Íslenskir tónar í Álaborg
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 30. apríl 1995.
Þau liggja eins og flugur veiðimannsins í sérsmíðuðu boxi. Þau hafa hvert sína sál, hvert sinn persónluleika. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort þau fyrir einleikaranum fái nokkurn tíman nafn eins og flugurnar. Fyrir mér eru þau bara, og heita, klarínettublöð. En það er ekki sama hver tekur þau upp úr boxinu, ber þau upp að ljósinu, vætir þau munnvatni og stingur þeim í munnstykki klarínetturnar. Þau voru mörg, sennilega 20 talsins, klarínettublöðin sem hinn íslenski sendiherra hljóðfærisins, Einar Jóhannesson, tók til athugunar fyrir lokaæfingu á klarínettukonsertinum sem Karólína Eiríkdóttir samdi fyrir hann og var frumfluttur á fimmdudagskvöldið í Álaborgarhöllinni í Danmörku.
Álaborgarhöllinn er opinber tónleikastaður Sinfónuhljómsveitar Álaborgar, en framkvædastjóri hennar er Knud Ketting sem í mörg ár hefur fylgst með norrænni tónsköpun og tónlistarflutningi. Hann er einnig gjörkunnugur íslensku tónlistarlífi.
Við höfum ákveðnar skyldur gagnvart norrænni tónlist og því höfum við sett saman norræna tónleikaröð sem hefur verið í gangi í vetur. Því er það eðlilegt að ljúka þessari tónleikaröð með frumflutningi og einnig eðlilegt að það skuli vera íslenskt verk því íslensk tónlist er sú tónlist sem við heyrum sjaldnast
sagði Knud Ketting í samtali á lokaæfingunni. Þar sem hann þekki ákaflega vel til í norrænni tónsköpun stóðst ég ekki freistinguna um að spyrja hann hvort íslensk tónsköpun væri að hans mati sambærileg annarri norrænni tónlist.
Ég álít að það sé auðvelt að finna góða íslenska tónlist og góð íslensk tónskáld. Ef við lítum á hversu margt fólk b¦r á Íslandi miðað við önnur Norðurlönd þá finnst mér það undravert hversu mörg góð tónskáld eru á Íslandi. Það var alls ekkert vandamál að finna tónskáld á Íslandi sem í stóðst fullkomlega þau gæði sem óskað var eftir í þessari tónleikaröð. Í þessu tilfelli varð Karólína Eiríksdóttir fyrir valinu.
Að beiðni Sinfóníuhljómsveitarinnar í Álaborg, með Einar Jóhannesson í huga sem einleikara, samdi Karólína þennan klarínetturkonsert sem hún lauk víð í júní á síðasta ári. Er þessi konsert jafnfram fyrsti einleikskonsertinn sem hún semur.
Kínverski hljómsveitarstjórinn Lan Shui stjórnar verkinu.
Ég elska að stjórna svona fallegum verkum sem fólk heyrir sjaldan. Þetta verk er svo fullt frjálsleika fyrir einleikarann og hljómsveitina - svo litríkt og frjálst í uppbyggingu. Þetta er einskonar konsert; litrík fantasía - ákaflega norræn, íslensk í tónmáli, miklar víddir, sérstaklega annar þátturinn.
Karólína Eiríksdóttir er vel sigld í norrænu tónlistarlífi. Um tónlist hennar hafa verið skrifaða fjölmargar greinar í t.d. sænska tónlistartímaritinu Nutida Musik og verk hennar hafa verið flutt víða um lönd og eru t.d. mjög oft flutt í Svíþjóð. Hún hefur sinn mjög áberandi persónulega stíl í sínu tónmáli þar sem ákveðnar tónhugmyndir gegnumganga djúphugsaða þróun og birtast í bæði í sínum einfaldleika sem og fjölbreytileika í framvindu verksins. Hún er stuttorð en gagnorð í sínum stíl, allt er á sínum stað nákvæmlega hugsað og nákvæmlega útfært. Vonandi fá Íslendingar tækifæri til að heyra konsertinn fluttan á Íslandi.
Það eru ekki bara útlendingum sem verður brugðið við að heyra Einar leika á hljóðfærið sitt. Ekki síst þegar sameinast í einu verki glæsileg og skemmtileg tónsmíð og vandaður hljóðfæraleikur.
Við megum gefa ungu tónskáldunum okkar meiri gaum á Íslandi.Látum ekki söguna endurtaka sig aftur og aftur. Að það skuli vera útlandið sem bendir okkur á að við eigum góð tónskáld er algjör óþarfi. Það erum við sem erum sérfræðingar í að segja söguna; við megum vera duglegri að segja alheiminum sögur af verkum tónskáldanna okkar. Það heitir vís í dag að kynna menningu landsins. Munum eitt, að handrit og tónverk tónskáldanna okkar hafa hreint ekkert minna menningargildi en handrit og bækur rithöfundanna okkar. Og að lokum - Hvað dettur mönnum í hinum stóra heimi þegar minnst er á Noreg, Finnland og Danmörku. Jú eru það ekki einmitt Grieg, Sibelius og Carl Nilsen!
20. janúar 1997
© Bjarki Sveinbjörnsson