| Mynd vantar |
IV Tímabilið 1930 – 1950: Tónlistarlíf í Reykjavík 1930-1950
Undirleikarar Hér að framan hefur verið rætt um þá píanóleikara, sem héldu sjálfstæða píanótónleika á þessu tímabili (1930-50 ), en nú verður minnst á þá píanóleikara, sem léku undir söng, fiðlu, cello og kórsöng . Undirleikurinn skipir miklu máli, því góður undirleikur lyftir listamanninum, en lélegur dregur hann niður. Mest eftirsóttir undirleikar voru þeir Árni Kristjánsson, Fritz Weisshappel og dr. Victor Urbancic.
Árni Kristjánsson lék ávallt undir fiðluleik Björns Ólafssonar og urðu Háskólatónleikar þeirra frægir, en þeir voru haldnir í mörg ár, allt frá 1940. Hlutverk píanósins í fiðlusónötum er oft annað og meira en undirleikur til stuðnings fiðlunni, heldur hefur hann sjálfstæðu hlutverki að gegna. Árni lék undir hjá eftirtöldum fiðluleikurum: Adolf Busch, Ernst Drucker og Pearl Pálmason. Ennfremur eitt sinn undir söng Stefáns Guðmundssonar (Stefan Islandi).
Fritz Wesshappel var fastur undirleikari hjá Karlakór Reykjavíkur síðan 1942, en hafði þó leikið undir hjá kórnum áður (1937). Hann hefur einnig aðstoðað með undirleik hjá Samkór Tónlistarfélagsins 1940 og hjá mörgum söngvurum og söngkonum: Maríu Markan, Elsu Sigfúss, Britte Held og Magnúsi Gíslasyni, Guðmundi Jónssyni, Kristjáni Kristjánssyni, Stefan Islandi og Else Brems o. fl.
Fritz Weisshappel var fæddur í Vínarborg árið 1908. Kom til Íslands 1928, kvæntist íslenzkri konu, og var búsettur hér eftir það. Íslenzkur ríkisborgari síðan 1938. Hann var píanóleikari Ríkisútvarpsins frá 1938, þar til hann andaðist fyrir nokkrum árum. Í Ríkisútvarpinu hvíldi á honum hitinn og þunginn, þegar unnið var að undirbúningi tónverka í útvarpið. Hann veitti og mikla aðstoð við æfingar í óperum í Þjóðleikhúsinu, og það var einmitt hann, sem mest og bezt undirbjó óperuna La serva padrona eftir Pergolesi til flutnings úti á landi árin 1955 og 1958. Weisshappel vann störf sín í kyrrþey, en þau urðu engu að síður þýðingarmikil fyrir sönglífið í landinu.
Dr. Victor Urbancic var góður píanóleikari og frábær undirleikari og því mjög eftirsóttur. Hann aðstoðaði söngvara: Pétur Á. Jónsson, Einar Kristjánsson, Þorstein H. Hannesson, Birgi Halldórsson, Roy Hickman og söngkonuna Guðmundu Elíasdóttur o. fl. Ennfremur fiðluleikara: Björn Ólafsson (eitt sinn) og Ibolyka Zilzer. Þá aðstoðaði hann cellosnillinginn Erling Blöndal Bengtson og waldhornistann Lanzky Otto.
Carl Billich er góður píanóleikari og ágætur undirleikari.Hann hefur verið fastur undirleikari hjá Karlakórnum Fóstbræðrum síðan 1947. Hann fór með kórnum í söngför um mörg lönd Evrópu 1954. Hann hefur einstaka sinnum aðstoðað einsöngvara á konsertum, t.d. Eggert Stefánsson og söngkonuna Irma Weile Barkany o.fl. Carl Billich er fæddur í Vínarborg árið 1911. Útskrifaðist úr tónlistarskólanum þar í borg 1928. Hann kom til Íslands 1933 og hefur spilað á helztu veitingahúsum Reykjavíkur síðan, fyrst lengi á Hótel Ísland, en síðan í Nausti, og hefur á þessum veitingahúsum stjórnað sinni eigin hljómsveit. Ennfremur hefur hann oft komið fram sem píanóleikari í útvarpi og í konsertsölum borgarinnar. Hann er kvæntur íslenzkri konu.
Gunnar Möller var á undan Billich í mörg ár undirleikari hjá "Fóstbræðrum", og þar áður aðstoðaði ungfrú Anna Pjeturss kórinn, en lék á þeim árum stundum undir söng Karlakórs Reykjavíkur, og löngu síðar, 1944-45, lék hún undir söng Karlakórs Iðnaðarmanna. Um hana hefur áður verið ritað.(sjá bls. 210). Gunnar Möller, sonur Jakobs Möllers, ráðherra og alþingismanns, var einn af söngmönnum „Fóstbræðra“. Hann er hæstaréttarmálaflutningsmaður og forstjóri Sjúkrasamlags Reykjavíkur.
Aðrir píanóleikarar aðstoðuðu með undirleik örsjaldan. Guðríður Guðmundsdóttir lék undir söng Karlakórs Reykjavíkur 1939-1941. Ennfremur undir söng ungfrú Önnu Þórhallsdóttur 1945. Anna Sigríður Björnsdóttir, aðstoðarkennari við Tónlistarskólann, var undirleikari Samkórs Reykjavíkur árin 1944-45. Guðrún Þorsteinsdóttir aðstoðaði karlakórinn Káta Félaga 1943.
Þá skal Þess getið, að Emil Thoroddsen lék undir söng Nönnu Egilsdóttur (1938), Einar Markússon undir söng Guðmundar Jónssonar (1943), Jóhannes Þorsteinsson undir söng Elsu Sigfúss (1946) og Páll Kr. Pálsson undir söng Einars Sturlusonar (1946). Lanzky Otto aðstoðaði danska fiðluleikarann Henry Holst (1950).
Dr. Páll Ísólfsson hefur nær undantekningarlaust aðstoðað með orgelundirleik einsöng og fiðluleik, sem farið hefur fram í Dómkirkjunni og Fríkirkjunni, meðan hann var þar organisti. Einnig hefur hann aðstoðað einsöngvara í konsertsölum bæjarins.
Framangreind upptalning er ekki tæmandi, en gefur þó rétta hugmynd um málið. |