Tónlist á Íslandi á 20. öld. Copyright © 1998: Bjarki Sveinbjörnsson 1. des. 1998

Árin 1960-90
Frá fortíð til nútíðar
Musica Nova
Fyrstu tónleikarnir
Aðrir tónleikarnir

Til bakaEfnisyfirlit Áfram

Síða 145-156

Árin 1960-90

Frá fortíð til nútíðar

Þessi kafli fjallar um tímabilið í íslenskri tónlistarsögu, þegar 20. aldar tónlist – og þá um leið ný tónlist á Íslandi í stíl 20. aldarinnar – fyrst fór að heyrast að ráði á opinberum tónleikum. Ekki verður dvalið við einstaka tónverk önnur en þau sem að hluta eða öllu leyti skilgreinast sem elektrónísk – en sú tónlist er meginefni þessarar ritgerðar. Sama gildir um tónskáldin. Einungis verður minnst á þau tónskáld sem samið hafa elektróníska tónlist. Frá árinu 1960 hafa ný íslensk tónverk verið flutt nokkuð reglulega á tónleikum á Íslandi og gildir þá einu hver stíllinn er. En fyrst frá árinu 1960 fóru straumar vestrænnar nútímatónlistar að líða um tónlistarheiminn á Íslandi í formi nýrra verka, sem samin voru í takt við hræringar í tónlistarheiminum í löndunum í kringum Ísland. Orsakast það bæði af því að um það leyti komu nokkuð mörg tónskáld heim til Íslands að loknu framhaldsnámi erlendis og einnig vegna aukins upplýsingastreymis og bættra samgangna til og frá landinu. Ég tel því árið 1960 vera það ár þegar tónlistarlífið á Íslandi fluttist af alvöru frá fortíð til nútíðar.

Þó svo að einstaka 20. aldar tónverk hafi "slæðst" inn á stöku tónleika á árunum á undan þá voru fastar hefðir ríkjandi fyrir tónlistarflutningi, þ.e. klassísk og rómantísk tónlist. Við lestur á tónlistargagnrýni í íslensku dagblöðum frá árunum 1930-60 kemur í ljós að Hljómsveit Reykjavíkur / Sinfoníuhljómsveitin héldu sig við "minni" verk framan af, en eftir því sem árin liðu jókst færni flestra hljóðfæraleikaranna - og þar með voru stærri verk tekin til flutnings. En nánast var eingöngu um að ræða stór verk fortíðarinnar. Á þessum árum eignuðust Íslendingar mjög færa hljóðfæraleikara með Pál Ísólfsson (orgel), Björn Ólafsson (fiðlu), Árna Kristjánsson (píanó) og Rögnvald Sigurjónsson (píanó) í fararbroddi, og síðan komu fleiri til sögunnar. Sama gilti um söngvarana. Þessir tónlistarmenn fluttu nánast einungis tónlist "hinna tvö hundruðu ára", þ.e. frá tónlist Bachs og fram til Debussy. Nánast undantekning var ef þeir fluttu verk sem samið var á 20. öldinni, og ef svo var átti það verk rætur í klassísk/rómantískum hefðum.

Þrátt fyrir að Jón Þórarinsson tónskáld og kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík hafi sett sig samviskusamlega inn í tónsmíðaaðferðir Hindemith á námsárum sínum í Bandaríkjunum, og síðan miðlað þeim nemendum sínum í tónsmíðum við Tónlistarskólann, var tónlist Hindemith fremur sjaldan flutt á Íslandi. Finna má nokkur íslensk tónverk sem rætur eiga í þessari kennslu, en ekkert tónskáldanna tók "trúna" á Hindemith né hans aðferðir, en margir lærðu þó kórréttan kontrapunkt hjá Jóni. Því má segja að áhrif frá Hindemith hafi komið og farið með Jóni Þórarinssyni.


146

Ungu tónskáldin og hljóðfæraleikararnir drukku í sig það sem var að gerst í núinu, og við stofnun samtakanna Musica Nova haustið 1959 má segja að nútíminn hafi haft innreið sína í íslenskt tónlistarlíf.


147

Musica Nova

Í árslok 1959 komu nokkrir ungir tónlistarmenn saman til fundar - hljóðfæraleikarar og tónskáld - í þeim tilgangi að stofna samtök sem hefðu að markmiði að flytja tónlist, erlenda sem innlenda, nýja sem gamla á sérstökum tónleikum sem kenndir yrðu við samtökin sem fengu nafnið nafni Musica Nova. (dæmi 1). Með stofnun og starfsemi þessara samtaka opnaðist nýrri tónlist, íslenskri og erlendri, leið inn í tónleikahald á Íslandi.

Dæmi 1 Stundum hefur verið sagt að margir stórir viðskiftasamningar hafi verið undirritaðir í veiðihúsum við íslenskar laxár þegar innlendir og erlendir viðskiftajöfrar hafa skenkt sér nokkra daga við laxveiðar á Íslandi. & ;mislegt svipað mætti segja um veitingahús. Eitt er víst að í veitingahúsinu Naustið í Reykjavík hafa margir slíkir samningar verið innsiglaðir og ákvarðanir verið teknar í mikilvægum málum. En það á ekki eingöngu við um viðskipti. & ;msar stórar ákvarðanir í menningarmálum hafa einnig verið teknar þar.

Haustið 1959 komu nokkrir tónlistarmenn saman við hringborð á veitingahúsinu Naustinu í Reykjavík til að ræða stofnun félags sem skyldi hafa það að markmiði "annars vegar að kynna tónlist ungra íslenzkra höfunda og reyna á þann hátt að hvetja þá til meiri afkasta, hins vegar að skapa vettvang fyrir yngri hljóðfæraleikara okkar, þar sem þeir fá tækifæri til að koma fram og reyna krafta sína. Skapandi og túlkandi listamenn vilja þannig freista þess að ná meiri þroska í list sinni með sameiginlegu átaki og gagnkvæmum áhrifum" (204) (dæmi 2).

Einn helsti hvatamaður að stofnun félagsins var Sigurður Markússon fagottleikari, er hafði á námsárum sínum í Bandaríkjunum kynnst slíkum félögum þar, sem héldu tónleika með nýrri

Dæmi 2
Dæmi 2
Haustið 1959 komu nokkrir tónlistarmenn saman við hringborð á veitingahúsinu Naustinu í Reykjavík til að ræða stofnun félags sem skyldi hafa það að markmiði "annars vegar að kynna tónlist ungra íslenzkra höfunda og


204 Ávarpsorð Jóns Nordal á fyrstu tónleikaskrá Musica Nova.


148

og eldri tónlist, sem flutt var á óhefðbundnum tónleikastöðum. Að tillögu Magnúsar Blöndal Jóhannssonar fékk félagið nafnið Musica Nova - nafn sem málvöndunarmenn voru ekki allt of hrifnir af, en nafnið endurspeglaði á margan hátt tilgang félagsins.

Félagið var hrein grasrótarhreyfing; samtök skapandi og túlkandi listamanna. Stofnendur voru: Einar G. Sveinbjönsson fiðluleikari, Gunnar Egilsson klarinettuleikari, Ingvar Jónasson fiðluleikari, Sigurður Markússon fagottleikari, Jón Nordal tónskáld / píanóleikari, Magnús Blöndal Jóhannsson tónskáld, og Fjölnir Stefánsson tónskáld. Hér voru bæði hljóðfæraleikarar og tónskáld á ferðinni, en þó nokkrir söngvarar tóku síðar einnig þátt í tónleikum félagsins.

Margt var skrifað um þetta nýja félag í bæjarblöðunum og lék mönnum mikil forvitni á starfi hinna ungu og áhugasömu manna. Ekki var efnisskráin þó rígbundin nútímatónlist nema þegar um íslenska tónlist var að ræða. Markmiðið var að halda fjóra tónleikara á ári; tvo helgaða íslenskri nútímatónlist og tvo helgaða eldri og nýrri erlendri tónlist. Ákveðið var að hafa tónleikastaði óhefðbundna - líkt og gert var erlendis sem fyrirmyndin var sótt til, þ.e. kaffihús, eða staði þar sem fólk gat komið og notið veitinga undir flutningi verkanna.

Fyrstu tónleikarnir

Tónlistarmennirnir fóru "varlega" af stað. Á fyrstu tónleikum félagsins var flutt tónlist þekktra höfunda og ekkert gert til að "ómstríða" fólki með nútímalegum tóna- / hljóðasamböndum. Þessir tónleikar voru fyrst og fremst tónleikar hljóðfæraleikaranna í hópnum. Efnisskráin var þannig (dæmi 3 á næstu síðu): Kvintett, op 71. eftir Beethoven, Þrjú sönglög eftir Hugo Wolf frá 1897, Duo Sonata eftir eftir Sergei Prokofieff og Trois Pieces Breves eftir Jacques Ibert. Flytjendur voru: Kristinn Hallsson óperusöngvari, Gísli Magnússon píanóleikari, Ingvar Jónasson fiðluleikari, Einar G. Sveinbjörnsson fiðluleikari, Peter Ramm flautuleikari, Karel Lang óbóleikari, Gunnar Egilsson klarinettleikari, Sigurður Markússon fagottleikari og Olaf Klaman hornleikari.

Ástæða þess að erlendir hljóðfæraleikarar voru í hópnum var sú að á þeim tíma voru engir Íslendingar sem gátu tekið að sér svo erfið hlutverk á þessi hljóðfæri, en útlendingarnir voru fengnir til Íslands til að leika á þessi hljóðfæri í Sinfoníuhljómsveitinni svo og að kenna á þau við Tónlistarskólann.


149

Þessir fyrstu tónleikar voru haldnir í Þjóðleikhússkjallaranum. Að geta notið veitinga á tónleikum var allnýstárlegt fyrirkomulag og vakti mikla forvitni. Tónlistarmennirnir höfðu lagt mikla vinnu í efnisskrána - meiri en áður hafði þekkst, og mátti t.d. sjá í henni ljósmynd af öllum flytjendum, ásamt stuttri lýsingu á menntun þeirra og starfi.

Frá upphafi hafði félagsskapurinn á að skipa tréblásarakvintett og strokkvartett og höfðu ýmsir aðrir hljóðfæraleikarar og söngvarar einnig lofað að leggja sitt af mörkum til að flytja mætti sem fjölbreyttasta tónlist. Að fyrstu tónleikunum loknum var efnt til umræðna í Listamannaklúbbnum, í baðstofu veitingahússins Naustsins um nýja tónlist. Málshefjandi var Jón Leifs og í framsöguræðunni ræddi hann um breytingar á hljóðheiminum í aldanna rás og hvernig nýjum verkum hefði verið tekið bæði af flytjendum og áheyrendum allt frá tímum Beethovens og fram til vorra daga. Einnig ræddi hann um að stofnun félags er hefði það að markmiði að flytja "nýja" tónlist ætti sér margar hliðstæður. Nefndi hann t.d. félagið sem Liszt hafði stofnað til kynningar á nýrri tónlist og hét Allgemeiner Deutscher Musikverein og 20. aldar félagið International Society for Contemporary Music. Einnig ræddi hann um það að hin svokallaða "konkreta" músík og "elektroniska" músík væri líklega það nýjasta sem menn væru að fást við í dag. Öll opinber umfjöllun um þessa tónleika var mjög jákvæð og fylgdu hvatningarorð og þakkir til handa hinni ungu kynslóð fyrir framtakið.

Eins og fram kemur hér að framan þá voru fyrstu tónleikar félagsins frekar "saklausir" ef haft er í huga sá nútímalegi boðskapur, sem átti eftir að koma síðar meir. Í upphafi greinar í Tímariti Máls og Menningar árið 1962 rifjar Björn Franzson upp fyrstu tónleika félagsins og líkir stofnendum við einskonar úlfa í sauðagæru miðað við það sem síðar átti eftir að koma fram. Hann skrifar m.a. í þessari grein:

    Tónleikar þessir hafa yfirleitt verið helgaðir tónskáldum nýtízkunnar hérlendum og erlendum. Þeir fyrstu sem fram fóru 10. febrúar 1960 í Þjóðleikhússkjallaranum, voru þó undantekning í því efni. Hinir ungu menn, sem að félagsskapnum standa, fóru sem sé einkar hógværlega af stað. Það sem þeir höfðu valið til flutnings á fyrstu tónleikunum, var allt eftir tiltölulega "meinlausa" menn eins og Beethoven, Hugo Wolf, Prokofiev og Ibert. Þetta var stórlega snjöll herstjónarlist, eflaust útreiknuð


150

    með þann tilgang í huga, að ekki kæmist styggð að áheyrendum, meðan verið væri að venja þá við. Áheyrendur komu því til næsta tónleikakvölds í Framsóknarhúsinu grunlausir að kalla og uggðu ekki að sér. (205)

En hvað var það sem "úlfarnir" voru að bralla að mati Björns? Fullyrða má að ekki var um að ræða neina herstjórnarlist frá hendi tónlistarmannana. Ekki hafði gefist mikill tími til æfinga, allra síst á hinum nýju verkum íslenskra höfunda þar eð stutt var frá stofnun Musica Nova. Aðalmálið var að komast í gang og því var gripið til verka eftir þá höfunda sem nefndir hafa verið - þekkt verk.

Aðrir tónleikarnir

En! Tveimur mánuðum síðar voru menn tilbúnir að takast á við það sem lagt var upp með - skapandi tónlist nýs tíma. Þeim tónleikum lýsir Björn Franzson þannig í grein sinni er hann heldur áfram þar sem frá var horfið hér að ofan:

    ...En nú voru ekki á ferðinni neinir blessaðir sakleysingjar á borð við Beethoven. Öðru nær. Grimmileg atómmúsík því nær frá upphafi til enda, og hámarkið hin elektrónska atómbomba Magnúsar Bl. Jóhannssonar, sem við sjálft lá, að rjúfa myndi hljóðhimnur aumra hlustenda. (206)

Á þessum tónleikum "bitu" úlfarnir bæði í siðgæðisvitund og fegurðarsmekk sumra áheyrenda. Hin klassísk / rómantíska tónlistarargyðja var særð blæðandi svöðusári. Hinu hreina, hinu fagra og ekki síst hinu "sanna" var misboðið með hljóðfræðilegum atómum sem skullu á áheyrendum sem óskiljanlegt stjörnuhrap. Sönglaginu, áratugagömlu vörumerki íslenskrar tónlistar var misboðið – laglínurnar "ósannar". Kadensulaus serialisminn gerði hinu tónala eyra ómögulegt að staðsetja sig í tónlistinni. Stefnufastir sínustónar réðust á hljóðhimurnar sem einskonar naglabretti. Tónlistargyðjunum var ekki aðeins misboðið í fegurð - þær voru orðnar að hávaðamengun, eitthvað sem enginn hafði áður látið sér detta í hug að gerst gæti á opinberum tónleikum. En hver var svo hin "grimmilega atómmúsík" sem flutt var á þessum tónleikum sem haldnir voru 11. apríl 1960 í Framsóknarhúsinu? (207) (dæmi 4 á næstu síðu):


205 Björn Franzson: Nokkar hugleiðingar um nýja tónlist; Tímarit Máls og Menningar, 4.-5. hefti 1962
206 Sama.
207 Sem síðar er þekkt undir nafni skemmtistaðarins Glaumbær og í dag hýsir og heitir Listasafn Íslands.


151

Dæmi 4

Dæmi 4

Jón Ágeirsson: Lög við þrjú ljóð úr "Regn í maí" eftir Einar Braga
Flytjendur: Guðrún Tómasdóttir, Kristinn Hallsson, Ingvar Jónasson, Gunnar Egilson, Jóhannes Eggertsson, Olaf Klamand, Jón Ágeirsson.

Leifur Þórarinsson: Píanósónata
Flytjandi: Rögnvaldur Sigurjónsson

Magnús Bl. Jóhannsson: Elektrónísk Stúdía með blásarakvintetti og píanói.
Flytjendur: Jórunn Viðar, Peter Ramm, Karel Lang, Gunnar Egilson, Sigurður Markússon og Olaf Klamand. Stjórnandi: Ragnar Björnsson

Leifur Þórarinsson: Þrjú sönglög: - Vögguvísa, Máríu vers, Skammdegisvísa
Flytjendur: Þorsteinn Hanneson, undirl. Rögnvaldur Sigurjónsson

Fjölnir Stefánsson: Fimm skissur fyrir píanó
Flytjandi: Steinunn S. Briem.

Þorkell Sigurbjörnsson: Haustlitir. Steinn Steinarr - in memoriam. Intrada, Elegy, Fugue, Bicinium, Vor.
Flytjendur: Guðrún Tómasdóttir, Jórunn Viðar, Jón Sen, Peter Ramm, Gunnar Egilson, Sigurður Markússon, Jóhannes Eggertsson.
Stjórnandi: Ragnar Björnsson

Fjölnir Stefánsson: Þrjú lög úr Grallaranum. - Lausnarinn Kóngur Kriste, Játi það allur heimur hér, Svo vítt um heim, sem sólin fer.


152

    Flytjendur: Níu meðlimur úr söngsveitinni "Fílharmonia" (208) ásamt Peter Ramm flauta, Karel Lang óbó, og Sigurður Markússon fagott, Stjórnandi: Robert A Ottósson.

Eins og fram kemur í efnisskránni, voru eingöngu flutt verk íslenskra höfunda brautskráðra frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, á svipuðum tíma, og haldið utan til framhaldsnáms. Fjölnir Stefánsson lauk námi 1954 og fór sama ár til London til náms hjá Matyas Seiber; Jón Ágeirsson úrskrifaðist 1955 og fór síðan í Royal Scottish Academy of Music í Glasgow; Leifur Þórarinsson úrskrifaðist 1954 og fór þaðan til Vínar, München og síðar til New York; Þorkell Sigurbjörnsson fór að loknu námi í Tónlistarskólanum árið 1957 til Bandaríkjanna og Magnús Blöndal Jóhannsson (1925) sem er nokkuð eldri en hinir, fór að loknu námi í Tónlistarskólanum, til Bandaríkjanna árið 1947 og lærði í Juilliard tónlistarskólanum í New York. Svipaðan bakgrunn eiga hljóðfæraleikararnir og söngvararnir. Fleiri markmiðum með stofnun Tónlistarskólans í Reykjavík var náð, og skiluðu þau sér í góðri uppskeru á þessum tónleikum.

Eitthvað mun hafa staðið í tónlistargagnrýnendum að fjalla um tónleika Musica Nova. Ekkert var að lesa um þá í blöðunum allan mánuðinn. Þó kom lítil klausa í einu blaðanna (209) 30. apríl þess efnis að ekki væri um að kenna pennaleti skríbentanna "því að ekki er sýnd sú revía eða ómerkilegur erlendur"farsi", að gagnrýnendur þessara blaða tvíhendi ekki þegar í stað penna sína og sendi frá sér heila maraþonkrítíkk þar um". Hvort sem þessi litla klausa hefur ýtt mönnum af stað eður ei, þá birtist í Morgunblaðinu 3. maí fyrsta umsögnin og sú greinarbesta, þó svo Þjóðviljinn hafi "aðeins minnst á" tónleikana 19. apríl.

Ný kynslóð hafði kvatt sér hljóðs með nýrri tónlistarstefnu sem hún hafði komist í tæri við og tileinkað sér í hinum ýmsu tónlistarskólum bæði austan hafs og vestan. Frumleikinn og nýjung þeirrar aðferðar sem Jón Þórarinsson kom með til Íslands frá Yale 1947, og kennd hefur verið við Hindemith, var orðin gamaldags og var hreinlega "tekin af lífi" í umræðu um nýjar stefnur í Evrópu. Allt það nýjasta sem var að gerast í tónlistarmálum Evrópu fréttist til Íslands og hinir ungu tónlistarmenn tóku fullan þátt í þeim umbreytingum.

Í umsögn sinni um tónleikana 11. apríl 1960 fór Jón Þórarinsson, sem kennt hafði sumum þessara ungu tónskálda, viðurkenningarorðum um þessar nýjungar og þessa þróun, og hvatti menn til áframhalds. Í umsögn sinni um tónleikana minntist hann á þennan framgang tónlistarinnar og skrifaði m.a.:

    En varla verður komizt hjá að geta þess - eins og til afsökunar á þeim gamalmennistón, sem fram kemur í þessum línum - að enda þótt höfundur þeirra teldist kunna sæmileg skil á tónsmíðatækni


208 Söngsveitin "Fílharmonia" hafði enn ekki haldið sína fyrstu tónleika. Söngsveitin var stofnað í apríl 1959 í þeim tilgangi að beita sér fyrir flutningi stórra kórverka og þá í samvinnu við Sinfoníuhljómsveitina, Tónlistarskólann, Ríkisútvarpið og aðra þá er að tónlistarmálum unnu. Stjónandi sveitarinnar var Dr. Robert A Ottósson. Söngsveitin kom fyrst fram í maí 1960 af tilefni 10 ára afmælis Þjóðleikhússins.
209 Frjáls Þjóð: 30. apríl 1960.


153

    samtímans, þegar hann lauk nám fyrir tæpum 13 árum, þá mun lærdómur hans og skoðanir nú teljast næsta gamaldags - ef ekki með öllu úrelt - meðal sumra af yngstu tónskáldakynslóðinni. Svo ör er framvindan í þessum greinum nú á dögum! (210)

Jón var raunsær í gagnrýni sinni, og benti á það, sem að hans mati, mætti betur fara. Um verk Jón Ásgeirssonar skrifar hann að hljóðfæraleikurinn sé "frekar laus í böndunum" en lögin séu að öðru leyti mjög aðgengileg. Í verkum Leifs Þórarinssonar finnst honum sem hann "þekki vel verk hinna eldri meistara samtíðarinnar, Strawinskys, Hindemiths og Bartóks, hugmyndir séu nógar, en nokkuð bresti á niðurskipun þeirra". Um Magnús Blöndal segir hann að hann sé ekki dómbær á verkin vegna ókunnugleika innan hins elektróníska heims tónlistarinnar. Hann telur hugmyndina spennandi og skrifar:

    En það þarf ekki auðugt ímyndunarafl til að hugsa sér, að gaman gæti verið að fást við þessi "elektrónísku" tæki, og ekki sýnist fjarstætt, að með þeim megi skapa skiljanleg og myndrík tónlistarform, sem þó væru án tengsla við hefðbundið tónkerfi, alveg eins og slík form má finna í músík Balí-manna og annara "frumstæðra" þjóða, sem engin kynni hafa af því, sem við köllum tónlistararfleifð okkar. (211)

Um verk Fjölnis Stefánssonar skrifar hann:

    Fimm skissur fyrir píanó eftir Fjölni Stefánsson voru prýðisvel leiknar af Steinunni S. Briem. Hér mun vera um að ræða "tólf tónaverk" - eitt af þeim verkum sem undirritaður hefur stundum leyft sér að kalla "góð þrátt fyrir kerfið, en ekki vegna þess". En svo er raunar um öll tónfræðikerfi, að þau tryggja ekki ágæti verkanna, hversu stranglega sem þeim er fylgt og beitt - þetta er mjög áheyrilegt verk, þættirnir allir stuttir, en yfirleitt skýrt mótaðir og hitta flestir í mark. Og þá er mikið sagt. (212)

Nýstárlegasta verk tónleikanna telur hann verk Þorkels Sigurbjörnssonar. Hann skrifar:

    Hér er gripið til ýmissa listbragða: Frá hljóðfærunum koma ekki aðeins flestir aðrir tónar en þeir, sem hægt væri að búast við, heldur eru þeir auk þess með annarlegum blæ. Söngkonan segir fram eitt ljóð, syngur eitt lag án orða, en aðeins einn hinna fimm þátta verksins getur kallazt sönglag. Allt þetta ber blæ nokkurrar tilgerðar, en þrátt fyrir það er svipur verksins í heild alvarlegur og með einhverjum hætti heillandi. (213)

Jón er raunsær í niðurlagi gagnrýni sinnar, vill með henni búa hin ungu tónskáld undir alvöru lífsins, við hverju þau megi búast í framtíðinni í umfjöllun um flutning verka sinna.


210 Morgunblaðið: 3. maí 1960.
211 Sama.
212 Sama.
213 Sama.


154

Þrátt fyrir að gagnrýnin hafi ekki eingöngu verið jákvæð að þessu sinni þá séu þeir nýlagðir af stað eftir hinni erfiðu braut listarinnar:

    Enda hefur virzt svo, sem meistaraverkin vilji stundum láta bíða eftir sér, líka hjá þeim, sem eldri eru og reyndari. Hitt er höfuðatriði, að hér eru kunnáttumenn að verki – þótt sumir séu enn við nám - menn, sem vafalaust má vænta mikils af í framtíðnni og skortir mest þá reynslu, sem í því felst að fá verk sín flutt opinberlega og kynnast þeim viðbrögðum sem þau vekja hjá áheyrandanum. (214)

Sá háttur hafði verið hafður á á fyrstu tónleikum Musica Nova, þ.e. að boða til umræðufundar að tónleikunum loknum á vegum Listamannaklúbbsins. Sama var að segja um þessa tónleika, og hélt Jón Leifs framsöguræðu – sem að stórum hluta var hugleiðing um gamalt og nýtt og á sama tíma hvatning til hinna ungu manna að þroskast sem listamenn. Það sem gerði þennan fund einstakan var að hann hvatti höfunda til opinskárrar umræðu um verkin og lagði sjálfur úr höfn með umbúðalausri umsögn um einstaka höfunda. Að þeim orðum loknum skyldi svo skapast umræða um sjálf verkin og höfunda þeirra. Umsögnin var stutt en skorinorð:

    Jón Ágeirsson: Orðin skildust ekki, – hvort sem um skal kenna tónsmíð eða túlkun. Tjáning verksins er augljós, – en stílarnir tveir, – og höfundurinn virðist eiga eftir að finna sjálfan sig betur.

    Leifur Þórarinsson: Ef hér er um nýtt verk að ræða, þá virðist honum hafa farið aftur – því að verkið virtist fálmandi og óunnið með eftirhermum á stíl Bartóks þannig að jafnvel virtist nálgast "plagiat".

    Fjölnir Stefánsson: Píanóverk has virtist mér betra en verkið eftir Leif, en þó ekki eins sannfærandi og mér hafði sýnst á handritinu. – Sálmarnir eftir Fjölni benda á rétta leið, sýnist mér, en virtust of hratt leiknir og sungnir. Vafasamt virðist mér líka hvort fylgiraddir sálmanna voru stílréttar og rökréttar. Fornari raddfærsla virðist mér eiga betur við. Allt bendir til þess að komandi tímar færi oss einmitt nær hinum forna "primitivisma".

    Magnús Blöndal Jóhannsson: "Elektroniska studíu" hans verður fyrst og fremst að meta sem tilraun og leit að frumstæðum rótum. Höfundur vinnur hér á landi enn með einhliða og ófullkomnum tækum. Eftir var að móta verkið endanlega á band og lagfæra einstaka tóna, og kemur það þá vafalaust betur í ljós.

    Þorkell Sigurbjörnsson: "Haustlitir" virtust mér vera bezta verkið á tónleikunum, – þótt það sé unglingslegt og ef til vill óþroskað, – en tjáningin er hér fyrsta lögmál, og hún er hjartahrein. Þorkell virðist óháðari fyrirmyndum en hinir höfundar kvöldsins. – Stærri "tromman" í verkinu virtist mér misnotuð eða ekki nógu bæld. (215)


214 Morgunblaðið: 3. maí 1960.
215 Vísir: 6. maí 1960.


155

Hér var ekki eingöngu um að ræða nýjan stíl í tónsköpun íslenskra tónskálda, heldur og á sama tíma nýja kynslóð tónsmiða sem í sumum tilfellum voru að heyra verk sín flutt í fyrsta skipti opinberlega. Þær voru því vel meintar hinar "föðurlegu" athugasemdir Jóns Þórarinssonar og hvatningarorð til handa hinum ungu tónsmiðum. Jón Leifs var miklu harðari og miskunnarlausari persónuleiki og umfjöllun hans miklu beinskeyttari.

En það báru ekki allir gæfu til að vera með annars vegar frekar hlutlausa en um leið raunsæja og hvetjandi umfjöllun eins og Jón Þórarinsson beitti eða þá jafn beinskeitta umfjöllun og Jón Leifs. Gagnrýnandi Þjóðviljans, Björn Franzson, sá ástæðu í áðurnefndri grein sinni að birta visst uppgjör við hin nýju áhrif sem komu með hinum ungu starfandi tónlistarmönnum í Musica Nova. Björn gefur fordómum og íhaldssemi sinni lausan tauminn í greininni sem minnst var á hér að framan. Þegar Björn ritar grein sína þá hafa verið haldnir tvennir íslenskir tónleikar á vegum Musica Nova. Hann gefur tónlist ungu tónskáldanna eftirfarandi einkunn:

Jón Ásgeirsson:

    Lítum til dæmis á upphafsatriði fyrri tónleikanna, þrjú sönglög eftir Jón Ágeirsson, sem hefur þó sýnt hæfileika til tónsmíða. Hví var laglínan þarna svona ósönn og óeðlileg? Skyldi ekki ástæðan vera sú, að höfundur vildi vera nýtízkur fyrir hvern mun og hvað sem tautaði? (216)

Leifur Þórarinsson og Fjölnir Stefánsson:

    Þeir Leifur Þórarinsson og Fjölnir Stefánsson eru eflaust líka hæfileikamenn, og píanótónsmíðar þeirra, sem þarna voru fluttar, sónata og fimm smálög, voru að minnsta kosti ekki óþægilegar á að hlýða, þó að tónlistargildi muni varla geta talizt á marga fiska fremur en sumra þeirra erlendu fyrirmynda, sem þær minna á. (217)

Þorkell Sigurbjörnsson:

    Endurheyrn þess í útvarpi gat því miður ekki annað en staðfest það mat, sem varð árangur fyrstu heyrnar, að verkið væri jafn andvana og innantómt og það er lauslopalegt að formi. ...Hinum unga tónsmiði hefur því að öllu athuguðu verið mestur greiði ger með því að ráða honum til að hverfa að þessari braut og leitast við að taka upp heilbrigðari tónsköpunarstefnu. (218)

Magnús Blöndal Jóhannsson:

    Í París er það nú nýjasti stíllinn í málaralistinni, að bestrípaður kvennmaður er látinn ata sig lit og velta sér um léreftsdúk og það, sem á léreftið kemur, síðan kallað málverk og selt ærnu verði, en enginn hörgull listfræðinga, sem meðtaka listaverkið fullir ádáunar. Sú "elektrónska tónlist", sem oss (219)


216 Vísir: 6. maí 1960.
217 Tímarit Máls og Menningar: 4. - 5. hefti 1962, bls. 391-404.
218 Sama.


156

    gaf á að hlýða á fyrrnefndum tónleikum í Framsóknarhúsinu, stendur víst á svipuði stigi listtjáningar sem þessi nýjasta málaralist. (219)

Í þessari umfjöllun endurspeglast fordómafull viðhorf gagnvart öllu sem var nýtt. Fastmótaðar skoðanir um það hvað væri tónlist og hvert sækja skyldi fyrirmyndir í tónsmíðum. Hið tónala kerfi og tónlist klassísku meistaranna var hinn eilífi sannleikur sem nota skyldi sem viskubrunn við samningu tónlistar. Allt sem ekki féll inn í þá mynd, var sótt í "rótlausar erlendar tízkustefnur" sem helriðu hinum vestræna heimi og stofnuðu um leið menningu og æskulýð hverrar þjóðar í hættur og beindu öllu hinu fagra og sanna á leið til eilífrar glötunar.

En reiði Björns beinist ekki eingöngu að ungu tónskáldunum, heldur einnig að Jóni Leifs fyrir að vera jákvæður í garð hinna ungu manna. Í ræðu sinni í Listamannaklúbbnum minntist Jón m.a. á að fram færi á þeim dögum viss "víkkun á heyrn manna", þ.e. víkkun á hljóðheiminum, ný tóna-/hljómasambönd, nýjar hljóðlindir, og ekki síst ný tónlistarform og aðferðir á beitingu einstakra hljóðfæra. Einnig á Íslandi aðhylltust menn í tónlist, ljóðlist og málaralist ný viðhorf samtímans í hinum vestræna heimi um og eftir miðja öldina - missnemma í hverri grein, en þó með tímanum í öllum greinum listarinnar. Þessi viðhorf voru mönnum eins og Birni villutrúarkennigar samtímans og skyldu þeir sem aðhylltust þær fá sömu meðferð og galdramenn fortíðarinnar – brennast á báli. Þetta viðhorf gátu ungu tónskáldin og hljóðfæraleikararnir ekki notað til neins og héldu áfram á sinni braut – gerðust djarfari og enn meira leitandi.

Musika Nova hélt starfi sínu áfram með svipuðum hætti og áður og hélt að meðaltali þrenna tónleika á ári. Efnisskráin var annaðhvort samsett af verkum erlendra nútímatónskálda, eða innlendra. Tónverk erlendu höfundanna spönnuðu stóran hluta 20. aldarinnar, og í desember 1960 voru flutt verk eftir Strawinsky, Matyas Seiber, Arthur Honegger, Paul Hindemith og Samuel Barber (hinn klassíski modernismi).


219 Tímarit Máls og Menningar: 4. - 5. hefti 1962, bls. 391 - 404

Vefarinn
Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Sett upp 1. des. 1998