Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 13. maí 1995.
Þessi vísubyrjun kom í huga minn ekki alls fyrir löngu vegna einskonar "perfomance" á versturströnd Danmerkur. Í tilefni af 50 ára afmælis "endurheimts frjálsræðis" eftir stríðið vildu Danir minnast stríðsloka með því að senda örmjóann leiser ljósgeisla eftir allri vesturströnd landsins - frá landamærum Þýskalands og Danmerkur, til Skagen. Þessi ljósgeisli hefur orðið tilefni mikillar umræðu í Danmörku; neikvæðrar umræðu í þá átt að m.a. minni þessi örmjói geisli um of á ljóskastara stríðsins. Í þessari uppákomu sameinast tími og saga í tækni og list nútímans - leiser ljósinu.
En ljósið, sagan og tíminn getur einnig haft aðrar víddir. Á Norrænum Músíkdögum í Gautaborg dagana 3. - 6. maí var gerð tilraun til að kasta ljósi á það hvort finnist nokkur norrænn tónn í tónlistinni. Leitað var uppruna í byltingarkenndri þróun sem varð í Evrópu og dregnir voru bókmennta- og myndlistarþræðir inn í tónlistarumræðu, sem spannar Norræna tónlistarþróun frá Sibeliusi til Per Nørgaard. Leita menn gjarnan að rótum hins norræna í sögunni - sem aftur tengist tímanum - sem aftur má leiða til ljóssins - ljósi norðursins. Hefur einmitt verið bent á í þessu sambandi hugtök eins og "norrænt ljós" í myndlist sem fram hafa komið á myndlistarsýningum í suður Evrópu og Ameríku.
Á músíkdögunum voru frumflutt 7 ný verk eftir tónskáldin Peter Bengtson, Steffen Mossenmark, Arvo Pärt, Henrik Strindberg, Harald Svensson, Þorkel Sigurbjörnsson og Þorstein Hauksson. Reynt var að gefa mynd af norrænni tónlist og henni til samanburðar voru dregin inn verk frá löndum sem valin voru með austur-vestur í huga, þ.e. eftir tónskáld frá Eistlandi í austri - Veljo Romis og Arvo Pärt - og Ameríku í vestri - Terry Riley og Steve Reich.
Ég held að menn geti verið sammála um að í verkum tónskáldanna Sibeliusar, Nielsens, Griegs og Jóns Leifs finni maður norræn áhrif frá náttúru, ljósi og sögu. En hvort þessir hlutir liggi eins skýrir í nokkrum þeirra minimalistisku verka eftir yngri Norræn tónskáld skal látið ósagt. En í mörgum örðum stíltegundum birtist oft "ljós" - einskonar norðurljós - sem leiðir hugann ósjálfrátt að einhverju Norrænu í verkum yngri tónskálda.
Ekkert verkanna sameinaði þó tímann og söguna eins vel og Ferðalag Þórs til Útgarðaloka - Norræn þjóðsaga tónsett af Þorkeli Sigurbjörnssyni. Kynslóðir koma og kynslóðir fara segir einhversstaðar í sálmi og oft hefur maður lesið og heyrt þá fullyrðingu að sagan endurtaki sig. Langflest hinna yngri tónskálda á Íslandi, þ.e. sem fædd eru í kringum 1950, hafa notið leiðsagnar Þorkels í heimi tónlistarinnar. Í því barnastarfi sem hann hefur unnið að alla tíð taka nú þátt börn sem eru á þeim aldri að geta verið afkomendur yngri kynslóðar tónskáldanna. Skemmst er að minnast frásagnar í Morgunblaðinu frá starfi hans með nemendum Tónmenntaskólans í Reykjavík. Einnig er þekkt starf hans með börnum í Gautaborg á síðasta ári.
Nú hefur Þorkell bætti enn einu nýju verki handa fjölskyldunni, en er þetta nýja verk hans afskaplega skemmtilegt og fallegt og nær til allra aldurshópa. Var verkið flutt tvisvar fyrir fullu húsi barna og foreldra þeirra. Það má gjarnan koma fram hér að á síðasta hálfu örðu ári hafa verið frumflutt a.m.k. 5 ný verk eftir Þorkel á stórum tónlistarhátíðum í Svíþjóð. Eru það fleiri frumflutt verk en eftir nokkuð sænskt tónskáld á sama tíma við sömu aðstæður tjáði Göran Bergendal mér.
Hitt íslenska verkið sem var frumflutt á hátíðinni var verkið Ever - changing Waves eftir Þorstein Hauksson. Er með því verki fallin til enn einn bitinn í því pússluspili sem síðar á að mynda heildina Psychomachia sem verður óratoría sem byggð er á hinu stóra sexliða ljóði um "stríðið um mannssálina" eftir hið fornkristna skáld Prudentius (348 - 410). Titill verksins er upphaflega nafnið á 10 mínútna verki fyrir messósópran og selló og hefur það m.a. verið gefið út á geisladiski á Íslandi.
Titillinn á þessu nýja verki stendur fyrir þá hugmynd sem liggur að baki samningu verksins - hin síbreytilega bylgja í bæði náttúr og lífi - það er svo margt í tilverunni sem hefur einskonar lögmál sem líkja má við bylgjur - eða öldur. Allar stærri hreyfingar verða sýnilegar af stórum öldum - einskonar þrepum sem byggð eru á undirþrepum - sem þróast að ákveðnum lokapunkti - aldan brotnar og ný myndast. Þessar öldur fá síðan sína orku úr "undiröldum" sem eru með til að mynda heildina - því þessi titill.
Einnig voru flutt á hátíðinni verkin cho eftir Þorstein Hauksson og Flautukonsert eftir Atla Heimi Sveinsson sem hann samdi árið 1973. Fékk höfundurinn tónlistarverðlaun Norðurlanda fyrir verkið árið 1975. Kolbeinn Bjarnason lék einleik í báðum þessum verkum. Auk þessara verka voru fluttar Þrjár myndir og Requiem eftir Jón Leifs.
Göran Bergendal skrifar langa "rapsódíu" yfir nokkur íslensk tónskáld og verk þeirra í stóra og vandaða tónleikaskrá hátíðarinnar. Þar bendir hann m.a. á að tíminn meðhöndlist á annan hátt á Íslandi en í Svíþjóð. Hann nefnir þrjú dæmi þessu til stuðnings. Í fyrsta lagi bendir hann á að Ísland hefur aldrei tekið upp sumartíma því bændur og veiðimenn hafi þá skoðun að það sé ekki hlutverk ríkisins að breyta tímanum. Einnig bendir hann á að Íslendingar hafi annan skilning á klukkunni; klukkan 7 getur - en þarf ekki - þýtt klukkan 9. Og í þriðja lagi liggi fortíðin í núinu. Fjallar hann síðan um þau íslensku tónskáld sem eiga verk á hátíðinni.
Líklega sinnir ekkert hinna Norðurlandanna eins vel tónlist íslenskra tónskálda og Svíþjóð. Á síðasta ári áttu t.d. Kjartan Ólafsson, Karólína Eiríksdóttir, Atli Heimir Sveinsson, Þorkell Sigurbjörnsson og fleiri tónskáld verk á tónlistarhátíðum í Svíþjóð. Enginn hefur skrifað eins mikið um íslenska tónlist á seinni árum eins og Göran Bergendal, og má í því sambandi benda bæði á bók hans um Íslenska tónlist og svo allan þann fjölda greina sem hann hefur ritað í norræn fagtímarit um tónlist - og þá einna helst í Nutida Musik.
Nokkur verk yngri tónskálda á Íslandi hafa verið hljóðrituð og gefin út á geisladiski og vil ég benda fólki á að hafa samband við Íslenska Tónverkamiðstöð sem getur útvegað þessa diska og einnig allar útgáfu með tónlist Norrænna tónskálda í gegnum net Norrænna Tónverkamiðstöðva. Hvernig er það annars, hljóðritar ekki Ríkisútvarpið alla nýja íslenska tónlist sem frumflutt er á Íslandi?
20. janúar 1997
© Bjarki Sveinbjörnsson