Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 9. janúar 1996.
Það líður oft langt milli þess að menn rifji upp sögulegar staðreyndir um tónlistarsögu okkar íslendinga eða skiftist á skoðunum um hana. Nánast eini vettvangur skoðanaskipta og upplýsinga eru síður dagblaðanna og verða því af þeim ástæðum að takmarkast við það pláss sem þar er látið eftir til þeirra skrifa. Er nú kominn tími til að tónlistin fái aftur sitt eigið tímarit til faglegrar umfjöllunar og skoðanaskipta um bæði söguleg, fræðileg og listræn gildi tónlistarinnar.
Í desembermánuði fóru fram dálítil blaðaskrif um flutning og kynningu á verkum Johann Sebastian Bachs á Íslandi milli annarsvegar eins helsta kórfrömuðs þessa lands á síðari hluta aldarinnar, og svo kórmeðlims í einum af okkar bestu nústarfandi kórum. Ekki er það ætlun mín að taka þátt í þeirri umræðu sem fram fór milli þeirra heldur aðeins minnast á sögulega staðreynd varðandi brautryðjendur í kynningu á kórverkum Bachs á Íslandi og sem mér finnst ástæðu til að séu nefndir í sögulegu yfirlitu um þá, hversu stutt sem það kan nú að vera. Ég hef lesið það sem stendur í áðurnefndum blaðaskrifum Ingólfs og langar mig að bæta örlitlu þar við. Það sem ég staldraði við voru eftirfarandi atriði sem stendur í greininn í Morgunblaðinu 6. desember þar sem segir:
Meistaraverk Bachs fyrir kóra, hljómsveit og einsöngvara lágu að mestu í þagnargildi hér á landi, þar til Pólýfónkórinn reið á varðið með Jólaóratóríunni í Kristkirkju árið 1964
og einnig í svargrein hans 21. desember, en þar segir m.a:
Ástæða hefði verið til að geta annarra sporgöngumanna í að kynna tónlist Bachs....
Ég hef engar athugasemdir við greinarskrif þessi aðrar en það sem hér verður skrifað og finnst mér þær upplýsingar sem þar koma fram, hefðu átt heima í þessari umfjöllun um sögulega yfirliti um brautryðjendurna vegna sögulegs gildis og áreiðanleika upplýsinganna.
Íslendingar hafa löngum sótt sér aðstoð við kennslu og flutning á tónlist til útlanda, eða allt aftur til um árið 1100 er franski prestsins Richini var ráðinn að skólanum að Hólum til að kenna "sönglist ok versgerð". Árið 1938, nánar tiltekið í ágústmánuði, kom til landsins dr. Victor Urbancic og var hann ráðinn kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík. Benda skal á að hann gerðist íslenskur ríkisborgar sem var honum jafn mikils virði og heiður hans og fékk hann m.a. fálkaorðuna fyrir störf sín á Íslandi.
En það er nú stundum eins og menn vilji gleyma starfi "útlendinganna" - sem margir urðu Íslenskir ríkisborgarar - að tónlistarmálum landsins. Má þar um kenna í vissum tilfellum mikilli þjóðernishyggju sem var svo ríkjandi hér á árum áður, sérstaklega fyrir miðja öldina - og er kannske bólar á enn - eða þá að menn velja það úr sögunni sem hentar þeim og þeirra málstað og túlka út frá því - þessi menn voru bara útlendingar, hefur verið sagt. En nú að því sem ég vildi benda á.
Dr. Urbancic æfði og stjórnaði nánast öllum stórverkum Bachs, og fleiri tónskálda, á Íslandi á árunum 1940 - 1950. Skulu hér nefnd nokkur dæmi. Judas Makkabeus og Messías eftir Händel, Davíð konungur eftir Honegger, Requiem eftir Mozart, Stabat Mater eftir Pergolesi, Jólaóratoríuna, Mattheusarpassíuna og Jóhannesarpassíuna eftir Bach. Í síðastnefnda verkinu vann hann það þrekvirki að samhæfa vers úr Passíusálmunum og gamla íslenska sálma ásamt ritningargreinum á íslensku við tónlistina. Eignuðust þar með Íslendingar líklega fyrstir þjóða þetta verk á móðurmáli sínu aðrir en höfundur, þ.e.a.s. textinn var ekki þýddur. Flytjendur undir stjórn hans voru Hljómsveit Reykjavíkur og blandaður kór, en við orgelið sat Páll Ísólfsson. Mun þetta vera í fyrsta sinni sem Guðmundur Jónsson vakti á sér athygli sem söngvari. Var verkinu útvarpað úr Fríkirkjunni á föstudaginn langa árið 1943.
Vil ég hér vitna í grein í Útvarpstíðindum frá þessu ári, en þar segir m.a:
Síðan hann [dr. Urbancic] hóf starf sitt hér á landi, hefur hann flutt hvert stórverkið á fætur öðru, "Messías" og "Requiem" Mozarts o. fl. og nú "Jóhannesarpassíuna eftir Joh. Seb. Bach, er flutt verður á föstudaginn langa. Við þessi stórvirki, við hinar erfiðustu aðstæður, hefur glöggt komið í ljós hinn ódrepandi áhugi hans og starfsþrek. Það er aðdáunar og undra vert, hve fljótt og vel dr. Urbantschitsch hefur tekizt að átta sig á sérstöðu Íslendinga í tónlistarlegum efnum og hinn íslenzki búningur og tekstaval hans við "Jóhannesarpassíuna" sýnir, að þekking hans og skilningur nær til fleiri sviða íslenzkrar menningar en tónlistarmála einna.
Einnig má lesa í minningargrein um hann í Þjóðviljanum árið 1958:
Mikil stoð varð hann voru fátkælega tónlistarlífi. Hann flutti hér í fyrsta sinni hin miklu kórverk meistaranna, oratorium og guðspjallaverk
Ríkisútvarpið hljóðritaði á sínum tíma flutning á fjölda verka undir stjórn dr. Urbancic. En!, einhverjir starfsmenn tónlistardeildar Ríkisútvarpsins höfðu einhver undarleg viðhorf gagnvart þessum upptökum, og svo mörgum öðrum, að engu tali tekur. Má þar minnast á "Opið bréf til útvarpsráðs" dags.19. mars 1960 frá Jóni Leifs, en í því segir m.a.
Við athugun á möguleikum til að kynna í Ríkisútvarpinu tónverk eftir undirritaðan hefir komið í ljós að tapast hafa í vörzlum útvarpsins upptökur, sem því hafa verið látnar í té.
Einnig má minnast á grein í Tímanum frá erfingjum Urbancic þ. 6. apríl 1960 með yfirskriftinni "Hvar eru...?", en þar segir m.a.
Eftir andlát hans voru margir að hvetja okkur til að bjarga þessum upptökum frá glötun frá útvarpinu, þar sem komið hafði í ljós, jafnvel á meðan dr. Urbancic var enn á lífi, að þær reyndust annað hvort ekki finnanlegar eða þá að meira eða minna leyti eyðilagðar, ef til þeirra átt i að taka.
Fróðlegt væri að kynnast þessum "bannað að flytja" viðhorfum og 10 tommu nagla tækninni við að eyðileggja hljómplötur sem sögur fara af.
Mikið og óeigingjarnt starf fór fram á Íslandi á árum áður en því miður hefur mönnum ekki þótt ástæða til, eða ekki haft vettvang til að kynna nema þá þætti sem að þeim sjálfum snýr. Í framhaldi af þessu má einnig minnast á að allir Brandenboragkonsertar Bachs voru kynntir á vegum Kammermúsíkklúbbsins um 1958 og var það gert fjárhagslega mögulegt með styrk úr tónlistarsjóði Guðjóns Sigurðssonar. Voru þar að verki strengjaflokkur úr sinfoníuhljómsveitinni ásamt nokkrum einleikurum. Var þá m.a. ráðinn hingað ungur Þjóðverji, Klaus Peder Doberitz, til að leika á Viola da gamba, eða gambafiðlu eins og Björn Franzon kaus að kalla hana. Var þetta líklega í fyrsta sinni sem leikið var á slíkt hljóðfæri á Íslandi.
Gleðilegt er að lesa að Háskóli Íslands skuli standa að tónlistarkynningum og tónlistarkennslu. Er þetta eflaust viðleytni Háskólans í að halda við virkri tónlistarkynningu innan þeirrar stofnunar, sem á upphaf sitt í, að undangenginni tónlistarkynningum Karlakórs Háskólastúdenta frá árinu 1953, stórgjöf Isac Stern sem gaf Háskólanum tekjur sínar sem hann fékk af heimsókn sinni til Íslands árið 1955 til
að opna megi tónlistarstofu með beztu fáanlegu tækjum til hljómplötuleiks og vísi að tónplötusafni,
og svo gjöfum annarra í framhaldi af því.
Efnisyfirlit |