tónleikar, aðrir með verkum íslenskra tónskálda en hinir með verkum íslenskra og erlendra tónskálda, m.a. Webern og Britten.

Þar sem ekki komu til auknir styrkir til starfseminnar var farið var að halla undan fæti fjárhagslega fyrir félaginu. Samdráttur var óumflýjanlegur. Fór svo að gjaldkeri félagsins til margra ára, Sigurður Markússon, varð perónulega að greiða útgjöld og brúa þar með bilið fram að styrkveitingu næsta árs.

1971:
Þetta ár voru haldnir einir tónleikar á vegum félagsins en þeir voru helgaðir verkum Arne Nordheim. Flytjendur voru þekktir danskir hljóðfæraleikarar, Mogens Ellegaard harmónikkuleikari, Ingolf Olsen gítarleikari og Bent Lylloff slagverksleikari. Auk þeirra sá tónskáldið um að stýra segulböndum, en verkin voru öll fyrir hljóðfæri og segulband.


162

1972:
Starfsemi á vegum félagsins lá niðri.

1973:
Eins og sagði í upphafi þessa kafla þá var Musica Nova grasrótarhreyfing. Stofnendur félagsins þáðu aldrei laun fyrir vinnu sína á vegum þess. Upphaflegt markmið þeirra var að koma starfseminni af stað en svo tækju aðrir við og héldu henni áfram. Ein síðasta ósk félagsmanna var að halda veglega tónleika til minningar um Jón Leifs og í framhaldi af því hljóðrita nokkur kammerverka hans til útgáfu á hljómplötu. Æfingar voru hafnar á verkunum og ætlunin var að hljóðrita þau í Kaupmannahöfn en kostnaður við útgáfuna varð þessum áhugasömu og drífandi tónlistarmönnum ofviða og hætt var við verkefnið. Sama gilti um hátíðartónleikana eftir að Sinfoníuhljómsveit Íslands hélt tónleika með verkum Jóns Leifs.

Síðust tónleikar á vegum félagsins í höndum frumkvöðlanna var umsjá þeirra á tvennum tónleikum á alþjóðlegri ISCM hátíð í Reykjavík árið 1973 (sjá nánar um hana síðar).

Tónleikastarfsemi á vegum Musica Nova lagðist niður um sinn eða fram undir 1981. Þó var félagið aldrei formlega lagt niður. Árið 1981 kom saman hópur tónskálda og hljóðfæraleikara og hélt starfseminni áfram undir merkjum félagsins. (225) Á næsta áratug átti starfsemin eftir að vera mjög blómleg á vegum þessarar nýju kynslóðar tónlistarmann, en vegna breyttra þjóðfélagshátta hefur starfsemin smátt og smátt lagst í dvala án þess þó að henni hafi þó formlega verið hætt. Það er aldrei að vita nema ungir baráttumenn eigi eftir að koma fram enn á ný undir merkjum félagsins með nýjar stefnur, ný viðhorf og nýja tónlist.


225 Í inngangi að tónleikaskrá félagsins Musica Nova fyrir veturinn 1983-1984 kemst Áskell Másson svo að orði: "Það var fyrir tveim árum, eða 1981, að hópur tónskálda og hljóðfæraleikara kom á fót félagsskap sem skyldi leggja áherslu á að kynna nýja tónlist með vönduðum flutningi á áskriftatónleikum, sem gerði þar með reglulega tónleika með nýrri tónlist í höfuðborginni að veruleika." Í upphafinu hefði frekar átt að standa "fyrir tuttugu og tveimur árum, eða 1959...."


163

Elektrónísk Tónlist á Íslandi

Inngangur

Fyrstu ritaðar heimildir á Íslandi um tækninotkun í tónlist er lítil grein í dagblaðinu Lögberg frá árinu 1909. Greinarhöfundur er Ólafur Ísleifsson (226) og byggði á ýmsum heimildum sem honum höfðu borist frá Íslandi og fjallar um það sem Ólafur kallar "hljóðritavél". Vél þessi var uppfundin af Ísólfi Pálssyni á Stokkseyri (227) í kringum aldamótin og samkvæmt greininni mun hafa veri til eintak af vélinni. Til að gera sér örlitla grein fyrir "uppfundingu" þessari birti ég hér meginmál greinarinnar:

    Ísólfur Pálsson hefir óvenjulega fjölhæfar uppfundingargáfur og liggur margt í augum uppi. Einna merkilegust mun þykja hljóðritavélin hans. Hann hefur fundið upp nokkurs konar hljóðritavél, sem er þó í engri líkingu við hina áðurfundnu hljóðritavél. Graphophon. Vél þessi ritar á pappír alla þá tóna sem koma fram í því hljóðfæri, sem hún er í sambandi við, og sýnir nákvæmlega hæð, dýpt, varanleik og styrkleik hvers tóns fyrir sig, jafnt hvort spilað er einraddað eða margraddað, og ritast hljóðið meðan það varir, hvort sem stutt er á nóturnar (t.d. forte piano) eða ekki, því sérhvert hljóð sem heyrist frá hljóðfærinu, hvort sem það er rétt eða rangt, ritar vélin.

    Það er víst, að hljóðritun þessi mun koma sönglistinni í góðar þarfir; hún er einkar hentug fyrir þá, sem fást við lagasmíði, því það sem þannig er ritað, er samstundis komið í letur og gleymist ekki, heldur geymist. Það mun líka þykja að mörgu leyti stór kostur, að vélin ritar hvert lag upp í svo margar tóntegundir samstundis sem vill, og er það ekki lítill hægðarauki fyrir þá, sem fást mikið við söng og söngkenslu, því oft þurfa þeir ýmist að hækka eða lækka lög og er það seinlegt og vandasmat verk. Loks má geta þess, að letrið, sem vél þessi ritar, er alt annað, og byggist á alt öðrum grundvelli en hið venjulega nótnaletur. Það er að eins punktar og strik, sem ýmist liggja lárétt eða lóðrétt og virðist þeim er sjá það, en þekkja það ekki, það vera ólæsilegar rúnir. En svo haganlega er letri þessu fyrir komið að að eins þarf stuttrar stundar tilsögn til þess að kunna það að fullu, og má kalla þetta atriði í uppfundningunni jafnvel það merkilegasta. Fyrir sönglistina er það ekki síður þarft en hljóðritunin,því eftir þessu letri geta menn, sem áður kunnu ekki að spila, spilað einstakar raddir miklu fljótara eftir hinu vanalega nótnaletri.


226 Ólafur þessi Ísleifsson var fæddur 17. janúar 1859 og lést 19. mars 1943. Hann var læknir og nam m.a. í Vesturheimi 1887-93. Hann samdi m.a. smásögur og ritaði greinar í blöð.
227 Ísólfur Pálsson var faðir Páls Ísólfssonar orgelleikara. Ísólfur var mjög athugull fróðleiksmaður og m.a. uppfinningamaður. Fyrir utan þessa hljóðritunarvél er í greininni minnst á aðrar uppfinningar eins og áhald sem vekti fólk ef upp kæmi eldur í húsinu (reykskynjara) og mætti stilla áhaldið eftir vild á hitastig,þ.e. það virkaði á hita. Þá er minnst á tónkvísl sem mun frábrugðin öðrum tónkvíslum. Einnig er minnst á nýtt fyrirkomulag á orgelharmonínum sem ver þau hita og kulda og því hentug í óupphituðum kirkjum og öðrum húsum. Einnig samdi Ísólfur mörg sönglög sem mörg hafa ekki komið fyrir sjónir almennings ennþá – en eru til í handriti.


164

    Auðvitað er fáum ljóst öll meginatriði þessarar uppfundningar, en það eru miklar líkur til, að þessi maður hafi náð betri tökum á hljóðsveiflunum en hingað til er þekkt. (228)

Greinarhöfundur bendir á að grein sína byggi hann á vottorðum sem heimildarmenn Ísólfs hafi skrifað um hana og "skoðað hafi vélina".

Lýsing Ólafs á vélinni vekur margar spurningar sem erfitt er að svara og gefur tilefni til vangaveltna. En fullyrða má að eina hljóðfærið sem Ísólfur hafði aðgang að var orgel harmoníum og líklega það hljóðfæri sem hann studdist við. Ef svo er þá mun hafa verið um einhvern mekanisma að ræða sem tengdist sjálfum mekanisma orgelsins. Þó svo Ísólfur hafi verið gæddur óvenjumiklum gáfum þá tel ég vafasamt að hann hafi haft vald á sjálfir "hljóðsveiflunni" eins og greinarhöfundur gefur í skyn. Þó er ýmsu ósvarað í þessum fullyrðingum þegar hann talar um að vélin hafi ritað hljóðstyrk. Eitt er þó víst að þessi tilraun Ísólfs í þá átt að afrita grafísk tákn sem gefa ýmsar upplýsingar um þá tóna er koma úr hljóðfæri hefur verið mjög merkileg og á sama tíma með því fyrsta sem gert var af slíkum tilraunum í heiminum. (229)

Það er ekki fyrr en á allra síðustu árum sem tilraunir hafa verið gerðar til að útbúa elektrónískt/tölvu stúdíó á Íslandi fyrir tónskáld og sem einnig þjónar tónsmíðanemendum Tónlistarskólans í Reykjavík, en því miður hefur ekki fengist fjármagn til að fylgja því eftir. Það hefur því verið sjálfsbjargarviðleitni einstakra tónskálda sem hefur gert þeim kleift að geta sinnt tónsmíðum sínum. Þau tónverk sem ekki hafa verið samin í skólastúdíóum bæði austan hafs og vestan, eða í öðrum erlendum stúdíóum, hafa verið samin við eldhúsborð einstakra tónskálda. Tónskáldin hafa smátt og smátt fjárfest í eigin tækjum, segulböndum –hljóðgerflum –t ölvum – forritum o.s.frv. Styrkur hins opinbera hefur nánast enginn verið og það litla sem komið hefur hefur ekki dugað til að kaupa eða endurnýja tæki á einn eða neinn hátt. Þetta hefur leitt til þess að tónskáldin hafa þurft að fjárfesta í dýrum tækum sjálf, eða fá afnot af tækjum annarra tónskálda, til að geta sinnt sinni elektrónísku listsköpun

Staðreyndirnar tala sínu máli, því er vart hægt að tala um nokkurn skóla í elektrónískri tónsköpun á Íslandi þar sem ekki er um neinn samnefnara að ræða – annan en þann að sum tónskáld hafa stundað nám undir handleiðslu sama kennara við sömu lista-stofnun erlendis. Ekkert er stúdíóið, engar sameiginlegar tilraunir, engir tæknimenn – aðeins hin einlæga þrá eftir einhverju nýju samtímis því að neita að gefast upp þrátt fyrir sinnuleysi opinbera stjórnvalda.


228 Lögberg: 8. júlí 1909.
229 Ég hef átt bréfaskipti við Eggert Ólafsson, son Ólafs þess er greinina ritaði. (Bréf frá Eggert dags. 11. október og 19. október 1996) Eggert hefur ekkert fundið um þessa vél í eftirlátnum pappírum föður síns. Eggert hafði samband við Valgeir Sigurðsson ritara á Alþingi og bað hann að leita upplýsinga um þau fylgiskjöl sem fylgdu umsókninni um styrk. Valgeir komst að því að fylgiskjölum var skilað eftir að umsókninni hafði verið hafnað. Eggert hafði einnig samband við Halldór Sigurðsson, sonarson Ísólfs og gat Halldór þess að "afi sinn hafi mælt svo fyrir að pappírar hans skyldu eyðilagðir að sér látunum". Svo langt er ég kominn í að leita upplýsinga um vél þessa.


165 (Síða 166 er auð)

Til þess að gefa sem nákvæmasta yfirlit yfir þróun elektrónískrar tónlistar á Íslandi hef ég valið að rekja feril hvers tónskálds fyrir sig, eftir því sem þau hafa komið fram á sjónarsviðið. Það geri ég vegna þess að hvert tónskáld er svo sértstætt í sinni list, hvert þeirra hefur unnið fyrir sig og því mjög fáir sameiginlegir þræðir að flétta saman. Magnús Blöndal Jóhannsson er fyrsta tónskáldið sem sinnir elektrónískum tónsmíðum á Íslandi, en Þorkell Sigurbjörnsson er sá fyrsti sem leggur stund á nám í elektrónískum tónsmíðum. Þó svo Þorkell og Magnús hafi unnið að list sinni svo að segja samtímis þá stundaði Þorkell nám sitt og tónsmíðar í Bandaríkjunum, en Magnús semur fyrsta elektróníska verkið á Íslandi og samtímis er fyrsta eletróníska verkið sem flutt er á Íslandi er eftir hann, þá telst hann frumherji elektrónískra tónsmíða á Íslandi.

Ég mun í næstu köflum rekja upphaf og þróun hvers tónskálds fyrir sig og um leið koma inn á helstu viðburði sem tengjast flutningi á elektrónískri tónlist á Íslandi. Umfang hvers kafla fyrir sig mun verða mismikið, allt eftir því hve stóran þátt hin elektróníska tónlist hefur átt í heildartónsköpun hvers tónskálds.


Vefarinn
Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Sett upp 1. des. 1998