Tónlistarsaga Reykjavíkur
með inngangi um sögu sönglífs í landinu frá því land byggðist

eftir Baldur Andrésson
25.03.2008
<< Til bakaForsíðaÁfram >>
I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950

Mynd vantar

IV Tímabilið 1930 – 1950: Tónlistarlíf í Reykjavík 1930-1950

Ópera og óperettur
Þegar þessu tímabili lýkur árið 1950, er svo komið málum, að þjóðin hefur eignast góða og vel menntaða söngvara fullkomna sinfóníska hljómsveit og veglega leikhúsbyggingu. Þjóðleikhúsið - hugsjón Indriða Einarssonar var þá orðin að veruleika, og einnig Sinfóníuhljómsveitin, hugsjón hinna fyrstu brautryðjenda á þriðja tug aldarinnar. Fyrsta óperan, sem sýnd var í Þjóðleikhúsinu, „Brúðkaup Figarós“ eftir Mozart, var flutt um vorið 1950 af söngkröftum konunglegu óperunnar í Stokkhólmi. Sinfóníuhljómsveitin aðstoðaði og fékk mikið lof sænska hljómsveitarstjórans, Kurt Bendix, svo og söngvaranna. Næsta óperan, „Rigoletto“ eftir Verdi, var flutt um vorið 1951 og sungin af íslenzkum söngvurum í öllum hlutverkum nema einu, sem ungfrú Else Mühl söng sem gestur. Þetta var merkur viðburður, því að hér voru söngvarar, hljóðfæraleikarar og aðrir kraftar íslenzkir, að undantekinni söngkonunni Else Mühl og leikstjóranum Simon Edvardsen. Og hafi menn ekki vitað það áður, þá vissu menn nú, að íslenzkir söngvarar voru vandanum vaxnir, því hjá þeim fór saman góður söngur og leikur, en leikarahæfileikar eru hverjum óperusöngmanni nauðsynlegir. Það var því ekki ástæða til að óttast um framhaldið. Óperan var orðin staðreynd á Íslandi. Eftir þetta hafa óperur verið fluttar árlega í Þjóðleikhúsinu með íslenzkum söngvurum, en erlendur söngvari hefur þó stundum verið ráðinn sem gestur í aðalhlutverk, eins og tíðkast annarsstaðar. Enn sem komið er hefur Þjóðleikhúsið ekki flutt nema eina óperu eða óperettu á ári, stundum tvær, en æskilegt væri, að þær yrðu fleiri, eins og gerist hjá öðrum menningarþjóðum.

Hér skulu taldir þeir söngvarar, sem sungu í „Rigoletto“ á fyrrnefndri sýningu. Stefán Íslandi söng sem gestur hertogann og ungfrú Else Mühl söng sem gestur Gildu. Aðrir söngvarar komu nær allir nú fram á óperusviði í fyrsta sinn. Guðmundur Jónsson söng aðalhlutverkið, hirðfíflið Rigoletto, með tilþrifum og góðum leik. Kristinn Hallsson söng Sparfucile, leigumorðingjann, og sýndi ótvíræða hæfileika á leiksviðinu, en hann átti þá framundan nokkra ára söngnám í London. Ævar Kvaran söng Monterone greifa. Hann var þá orðinn fastráðinn leikari og söngvari við Þjóðleikhúsið og fór með hlutverkið með yfirburðum hins æfða leikara og söng smekklega. Þessir þrír menn urðu síðar sterkar stoðir í óperuflutningi, því þeir eru búnir þeim kostum, sem góðan óperusöngvara prýða. Aðrir söngvarar voru Einar Sturluson, Gunnar Kristinsson, Sigurður Ólafsson og Karl Sigurðsson. Söngkonurnar voru Guðmunda Elíasdóttir, sem söng Madalena, Elín Ingvarsdóttir, sem söng greifafrú Carano, Guðbjörg Þorbjarnardóttir, sem söng Giovanna, fóstru Gildu, og Hanna Bjarnadóttir, sem söng hirðsvein. Dr.Victor Urbancic, sem er íslenzkur ríkisborgari, var hljómsveitarstjóri, söngflokkur (hirðfólk), aukaleikarar og dansfólk, allt Íslendingar.

Hér hefur verið farið svo mörgum orðum um þessa fyrstu íslenzku óperusýningu í Þjóðleikhúsinu, því að hún er söngsögulegur viðburður.

Um söngferil Stefáns Íslandi og Guðmundar Jónssonar hefur áður verið ritað, svo og um Guðmundu Elíasdóttur, en hér verður nánar sagt frá þeim Kristni Hallssyni og Ævari Kvaran.

Kristinn Hallsson er fæddur 4. júní 1926 í Reykjavík, sonur Halls Þorleifssonar bókara og konu hans Guðrúnu Ágústsdóttur. Foreldrarnir eru kunnir í sönglífi bæjarins, faðirinn bassasöngvari og móðirin sópransöngkona. Hallur var söngstjóri karlakórsins „Kátir félagar“ og er nánar minnst á hjónin í kaflanum um kórinn.

Kristinn lauk prófi úr Verzlunarskóla íslands árið 1945. Stundaði söng- og tónlistarnám í konunglega tónlistarskólanum í London 1951-54, lauk þaðan burtfararprófi 1954 og ennfremur söngkennaraprófi sama ár. Eftir það stundaði hann söngkennslu í Reykjavík, en hefur jafnframt unnið sem skrifstofumaður hjá tryggingarfélögum.

Kristinn hefur mikla og hljómfagra bassbarítónrödd, sem spannar yfir mikið tónsvið. Hann syngur eins og menntaður maður og túlkar textann af næmum skilningi. Er hann einn af beztu söngmönnum þjóðarinnar og sameinar það tvennt, að vera góður ljóðasöngvari og einnig góður óperusöngvari. Kristinn hefur haldið sjálfstæðar söngskemmtanir, sungið sem einsöngvari með karlakórum og Sinfóníuhljómsveit Íslands, en óperuhlutverk hans eru þegar orðin mörg.

Ævar Kvaran er fæddur 17. maí 1916 í Reykjavík, sonur Ragnars Einarssonar Kvaran, sem um skeið var prestur í Winnipeg og síðar landkynnir í Reykjavík, og Sigrúnar Gísladóttur. Ragnar Kvaran var á yngri árum þekktur í sönglífi Reykjavíkur sem góður barítónsöngvari og einnig sem leikari. Eftir að hann var seztur aftur að í Reykjavík eftir dvölina í Winnipeg, fékkst hann við leiklist og leikstjórn.

Ævar, sonur hans, lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1941, en sneri sér brátt að sínum hugðarefnum, leiklist og tónlist. Hann stundaði leiklistarnám í konunglega leikskólanum í London árin 1945-47, og á sama tíma stundaði hann söngnám í konunglega tónlistarskólanum þar í borg. Jafnframt stundaði hann leikstjóranám hjá brezka útvarpinu. Kynnti sér tækni í sambandi við útvarps-leikstjórn hjá norska og danska útvarpinu 1949. Hann fór í námsferð um Bandaríkin árið 1952 til að kynna sér leiklist, með styrk frá Rockefellerstofnuninni.

Af því sem að framan er sagt má sjá, að hann hefur búið sig vel undir leiklistarstarfið, en hann hefur annast leikstjórn fyrir Þjóðleikhúsið, Leikfélag Reykjavíkur og ýmis leikfélög utan Reykjavíkur, jafnframt stjórnað útsendingum fjölda leikrita fyrir Ríkisútvarpið og leikið þar ótal hlutverk. Ennfremur hefur hann flutt þar erindi og sjálfstæða þætti. Þá hefur hann kennt við Leiklistarskóla Þjóðleikhússins og lengi rekið sinn eigin leikskóla.

Ævar Kvaran hefur fengist allmikið við ritstörf, frumsamið bækur og erindi, sem hann hefur flutt í útvarpið, þýtt bækur og leikrit og auk þess breytt íslenzkum sögum í útvarpsleikrit, svo sem „Sálin vaknar“, „Ofurefli“ og –„Gull“ eftir afa sinn, Einar H. Kvaran.

Leiklistarstörfin skyggðu fyrst á hann sem söngmann, en eftir að farið var að sýna óperur og óperettur í Þjóðleikhúsinu, fékk hann brátt orð á sig sem góður óperusöngvari á því sviði, sem honum er sérstaklega afmarkað, en það eru einkum hin broslegu og gamansömu hlutverk. Hann hefur blæfagra barítónrödd og syngur smekklega. Söngur hans hefur gert hann hlutgengan á óperusviðinu, en leiklistin er styrkur hans. Persónurnar í meðferð hans verða minnisstæðar, hvort heldur þær eru slóttugur þjónn, hégómlegur forstjóri, rígmontinn sendiherra eða eitthvað annað. Ævar kann þá list að draga fram hið kátbroslega í fari þeirra.

Hér eru talin nokkur óperuhlutverk hans: Sendiherrann í „Kátu ekkjunni“, forstjóri nærfataverksmiðju í „Sumar í Tyrol“, Þjónn greifans í „Rakaranum í Sevilla“, Monastos blökkumaður í „Töfraflautunni“ eftir Mozart. Þetta eru yfirleitt ekki stór hlutverk, en heildaráhrifin velta á því að öll hlutverkin, smá og stór, séu vel af hendi leyst.

Aðrir nafnkunnir óperusöngvarar, sem sungið hafa hin stærri hlutverk í Þjóðleikhúsinu, eru Einar Kristjánsson, Magnús Jónsson og Þorsteinn Hannesson. Allir hafa þeir sungið við erlend óperuhús árum saman. Um þá hefur verið talað áður. (sjá bls. 331 og 339 -340 ). Guðmundur Guðjónsson og Jón Sigurbjörnsson hafa og sungið hin stærri óperuhlutverk. Guðmundur Guðjónsson, tenórsöngvari, er fæddur 1922 í Reykjavík. Hann er húsgagnameistari, en hefur haft sönginn í hjáverkum. Hann stundaði söngnám í Reykjavík árin 1949-60 hjá Kristni Hallssyni, Guðmundi Jónssyni og Vinceno Demetz, og síðan framhaldsnám í Köln. Hann hefur sungið í Karlakór Reykjavíkur bæði sem kórfélagi og einsöngvari, hann kom fyrst fram í meiriháttar óperuhlutverki sem Almaviva greifi í „Rakaranum í Sevilla“ (1958). Síðar söng hann Pinkerton liðsforingja í „Madame Butterfly“ í júní 1965. Ennfremur hefur hann sungið aðalhlutverk í óperum í Árósum við góðan orðstír.

Jón Sigurbjörnsson, bassasöngvari, á það sameiginlegt Ævari Kvaran, að hann er bæði lærður leikari og söngvari. Hann er fæddur 1922 og ættaður úr Mýrasýslu. Jón lauk gagnfræðaprófi 1941. Hugur hans hneigðist að leiklist og tónlist. Hann stundaði nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík 1943-46, söngnám í Mílanó og Róm 1951-54 og aftur 1960. Ennfremur hafði hann lært söng í Reykjavík öðru hverju hjá Vincenzo  Maria Demetz. Leiklistarnám stundaði hann í leikskóla Lárusar Pálssonar 1944-46 og síðan í The American Academi of Dramatic Arts 1946-48. Hér í Reykjavík hefur Jón starfað sem leikari frá vori 1949 og hefur verið framarlega í félagsskap leikara. Jón hefur sterka og hljómfagra bassarödd og er þaulvanur leikari. Söngur hans og leikur á sviði nú er tilþrifamikill, sem sagt; hann er góður óperusöngvari, enda var hann ráðinn að Stokkhólmsóperunni og söng þar í tvö ár, 1964-65. Helztu óperuhlutverk hans hér í Þjóðleikhúsinu eru: . Collin í „La Boheme“, Sarastos í „Töfraflautunni“ og Don Bailio í „Rakaranum í Sevilla“. Ennfremur söng hann hér í „Carmen“ og „Rigoletto“ á konsertuppfærslum í Austurbæjarbíó.

Einar Sturluson og Gunnar Kristinsson sungu í „Rigoletto“ árið 1951, eins og áður er sagt. Þeir eru báðir nemendur hins fræga söngmanns Joefs Hyslops í Stokkhólmi: Um Einar Sturluson hefur áður verið ritað. Gunnar Kristinsson er barítónsöngvari og hefur sungið nokkrum sinnum í óperum hér, t.d. Silvio í „Pagliacci“ og Benoit í „La Boheme“. Ketill Jensson tenórsöngvari lærði í Ítalíu. Hann söng Turiddo í „Cavelleria rusticana“ hér í Þjóðleikhúsinu.

Tveir ungir söngmenn komu fram í smáhlutverkum á þessum árum, annari er Ólafur Jónsson, en hinn Sigurður Björnsson. Þeir lærðu báðir síðar söng erlendis, Sigurður hjá hinum heimsfræga söngvara prófessor Hüsch í München. Þeir eru nú báðir í fremstu röð íslenzkra söngvara, ágætir ljóðasöngvarar, og Sigurður ennfremur eftirsóttur óratóríusöngvari. Ólafur syngur nú við óperuna í Kiel, en Sigurður hefur sungið við þýzk óperuhús, m.a. í Stuttgart.

Það hefur verið venjan að velja úr Þjóðleikhúskórnum söngmenn í hin smærri óperuhlutverk, en í kórnum er valið söngfólk. Oft hefur þá verið gripið til bræðranna Hjálmars og Jóns Kjartanssona, sem báðir eru góðir bassasöngmenn. Einnig hefur þeim Árna Jónssyni, Guðmundi H. Jónssyni., Sverri Kjartanssyni, Ólafi Magnússyni og Sigurði Ólafssyni verið falin slík hlutverk.

Nú verður minnst á söngkonur, sem sungu í óperum á fyrstu árum Þjóðleikhússins. María Markan söng 1. þernu næturdrottningarinnar í „Töfraflautunni“ árið 1956. Hefði verið gaman að sjá og heyra þessa ágætu óperusöngkonu í primadonnu-hlutverki, en hún hefur sungið í óperum í Þýzkalandi, Glyndbourneóperuna í Englandi og Metropolitan í New York. Guðrún Á. Símonar hefur aftur á móti sungið hér aðalhlutverk, eins og Floria Tosca í „Tosca“, Mími í. „La Boheme“ og Santuzza í „Cavelleria rusticana“. Þuríður Pálsdóttir söng á þessum árum stór óperuhlutverk: Musetta í „La Boheme“, Rósina í „Rakaranum í Sevilla“, Panima í „Töfraflautunni“, Lolo, í „Cavelleria rusticana“ o.fl. Guðmunda Elíasdóttir söng Madelena í „Rigoletto“ og Svanhvít Egilsdóttir (sjá bls. 347) söng Flora Benovoix í „Traviata“.

Söngkonurnar Ásta Hannesdóttir, Elín Ingvarsdóttir, Guðbjörg Þorbjarnardóttir, Guðrún Þorsteinsdóttir og Hanna Bjarnadóttir sungu í smáhlutverkum. Söngkonur úr Þjóðleikhúskórnum sungu og smáhlutverk, en þær eru þessar: Eygló og Hulda Viktorsdætur, Guðrún Guðmundsdóttir, Hanna Helgadóttir, Magnea Hannesdóttir, Sigurveig Hjaltested, Svala Nielsen og Svava Þorbjarnardóttir. Þær Sigurveig og Svala komust síðar í fremstu röð. Sigurveig stundaði söngnám í Salzburg við hið fræga Mozarteum. Hún söng hér Betu í „Rakaranum í Sevilla“ 1958, þá nýkomin heim frá náminu í Salzburg. Svala lærði í Milanó. Hún söng um vorið 1965 Suzoki í „Madame Butterfly“. Svala og cellosnillingurinn Erling Blöndal Bengtson eru systkinabörn.

Erlendar söngkonur, sem sungu sem gestir á íslenzkum óperusýningum, eru Else Mühl (Rigoletto, 1951), Stina Britta Melander (Pagliacci,1954 og Töfraflautan,1956). Hjördís Schymberg (Travíata,1953), Evy Tibell (Sumar í Tyrol,1957, ), allar sænskar, nema Else Mühl. Íslenzka söngkonan Elsa Sigfúss, sem búsett er í Kaupmannahöfn, söng sem gestur í „Leðurblökunni“ árið 1952.

Eftirtaldar óperur og óperettur voru uppfærðar í Þjóðleikhúsinu árin 1950-58: „Brúðkaup Figarós“ eftir Mozart (1950), sungin af gestum frá konunglegu óperunni í Stokkhólmi; hljómsveitarstjóri Kurt Bendix, „Rigoletto“ eftir Verdi (1952), „Österbottningar“ eftir Madetoja (1952), sungin af gestum frá finnsku óperunni í Helsingfors, hljómsveitarstjóri Leo Funtek. Ennfremur: „La Traviata“ eftir Verdi (1953), „Pagliacci“ eftir Leancovallo, „Cavelleria rusticana“ eftir Mascagni, báðar sýndar á sama kvöldi (1954). „La Boheme“ eftir Puccini (1955). Í þeirri óperettu var Rino Castagnino hljómsveitarstjóri; „Káta ekkjan“ eftir Franz Lehar (1956), „Töfraflautan“ eftir Mozart (1956), „Sumar í Tyrol“ eftir Benatzky (1957), „Tosca“ eftir Puccini (1957) og „Rakarinn í Sevilla“ eftir Rossini (1958.). Í síðastnefndu óperunni var Robert Abraham Ottósson hljómsveitarstjóri, en dr. Victor Urbancic stjórnaði hljómsveit og söng í öllum hinum óperunum, nema annars sé getið, enda var hann fastráðinn söng-og hljómsveitarstjóri Þjóðleikhússins. Hann andaðist á árinu 1958 og tók þá Róbert Abraham við af honum og stjórnaði fyrrnefndri óperu („Rakaranum“) í lok ársins.

Allar óperurnar og óperetturnar voru fluttar á vegum Þjóðleikhússins, nema „La Boheme“, sem var flutt á vegum Tónlistarfélagsins og Félags íslenzkra söngvara.

Á vegum Sinfóníuhljómsveitar Íslands voru svonefndar konsertuppfærslur á þremur óperum í Austurbæjarbíó: Óperan „Il Trovatore“ (Trobadouren) eftir Verdi var flutt 13. nóv. 1956 undir stjórn brezka hljómsveitarstjórans Warwick Braitwaite. Einsöngvarar voru Guðmundur Jónsson, Kristinn Hallsson, Magnús Jónsson, Þuríður Pálsdóttir og Guðmunda Elíasdóttir. Karlakór úr Fóstbræðrum aðstoðaði. Óperan „Carmen“ eftir Bizet var flutt 21. apríl 1958 undir stjórn Þýzka hljómsveitarstjórans við Hamborgaróperuna, Wilhelms Brückner- Rüggeberg. Einsöngvarar voru Stefán Íslandi (gestur), Guðmundur Jónsson, Kristinn Hallsson, Árni Jónsson, Jón Sigurbjörnsson, Gloria Lane (gestur), Þuríður Pálsdóttir, Ingibjörg Steingrímsdóttir og Guðmunda Elíasdóttir. Þjóðleikhússkórinn aðstoðaði. Sérstaklega þótti mikið koma til Gloria Lane, sem söng Carmen, en einmitt fyrir þetta hlutverk er prímadonnan fræg. Þriðja óperan,- „Rigoletto“ eftir Verdi, var flutt í maí 1959 undir stjórn ítalska hljómsveitarstjórans Rino Castagnino. Ítalskur söngvari, Christiano Bichinini, söng hertogann af Mantova,  var ráðinn í hlutverkið fyrir milligöngu hljómsveitarstjórans. Menn höfðu búist við miklu af honum, en mönnum þótti meira koma til íslenzku söngvaranna, sem sumir voru betri raddmenn og sungu betur. Íslenzku söngmennirnir voru þessir: Guðmundur Jónsson, Jón Sigurbjörnsson, Kristinn Hallsson, Sigurður Ólafsson, Einar Sturluson og Gunnar Kristinsson. Ennfremur söngkonurnar Þuríður Pálsdóttir og Sigurveig Hjaltested. Söngmenn úr „Fóstbræðrum“ aðstoðuðu.

Meira um píanóleikara, fiðluleikara og aðra listamenn
Á næsta tímabili verður talað um píanóleikara, fiðluleikara og aðra listamenn, sem þá koma fram. Meðal þeirra eru píanóleikararnir Ásgeir Beinteinsson, Guðrún Kristinsdóttir, Gísli Magnússon, Guðmundur Jónsson og Jón Nordal, Meðal þeirra eru ennfremur fiðluleikararnir Einar G. Sveinbjörnsson, Ingvar Jónasson, Jón Sen og Þorvaldur Steingrímsson og klarínettleikarinn Gunnar Egilson. Sumir þessara listamanna voru þegar komnir fram á þessu tímabili og orðnir kunnir í tónlistarlífinu fyrir einleik á nemendatónleikum Tónlistarskólans, samleik á kammermúsíktónleikum, auk þess sem fiðluleikararnir og klarinettleikarinn léku í hljómsveitum. Á næsta tímabili halda þeir sjálfstæða tónleika og leika einleik með Sinfóníuhljómsveitinni. Jón Nordal var þá orðinn kunnur sem tónskáld, en eftir það kemur hann fram sem píanóleikari með Sinfóníuhljómsveitinni nokkrum sinnum og leikur eitt sinn með hljómsveitinni píanókonsert eftir sjálfan sig.

Þorvaldur Steingrímsson fiðluleikari hafði þá í mörg ár leikið á veitingastöðum bæjarins, lengst af í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll, en á næsta tímabili, (1955) leikur hann frægt fiðluverk með Sinfóníuhljómsveitinni „Spánska sinfóníu“ (Symhonie espagniole) eftir Lalo.


I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950
<< Til bakaForsíðaÁfram >>


© Músa