Um flutning á verkum Bachs á Íslandi - skýring.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 2. mars 1996


Föstudaginn 9. febrúar síðastliðin skrifar Ingólfur Guðbrandsson í Morgunblaðið grein undir heitinu Sagan - geymdin - gleymskan. Er hún að hluta til svar við því - sem átti að vera vinsamleg ábending, en ekki gagnrýni - frá mér sem birtist í Morgunblaðinu um mánuðu áður. Vil ég nú koma með dálitla skýringu á skrifum mínum, og um leið leiðréttingu á einu atriði í upptalningu minni á verkum eftir Bach. Ég á engan þátt í þeim skrifum sem annar greinarhöfundur á og nefnd er í svari Ingólfs.

Eins og Ingólfur nefndi fljótlega í grein sinni, þá var ég kórfélagi í Pólýfónkórnum frá starfsárinu sem við tók eftir frumflutning á Matteusarpassíu J.S.Bach á Íslandi árið 1972. Sem kórfélagi upplifði ég mörg stærstu kórverk tónbókmenntanna, auk ýmissa smærri verka - allt niður í lítil kórlög. Einnig, sem meðlimur kórsins, ferðaðist ég um Danmörku, Svíþjóð, um stóran hluta norður-Ítalíu, svo ekki sé minnst á velheppnaða ferð til Edinborgar þar sem kórinn flutti Messías eftir Händel, auk þann fjölda tónleika sem haldnir voru á Íslandi. Ég tel mig hafa verið mjög heppinn að fá að taka þátt í svo metnaðarfullu tónlistarstarfi sem kórinn var, eins og Ingólfur bendir á í tilvitnunum í bók um kórinn - sem ég las síðastliðið sumar þegar ég var á Íslandi.

Fyrir mér var þáttaka mín í kórnum ekki bara flutningur á kórtónlist, heldur var kórstarfið góður skóli fyrir mér. Ingólfur Guðbrandsson var sjálfur oft einstakur í að miðla af mikilli tónlistarþekkingu sinni og einnig valdi hann sér alltaf aðstoðarfólk til raddþjálfunar sem kunni vel til verka með það fyrir augum að heildarflutningur verkanna yrði sem bestur, og á ég góðar minningar frá þeim árum.

Mér þykir því leitt að þú, Ingólfur Guðbrandsson, skulir ætla mér það að vilja sýna Pólýfónkórnum og starfi þínu einhverja lítilsvirðingu. Mér þykir einnig leitt að þú skulir ætla mér, ja ég veit ekki hvað, þegar þú skrifar að ég hafi tekið mig til "væntanlega af sjálfsdáðum" við að skrifa þessa grein. Ég tel það ekki "óvönduð vinnubrögð" þegar ég gef þér hér með skýringu á því hvers vegna ég taldi Mattheusarpassínua til þeirra verka sem dr. Victor Urbancic frumflutti á Íslandi. Ég verð að viðurkenna að mér líkar heldur ekki "árásar" stíll þinn í minn garð. Það ber stundum við í íslenskum blaðagreinum að ef menn verða ósammála um einhvern hlut, þá er eins og allar jarðýtur heimsins séu ræstar til að "jarða" mótherjann. Frá minni hendi fjallaði greinin um sögulegar staðreyndir, en ekki neitt persónulegt, þó svo fjórsemi hugsana þinna segi þér eitthvað annað. Ég taldi mig vera nánast hlutlausan í þinn garð í greininni sem ég skrifaði í byrjun janúar; ég minntist ekki einu sinni á Pólýfónkórinn nema sem tilvitnun í grein þína. Ég tel mig ekki hafa ráðist að heiðri þínum né starfi á neinn hátt, hvorki fyrr né síðar og hef ég heldur enga ástæðu til að fara byrja á því nú.

Í grein minni taldi ég það vera "vönduð vinnubrögð", að benda á að mér þætti ástæðu til að nefna starf dr. Victor Urbancic við að frumflytja ýmis af stærstu verkum Bach á Íslandi í upptalningu sem slíkri, sem varð upphaf þessara blaðaskrifa. Ég taldi mig líka vera vanda mig þegar ég gaf upp nokkrar heimildir til stuðnings mínu máli, en birtust þær því miður ekki með greininni, vegna smá tæknilegra mistaka í sendingu greinarinnar yfir netið til Morgunblaðsins.

En það, "að liggja að mestu niðri" er náttúrlega bara túlkunaratriði og er það að sjálfsögðu hverjum frjálst að meðhöndla það - hvort sem er í eins eða annars þágu, eða ekki. Sama gildir um að setja Passíusálmana við verk Bachs. Ég tel nú samt að á þeim tíma á Íslandi hafi það verið mikið þrekvirki af manni, sem einungis hafði búið á landinu í nokkur ár, að setja sálmana við passíuna, og ég efast ekki um að við erum sammála um þann þátt. Ég tel það einnig hafa haft heilmikið gildi fyrir hlustendur því, ég veit ekki hvernig þú finnur töluna 700 áheyrendur; Jóhannesarpassíunni var útvarpað við frumflutninginn. Á þeim árum var eins og allir vita aðeins ein útvarpsrás og það hefur varla verið tónlist Bachs til vansa að fólk skildi hvað textinn fjallaði um. Í viðtali við dr. Urbancic í Útvarpstíðindum (sjá heimildir að neðan) segir hann m.a. um þennan flutning: "Í fyrstu hugðist ég flytja passíuna á frummálinu, en þá hefði alþýða manna ekki skilið efnið og sambandið milli þess og hljómanna". Einnig segir hann: "Hinsvegar varð mér það nýtt undrunar og gleðiefni, að skilja hve skyldar sálir og hjörtu þeirra Hallgríms Péturssonar og Joh.Seb.Bachs eru og að heyra hvernig Passíusálmarnir hljóma í hljómbúningi hins mikla þýzka samtíðarmanns og hvernig hljómarnir fá líf og lit hins göfuga anda versanna". Einnig má ætla að fólk hlustaði meira á útvarp á þeim árum en nú, ekki síst á helgidögum. Nú, í einu dagblaðanna í Reykjavík í desember 1950 má sjá lesendabréf sem hefur yfirskriftina "Eintómur Bach og Händel" og á þá við tónlistarflutning útvarpsins á verkum þessara höfunda, svo varla hefur tónlistarflutningur á verkum Bach "legið að mestu niðri" þegar menn hafa fengið leið á honum.

En það var ekki bara í útvarpinu sem tónlist Bachs var flutt - auk verkanna sem flutt voru á tónleikum Tónlistarfélagsins og Kammermúsíkklúbbsins. Sú stofnun sem ég benti á í síðustu grein, þ.e. tónlistarkynningar á vegum Háskólans, sinnti einnig verkum Bachs. Þann 7. og 14. apríl 1957 var H-moll messa Bachs flutt af hljómplötum á þeim vettvangi og var þar, eins og Ingólfur benti réttilega á með Pál Ísólfsson með kynningu á verkum Bach á Íslandi, kynnir á þeim vettvangi, þannig að ýmislegt var nú reynt að gera tónlist Bachs til framdráttar. En þetta eru bara sögulegar staðreyndir, en hverjum er þó frjálst að túlka þær. Um flutning á Jóhannesarpassíunni og á hvern hátt dr. Urbancic stóð að þessari textasetningu má lesa í Útvarpstíðindum: 1943, 5. árg. 13 - 14 hefti, bls. 231 ff. Ég vil einnig benda á, að síðastliðið sumar fann ég, ásamt starfsmanni Ríkisútvarpsins, í kjallara þess hljómplöturnar með þessari upptöku frá árinu 1943, allar í mjög góðu standi. Hljóðritun á þessari upptöku er meðal hápunkta íslenskrar tónlistarsögu sem ber að varðveita, líkt og stórkostlegur flutningur Pólýfónkórsins á fjölmörgum verkum margra tónskálda í gegnum árin.

En nú að öllu rokinu. Ég segi nú eins og krakkarnir; Lætin! Ég hef allt að læra en engu að gleyma um árin sem dr. Urbancic starfaði á Íslandi. Síðastliðið sumar eyddi ég mörgum dögum í hinni nýju Þjóðarbókhlöðu okkar við m.a. að fletta í gegnum gömul dagblöð og tímarit, og ljósrita greinar um tónlistarmál almennt. Meðal greina sem ég ljósritaði, en ætli þær hafi ekki verið langt á annað þúsund, voru nokkrar minningargreinar um dr. Victor Urbancic, ritaðar af mörgum samferðamönnum hans sem nú eru flestir, ef ekki allir, fallnir frá. Einn þeirra sem rituðu minningargrein um hann var Björn Franzson sem skrifaði löngum um tónlist, m.a. í Þjóðviljann. Í ljósritun á þeirri grein var ég svo óheppinn að þrjár síðustu línurnar í fyrsta dálkinum féllu niður, en þær hefðu jú breytt töluverðu, ekki þó öllu, um tengsl dr. Urbancic við Matteusarpassíuna á Íslandi. Björn nefnir ýmis verk sem dr. Urbancic stjórnaði og í lýkur þeirri upptalningu á - í ljósritinu sem ég hafði - "Matteusarpassíu Bachs og hafði undirbúið flutning hennar að miklu leyti". Ég, sjálfsagt í fljótfærni túlkaði þetta "og hafði undirbúið flutning hennar að miklu leyti", sem að aðrir hefðu komið við sögu, en eins og við vitum er flutningur þessa verks mikið þrekvirki vegna m.a. umfangs þess. En það sem vantaði neðan á greinina var eftirfarandi: " Enn fremur hafði hann í hyggju að flytja "Matteusar-passíu" Bachs og hafði undirbúið flutning hennar að miklu leyti". Þarna liggur nú skýringin á því hvers vegna ég nefndi þetta verk í upptalningu minni. Mér þykir leitt Ingólfur að þú teljir ég hafa ráðist að persónu og heiðri þínu vegna þessa óhapps míns. Eins og þú veist sem kórstjóri, að ef manni verður á að gleyma innkomu eða gefa vitlausa innkomu, þá er það ekki af því að maður hafi ætlað það, heldur það, að maður er manneskja. Sama gildir um feilnótur í flutningi hljóðfæraleikara og söngvara. Ég myndi aldrei ætla þeim að vanvirða tónskáld með vilja né þeir séu vondar manneskjur að þeim sökum.

Hvað leiðréttingu þína á því að "dr. Urbancic hafi ekki flutt Stabat Mater eftir Pergolesi, heldur Stabat Mater erftir Rossini" varðar, vil ég benda á eftirfarandi heimildir sem ég studdist við og eru m.a. úr áðurnefndum minningarorðum Björns Franzsonar:

"Með aðstoð þessa kórs [Tónlistarfélagskórnum] flutti hann hér ýmis helztu söngverk heimstónmenntanna, svo sem "Messías" og "Júdas Makkabeus" efti Händel, "Jóhannesarpassíu" og "Jóla-óratoríu" Bachs, "Stabat mater" eftir Pergolesi og samnefnt verk eftir Rossini, "Davíð konung" eftir Honegger og "Rekvíem eftir Mozart. Ennfremur hafði hann.... Kannske Björn Franzson hafi misminnt eitthvað - eða hvað?

Hér aðeins um að ræða lítið brot af þeim verkum sem dr. Urbancic (1903 - 1958) stjórnaði á Íslandi á allt of stuttum starfsaldri sínum. En ég get nú að lokum ekki gælt dálítið við þá hugsun hvort dr.Urbancic hefði ekki verið búinn að sjórna öllum stærstu verkum Bachs ef hann hefði haft einhvern vasa að stinga höndinni niður í, eftir aurum. Ég tel hlut hans að uppbyggingu íslensks tónlistarlífs allt of sjaldan verið undirstrikaður í umfjöllun um íslenska tónlistarsögu, en þar liggja ýmsar ástæður að baki sem ekki verða nefndar hér. Eru þá alveg óupptalin verk sem hann samdi og útsetti, en eitt þeirra, Fantasíusónata í h-moll op. 5 frá 1924 er að finna á nýlega útkomnum geisladiski Kjartans Óskarssonar klarínettuleikara og Hrefnu U. Eggertsdóttur píanóleikara.

Til að benda á þær heimildir sem ég studdist við vil ég endurtaka þær hér og vona að þær komi með í þetta sinn:

 
Útvarpstíðindi; 5. árg. 13-14 hefti 1943,
Ibid; 5. árg. 17. hefti 1943,
Ibid; 10. árg. 10. tbl. 1947,
Vísir; 10. apríl 1958 bls 4,
Þjóðviljinn; 23. nóv. 1958 bls. 2,
Ibid; 18. nov. 1958,
Morgunblaðið: 9. ágúst 1953 bls. 10 og 11,
Ibid; 5. apríl 1957,
Tíminn, 6. apríl 1960 bls. 6 og 13.

Einnig studdist ég við ýmis perónuleg samtöl við íslenska tónlistarmenn frá undanförnum 4 árum.

Í Álaborg 13. febrúar, 1996



Heim

20. janúar 1997

© Bjarki Sveinbjörnsson