Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 22. nóvember 1996
Meðal þjóða minnast menn gjarnan merkisatburða með veglegum hátíðahöldum; Ísland er engin undantekning þar á. Á fyrri hluta þessarar aldar voru haldnar nokkrar slíkar hátíðir á Íslandi, og má þar nefna Alþingishátíðina 1930, Lýðveldishátíðina 1944 og Skálholtshátíðina 1956, haldin í tilefni 900 ára afmælist biskupsvígslu Ísleifs Gizurarsonar er fyrstur íslenskra manna hlaut biskupsvígslu á hvítasunnu anno 1056, og eru því nú, árið 1996, liðin 940 ár frá þeim atburði
Sameiginlegt með öllum þessum hátíðum er tónlistarflutningur, og ekki síst hvernig staðið var að þeim málum. Brautin var lögð á Alþingishátíðinni 1930, en þá voru kosnar nefndir til að sjá um samkeppni um annarsvegar hátíðarljóð og hins vegar tónlist við sigurljóðið.
Hátíðarnefnd Skálholtshátíðar, skipuð af kirkjumálaráðherra, Steingími Steinþórssyni og í sátu Séra Sveinn Víkingur biskupsritari, Baldur Möller fulltrúi í dóms- og kirkjumálaráðyneytinu, séra Jón Auðuns dómprófastur, séra Jakob Jónsson prestur og séra Sigurbjörn Einarsson prófessor, boðaði söngmálastjóra þjóðkirkjunnar, Sigurð Birkis á fund til að ræða ýmis tónlistarmál tengd hátíðinni. Þar sem Skálholt hafði upphaflega verið biskupsstóll alls landsins þótti rétt að hafa samráð við alla landsfjórðunga með virka þátttöku þeirra í huga. Þar var m.a. haft í huga að leita til kirkjukóra úr öllum landshlutum til að sækja hátíðina og sjá um sameiginlegan söng við guðsþjónustu í byrjun hátíðarinnar. Sigurður Birkis sá síðan um að skipuleggja æfingar meðal kirkjukóranna er þátt skyldu taka í hinum sameiginlega kórsöng og við guðsþjónustuna söng 340 manna blandaður kór undir stjórn dr. Páls Ísólfssonar - þeim stærsta sem fram til þess hafði sungið opinberlega á Íslandi.
Þar sem um raunverulega þjóðhátíð var að ræða ræddi hátíðarnefndin m.a. á fyrstu fundum sínum um að stuðla að því að ort yrðu hátíðarljóð og við þau samin kantata, svipað og gert var á Alþingishátíðinni 1930. Í júnímánuði 1955 var ljóðakeppnin auglýst og skilafrestur settur 1. september sama ár. Alls bárust ljóð frá 18 höfundum og veitt voru þrenn verðlaun; 1. verðlaun hlaut séra Sigurður Einarsson prestur í Holti undir Eyjafjöllum, 2. verðlaun Þosteinn Halldórsson prentari í Reykjavík og þriðju verðlaun Þorgeir Sveinbjarnarson sundhallastjóri í Reykjavík.
Á sama hátt var efnt til keppni um tónlist við hátíðarljóð séra Sigurðar Einarssonar. Í dómnefnd þeirri sátu Árni Kristjánsson píanóleikari, Björn Ólafsson fiðluleikari og Guðmundur Matthíasson tónlistarkennari. Alls bárust nefndinni 8 tónlistarhandrit og veitt voru tvenn verðlaun. Fyrstu verðlaun hlaut dr. Páll Ísólfsson fyrir Skálholtskantötu f. blandaðan kór og píanó/orgel og önnur verðlaun hlaut dr. Victor Urbancic fyrir Óður Skálholts fyrir blandaðan kór, þul og blásarasveit. Kantata dr. Páls Ísólfssonar var flutt á hátíðinni en kantata dr. Urbancic hlaut þau örlög, eins og kantötur sumra hinna tónskáldanna sem sendu inn verk, að lenda ofaní skúffu og verða aldrei flutt - fyrr en nú á Skálholtshátíð, 40 árum eftir að tónskáldið lauk við hana. Því miður verður að segjast að sömu örlög hlutu mörg önnur verk tónskáldsins, en eftir hann liggja fjöldi verka. Því er það gleðiefni að nú, svo mörgum árum frá andláti hans, skuli ný kynslóð tónlistarfólks á Íslandi lyfta hulunni af handritum dr. Victor Urbancic og leyfa þeim að hljóma.
Dr. Viktor von Urbantschitsch var fæddur í Vínarborg þann 9. ágúst 1903, en átti ættir að rekja til Slóveníu í Júgóslavíu (faðir hans var frægur skurðlæknir, og prófessor og námu m.a. nokkrir Íslendingar lænisfræði hjá honum). Á unga aldri afréð hann að helga líf sitt tónlistinni og árið 1925 lauk hann doktorsprófi í tónvísindum við háskólann í Vínarborg, og er doktorsritgerðar hans, Die sonatenform bei Brahms, getið sem heimildarrits í Brahmsstúdíum í helstu tónlistaruppsláttarritum Vesturlanda. Ári síðar lauk hann prófi í hljómsveitarstjórn og að auki sérnámi í píanó- og orgelleik.
Á árunum 1924 - 1926 starfaði hann sem hljómsveitarstjóri við Theater in der Josefstadt leikhúsið í Vínarborg, næstu sjö árin var hann hljómsveitarstjóri óperunnar í Mainz í Þýskalandi, árið 1934 gestastjórnandi konunglegu óperunnar í Belgrad, Júgóslavíu og 1935 - 1938 stjórnaði hann háskólahljómsveitinni í Graz ásamt því að vera aðstoðarskólastjóri Tónlistarskólans í þeirri borg.
Að framansögðu má sjá hvílíkur hvalreki það var fyrir íslenskt tónlistarlíf að fá slíkan mann til starfa á bernskuárum nútímalegs tónlistarlífs á Íslandi. Ásamt nokkrum öðrum erlendum tónlistarmönnum, fyllti hann skarðið í kennarahóp Tónlistarskólans í Reykjavík sem heimamenn ekki gátu mannað og fullyrða má, að það skarð sem hann fyllti var stærra en annarra - bæði fyrr og síðar.
Dr. Urbancic (hann valdi að breyta rithætti nafns síns á þennan hátt til einföldunar fyrir Íslendinga, og mun oftast hafa verið nefndur þessu nafni af samferðafólki sínu) kom til Íslands í ágúst árið 1938 og tók við stöðu Dr. Franz Mixa sem kennari við Tónlistarskólann og stjórnandi Hljómsveitar Reykjavíkur. Þar sem Dr. Urbancic var ráðinn til landsins af Tónlistarfélaginu voru flestir tónleikar sem hann stjórnaði haldnir undir merkjum þess. Þó var undantekning þar á eins og þegar hann í fyrsta sinni á Íslandi hélt tónleika með kaþólski kirkjutónlist og flutti m.a. verkið Stabat Mater eftir Pergolese.
Strax á fyrstu árum sínum hér á landi gat dr. Urbancic sér orð fyrir hæfileika sína sem tónlistarmaður og ekki síður var ljúfmennska hans og lipurð annáluð. Það var ekkert svo smátt í tónlistarmálum að það væri ekki þess virði að fara um það mjúkum höndum og til eru margar frásagnir þar sem hann gekk milli húsa og kenndi byrjendum á hljóðfæri.
Það er of langt mál hér að minnast allra þeirra stórræða sem Dr. Urbancic vann á Íslandi, en með Hljómsveit Reykjavíkur og Tónlistarfélagskórnum færði hann upp verk eins og Judas Makkabeus og Messías eftir Händel, Davíð konung eftir Honegger, Requiem eftir Mozart, Stabat Mater eftir Pergolesi, Jólaóratoríuna og Jóhannesarpassíu Bachs. Í síðastnefnda verkinu felldi hann Passíusálmana að verkinu sem gerði Íslendingum auðveldar með að skilja hið raunverulega innhald passíunnar. Um það framtak dr. Urbancic skrifaði dr. Páll Ísólfsson m.a.
Undravert var það, hversu vel dr. Urbancic tókst að samræma t.d. sálma Hallgríms Péturssonar passíu Bachs, en hann kynnti sér þá til hlítar og valdi þá af mikilli þekkingu og smekkvísi hins næma listamanns.
En það voru ekki eingöngu kirkjuleg verk tónbókmenntanna sem dr.Urbancic færði upp saman með tónlistarfólki á Íslandi. Hann kom gjarnan fram sem einleikari á orgel og píanó, og varla voru haldnir einsöngs- og einleikstónleikar án þess að Urbancic væri undirleikari. Í samstarfi við Leikfélag Reykjavíkur setti Tónlistarfélagið upp hinar ýmsu óperettur undir stjórn Urbancic, og þar á meðal fyrstu íslensku óperettuna, Í álögum, og eftir að hann gerðist hljómsveitarstjóri Þjóðleikhússins árið 1952 þá stjórnaði hann mörgum óperum á sviði þess. Má þar stuttlega nefna óperur eins og Rigoletto og La Traviata eftir Verdi, La Bohem og Tosca eftir Puccini, og mun sú síðastnefnda hafa verið 14. söngleikurinn sem hann stjórnaði á Íslandi.
Ekki verður slík upptalning gerð án þess að minnast á Tónlistarfélagskórinn í Reykjavík. Um dr. Urbancic sem kórstjóra hefur dr. Páll Ísólfsson skrifað m.a.
Þar sem sameinaðist kór og hljómsveit í hinum voldugu verkum meistaranna, þar var hans heimur, og undir handleiðslu hans varð Tónlistarfélagskórinn á þessum árum einn af beztu kórum Norðurlanda, eins og fram kom á söngmótinu í Kaupmannahöfn árið 1948.
Það varð hlutskipti dr. Urbancic í íslensku tónlistarlífi að vinna öðrum til heiðurs en sjálfum sér og ef grannt er skoðað má teljast með ólíkindum hversu miklu hann fékk áorkað í okkar, á þeim tíma, erfiða tónlistarlífi. Hann var fremstur meðal jafningja og endurtaka má það sem Jón Leifs ritaði um hann í minningargrein 9. apríl 1958: "Menn munu eiga eftir að átta sig á því, að meðal tónmenntamanna hér var hann sá eini, sem gat bjargað hlutunum í tónflutningi þegar mikið lá við og jafvel þótt allt væri komið í óefni".
Dr. Viktor von Urbantschitsch lést í Reykjavík á föstudaginn langa, þ. 4 apríl árið 1958. Ég vil endurtaka orð Baldurs Pálmasonar í minningargrein um Dr. Urbancic:
Duft hans blandast íslenzkri mold eftir að hann er sjálfur genginn á ginnhelgum degi inn í þá Paradís, sem hann lét tíðum prísa í söng og hljóðfæraslætti.
Minningin um hann mun lifa á Íslandi í starfi hans sem þátttakandi í uppbyggingu íslensks tónlistarlífs og ekki síður í tónlist hans sem að stórum hluta varð til á Íslandi.
20. janúar 1997
© Bjarki Sveinbjörnsson