Tónlistarsaga Reykjavíkur
með inngangi um sögu sönglífs í landinu frá því land byggðist

eftir Baldur Andrésson
13.03.2008
<< Til bakaForsíðaÁfram >>
I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950

Mynd vantar

IV Tímabilið 1930 – 1950: Tónlistarlíf í Reykjavík 1930-1950

Erlendir píanóleikarar
Þá verður næst talað um erlenda píanóleikara og fyrst þá, sem komu frá Norðurlöndum.

Niels Viggo Benzon. Hann er fæddur í Kaupmannahöfn 1919 og er frægur sem tónskáld og píanósnillingur. Hann er af Hartmannsættinni en í þeirri ætt eru nafnkunn tónskáld í marga ættliði. N. V. Benzon spilaði hér í Reykjavík í janúar 1947, verkin voru nútímatónlist eftir Hindemith, Bartok, Svend Schultz og hann sjálfan. Hann er ágætur píanóleikari og hefur haldið tónleika í Skandinavíu og víða í Evrópu, einnig í Bandaríkjunum, og leikur þá gjarnan eigin tónsmíðar. Hann er talinn með helztu tónskáldum Dana, sem nú eru uppi, og er list hans með nýtízkubrag, í ætt við Hindemith og Bartok. Hann var 27 ára gamall, þegar hann spilaði hér í Reykjavík.

Bente Stoffregen Due. Fædd í Kaupmannahöfn 1919, dóttir Alexanders Stofrregen, sem var kunnur píanókennari í Kaupmannahöfn. Frúin hélt píanótónleika í Austurbæjarbíó í september 1948. Píanóleikur hennar var frambærilegur. Hún er gift fiðluleikaranum Jörgen Due.

Robert Riefling. Heimsfrægur norskur píanósnillingur, fæddur í Osló 1911. Hann lék í Austurbæjarbíó í apríl 1949. Hann er talinn bezti píanóleikari Norðmanna, sem nú er uppi, og hefur spilað um alla Evrópu og í Bandaríkjunum. Hann er djúpur og alvarlegur listamaður, jafnvígur á barokkmúsík og klassísk verk Vínarmeistaranna. Leikur einnig samtíðarmúsík með ágætum. Hann lék aftur í Reykjavík árið 1954.

Peutt Kostumes. Finnskur píanóleikari, sem hélt hér hljómleika með konu sinni, söngkonunni Tii Niemela, í marz 1950, eins og áður hefur verið minnst á. Píanóleikur hans var vandaður og fágaður.

Tveir Þýzkir píanóleikarar léku hér á Þessu tímabili, annar er Íslandsvinurinn Otto Stöterau, prófessor við tónlistarskólann í Hamborg og söngstjóri Karlakórs Hamborgar (Hamburger-Liedertafel), sem var stofnaður árið 1823. Otto Stöterau er fæddur í Flensborg árið 1900. Hann lék í Austurbæjarbíó í maí 1949 og var það í fjórða sinn, sem hann kemur til Íslands til hljómleikahalds, en áður hafði hann spilað í Reykjavík árin 1925, 1927 og 1930. Síðan hefur hann komið hingað og leikið hér, en frásögn af þeim tónleikum tilheyrir næsta tímabili. Otto Stöterau á hér marga kunningja og honum þykir upplyfting að koma hingað og hitta þá.

Otto Stöterau er píanóleikari af germanska skólanum, eins og þeir gerast beztir. Hann hefur haldið píanótónleika víða í Þýzkalandi, Braselíu, Bandaríkjunum, Írlandi, Danmörku og víðar.

Hinn Þýzki píanóleikarinn er Dr.Karl Lenzen, sem lék hér í Iðnó í ágúst 1934 lög eftir Chopin, Weber, Walter Niemann og píanókonsert í d-moll eftir Mozart, með aðstoð Emils Thoroddsen, sem lék hljómsveitarhlutverkið á annað píanó. Hann var glæsilegur píanóleikari.

Rudolf Serkin. Heimsfrægur tékkneskur píanóleikari, sem hélt nokkra píanótónleika í Gamla Bíó í október 1946. Þóttu þeir mikill tónlistarviðburður og eins Beethovenstónleikar hans og Adolfs Busch, sem er tengdafaðir hans, og haldnir voru í sama húsi í september sama ár. Rudolf Serkin er fæddur árið 1903. Hann kom fyrst fram sem einleikari 1914 með Vínarsinfóníuhljómsveitinni, þá að eins 11 ára gamall, og síðan í Berlín árið 1920, 17 ára gamall. Nokkru síðar hófst samvinna þeirra Adolfs Busch og Serkins. Rudolf Serkin er talinn með fremstu píanósnillingum. Í hinni kunnu alfræðibók Groves um tónlist er sagt um Serkin, að hann sé „einhver næmasti og gáfaðasti píanóleikari, sem nú er uppi.“ Hér verður ekki meira fjölyrt um þennan píanósnilling, en ávallt verður hann ógleymanlegur þeim, sem á hann hlýddu.

Ignaz Friedman. Pólskur píanósnillingur (1882-1948) sem hélt marga tónleika í Reykjavík um vorið 1935. Hann kom aftur í október 1938 og hélt þá einnig marga píanótónleika.

Friedman fór í fyrsta konsertferðalag sitt um Evrópu árið 1905 og fékk eftir það orð á sig sem Chopin spilari. Í bók sinni „Meister des Klaviers“ (Leipzig 1921) telur Walter Niemann þrjá Chopinspilara öllum öðrum fremri, þá Paderevsky, Pachmann og Friedman, sem allir eru pólskir. Í blaðagrein um píanótónleika Friedmans hér í Reykjavík 1938 segir Emil Thoroddsen:

Friedman hefur verið borinn saman við Pachmann, hinn mikla Chopin-leikara síðustu kynslóðar, og það er óneitanlega mjög mikið líkt með skilningi þeirra á einstökum atriðum, sér í lagi rubatoleik þeirra. En Pachmann, og raunar öllum hans samtíðarmönnum, var mest gefið um lyrisku hliðina á Chopin, hann varð í meðferð þeirra aldrei meira en einmitt „salon“-tónskáld. Friedman hefur gefið okkur nýjan Chopin, mikilfenglegan og dramatískan byltingarmann, eins og hann lifir og andar í stærri verkunum. Og þó getur enginn gleymt því, hve dásamlega Friedman leikur smálögin, og meitlar þau út hvert fyrir sig, eins og lítinn smíðisgrip. (Heimir, bls. 11; des. 1938)

Friedman lærði píanóleik hjá Leschetsky, og „Komposition“ hjá Riemann. Hann hefur samið píanótónsmíðar, sumar stórar í sniðum, en flestar í léttum salon-stíl, einnig sönglög. Friedman gaf út píanóverk Chopins í 12 bindum og komu þau út hjá forlaginu Breidkopf & Härtel í Leipzig.

Henry Stzompka. Pólskur píanósnillingur var hér á ferðinni löngu síðar. Hann hélt Chopintónleika í Austurbæjarbíó í janúar 1950 og fékk góðar viðtökur.

Kathleen Long. Heimsfrægur brezkur píanósnillingur, sem hélt marga tónleika í Gamla Bíó í september 1942, alla fyrir fullu húsi áheyrenda. Ungfrúin er fædd í London árið 1896, lærði þar í Royal College of Music, og hefur verið kennari við þann skóla síðan 1920. Hún hefur haldið tónleika í Þýzkalandi, Frakklandi, Hollandi, Belgíu og Bandaríkjunum, Kanada og víðar. Lék á músíkhátíðinni í Edinborg 1948. Hún er fræg fyrir meðferð sína á gamalli franskri tónlist (Couperin, Rameau o.fl) og einnig nýrri (Debussy, Ravel), og hefur leikið með Casals og frægum strengjakvartettum, eins og Brosi (spánskur) - og Pro Arte kvartettinum.

Hér lék hún m.a. verk eftir gömlu meistarana frönzku, Couperin og Rameau, og svo og eftir Mozart, Schubert, Chopin, Szymanowski, Bax o.fl.

Emil Thoroddsen segir í músíkdómi um hana: „Hún á í ríkum mæli þá eiginleika, sem bezt einkenna konur þær, er við tónlist fást, frábæra hljómkennd og ásláttarmýkt, öfgaleysi, smekkvísi og stílfestu í framsetningu allri og auðugt, en hóflegt tilfinningalíf.“

Kathlyn Overstreet. Amerískur píanóleikari, sem lék í Gamla Bíó í nóvember 1940. Ungfrúin var áður íslenskum tónlistarvinum mætavel kunn fyrir leik sinn í Keflavíkurútvarpið og margir könnuðust við hana af tónleikum Rauða krossins hér í Reykjavík skömmu áður. Hún var sem sagt einn af þeim mörgu listamönnum, sem á styrjaldarárunum fóru á milli herstöðva og skemmtu hermönnum.

Kathlyn Overstreet. Amerískur píanóleikari, sem lék í Gamla Bíó í nóvember 1940. Ungfrúin var áður íslenskum tónlistarvinum mætavel kunn fyrir leik sinn í Keflavíkurútvarpið og margir könnuðust við hana af tónleikum Rauða krossins hér í Reykjavík skömmu áður. Hún var sem sagt einn af þeim mörgu listamönnum, sem á styrjaldarárunum fóru á milli herstöðva og skemmtu hermönnum.

Það er hægt að dást að leikni miss Overstreet, sem virtist oft vera lýtalaus, og leikur sér að því að sigra allar torfærur án þess að áheyrandinn verði þess eiginlega var, að torfærur séu í vegi. En leikurinn er ekki nema minnihluti listarinnar. Það sem mestu varðar er neistinn, sem gerir listamanninum kleift að skyggnast í dýpsta innihald viðfangsefna sinna og fletta því upp fyrir áheyrendum. Þennan neista á miss Overstreet, og þegar þar við bætist, að hún hefur hljómkennd með afbrigðum, og eina þá mýkstu snertingu, sem hér hefur heyrst, verður ljóst, að hér er enginn miðlungs píanóleikari á ferð.(E.Th.)

Irwin Schenkman. Amerískur píanóleikari, sem lék í Gamla Bíó í apríl 1933 lög eftir Brahms, Chopin, Lizt og frönsku impressionistana Debussy og Ravel. Hann var góður listamaður.

Rozsi Cegledi. Ungverksur píanóleikari, sem hélt marga tónleika í Gamla Bíó um haustið 1932. Hún var þá kornung stúlka, innan við tvítugt, og var allur leikur hennar magnaður hita og fjöri hins unga suðræna blóðs. Um þessa dökkhærðu dóttur Ungverjalands orti skáldið Sigurður Sigurðsson vísu þá, sem hér fer á eftir:

Tregi og gull í tárinu.
Titrar silfurfugl á grein.
Íbenholt í hárinu,
hendinni fílabein.

Hún kom hingað aftur árið eftir og var þá í för með henni landi hennar og jafnaldri, fiðluleikarinn Karoly Szénáss. Þau heldur saman tónleika í ágústmánuði. Rozsi Cegledi var undrabarn. Hún andaðist ung.


I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950
<< Til bakaForsíðaÁfram >>


© Músa