Tónlist á Íslandi á 20. öld. Copyright © 1998: Bjarki Sveinbjörnsson 1. des. 1998

Íslensk tónverkamiðstöð
Aðdragandi að stofnun
Stofnun íslenskrar tónverkamiðstöðvar

Eftirmáli


Til bakaEfnisyfirlit Áfram

Síða 135 - 144

Íslensk Tónverkamiðstöð

Aðdragandi að stofnun

Eitt af baráttumálum íslenskra tónskálda var stofnun svokallaðrar MIC stöðvar (Music Information Center) – Tónverkamiðstöðvar. Umræðan um stofnun hennar fór fyrir alvöru af stað upp úr 1960 og leiddi að lokum til stofnunar Íslenskrar Tónverkaviðstöðvar árið 1968 – en þó ekki á vegum Tónskáldafélagsins.

Upp komu hugmyndir hjá Tónskáldafélaginu um að ráða erlendan nótnaskrifara á vegum Menningarsjóðs til að gera góðar raddskrár af íslenskri tónlist og í framhaldi af því sjái um útgáfu "fullkominnar verkaskrár og upplýsingarits um íslenska tónlist". (188) Á aðalfundi Tónskáldafélagsins árið 1963 bar formaður félagsins, Jón Leifs, fram eftirfarandi tillögu:

    Aðalfundur Tónskáldafélags Íslands 31. janúar 1963 fer þess á leit við menntamálaráðherra og Menntamálaráð Íslands að Tónskáldafélaginu verði veittur fjárstyrkur til að starfrækja upplýsingaskrifstofu um íslenzka tónlist með svipuðum hætti og tónskáldafélög annarra menningarþjóða kynna sína tónlist. (189)

Tillaga þessi var samþykkt og var Jóni Nordal, Magnúsi Blöndal Jóhannssyni og Þorkeli Sigurbjörnssyni falið að vinna að framgangi málsins.

Til undirbúnings stofnunar Tónverkamiðstöðvarinnar hélt Páll Kr. Pálsson í lok september 1964, á vegum Menntamálaráðuneytis og Menningarsjóðs, til Amsterdam í Hollandi til að kynna starfsemi aðalstöðva MIC (Donemus). Í framhaldi af því hélt hann til Árósa í Danmörku og sat þar 4. alþjóðafund MIC – stöðva sem áheyrnarfulltrúi.

Mikill áhugi var meðal tónskálda um stofnun tónverkamiðstöðvar á Íslandi. Til þess að flýta fyrir stofnun hennar undirrituðu félagsmenn Tónskáldafélagsins, að Sigurði Þórðarsyni undanskildum, skjal þess efnis að úthlutun sú úr Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins, sem samkvæmt skipulagsskrá var leyfileg fyrir árið 1964 og 1965, yrði látin renna til stofnunar og rekstur upplýsinga – og útbreiðslumiðstöðvar fyrir íslenska tónlist – með því skilyrði þó að Menningarsjóður Íslands legði fram sömu upphæð og Tónskáldasjóðurinn.

Með bréfi, dagsettu 25. janúar 1965, skipaði Menntamálaráðherra nefnd "sem athuga [skyldi] möguleika á stofnun tónverkamiðstöðvar" sem hefði það að markmiði að vinna að kynningu íslenskrar tónlistar erlendis með líkum hætti og slíkar stöðvar í öðrum löndum. Af hálfu Tónskáldafélags Íslands voru þeir Jón Leifs og Sigurður Reynir Pétursson skipaðir í nefndina, af Ríkisútvarpinu þeir, Vilhjálmur Þ. Gíslason og Árni Kristjánsson, af


188 Gerðabók Tónskáldafélags Íslands 6. maí 1961.
189 Gerðabók Tónskáldafélags Íslands 31. janúar 1963.


136

Menntamálaráðuneytinu, Baldvin Tryggvason og Kristján Benediktsson ásamt Þórði Einarssyni sem skipaður var formaður nefndarinnar.

Nefndin hélt fyrsta fund sinn 1. febrúar 1965 og reyndu nefndarmenn að gera sér grein fyrir því hvernig staðið væri að kynningu á íslenskri tónlist erlendis. Útvarpsstjóri, Vilhjhjálmur Þ. Gíslason, taldi "að Ríkisútvarpið hefði yfirleitt beztu aðstöðuna til að vinna að útbreiðslu ísl. tónlistar erlendis, enda væri útvarpið nú búið góðum og dýrum tækjum, svo sem upptökutækjum fyrir segulbönd og plötuskurðarvél". (190) Benti hann m.a. á að Ríkisútvarpið hefði sent lista til 99 erlendra útvarpsstöðva þar sem þeim var boðin íslensk tónlist á böndum. (191) Jón Leifs sagði þetta starf að sjálfsögðu góðra gjalda vert, en hvorki nægilega mikið né nógu vel undirbúið. Mun betur þyrfti að standa að þessum málum.

Á næsta fundi nefndarinnar, 17. febrúar 1965, mætti Páll Kr. Pálsson á fundinn að ósk nefndarinnar og gerði grein fyrir ferð sinni til Evrópu, sem greint var frá hér að framan. Að auki gerði hann nefndinni grein fyrir hvert almennt starfssvið MIC stöðva væri og á hvern hátt þær ynnu saman. Einnig bent hann á að:

    ...eitt höfuðverkefni slíkrar stöðvar yrði að senda íslenzk tónverk til systurstöðva í öðrum löndum og óska eftir því að þær sjái um flutning þeirra, og þá helzt "lifandi" flutning fremur en "mekanískan", en slíku fylgdi sú kvöð, eða "mórölsk" skylda, að sjá um flutning jafnmargra erlendra tónverka hér á landi. Ef t.d. tónverkamiðstöðin hér á landi ákveður að senda 3 tónverk til tveggja MIC-stöðva erlendis og óskaði eftir flutningi þeirra, þá þyrfti að sjá um flutning 6 útlendra tónverka hér. Sagðist Páll hafa rætt þessa kvöð við fulltrúa MIC-stöðvanna og m.a. bent á að það væri nokkuð erfitt fyrir okkur Íslendinga að uppfylla þetta skilyrði, þar sem hér var t.d. aðeins starfandi ein sinfóníuhljómsveit. Sagði hann að þessu hefði verið tekið af skilningi og teldi hann ugglaust að við fengjum afslátt frá þessari kvöð. (192)

Vorið 1956 var ráðinn þýskur hljómsveitarstjóri til að stjórna hljómsveitinni, Wilhelm Scleuning að nafni. Viðfangsefnin á tónleikunum auk einsöngs Þorsteins Hannessonar í aríum úr óperum eftir Weber og Beethoven, voru tvö verk eftir Stravinsky, Pulcenella og Eldfuglinn.

Það var því margs að gæta við stofnun tónverkamiðstöðvar, m.a. hvernig skyldi fjármagna stofnun íslenskrar tónverkamiðstöðvar. Á fundi Menntamálaráðs þann 22. mars 1965 var samþykkt að veita árlega 200.000 krónum til stofnunar og reksturs slíkrar stöðvar, svo framarlega sem næðist samkomulag milli Menntamálaráðuneytis, stjórnar Tónskáldafélagsins og Ríkisútvarpsins um nauðsynleg fjárframlög til starfseminnar. Í framhaldi af þessu samþykkti nefndin að fela Vilhjálmi Þ. Gíslasyni útvarpsstjóra, Jóni Leifs tónskáldi og Þórði Einarssyni stjórnarráðsfulltrúa að semja drög að stofnskrá og reglum fyrir tónverkamiðstöð, og er hún dagsett 10. desember 1965. Á fundi stjórnar Tónskáldasjóðs Ríkisútvarpsins þann 9. desember 1965 var einnig samþykkt að veita 200.000 krónum til stofnunar og reksturs tónverkamiðstöðvar, en reksturskostnaður var áætlaður 629.000 krónur. Hér voru því komin fram loforð fyrir um 60% stofn- og rekstrarfjár slíkrar


190 Fyrsta fundargerð nefndar, dags. 1.2.1965.
191 Um 20 útvarpsstöðvar svöruðu jákvætt.
192 Fundargerð 2. fundar nefndar til athugunar á stofnun Tónverkamiðstöðvar dags. 17. febrúar 1965.


137

stofnunar. Samþykkt var að reyna að fá það sem upp á vantaði úr ríkissjóði þar til rekstri stöðvarinnar væri tryggður annar tekjustofn.

Í þriðju grein stofnskrár Tónverkamiðstöðvar Íslands segir:

    Stjórn Tónverkamiðstöðvarinnar skal skipuð fimm mönnum. Skal einn þeirra tilnefndur af Tónskáldafélagi Íslands; einn af STEFI, Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar; einn af Menntamálaráði Íslands og einn af Ríkisútvarpinu, en fimmta meðlim stjórnarinnar skipar menntamálaráðherra án sérstakrar tilnefningar, og skal hann jafnframt vera formaður stjórnar. Stjórn Tónverkamiðstöðvarinnar skipuleggur starfsemi hennar, ræður framkvæmdastjóra og annað starfslið, eftir því sem henni þykir þurfa, og í samræmi við ákvæði stofnskrárinnar. (193)

Þegar hér var komið sögu hindraði Jóni Leifs framgang málsins. Þann 13. desember 1965 ritar hann formanni nefndarinnar, Þórði Einarssyni, bréf þar sem hann skrifar m.a.:

    Það er mjög ólíklegt að íslenzk tónskáld og rétthafar íslenzkra tónverka muni almennt fallast á að afhenda verk sín tónverkamiðstöðinni til útbreiðslu, ef meiri hluti stjórnar hennar er skipaður ósérfróðum mönnum eða fulltrúum ósérfróðra aðilja. (194)

Í tillögum um breytingu á 3. grein stofnskrárinnar skrifar Jón Leifs:

    Þeir menn, sem Menntamálaráð og menntamálaráðherra skipar, skulu vera hljómsveitarstjórar eða einleikarar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands, og skulu jafnframt skipaðir vara menn þeirra með sömu sérmenntun... (195)

Á lokafundi nefndarinnar, sem haldinn var 2. febrúar 1966, kom fram að á fundi Menntamálaráðs 31. janúar 1966 hefði þessi breytingartillaga verið ítarlega rædd "og hefði ráðið einróma verið þeirrar skoðunar að það gæti ekki samþykkt það að tilnefning þess á fulltrúa í stjórn tónverkamiðstöðvarinnar væri háð neinum sérstökum skilyrðum." (196) Einu breytingartillögurnar við hina upphaflegu tillögu um stofnskrá vörðuðu varamenn og voru þær samþykktar á fundinum.

Eftir þessa fundi og eftir þann "fleyg" sem Jón Leifs rak í framgang málsins verður að ætla að Jón Leifs hafi verið uggandi um völd sín og yfirráð í þessari nýju stofnun. Löngu áður en tónverkamiðstöðin var sett á laggirnar var hann farinn að starfa á hennar vegum á


193 Úr stofnaskrá Tónverkamiðstöðvar Íslands.
194 Bréf frá Tónskáldafélagi Íslands til Þórðar Einarssonar fulltrúa Menntamálaráðuneytis dags. 13. des. 1965, undirritað af Jóni Leifs.
195 Tillögur Tónskáldafélags Íslands um breytingu á stofnskrá Tónverkamiðstöðvar Íslands.
196 Fundargerð 5. fundar nefndar til athugunar á stofnun tónverkamiðstöðvar, haldinn 2. febrúar 1966.


138

alþjóðlegum vettvangi eins og kemur fram í fundargerðum Tónskáldafélagsins. Frá stjórnarfundi þann 25. júní 1965 er eftirfarandi bókun:

    Stjórnin samþykkti að fela formanni sínum að senda forstjóra Alþjóðasambands tónverkamiðstöðva (M.I.C. Centers) símskeyti þess efnis að af ófyrirsjáanlegum ástæðum geti Tónverkamiðstöð Íslands ekki sent fulltrúa á fund sambandsins í Dijon í næstu viku, en að fundurinn sé beðinn að staðfesta og viðurkenna nú þegar fulla þátttöku og aðild Tónverkamiðstöðvar Íslands í alþjóðasambandinu. (197)

Óljóst er hvort þessar athugasemdir Jón Leifs eru komnar frá honum einum eða hvort hann hefur í upphafi haft einhvern stuðning við þær í Tónskáldafélaginu. Á framhaldsaðalfundi 16. febrúar er bókað í gerðarbók Tónskáldafélagsins:

    Formaður óskar bókað að hann harmi mjög að félagsmenn hefðu þrátt fyrir skrifleg tilmæli hans ekki kynnt sér nefndarálitið um stofnun tónverkamiðstöðvar sem legið hefði frammi á skrifstofu félagsins og hann hefði vonað að einkum þeir menn sem á aðalfundinum 28. f. mán. hefðu óskað eftir breytingu á forystu félagsins, mundu nota tækifærið til að kynna sér betur starfsemi þess og undirbúa stjórnarskipti síðar, en þeir hefðu að engu sinnt fyrrgreindum tilmælum. (198)

Hér kemur greinilega fram að í fyrsta lagi hafi félagsmenn ekki kynnt sér það nefndarálit sem fjallað var um hér að framan, og á sama tíma ávítar hann félagsmenn fyrir að óska breytinga á stjórn félagsins, en við stjórnarkosningu á aðalfundi 28. janúar sama ár hlaut Jón Leifs 8 atkvæði í formannskjöri á móti 5 atkvæðum Jóns Nordal.

Jón Leifs hafði í upphafi ekkert umboð Tónskáldafélagsins til athugasemda við greinar stofnskrárinnar því þær voru, samkvæmt gerðabók, aldrei ræddar né neinar samþykktir gerðar. En á aðalfundi Tónskáldafélagsins 30. janúar fékk Jón samþykki fyrir þessum fyrirvörum sínum, en þá fyrst þegar búið var að ganga frá áliti nefndarinnar.

Það líða tæp tvö ár þar til orðið "tónverkamiðstöð" er nefnt aftir í gerðabókum Tónskáldafélagsins. Það er á stjórnarfundi 12. janúar 1968, en þar segir:

    Samþykkt var að boða stofnfund Íslenskrar tónverkamiðstöðvar miðvikudaginn 17. jan. nk. að Bókhlöðustíg 2 kl. 20.30, alla félagsmenn Tónskáldafélags Íslands og önnur tónskáld sem hafa undirskrifað stofnsamþykkt miðstöðvarinnar.

Nú fóru hlutirnir að ganga hratt fyrir sig og um leið fór að grafa undan valdastóli Jóns Leifs sem leiðandi manns fyrir hönd íslenskra tónskálda. Mörg ný tónskáld voru komin í hópinn sem höfðu önnur viðhorf og kærðu sig lítt um "ráðsmennsku" Jóns Leifs í málum félagsins. Í gerðabók Tónskáldafélagsins er síða sem hefur yfirskriftina "Stofnfundur Íslenskrar tónverkamiðstöðvar", dagsett 17. janúar 1968 á Hótel Sögu, herbergi 513. Á þennan fund


197 Gerðabók Tónskáldafélags Íslands 25. júní 1965.
198 Gerðabók Tónskáldafélags íslands 16. febrúar 1966.


139

voru mættir: Jón Leifs, Siguringi E. Hjörleifsson, Sigursveinn D. Kristinsson, Atli Heimir Sveinsson, Sigurður Þórðarson, Jón Ásgeirsson, Karl O. Runólfsson, Jón Nordal, Jón Þórarinsson, (199) Þorkell Sigurbjörnsson, Páll P. Pálsson, Jórunn Viðar, Skúli Halldórsson, Þórarinn Jónsson, Fjölnir Stefánsson, Magnús Blöndal Jóhannsson, Leifur Þórarinsson og Þorkell Sigurbjörnsson, sem hafði umboð frá Gunnari Reyni Sveinssyni.

Engin mál voru afgreidd á fundinum en eftir miklar umræður var kosin nefnd til að endurskoða frumvarp til laga fyrir Tónverkamiðstöðina. Í hana voru kosnir Fjölnir Stefánsson, Karl O. Runólfsson og frá Ríkisútvarpinu, Þorkell Sigurbjörnsson.

Skömmu síðar eða 25. janúar var haldinn stjórnarfundur í Tónskáldafélaginu þar sem formaður lagði fram frumvarp til laga, ásamt breytingartillögum fyrir íslenska tónverkamiðstöð. Á þeim fundi var ákveðið að funda með nefndinni er kosin hafði verið á "stofnfundinum". Sá fundur var svo haldinn 31. janúar. Þar lagði nefndin fram álitsgerð sem var rædd.

Í framhaldi af þeirri umræðu sagði Jón Leifs það álit sitt að þessi drög þyrftu frekari skoðunar við "og að óhugsandi væri að reka tónverkamiðstöð nema í sem nánustum tengslum við aðalfundi Tónskáldafélags Íslands og STEFs og við Ríkisútvarpið og helst einnig við Landsbókasafnið". (200) Erfitt er að gera sér grein fyrir þessum endalausu fyrirvörum frá Jóni Leifs. Fyrir honum virðist hafa vakað að tryggja eigin stöðu í yfirráðum yfir þessari stofnun, með ofuráherslu á að ekkert megi gera nema í náinni samvinnu við Tónskáldafélagið og STEF, en hann gegndi formennsku í báðum þeim félögum.

Á aðalfundi Tónskáldafélagsins sama dag, þ.e. 31. janúar 1968, samþykkti fundurinn einróma eftirfarandi tillögu Jóns Leifs:

    Í því trausti, að nægilegt fé sé fáanlegt fyrir stofnun og rekstur útbreiðslumiðstöðvar íslenskrar tónlistar ályktar fundurinn í tilefni af 20 ára afmæli STEFs í dag að stofna slíka miðstöð og fresta yfirstandandi aðalfundi til þess að ganga endanlega frá lögum og starfsreglum fyrir útbreiðslumiðstöðina.

Auk þessarar tillögu lagði formaður til að nefndin sem minnst hefur verið hér á að framan endurskoðaði drögin að stofnun miðstöðvarinnar í samráði við stjórn Tónskáldafélagsins. Var á þessum fundi ákveðið að fresta aðalfundi til 24. febrúar.

Stofnun Íslenskrar tónverkamiðstöðvar

Á næstu þremur vikum átti sér stað ákveðið uppgjör kynslóðanna í Tónskáldafélagi Íslands. Það óskoraða vald sem Jón Leifs hafði haft sem forystumaður og frumkvöðull í


199 Jón Þórarinsson var ekki meðlimur í Tónskáldafélaginu á þessum tíma.
200 Gerðabók Tónskáldafélags Íslands 31. janúar 1968.


140

hagsmunamálum íslenskra tónskálda í nánast 20 ár samfleytt færðist í hendur annarra manna. Hver sem var hin eiginlega ástæða, verður að álykta að allur sá seinagangur, allir þeir fyrirvarar auk yfirráðasemi Jóns Leifs hafi orðið til þess að hin nýja kynslóð tónskálda, og einstakir hinna eldri, hafi verið búnir að fá nóg.

Eins og rakið var hér að framan var haldinn "stofnfundur Íslenskrar tónverkamiðstöðvar" að Hótel Sögu þann 17. janúar 1968. Hvers vegna sá stofnfundur er skráður í gerðabók Tónskáldafélags Íslands geta aðeins orðið um getgátur, og þá væntanlega í stíl við þá skoðun sem ég hef sett fram hér að ofan um stjórnsemi Jóns Leifs. Þessi fundur var ekki á vegum Tónskáldafélagsins. Um var að ræða almennan fund tónskálda sem sóttur var af tónskáldum innan sem utan Tónskáldafélagsins.

Þann 21. febrúar boðaði undirbúningsnefnd að stofnun Tónverkamiðstöðvar til fundar að Hótel Sögu kl. 20.30. Fundarstjóri var kjörinn Sigurður Þórðarson og fundarritari Þorkell Sigurbjörnsson. Á fundinn mættu eftirtalin tónskáld:

Atli Heimir Sveinsson, Magnús Blöndal Jóhannsson, Fjölnir Stefánsson (með umboð frá Jórunni Viðar), Leifur Þórarinsson, Gunnar Reynir Sveinsson, Sigurður Þórðarson, Karl O. Runólfsson (með umboð frá Árna Björnssyni og Skúla Halldórssyni), Páll P. Pálsson, Þórarinn Jónsson, Jón Ásgeirsson, Jón Nordal (með umboð frá Páli Ísólfssyni og Jóni Þórarinssyni, þar til Jón mætti sjálfur í fundarlok) og Þorkell Sigurbjörnsson. (201) Þetta voru allflest íslensk tónskáld eða umboðsmenn þeirra.

Frá stjórnarfundi í Tónskáldafélaginu þann 22. febrúar má finna eftirfarandi bókun:

    Formaður skýrði frá því, að hann hefði frétt lauslega, að í gær [21. febrúar] hafi á Hótel Sögu í Reykjavík verið haldinn fundur nokkurra tónskálda innan og utan Tónskáldafélagsins með undirbúningsnefnd þeirri er getur í fundargerð 17. f.m. og á aðalfundi Tónskáldafélagsins 31. f.m. til þess "að stofna" tónverkamiðstöð og kjósa stjórn hennar en hins vegar hefði formaður félagsins ekki verið boðaður á þennan fund né heldur hefði nefnd sú, er hafði með höndum undirbúning tónverkamiðstöðvar hætt samráði við hann eða stjórn félagsins eins og aðalfundurinn 31. f.m. hefði samkvæmt 17. lið fundargerðarinnar ákveðið að gera skyldi. Af þessu tilefni samþykkti stjórn Tónskáldafélagsins að lýsa þennan stofnfund ólöglegan og bera fram á komandi framhaldsaðalfundi 24. þ.m. mótmæli gegn meðferð málsins. (202)

Í framhaldi af þessu blandaði Jón Leifs inn í málið sameign sinni og Tónskáldafélagsins að Bókhlöðustíg 2 í Reykjavík. Er meðferð stjórnarinnar á því máli gagnrýniverð þó ekki væri nema fyrir það að ákvarða í svo stóru máli á stjórnarfundi félagsins í stað þess að bera það undir almennan fund eða aðalfund. Verður ekki frekar fjallað um það hér.


101 Úr skjalasafni Ríkisútvarpsins, DHd/23.
102 Gerðabók Tónskáldafélagsins 22. febrúar 1968.


141

Á framhaldsaðalfundi Tónskáldafélagsins 24. febrúar bar formaður, Jón Leifs, fram eftirfarandi tillögu:

    Fundurinn ályktar að líta á þennan fund sem framhaldsstofnfund tónverkamiðstöðvar og ræða breytingartillögur við lög hennar og endurskoða lög hennar endanlega. (203)

Þessi tillaga Jóns Leifs var felld með tólf atkvæðum gegn þremur. Aftur á móti var samþykkt tillaga þar sem lýst var ánægju yfir því að stofnuð skuli hafa verið Íslensk tónverkamiðstöð.

Ég benti á það hér að framan að ég teldi óvíst að Jón Leifs hefði umboð tónskáldanna til allra þeirra fyrirvara sem hann setti, bæði fyrr og síðar við stofnskrár og lög um Íslenska tónverkamiðstöð þar sem lítið sem ekkert sé fjallað um það í gerðabókum Tónskáldafélagsins. Hvort sem það var með vilja eður ei, þá stefndi málið í það, m.a. af þessum sökum, að stofnuð yrði tónverkamiðstöð utan beinna afskipta Tónskáldafélagsins, en þó í samvinnu við það; sem sjálfstætt félag með þátttöku tónskálda bæði í og utan Tónskáldafélagsins. En þar sem Jón Leifs var með annan fótinn inni í nánast öllum málum tónskálda er stundum erfitt að gera sér grein fyrir á hvaða vettvangi hann starfar hverju sinni, en oftast virðst það miða að persónulegum yfirráðum.

Til samantektar um síðasta áhlaup stofnunar Íslenskrar tónverkamiðstöðvar birti ég hér tillögu sem vélrituð er og heftuð inn í 2. gerðabók Tónskáldsfélagsins, dagsett 20. apríl 1968 og undirrituð af Jóni Nordal, Karli O. Runólfssyni og Sigurði Þórðarsyni. Gerir hún grein fyrir endalokum þessa máls:

    Í tilefni af skrifum Jóns Leifs um aðdraganda að stofnun Íslenzkrar tónverkamiðstöðvar rifjar fundurinn upp og ályktar eftirfarandi:

    1. Til stofnfundar tónverkamiðstöðvarinnar var boðað af sérstakri undirbúningsnefnd í janúarmánuði s.l., en í henni störfuðu Jón Leifs ásamt nokkrum öðrum tónskáldum, þ.á.m. mönnum utan Tónskáldafélagsins. Málið eða drög að samþykktum fyrir miðstöðina var ekki fyrirfram borið undir stjórn Tónskáldafélagsins eða STEFs, né heldur almenna félagsfundi í þessum félögum. Frá upphafi hefur það því verið tilætlun Jóns Leifs og annarra fundarboðenda að stofna miðstöðina á almennum fundi tónskálda en ekki á fundum í Tónskáldafélaginu eða STEFi.

    2. Stofnfundur sá, sem Jón Leifs o.fl. höfðu boðið til að Hótel Sögu ræddi frumvarp það að samþykktum fyrir miðstöðina, sem lagt var fram á fundinum en kaus síðan 3ja manna nefnd til þess að semja nýtt frumvarp til laga fyrir miðstöðina og skyldi sú nefnd leggja tillögur sínar fyrir framhaldsstofnfund. Framhaldsaðalfundur var síðan haldinn hinn 21. og þar gengið frá stofnun miðstöðvarinnar.


203 Gerðabók Tónskáldafélags Íslands 24. febrúar 1968.


142

    3. Á framhaldsaðalfundi í Tónskáldafélagi Íslands, sem haldinn var hinn 24. febrúar var með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða eða 13 atkv. gegn 2 lýst eindregnum stuðningi við hina nýstofnuðu Tónverkamiðstöð.

    Af þessu er ljóst

    að frá stofnun Tónverkamiðstöðvarinnar var gengið á þeim vettvangi, sem Jón Leifs hafði sjálfur stefnt málinu inn á í upphafi

    að Tónskáldafélagið hefur lýst fullum stuðningi sínum við miðstöðina

    að áhugi Jóns Leifs fyrir aðild Tónskáldafélagsins að sjálfri stofnun miðstöðvarinnar kemur þá fyrst til skjalanna, er hann hafði orðið undir í atkvæðagreiðslu á undirbúningsfundi miðstöðvarinnar og gengið þar af fundi.

    Með tilvísun til þessa ályktar fundurinn að hafna algerlega aðfinnslum Jóns Leifs um stofnun miðstöðvarinnar og ítrekar fyrri stuðning við hana jafnframt því sem fundurinn vítir harðlega allar tilraunir til að spilla fyrir starfsemi hennar og þar með útbreiðslu íslenzkrar tónlistar.

Stundum hefur komið fram opinberlega og í umræðu manna á milli að um samsæri einhverra einstakra manna hafi verið að ræða við stofnun Íslenskrar tónverkamiðstöðvar. Jón Leifs hélt því fram að hann hefði aldrei verið boðaður á stofnfundinn. Að mínu mati verður ekki séð að um neitt samsæri hafi verið að ræða og bendir hin almenna þátttaka tónskáldanna í stofnun miðstöðvarinnar til þess. En þarna urðu ákveðin þáttaskipti í sögu íslenskrar tónlistar – kynslóðaskipti – og um leið breyttar áherslur og áhrif. Þetta er eitt dæmi um slíkt, en þau má sjá í öllum samfélögum í aldanna rás.


143

Eftirmáli

Í framansögðu hefur verið leitast við að rekja upphaf ýmissa þátta í íslensku tónlistarlífi frá árinu 1920-60. Af þessu yfirliti má vera ljóst að "alvöru" tónlistarlíf er mjög ungt í landinu, en á sama tíma hefur þróunin orðið ör – sérstaklega eftir miðja öldina. Miðað við önnur Norðurlönd, var hin músíkalska þróun á Íslandi hægferðugri fyrr á öldum – í sumum tilvikum miklu hægferðugri. Ástæður voru margar. Má þar fyrst nefna legu landsins og einangrun í margar aldir. Það kom þó ekki í veg fyrir menningarlíf að vissu marki – í sumum tilfvikum háþróað þar sem um er að ræða bókmenntirnar. Íslendingar hafa alltaf skrifað –ekki aðeins rithöfundar heldur þjóðin öll. Má sjá dæmi þess í Handritadeild Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns sem hefur að geyma um 15.000 handritanúmer þar sem er að finna uppskriftir af sögum, kvæðum, leikritum, dagbækur, mannalýsingar, staðhátta- og þjóðháttalýsingar. Þessi handrit hafa að geyma sögu alþýðunnar í mörg hundruð ár.

Um tónlistariðkun þjóðarinnar fyrr á öldum er það að segja að þar er söngurinn í hávegum. Má þar til nefna að um helmingur áðurnefndra handrita, eða um 8.000, eru uppskriftir af kvæðum; kvæðabækur sem í sumum tilvikum hafa að geyma nótur. Er þá ónefndur hinn ótölulegi fjöldi rímna sem eru löng sögukvæði og voru alltaf kveðin.

Lítið eitt mun hafa verið til af hljóðfærum í landinu um aldabil og skal þar helst nefna Langspil sem er í ætt við hið norska Langleik og einnig íslenska fiðlu sem einstaka menn munu hafa getað leikið eitthvað lítilsháttar á, þá aðallega í tengslum við sönginn. Einhver hljómborðshljóðfæri eru nefnd í sögunni, svo sem Regal en það mun aðeins hafa verið eitt hljóðfæri og tengist einum manni.

Fátt er til af prentuðum veraldlegum bókum frá 17. og 18. öld. Þær bækur sem prentaðar eru tengjast flestar kirkjunni eða klerkastéttinni, og er um að ræða sálmabækur og messugjörðabækur ýmiss konar. Eru þær til í mörgum útgáfum. Hin alþýðlega menning, og þar með söngurinn var lítt prentað og eru því hin varðveittu handrit geysilega þýðingarmikil fyrir menningu þjóðarinnar.

Um almenna tónlistarmenntun var alls ekki að ræða í mörg hundruð ár. Það var eins með hana og hinar prentuðu bækur, að hún var aðallega tengd klerkastéttinni í landinu. Af þeim ástæðum er ekkert til af hljóðfæratónlist frá fyrri öldum á Íslandi. En söngurinn lifir með kvæðunum og myndar hann bakgrunn og undirstöðu tónlistariðkunar í landinu.

Ekki fer að bera á almennu tónlistarnámi einstaklinga fyrr en um miðja 19. öld. Er þá yfirleitt að tala um einstak menn – og í einstaka tilvikum konur – sem hafa lært eitthvað í hljóðfæraleik og söng. Yfirleitt eru tilnefndir eftir miðja öldina Pétur Guðjónsson sem var orgelleikari Dómkirkjunnar í Reykjavík, sem og bræðurnir Jónas og Helgi Helgasynir.


144

Einnig skal hér tilnefndur Sveinbjörn Sveinbjörnsson þó svo hann hafi aðallega starfað erlendis.

Á 20. öld eru tveir menn oftast nefndir fyrst, eins og getið er í upphafi skrifa þessara, en það eru Sigfús Einarsson og Páll Ísólfsson. Auk þessara nefndu manna voru ýmsir sem störfuðu að ýmiss konar tónlistarmálum, eins og kennslu á hljóðfæri, söng í einstaka skólum svo og kórstjórn. Enginn hafði þá tónlistarlegu menntun né yfirsýn fyrir aldamótin til að gera slíkt átak sem gert var í kringum 1930 og á árunum þar á eftir.

Tónlistin blundaði meðal þjóðarinnar – var "í hýði" – og beðið var eftir "tónlistarvorinu" í mörg hundruð ár. En svo þegar hún loksins vaknaði varð þróunin svo ör að á aðeins nokkrum áratugum varð þjóðin ekki síður gefandi en þiggjandi á tónlistarsviði heimsins. Er ekkert undarlegt þótt söngurinn beri þar hæst. Framsæknin er einnig mikil á öðrum sviðum.

Eitt er þó rétt að benda á og stendur upp úr í baráttunni fyrir þroska tónlistarlífsins í landinu. Ef ekki hefði komið fram brennandi áhugi einstaklinga til að gera betur þá værum við ekki komin svona langt. Grunnur þess tónlistarlífs sem nú er til í landinu er að mestu unninn í sjálfboðavinnu eða þá fyrir smánarlaun. Pólítiskur skilningur og vilji til að veita fjármagni í íslenskt tónlistarlíf hefur oft á tíðum verið afskaplega takmarkaður og má finna mýmörg dæmi þess að einstakir þingmenn hafi beinlínis beitt sér gegn framgangi þess og þroska. Einnig virðast pólítísk loforð fyrir kosningar um fjárhagslegan stuðning ekki hafa neitt gildi nú frekar en áður. Tónlistarkennsla í hinu almenna skólakerfi nýtur einskis faglegs stuðnings frá mennatmálaráðuneyti, form tónlistarkennslu á framhaldsskólastiginu (í þeim einstökum skólum þar sem boðið er upp á hana) er til háborinnar. En þrátt fyrir þetta blómstrar tónlistarlíf í landinu og er það að þakka brennandi áhuga einstaklinga og framtakssemi þeirra víða um land. Er þáttur þeirra allt of sjaldan undirstrikaður í umræðu um tónlistarmál.

En það var og er ekki aðeins við fjárhangslegan vanda að stríða og almennan stuðning hins opinbera. Miklir fordómar voru (og eru stundum) áberandi og fastheldni í gamlar hefðir. Á seinni hluta 6. áratugarins þegar vitund manna fór að vakna af alvöru fyrir nýrri tónlist, þurftu ungir menn að brjótast í gegnum múra hefðarinnar og fastheldninnar hjá bæði gagnrýnendum og almenningi. Ef ekki hefði enn einu sinni orðið vakning meðal baráttumanna og áhugasamra einstaklinga sem létu gagnrýni og fordóma lönd og leið þá er óvíst hve langt hefði liðið þar til að á Íslandi yrði flutt tónlist síðari hluta 20. aldarinnar og síðast en ekki síst tónlist hinnar yngstu kynslóðar íslenskra tónskálda. Með því að taka höndum saman og stofna með sér félagið Musica Nova þá stigu ungir hljóðfæraleikarar og tónskáld eitt stærsta skref framávið sem stigið hefur verið á síðari hluta 20. aldar – ekki síður mikilvægt skref en þegar Tónlistarfélagið í Reykjavík var stofnað. Ég mun nú rekja þann aðdraganda og lýsa því umhverfi sem þessi starfsemi hóf göngu sína í.


Vefarinn
Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Sett upp 1. des. 1998