Að lokum alþjóðlegu ICMC ráðstefnunni í Árósum 1994

Þessi grein hefur ekki birst annarsstaðar.


Dagana 12. - 17. september síðastliðinn var haldin í Árósum í Danmörku ráðstefna um tölvur í tónlist. Bar hún yfirskriftina ICMC sem stendur fyrir "International Computer Music Conference"

Þessar ráðstefnur, sem haldnar eru ár hvert á mismunandi stöðum í heiminum, hafa þróast í þá átt að verða helsti alþjóðlegi vettvangur umræðna og skoðanaskipta um listrænar, vísindalegar,verkfræðilegar og heimspekilegar rannsóknir á sviði tölvutónlistar og tónlistartækni. Ráðstefnan í Árósum samanstóð af fyrirlestrum, kynningum á nýjustu tólum og tækjum og samkomum einstakra áhugahópa. Á ráðstefna mættu helstu fræðimenn á rannsóknarsviðinu og má í því sambandi nefna breska tónskáldið Trevor Wishart sem þekktur er fyrir vinnu sína með tölvur og mannsröddina og flutti hann nýtt verk eftir sig fyrir einsöngsrödd og tölvu. Ennfremur má geta , Miller Puckette, en hann er þekktastur fyrir hönnun sína á grafíska forritunarumhverfinu MAX sem notað er af tónskáldum um allan heim. Fjölmargir fyrirlestrar voru auk þess fluttir undir ýmsum yfirskriftum t.d. lifandi tölvutónlist, algrímskar tónsmíðar, tónlist fyrir hljóðfæri og/eða rödd og tölvur, tónlist fyrir tilraunahljóðfæri og tölvur, tölvutónlist og "visual art", tölvutónlist og dans, og margt fleira.

Þó mörg þeirra tækja sem notuð eru í tölvutónlist séu framleidd eða eigi á á einhvern hátt rætur að rekja til Japan er elektrónísk/konkret tónlist að mestu leyti vesturevrópskt menningarfyrirbæri. Má þar nefna hina miklu tilraunarstarfsemi sem fram fór í París um miðja öldina,og nefnd hefur verið Parísarskólinn, með konkrettónlistina eða musique concrète. Upphafsmennirnir hennar voru Pierre Schaeffer og Pierre Henry og byggði hún á að hljóðrita náttúruhljóð og vinna með þau á ýmsan hátt. Á sama tíma störfuðu Kölnarkapparnir við elektrónísku tónlistina og skal þar helst nefndur Karlheinz Stockhausen sem nokkur íslensk tónskáld hafa haft persónuleg kynni við. Vinnan við tónsmíðarnar á þeim tíma var geysilegt þolinmæðiverk og var ekki á færi allra að skilja hvert menn voru að fara. Á Íslandi gerðu menn gys að Magnúsi Blöndal Jóhannssyni sem sýslaði með segulband og skæri í Útvarpinu í kringum 1960 en hann var upphafsmaður þessara tónsmíðatækni hér á landi. Á sama tíma og Magnús starfaði hér á landi, nam Þorkell Sigurbjörnsson þessi fræði í Bandaríkjunum og voru fyrstu verk þeirra af þessu tagi flutt hér á landi árið 1960.

Val á fyrirlesurum

Geysimikil undirbúningsvinna fer fram fyrir alþjóðlega ráðstefnu sem þessa og mikill vandi að velja úr öllum þeim verkefnum sem standa til boða. Margvíslegar rannsóknir fara fram um heim allan og er þessi vettvangur eftirsóknarverður staður fyrir vísindamenn að kynna niðurstöður sínar. Ekki eru þó allar rannsóknir jafn áhugaverðar né taldar hafa erindi á ráðstefnuna. 300 mismunandi tillögur um kynningar og fyrirlestra voru sendar inn til umsóknar. Síðan gáfu 37 einstaklingar sem starfa víðs vegar um heiminn og búa yfir ýmisskonar sérþekkingu tillögunum einkunn. Var einkunnunum safnað saman og til fundar mætti í Árósum 6 manna alþjóðlegur hópur sérfræðinga sem valdi um 150 þessara tillagna sem þóttu eiga erindi á ráðstefnuna. Meðal þeirra tillagna sem sendar voru inn voru 2 frá Íslendingum og voru báðar þeirra valdar. Voru það kynning Kjartans Ólafssonar á tónsmíðaforriti sínu og Hilmars Þórðarsonar á forriti sínu sem er ætlað sem hjálpartæki við tónlistarflutning.

Upphaf raftónlistar á Íslandi

Fyrstu heilmildir sem ég hef rekist á um að "vélvæða" tónlistina á einhvern hátt á Íslandi eru frá því árið 1909. Í Vestur-íslenska blaðinu Lögberg er grein um Ísólf Pálsson (föður Páls Ísólfssonar) á Stokkseyri og er þar sagt frá að hann hafi "óvenjulega fjölhæfar uppfundningargáfur". Merkilegast af því sem hann hafi fundið upp sé "hljóðritunarvél.

Hann hefir fundið upp nokkurs konar hljóðritavél, sem er þó í eingri líkingu við hina áðurfundnu hljóðritavél, Graphophon. Vél þessi ritar á pappír alla þá tóna sem koma fram í því hljóðfæri, sem hún er í sambandi við, og sýnir nákvæmlega hæð, dýpt, varanleik og styrkleik hvers tóns fyrir sig, jafnt hvort spilað er einraddað eða margraddað, og ritast hljóðið meðan það varir, hvort sem stutt er á nóturnar (t.d. forte piano) eða ekki, því sérhvert hljóð sem heyrist frá hljóðfærinu, hvort sem það er rétt eða rangt, ritar vélin.

Áhugavert væri að fá nánari upplýsingar um þessa "uppfundningu" og fleiru í þessum dúr hvaðan sem er af landinu.

Hin svokallaða elektróníska tónlist og síðar tölvutónlist á sér nærri jafn langa sögu á íslandi og annarsstaðar í Evrópu. Íslenskir frumherjar þessarar tækni sem í upphafi var allsstaðar mjög frumstæð þó í misjöfnum mæli, voru eins og áður sagði Magnús Blöndal Jóhannsson og Þorkell Sigurbjörnsson. Þeir sendu báðir frá sér elektrónísk verk árið 1960 að undangengnum vissum tilraunum. Viðbrögð manna voru ýmis, allt frá blóðugum formælingum til tilgerðarlausrar þagnar og afskiptaleysis. Þó voru nokkrir sem sáu vaxtarbrodd í þessum tilraunum þeirra. Þorkell Sigurbjörnsson benti á hina nýju möguleika í Morgunblaðinu þegar árið 1961og reyndi að hvetja menn til dáða á þessu sviði. Hann skrifaði m.a.

Framtíð er orðin nútíð okkar. Hrjúfu byrjunarskrefin eru nú stigin í Amsterdam, Köln, Mílanó, París, Stokkhólmi og Varsjá í Evrópu, Columbia, Princeton og Illinois háskólunum í Bandaríkjunum, Tókíó í Japan, svo að eitthvað sé nefnt. Hin þýðingarmiklu byrjunarskref hafa verið gengin án íhlutunar eða þáttöku lýðveldinsin unga, Íslands. Hvert hefur verið framlag okkar til hins unga í heiminum? Metnaður vegna gamalla afreka. Við erum að láta tækifærið til að taka þátt í merkilegri þróun vestrænnar tónlistar ganga úr greipum okkar orðalaust, – tækifærið til að móta ung ómandi sjónarmið. Hryggilegt væri að lesa í söguritum framtíðarinnar: Lýðveldið unga lokaði úti allan nýgræðing og blásin menningarholtin báru ellisvip.

Þróun þessara mála varð mjög hæg þó tilraunir og rannsóknir færu fram um allan heim á þessu sviði. Örfáir einstaklingar fengust við elektróníska tónlist á Íslandi fyrstu árin en ásamt Þorkeli og Magnúsi samdi Atli Heimir Sveinsson eitt verk árið 1972. Frá árinu 1980 hefur verið stöðug og stígandi þróun fram á við með nýrri kynslóð tónlistarmanna með frumherjana Þorstein Hauksson og Lárus H. Grímsson í broddi fylkingar. Auk þeirra hafa nokkur hinna ungu tónskálda sem fædd eru í kringum 1960 öðlast viðurkenningu fyrir verk á þessu sviði. Má meðal annarra nefna þá Helga Pétursson, Ríkharð H. Friðriksson, Hilmar Þórðarson, Kjartan Ólafsson og Þórólf Eiríksson.

Íslensk tónlist á ráðstefnunni

Verk Þorsteins Haukssonar á ráðstefnunni heitir Bells of Earth og var það samið í Japan. Þosteinn dvaldi fyrri hluta þessa árs í Japan við tónsmíðar í Kunitachi College of Music í Tókíó. Bells of Earth er nafn á geysimiklum skúlptúr sem stendur fyrir framan tónleikahús háskólans og eru í honum 47 klukkur sem stjórnað er frá tveimur hljómborðum með samtals fjórum áttundum. Heillaðist hann af þessum skúlptúr og

þeim möguleikum sem hann býður upp á, þ.e. klukkunum. Þó svo hinar stóru og miklu klukkur séu staðsettar í Japan gæti maður hugsað sér að hljómur þeirra sé áþekkur þeim hljómi sem hugur Íslendinga geymir um hljómmagn og hljómfegur hinnar einu og sönnu Íslandsklukku og sú hugsun hafi gripið Þorstein að fá að vinna með þá ímynd.

Að fengnu samþykki allra íbúa á stóru svæði umhverfis klukkurnar fékkst leyfi til að leika á þær vegna þess hávaða sem þær valda. Var það gert svo Þorsteinn gæti tekið klukknahljóðin upp og notað sem efnivið í þessa nýju tónsmíð sína sem samin er fyrir klukkuspil, slagverk og tölvuhljóð. Klukkuhljóðin eru unnin í tölvu og liggja þau sem hluti hljóðmyndar verksins. Einnig notar hann hljóðfæri og raddir frá Noh leikhúsi auk hljóða frá metnaðarfullum samræðum japanskra tónlistarnema. Var þetta verk auk nokkurra annarra verka Þorsteins flutt á sérstökum hátíðar og fyrirlestrartónleikum í Japan sem eingöngu voru helgaðir tónlist hans. Hann hélt jafnframt langan fyrirlestur um verk sín. Þorsteinn samdi nýtt verk undir sama heiti til flutnings á ráðstefnunni. Í því notar hann sömu tölvuhljóð og áður , þ.e. klukknahljóminn, en setur þau í nýtt hreiður, þ.e.a.s. stóra hljómsveit í stað slagverksins og hins stóra klukknaspils, sem af skiljanlegum ástæðum er ekki með. Verkið hlaut góðan hljómgrunn meðal áheyrenda og verður það vonandi tekið sem fyrst til flutnings á íslandi.

RAFtaklúbburinn.

Almennar umræður um tónlist á íslandi mætti vera meiri, þ.e. annarsstaðar en á síðum dagblaðanna. Vert er að minnast þess að árið 1960, eða eftir fyrstu tónleika Musica Nova sem haldnir voru í Þjóðleikhússkjallaranum söfnuðust menn saman undir merkjum Listamannaklúbbsins og forystu Jóns Leifs í baðstofu Naustsins og ræddu um n¦ja tónlist. Með þetta í huga urðum við félagarnir á ráðstefnunni ásáttir á að hittast við ekki ólíkar aðstæður, eða á Jacob'Bar BQ að Vestergade 3 í Árósum yfir góðri máltíð og ræða um tónlist og niðurstöður rástefnunnar. Ákváðum við að stofna með okkur umræðuklúbb um nýja tónlist í anda tónlistarmanna í kringum 1960 og fékk hann nafnið RAFtaklúbburinn (RAF=raftónlist). Við höfum engin önnur markmið að sinni en þau að ræða saman um tónlist og verður næsti fundur opinn öllum og haldinn við 6 manna borð á einhverju veitingahúsinu í Reykjavík snemma á næsta ári (auglýst síðar).

Við sem sóttum ráðstefnuna vorum Þorsteinn Hauksson, Hilmar Þórðarson, Jón Hrólfur Sigurjónsson, Kjartan Ólafsson, Ríkharður H. Friðriksson og undirritaður. Rifjuðu tónskáldin í hópnum upp fyrstu kynni sín af elektrónískri- og tölvutónlist og kom margt skemmtilegt í ljós. Eitt af því sem tíðrætt var um voru þær aðstæður sem verið hafa til elektrónískrar tónsköpunar á Íslndi og má það teljast merkilegt í annars svo blómlegu tónlistlífi sem hefur verið á Íslandi síðustu 40-50 árin að þær hafa nánast ekkert breyst frá því Magnús Blöndal og Þorkell voru að hefja sinn feril. Einnig urðu heilmiklar umræður um aðferðafræði varðandi forritun á tónlistarforritum og var mönnum helst tíðrætt um svokallaðar Markovkeðjur og algrímskar tónsmíðaaðferðir.

Ég held að ég megi segja að við höfum allir verið sammála um að vísindalegi þátturinn á þessari ráðstefnu hafi verið allt of mikill. Alls kyns verkfræðingar og vísindamenn sem vinna með hljóð héldu langa fyrirlestra og útskýringar á hinum flóknustu stærðfræðiformúlum og einnig flókinni forritun. Ekki fór mikið fyrir þeim sem ræddu um fagurfræði elektrónískrar tónlistar. Þarna var kominn saman breiður hópur sérfræðinga í því að búa til alls kyns hljóð og leika sér með þau. Heyrðust einstök verk sem báru vott um algjört þekkingarleysi á tónlist og tónsköpun og voru aðeins alls kyns hljóð sem voru sett saman, oft á tilviljunarkenndan hátt. Þrátt fyrir þetta sjá tónskáldin marga möguleika í þessari tækni, bæði vinnuhagræðingu og ekki síst möguleika sem ekki hafa verið fyrir hendi áður. Það er frjálsræðið sem heillar menn.

Að mínu mati getur þetta frjálsræði þó verið til baga sérstaklega að því leiti ef menn ráða ekki við að beisla það, eða eins og Hilmar nefndi "ég var týndu í heilt ár í öllum þessum möguleikum áður en ég fór að finna rammann og minnka hann og finna mína eigin braut út úr þessu".

Ein markverðasta andstæðan við alla þessa tækni var framlag breska tónskáldsins Trevor Wishart's. Varð honum tíðrætt um að tónskáldið mætti ekki gleyma því að það hefði ákveðnar skyldur við samfélagið; "Bach þurfti að ljúka við að semja kantötu í hverri viku og hefði það gefið honum ákveðin tengsl við samfélagið", eða eins og Jón Hrólfur minntist á að "við værum öll samhengi af samfélaginu og yrðum að virka sem slíkir". Í þessum geira tónlistarinnar , tölvutónlistinni, eru margir sem ekki eru sammála þessu og er það oft vegna þess að þeir sem semja slíka tónlist eru ekki tónskáld. Hvað varðar þetta minntist Kjartan á að "það fyrst sem hann hafi tekið eftir væri þessa ákveðna gjá milli tæknimanna og tónlistarmanna. Hér eru samankomnir helstu vísindamenn í tölvutónlist í heiminum í dag og eru þessi vísindamenn þjálfaðir í því að vinna með lógískar aðferðir í viðfangsefnum sínum og beri mörg verkin þess keim að vera ákaflega lógísk en ekki músíkölsk. Það vanta skalann milli 0 og 1 eða ákveðna grátóna í tónlistina, ekki bara svart og hvítt eða svart eða hvítt". "Það sem ég tek með mér heim af slíkri ráðstefnu er það að þörfin fyrir að bjóða fagurfræðingum, sagnfræðingum og tónvísindamönnum á slíka ráðstefnu, mönnum sem raunverulega hafa skoðað þessi mál ofan í kjölin, beina umræðunni dálítið meira yfir á þann grunn. Menn hafa gleymt svolítið tónlistinni í þessu öllu" sagði Þorsteinn Hauksson. Þetta er að mínu mati mergurinn málsins í þessari umræðu okkar félaganna yfir grillsteikinni í Árósum í september síðastliðnum; tónlistin fyrst og fremst um "The Human Touch".

Eftirmáli

Með hjálp tölvutækninnar reyna menn m.a. að skilja hvernig eyrað heyrir tónlist; búa til líkan af eyranu í tölvunni og reyna með því að læra hvernig það vinnur. Á sumum sviðum hefur maðurinn náð langt en annars staðar er hann stutt á veg kominn. "Hugsaðu þér, hversu erfitt það er að kenna tölvu að greina óbórödd í sinfóníuhljómsveit, nokkuð sem mannseyrað auðveldlega getur lært. Fyrst þegar maður reynir að kenna tölvunni það, verður manni ljóst, hversu ótrúlega erfitt það er. Við lærum geysimikið um okkur sjálf" sagði Wayne Siegel framkvæmdastjóri ráðstefnunnar í blaðaviðtali í Politiken í tengslum við síðustu hátíð sem haldin var í Japan í fyrra.

Fyrir þá sem áhuga hafa á tölvum og tónlist var boðið upp á margt að þessu sinni. Helstu tölvutónlistarstúdíó heimsins sendu fulltrúa sína sem kynntu það markverðasta á hverjum stað. Má þar nefna Fona stúdíóið á Spáni, University of Michigan,University of Illinois og hið nýja IBM tölvutónlistarstöð í Bandaríkjunum, Farfisa tilraunastúdíóið á Ítalíu, auk fulltrúa frá frá Rússlandi, Englandi, Finlandi og Þ¦skalandi.

Einnig var boðið upp á fagurfræðilegar umræður og faglegar vangaveltur þeirra er mennta nemendur. Spurt var hvernig námsefnið eigi að vera. Má setja alþjóðlegan staðal fyrir nemendur sem læra tölvutónlist eða geta menn sótt hugmyndir til hvers annars? Ég gæti ímyndað mér að ýmsir kennarar og nemendur innan vissra deilda verkfræðideildar Háskólans hefðu átt erindi inn í slíkar umræður ekki síst vegna tilkomu hins n¦ja stúdíós í Háskóla Íslands - Tal og Tónver.

Einnig voru um 90 fyrirlestrar og um 50 mismunandi kynningar þar sem maður gat gengið frá einum bási til annars. Almenningur er smátt og smátt að gera sér grein fyrir þeim möguleikum sem tölvan býður upp á þó það sé alveg ljóst að fólk áttar sig oft ekki á því hversu stór þáttur hún er orðin í daglega lífi okkar á hinum ¦msu sviðum. Eftir því sem tölvan verður fullkomnari og duglegri að sinna ýmsu verkefnum, hættum við að tala um hana sem eitthvert einangrað fyrirbrigði heldur verður hún jafn sjálfsagður hluti í tónlistarflutningi og tónsköpun og hvert annað hljóðfæri eða tæki.

Umræða um þessi mál eru ennþá hálfgert feimnismál á Íslandi sem og önnur opinber umræða um tónlist sem á stundum fer fram á hinu persónulega svið í stað hins atvinnumannslega. Við verðum að átta okkur á að á nú á þessum árum fer fram ákveðið kynslóðaskipti á Íslandi innan leiðandi kennarastéttar og einnig má gera ráð fyrir að menntun, bæði í almennum tónlistarskólum og á hærri skólastigum tónlistarinnar taki tölvuna inn sem hvert annað kennslutæki að því leyti sem ekki nú þegar er búið að því. Stórt skref í þessa átt er stofnun hins nýja tölvustúdíós sem nú er verið að koma á laggirnar í samvinnu Tónlistarskólans í Reykjavík og Háskóla Íslands.

Samvinna á þessu sviði er brautryðjandi skref og vil ég nota tækifærið hér og benda á annan möguleika innan sömu stofnana, þ.e. markvissa kennslu í greininni tónvísindi, (Danska: Musikvidenskab, Enska: Musicology Þýska: Musikwissenschaft). Þessháttar samvinnu, sem ýmsar erlendar menntastofnanir gætu vel hugsað sér að væri fyrir hendi hjá sér, er auðvelt að koma á á Íslandi ekk síst vegna jákvæðni framámanna sem hefur sýnt sig við stofnun tölvustúdíósins. Við skulum minnast orða Þorkels frá árinu 1961 og muna það að við sem einskalingar lifum nú, en ekki fyrir 200 árum. Viljum við lifa í núinu eða á tilvera okkar eingöngu að byggja á safngripum?

Efnisyfirlit



1. desember 1998

Bjarki Sveinbjörnsson©